Séð úr mikilli fjarlægð er bústaður okkar, jörðin, eins og rykkorn í víðáttunum miklu. Þetta er önnur mynd en blasti við, þegar fólk vissi ekki betur en að það sjálft væri nafli alheimsins. Þá var samræmi í öllu, einhver glóra og skipan sem byrjaði í sálu einstaklingsins og opnaðist svo eftir hverju himinhvolfinu á fætur öðru eftir því sem ofar dró. Smám saman færðumst við fjær miðjunni, skiptum æ minna máli í tíma og rúmi og það sem meira er, eftir því sem þekking okkar hefur vaxið, þeim mun fleiri verða spurningarnar. Nú erum okkur betur ljós óvissan, vanþekkingin, þær endalausu áskoranir sem bíða mannshugans um ókomna tíð. Ég sé ekki betur en að Frosti Logason brjóti heilann um þessi mál í bakþönkum sínum í Fréttablaðinu (28. júlí). Hann kemst að þeirri niðurstöðu að guðleysi sé svarið. Hér verða færð rök fyrir gagnstæðri ályktun.
Túlkun á þessum veruleika var hluti af ævistarfi Páls heitins Skúlasonar heimspekings. Í síðustu bók hans sem geymir ritgerðir hans og hugleiðingar við ævilok tekst hann á við þessar andstæður, tómhyggju og tilgangs. Er það ekki blekking að ætla að leita tilgangs, þegar það blasir við okkur hversu smá við erum og virðumst áhrifalaus í hinu stóra samhengi? Páll svarar því til að sú sé vissulega raunin upp að ákveðnu marki, en þá sé það hlutverk okkar sjálfra að gefa lífinu merkingu. Ábyrgðin sé í rauninni okkar sjálfra og án okkar væri merkingin „umkomulaus” eins og hann kemst að orði. Ef heimurinn er slík óreiða, hversu mikilvægt er þá við leitum tilgangs og merkingar? Páll glímir við hugmyndina um Guð og finnur henni mögulegan stað í tóminu, þó hann hallist ekki að persónulegum Guði.
En það er síður en svo bundið við heimspekinga að leita svara við gátum lífsins. Slíkt er lífsverkefni hverrar manneskju. Í kirkjunni mætum við fólki sem er með slíkar spurningar á vörunum. Við hlustum á svör þeirra, vangaveltur og gefum hverri rödd sinn hljóm. Það er eðli þjóðkirkju. Og við flytjum þann boðskap að líf þess sem hlustar á rödd Guðs sé bæði tilgangsríkt og merkingarbært. Og Guð talar til okkar frá síðum Biblíunnar og í gegnum samvisku okkar og hjarta.
Biblían talar til fólks sem rýnir út í sortann og reynir að fá botn í lífið. Í henni er sú hugmynd boðuðu að innsta eðli Guðs sé okkur með öllu hulið og enginn geti sett sig inn í óravíddir þess leyndardóms. Hann birtist okkur aðeins svo sem í skuggsjá eins og postulinn, nafni heimspekingins, sagði. Sú uppgötvun held ég líka að hafi fylgt hverjum sigri vísindanna þar sem þau hafa rýnt í ráðgátur heimsins. Þau skilja okkur blessunarlega eftir með fleiri hugarbrot og enn stærri og flóknari mynd af þessu stóra samhengi sem við erum hluti af. En samkvæmt Biblíunni opinberar Guð sig í kærleiksboðskap Krists þar sem okkur er kennt að elskan til Guðs birtist í elskunni til náungans.
Mér finnst fráleitt að setja punkt fyrir aftan þekkingarleit mannsins og fullyrða að guðstrúin sé á einhvern hátt barnaleg. Þótt við höfum gert okkur bústað á næfurþunnri skel þessarar plánetu sem æðir um tómið í myrkrinu erum við í miðju þess sjóndeildarhrings sem er umhverfis okkur, hvert og eitt. Þaðan sprettur allt okkar starf og sá ávöxtur sem við skilum af okkur á lífsins leið.