Moska, mannréttindi og kristin trú

Moska, mannréttindi og kristin trú

Sumir benda á að í einhverjum þeirra landa þar sem Islam er ríkistrú sé erfitt fyrir kristnar kirkjur. Það er ekki gott og að sjálfsögðu viljum við styðja þessar minnihlutakirkjur og berjast fyrir réttindum þeirra. Það gerum við ekki með því að ráðast á minnihlutahópa í okkar eigin samfélagi og bera fyrir okkur kristna trú. Það getur ekki verið boðskapur kristninnar að meina múslimum að byggja mosku.

moska-og-kirkja450.jpgFyrir 14 árum bjó ég um tíma í landi þar sem fjöldi trúarbragða er sýnilegur á kröftugan og litríkan hátt, meðal annars með fjölda trúarhátíða. Meirihluti landsmanna eða rúmlega 60% eru múslimar, tæp 20% búddistar, tæp 10% kristnir og rúmlega 7% hindúar.

Fyrir áhugamanneskju um trúarbrögð var þetta mikið tækifæri. Ég skoðaði moskur, fór í hindúamusteri og búddamusteri og fylgdist með fjölda trúarhátíða. Og ég sótti kirkju. Alls staðar var trúað fólk reiðubúið að segja mér frá trú sinni og hvers vegna hún skipti máli fyrir það. Og stolt að sýna mér sitt trúarlega heimili, hvort sem það var kirkja, musteri eða moska.

Undanfarið hef ég orðið vör við hóp sem í samfélagsmiðlum hvetur gegn því að hér á landi verði byggð moska. Það er merkilegt hve hvöss viðbrögð það vekur jafnan þegar rætt er um byggingu mosku, ólíkt umræðu um aðrar trúarlegar byggingar. Ótti við islam og múslima byggir á röngum staðalmyndum, sem meðal annars tengist því að fáir þekkja múslima vel og draga allar sínar ályktanir af fjölmiðlum og fréttaflutningi af þröngum hópum umdeildra róttæklinga sem skera sig úr fjöldanum, oft á stríðssvæðum.

Staðreyndin er sú að fjöldi múslima býr á Íslandi og margir hafa búið hér í áratugi. Sumir eru fæddir hér, sumir eru Íslendingar að langfeðgatali. Það eru tvö islömsk trúfélög skráð á Íslandi og bæði hafa samkomuhús. Að meina þessum hópum öðrum fremur að byggja önnur samkomuhús sem eru sérhönnuð sem trúarlegar byggingar - moskur - er bæði múslimafælni og mannréttindabrot.

Stundum er þessi ótti réttlættur með tilvísun í kristna trú. Ég er kristin og það hefur alltaf skipt mig miklu máli að geta sótt kirkju. Ég hef verið svo gæfusöm að geta gert það víða um heim í ólíkum löndum, þar á meðal löndum þar sem kristin trú er í minnihluta. Ég skil því vel þá ósk trúaðs fólks af ýmsum trúarbrögðum að vilja eignast húsnæði til trúariðkunar. Þetta á við um hof, musteri, sýnagógur, kirkju - og moskur.

Sumir benda á að í einhverjum þeirra landa þar sem Islam er ríkistrú sé erfitt fyrir kristnar kirkjur. Það er ekki gott og að sjálfsögðu viljum við styðja þessar minnihlutakirkjur og berjast fyrir réttindum þeirra. Það gerum við ekki með því að ráðast á minnihlutahópa í okkar eigin samfélagi og bera fyrir okkur kristna trú. Það getur ekki verið boðskapur kristninnar að meina múslimum að byggja mosku.

(styttri útgáfa þessarar greinar birtist í Fréttablaðinu 1. feb. 2012)