Messudagur heilagrar Lúsíu 13. desember er haldinn hátíðlegur á Norð- urlöndum – sérstaklega í Svíþjóð.
Sagan segir að heilög Lúsía hafi fæðst árið 283. Foreldrar hennar voru 
aðalsfólk á Sikiley. Faðirinn dó á meðan hún var í bernsku svo að móð- 
irin Eutychia sá um uppeldið. Eins og margir fyrstu píslarvottarnir 
hafði hún helgað sig Guði, og von hennar var sú að geta gefið eigur 
sínar fátækum. Móðir hennar beitti sér gegn því fyrst í stað, en eftir 
að hún hafði hlotið undraverða lækningu, sem hún þakkaði Guði, gaf hún 
leyfi sitt fyrir því. Þetta örlæti vakti mikla gremju hjá æskumanni 
einum heiðnum sem gegn vilja Lúsíu hafði verið valinn brúðgumi hennar. 
Hann kom boðum til landstjóra Sikileyjar, Paschasíusar að nafni, um að
Lúsía væri kristin. Þetta á að hafa gerst árið 303 á tíma ofsóknarinnar 
miklu gegn kristnum mönnum sem Díókletíanus keisari stóð fyrir. Lúsía 
var dæmd til vistar í vændishúsi. Helgisagan segir að Guð hafi gefið 
henni svo mikla staðfestu að þegar átti að flytja hana í vændishúsið 
hafi verðina þrotið afl til að færa hana úr stað. Þá var Lúsía vafin 
hrísknippum og borinn að eldur. En aftur kom Guð henni til hjálpar. Að 
lokum var hún líflátin með sverði, sem rekið var ofan í háls hennar. 
Áður en hún dó sagði hún fyrir um málagjöld Paschasíusar, skjót endalok 
bæði ofsóknarinnar miklu og veldis Díókletíanusar á keisarastóli. Þannig
 er helgisagan um Lúsíu.
Þessa sögu er ekki hægt að meðtaka gagnrýnislaust. Atriði hennar geta verið fengin að láni úr annarri sögu af píslarvætti meyjar. Enn fremur er spádómurinn sem sagt er frá í lok sögunnar ekki nákvæmur. Menn hafa dregið í efa að heiðinn landstjóri Sikileyjar hafi heitið Paschasíus, þar sem nafnið bendi frekar til kristins uppruna. Þó að hægt sé að gagnrýna söguna er ekki ástæða til að afneita sannleiksgildi hennar að fullu. Hafa verður í huga að snemma ber á heiðrun kirkjunnar á heilagri Lúsíu. Hún er ein af fáum konum í dýrlingatölu sem nefndar eru í efstubæninni fyrstu „að rómverskum hætti“. (Rómv. kaþ. messubók bls. 85)
Svíar halda Lúsíudaginn hátíðlegan, þó að form hátíðahaldanna virðist lítt tengt persónu Lúsíu. Samkvæmt alþýðutrú var nóttin milli 12. og 13. desember lengsta nótt ársins. Hvernig Lúsíuhátíðin barst frá Ítalíu veit enginn, en menn eru sammála um að hugmyndin um Lúsíu sem persónugervingu ljóssins hafi runnið saman við þjóðsögu frá Värmland í Vestur-Svíþjóð. Sú greinir frá því að eitt sinn þegar sultur svarf að hafi ung kona birst óvænt, siglt í kringum vatnið á stóru skipi fullu af mat sem hún dreifði meðal sveltandi fólksins. Fyrst í stað var Lúsíudagurinn aðeins haldinn hátíðlegur í Värmland og nærliggjandi héruðum. Upprunalega var þetta hátíð karlmanna en heimildir greina frá ungum hvítklæddum stúlkum með kertakórónu á höfði sem þjónuðu húsbændum til borðs. Síðan þá hefur siðurinn breiðst út og fengið þær myndir sem algengastar eru. Lúsíumorgunn er haldinn hátíðlegur á mörgum sænskum heimilum, sambýlum, skrifstofum, skólum eða klúbbum. Allir kjósa Lúsíu sem gengur um í hvítum kyrtli, með kertakórónu á höfði, bakka í höndum og réttir fólki veitingar. Kaffi, saffransnúða og piparkökur. Henni fylgja hvítklæddir meðhjálparar, stúlkur með glimmer í hárinu og drengir með uppmjóa keiluhatta skreytta stjörnum. Hefðbundin Lúsíulög eru sungin. Talsvert ber á auglýsingum Lúsíuhátíða í seinni tíð. En sem betur fer er þessi atburður þó enn ósvikin fjölskylduhátíð.
Sjálfur hef ég notið þessa dags með sænskum og dönskum vinum allt frá barnæsku. Ég kynntist honum þegar ég flutti til Danmerkur með foreldrum mínum. Pabbi starfaði þar á lýðháskóla sem hélt í Lúsíuhefðina. Og á fullorðinsárum hef ég búið í ein 8 ár í Svíþjóð þar sem börnin mín tóku þátt í hátíðinni í leikskólum og skóla. Þannig hefur Lúsíudagurinn orðið okkar dagur sem mér þykir ákaflega vænt um. Einskonar skandinavísk Þorláksmessa.