Að hrifsa eða deila

Að hrifsa eða deila

Mikill munur er á því að hrifsa og að deila. Sá sem hrifsar sækist eftir meiri völdum og völd eru takmörkuð auðlind. Sá sem gefur með sér leitast við að þjóna og þjónustunni eru engin takmörk sett.

Eins og skammdegið getur nú verið stundum notalegt, ríkir alltaf tilhlökkun eftir því að sól fari að hækka á lofti að nýju. Það má orna sér við þá hugsun að senn taki hlýjan við af vetrarnæðingnum og rökkrinu.

Jól og sól

Það er engin tilviljun að jólunum skuli vera valinn staður um þetta leyti. Þau standa á ákveðnum upphafsreiti nýs skeiðs í möndulsnúningi jarðar, þegar birtan smám saman tekur yfirhöndina og myrkrið víkur. Árið allt, með árstíðum sínum og blæbrigðum náttúru verður eins og boðskapur til okkar mannanna. Sú er í það minnsta afstaða kirkjunnar og Biblíunnar. Við fáum þar hvatningu og áminningu um að ekki sé allt jafngilt í því hvernig við verjum dögum okkar.

Þessi sunnudagur er sá síðasti fyrir vetrarsólstöður. Enn lækkar sól á lofti áður en kemur að vendipunktinum mikla í gangi jarðar, sem þetta árið ber upp á 21. desember, kl. 16:28, nánar tiltekið. Í framhaldi af þeim tímapunkti tekur daginn að lengjast að nýju, svo sem eina og eina spönn til að byrja með uns við erum böðuð geislum sólar allan dagsins hring þegar kemur að hinum enda sólarársins – það er að segja, sumarsólstöðum.

Ég minnist þess oft þegar við bjuggum á Ísafirði, sællar minningar. Byggðin þar er jú talsvert norðar en hér á Suðvestur horninu og þar eru fjöllin svo nærri að heimamenn tala gjarnan um að þeir búi í faðmi fjallanna. Það eru engar ýkjur, Eyrarfjallið er á aðra höndina og svo Kirkjubólshlíðin og Ernir hinum megin Skutulsfjarðarins. Fyrir vikið sést ekki til sólar frá nóvember og fram í janúar. Aðeins glittir í gula rönd efst á fjöllunum norðan megin fjarðarins sem hverfur svo er lengra líður á þetta dimma tímabil. Svo 26. janúar þegar geislar sólarinnar gægjast inn um eldhúsgluggann á húsinu sem stendur við Sunnugötu 1 á Eyrinni þá hefjast mikil hátíðarhöld, sólarkaffi og Sunnukórinn syngur!

Já, þetta eru enn meiri öfgar en hjá okkur og yfir hásumarið lætur sunnan sér nægja að tylla sér kurteisislega ofan á sjóndeildarhringinn yfir miðja nóttina, áður en hún hækkar á lofti að nýju með nýjum degi. Skammdegið hér syðra er barnaleikur miðað við það sem er fyrir vestan og sumarnæturnar eru að sama skapi ekki eins magnaðar.

Jóhannes skírari

Í guðspjalli dagsins er Jóhannes skírari til umfjöllunar. Það er við hæfi um þetta leyti árs að hugleiða þann mikla áhrifamann sem Jóhannes var. Nafn hans er nátengt fyrrgreindum hugleiðingum um snúning himintunglanna. Honum er eignuð Jónsmessan, þegar allt er í birtu og blóma en Kristur fær sína messu hinum megin á árinu, Kristsmessu sem við köllum jól, en enskir kalla enn Christmas.

Segja má að allt þetta eigi rætur að rekja til þeirrar hófsemdar sem Jóhannes sýndi þegar hann lýsti því yfir að Kristur ætti að vaxa en hann ætti að minnka. Já, Kristsmessan er tíminn þegar sólin tekur að hækka á lofti en þegar hún fer að lækka að nýju þá minnumst við Jóhannes skírara og þess hvernig hann sá hlutverk sitt í hinu stór samhengi.

Yfirdrifin hófsemd?

„Hann á að vaxa en ég á að minnka” – hvað finnst okkur um þessa yfirlýsingu? Er hún mögulega sett fram af þeirri yfirdrifnu hófsemd sem gerir lítið úr þeim sem mælir en upphefur aðra? Er þessi hugsunarháttur einn anginn af því uppgjöri sem fer fram þessa dagana þar sem konur vekja athygli á niðrandi framkomu og ofbeldi valdakarla í sinn garð? Býr ekki að baki þeirri lágkúru allri sú afstaða að konur eigi að halda sig til hlés, vera þiggjendur, þolendur og láta nánast allt yfir sig ganga í samskiptum sínum við hið ráðandi kyn? Hefur það ekki verið boðskapurinn í gegnum kynslóðirnar, allt fram á okkar daga, að konur eigi að minnka svo húsbændurnir fái notið sín?

