Velferðarríkið og siðaskiptin

Velferðarríkið og siðaskiptin

Það er ritningin ein sem á að vera einstaklingnum leiðarljós og kirkja og ríkisvald hafa það hlutverk að vernda einstaklinginn og frelsi hans. Og um leið kallar Lúter einstaklinginn til ábyrgðar. Hann benti á að það er í hinu daglega lífi og hinum daglegu verkum og öðrum mönnum sem við mætum Guði. Hið daglega líf er guðsþjónusta.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
19. mars 2017
Flokkar

Um þessar mundir höldum við upp á svokallað Lútersár í Lútersku kirkjunum á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Tilefni þess er að 500 ár eru nú liðin síðan Lúter hóf mótmæli sín gegn aflátssölu kaþólsku kirkjunnar og þýska keisaradæmisins með því að negla 95 mótmælagreinar á dyrnar í hallar Wittenberg í Þýskalandi. Mótmæli hans áttu eftir að breiðast út og bæði kljúfa kirkjuna og breyta henni. Aflátssalan gekk út á það að hægt væri að kaupa sér syndafyrirgefningu af hendi kirkjunnar fyrir drýgðar syndir. Féð rann síðan meðal annars til byggingar Péturskirkjunnar í Róm.

Einn frægasti sölumaður syndafyrirgefninganna hafði þessa vísu að sínum einkennisorðum: „þegar gullið skellur í skrínu, skreppur sálin úr eldsins pínu“. Eða með öðrum orðum, með því að kaupa aflátsbréf af kirkjunni losnuðu menn undan Hreinsunareldinum, sem reyndar einnig er uppfinning kirkjunnar og klerkaveldis miðalda.

Í stað kirkjuvald lagði Lúter áherslu á frelsi mannsins til sjálfur að lesa ritninguna og ábyrgðar hans, en frelsunin og fyrirgefningin væri algerlega í höndum Guðs og væri gjöf Guðs til okkar fyrir trú okkar en ekki laun fyrir verk eða fyrir greiðslu.

Ritningin ein, trúin ein, náðin ein.

Þessi voru einkunnarorðin hans. Einstaklingurinn skyldi fá algert frelsi til að lesa ritninguna og hann frelsaðist undan synd og sekt, ekki fyrir eigin verk, heldur fyrir trú á Jesú og náð Guðs.

Áður hafði enginn mátt lesa Biblíuna nema klerkar kirkjunnar á latínu. Lúter þýddi ritninguna á þýsku og hvatti alla til að lesa. Þá þurfti líka að kenna mönnum að lesa. Frá Lúter er því komin hugmyndin um almenna skólaskyldu og Lúterskir prestar urðu forystumenn í skólamálum og hafa verið það allt fram á síðustu ár.

En kenning Lúters hafði ekki aðeins áhrif innan guðfræðinnar heldur líka og ekki síður á samfélagsmótunina. Eins og Guð væri náðugur og kærleiksríkur ætti ríkisvaldið að vera verkfæri Guðs sem gæfi einstaklingnum frelsi, annaðist hann og hjálpaði honum þegar á þyrfti að halda. En kallaði einstaklinginn einnig til ábyrgðar gagnvar öðrum þjóðfélagsþegnum. Sömuleiðis skyldi hver borgari ríkisins sýna ríkinu virðingu og ábyrgð og styðja það.

Upp úr þessum hugmyndum Lútersku kirkjunnar spruttu þau samfélög sem við í dag þekkjum sem Velferðarríki Norðurlandanna og Norður-Þýskalands, þar sem frelsi einstaklingsins er tryggt með stjórnarskrá og lögum og ríkið hefur það hlutverk að tryggja réttindi borgaranna og annast um þá þegar svo ber undir. Við gleymum því oft, við sem höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fæðast í slíku samfélagi, að velferðarríkið er ekkert sjálfsagt fyrirbæri í veröldinni.