Og hvað með sjálfa móðurina, jörðina og náttúruna, sem hér hefur verið fjallað um? Vart andmælir nokkur þeirri staðhæfingu að náttúran hafi þjónað hagsmunum og oftar en ekki duttlungum mannsins svo mjög að stefnir í algert óefni. Ef eitthvað hefur minnkað, rýrnað og hörfað í kjölfar yfirgangs og græðgi mannanna þá er það móðirin sjálf sem umvefur allt líf okkar og tilvist.

En hugsunin er þveröfug. Í hinu biblíulega samhengi er þessi yfirlýsing Jóhannesar í rauninni grunnregla leiðtogans. Því svona talar hugsjónafólk, einstaklingar sem eru hluti af einhverju stærra og meira en þeir sjálfir. Þetta er erindi þess sem á eitthvað til að lifa fyrir, hefur hugmyndir um betri heim, betra líf, einhver þau gæði sem taka fram öllu þeim stundargróða sem kann að felast í athygli, völdum og auði. Í tilviki Jóhannesar var það sjálfur Jesús frá Nazaret sem átti að stíga fram og vinna boðun sína. Sjálfur var Jóhannes tilbúinn að draga sig í hlé svo Kristur mætti flytja sinn boðskap. En um leið bjó hann að þeirri auðlegð að eiga sér háleit markmið og vita að hann var hluti af einhverju sem var svo miklu stærra og dýpra en hann sjálfur.

Heimurinn þarf á fólki sem er tilbúið að gefa frá sér slíkar yfirlýsingar. Við höfum alltof lengi umborið þá ómenningu sem einkennist af því að hrifsa það til sín sem hver og einn ásælist. Við hlýðum á uppgjörið við þann þankagang í #metoo byltingunni. Við horfum upp á hörmungar sem af honum leiða í umhverfismálum.

Að hrifsa eða deila

Andstætt þeirri hugsun er það sá lífsstíll sem felst í því að deila með sér, að gefa það sem við eigum og miðla til annarra það sem við höfum að gefa. Þetta tvennt eru andstæður – að hrifsa eða að gefa. Það er hvort við ætlum að vera í hópi þeirra sem leita aukinna valda og hrifsa allt til okkar eða hvort við leitumst eftir því að þjóna.

Mikill munur er á því að hrifsa og að deila. Sá sem hrifsar sækist eftir meiri völdum og völd eru takmörkuð auðlind. Sá sem gefur með sér leitast við að þjóna og þjónustunni eru engin takmörk sett. Ef fleiri taka þátt, gefst enn betra tækifæri til þess að láta draumana rætast. Og markmiðin byggja á siðviti leiðtogans, köllun hans og löngun til að bæta heiminn og þjóna náunganum. Þetta orðar Kristur sjálfur í guðspjallinu: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“

Sá sem mælti þau orð að hann myndi minnka til að aðrir gætu vaxið. Enda var það fyrir tilstilli þjónustunnar sem Jóhannes var sagður meiri hverjum þeim sem af konu er fæddur. Biblían er engu að síður uppfull af frásögnum af slíkum leiðtogum. Þessi stóru nöfn sem við lesum um í hinni helgu bók, óbilandi forystufólk, Móses, Jesaja, Páll postuli, konurnar sem gengu upp að gröfinni og boðuðu fyrstar upprisu Krists. Þau leituðu ekki síns eigin, ekki sinnar dýrðar heldur unnu þeir í krafti æðri sannfæringar.

Slíkt er erindi þessara frásagna til okkar að þegar við hugleiðum gang jarðar um sól og vagg hennar um eigin möndul þá birtast okkur þessi sannindi. Sú afstaða að deila með sér því sem okkur er fært gengur sem rauður þráður í gegnum siðaboðskap kristninnar og sjálfur Jesús, sem Kristsmessan er kennd við, gaf líf sitt í sölurnar fyrir mannkyn á krossinum.

Leiðtogar í skilningi kristninnar eiga að vera andstæður þeirra ofbeldisfauta sem hafa kallað þjáningar yfir einstaklinga og gengið freklega á gæði móður náttúru. Látum þá hugsun fylgja okkur hinn í jólahátíðina. Við sjálf getum bætt líf okkar og háttu svo að við séum sjálf dæmi um að líf mannsins á ekki að snúast um það að hrifsa takmörkuð gæði heldur njótum við þeirrar farsældar að miðla til annarra sem okkur er gefið og finna hvernig starf okkar vex og lífið dafnar.