Lítum aðeins um öxl. Tilvera almennings á dögum Jesú, sem birtist í frásögnum guðspjallanna var til dæmis ömurleg. Þess sjáum við víða dæmi. Í borgum Palestínu og á vergangi um sveitirnar var sultarlýður, sem tæpast átti málungi matar og barðist við sjúkdóma og miskunnarleysi. Þannig var reyndar lífið í Rómaveldi við fæðingu Jesú. Það er þessi skari, sem m.a. flykktist um Jesú, þegar hann tók að boða fagnaðarerindið um Guðs ríki, ríkið þar sem réttlætið býr .Jesús brást við þessum vanda fólksins og leysti hann. Þetta frumkvæði Jesú hefur verið kristnum mönnum fyrirmynd frá upphafi og allt til dagsins í dag. Þeir voru strax mjög athafnasamir um fátækrahjálp, skipulögðu starfsemi safnaðarins og fólu tilteknum hópi manna að annast líknarstarfið. Þess konar hópar hafa starfað innan kirkju Krists allar götur síðan. Saga kirkjunnar fyrstu þrjár aldirnar einkennist af þessu sama. Það er aðallega almenningur, sem flykkist til kirkjunnar í borgum Rómaveldis, fátæklingar og þrælar. Þessu fólki var kirkjan einstæður valkostur. Hún var á þessum tíma eina samfélagið, sem lét stjórnast af mannúð og bauð fátækum liðveislu í félagslegum vanda, en boðaði líka þrælum og fátæklingum þau nýju sannindi, að hver einstaklingur ætti sér markmið og tilgang og væri svo mikils virði í augum Guðs, að Kristur hefði fórnað öllu fyrir hann .

Manngildishugsjón kristninnar var algjör nýlunda meðal borgara hins forna rómverska heims. Tökum eftir því. Meðvitundin um það, að einstaklingurinn skipti máli hlaut að koma þeim mönnum á óvart, sem vanir voru að fleygja einstaklingum fyrir villidýr sér til skemmtunar. Á fjórðu öld skárust yfirvöld Rómaveldis í leikinn , tóku kristnina upp á arma sína og gerðu hana að ríkistrú. Nú var að finna fulltrúa allra stétta innan kirkjunnar. Bolmagn kristinna manna til að afla fjár handa fátækum og þurfandi stórefldist. Grundvöllurinn var lagður að þeirri umfangsmiklu fátækraframfærslu, sem kirkjan stundaði endilangar miðaldir samkvæmt boði Jesú (Matt.2:31-46).

Manngildishugsjón kristninnar sem hér hefur verið bent á gildir alla menn í fullkomnum jöfnuði. Allir eru jafn mikils virði og þeirra framlag. Við erum eins og lifandi líkami Krists á jörðinni sem sami andi Guðs sameinar Um leið erum við ólík og höfum ólíku hlutverki að gegna. En hvert hlutverk er jafn mikilvægt. Á miðöldum þróaðist kirkjuvald og ríkisvald sem gleymdi þessari manngildishugsjón. Einstaklingurinn var talinn til vegna kirkjunnar og ríkisins en ekki kirkjan og ríkið vegna einstaklingsins. Í mörgum ríkjum er það enn því miður svo að ríkisvaldið er eins og skrímsli sem ógnar lífi borgaranna og frelsi og allir óttast. Lúter mótmælti þessu.

Það er ritningin ein sem á að vera einstaklingnum leiðarljós og kirkja og ríkisvald hafa það hlutverk að vernda einstaklinginn og frelsi hans. Og um leið kallar Lúter einstaklinginn til ábyrgðar. Hann benti á að það er í hinu daglega lífi og hinum daglegu verkum og öðrum mönnum sem við mætum Guði. Hið daglega líf er guðsþjónusta. Og í hinu daglega lífi fáum við á góðum stundum séð inn í ríki Guðs.

Um velferðarríki Vestur- Evrópu og sérstaklega Norðurlandanna er það hins vegar að segja, að með tilkomu þeirra hefur í fyrsta sinni í sögu mannanna verið reynt að leysa þann vanda örbirgðar og mannamunar, sem einkennir sögu mannanna. Enginn vafi leikur á því, að velferðarríkið á sér kristnar, lúterskar rætur eins og hér hefur verið bent á. Það byggir á boðorðunum tíu sem við heyrðum hér fyrr lesin, Gullnu reglu Jesú, „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gera“ og tvöfalda kærleiksboðorðinu „Þú skalt elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig“. Hér á landi hefur fram til þessa ríkt einhugur um velferðarríkið. Upp til hópa erum við sammála um að standa vörð um það. Með þessu er sannarlega ekki sagt, að velferðarríkið Ísland hafi leyst allan vanda borgara sinna. Því fer fjarri. Verkefnin eru ætíð næg. Og ekkert segir að það samfélag sem við nú búum við sé komið til með að vera um alla framtíð. Þess nauðsynlegra er að standa vörð um hinn kristna grundvöll.

Og hugsjón Lúters um köllun einstaklingsins og ríkisins til að þjóna Guði í hinum daglegu verkum með ritninguna, trúna og náðina að leiðarljósi.