Vald Jesú yfir lögmálum lífsins

Vald Jesú yfir lögmálum lífsins

Guðspjall: Jóh. 11. 19-27 Lexia: Sálmur: 130 Pistill: Fil. 1. 20-26

Í guðspjalli s.l. sunnudags var sagt frá því þegar Jesús kom í heimsókn til Mörtu og Maríu. Eins og þið munið þá gerði Marta allt sem í hennar valdi stóð til þess að veita Jesú sem besta þjónustu hvað viðurgjörning snertir. Hún hneykslaðist á systur sinni Maríu sem kaus að sitja við fætur Jesú og hlusta á hann í stað þess að hjálpa sér og nefndi það við Jesú. Jesús sagði Mörtu þá að María hefði valið góða hlutskiptið á þessari stundu og stað. Á þeirri stundu skipti meira máli að gefa orðum sínum gaum en að hugsa um að hann fengi líkamlega næringu.

Í guðspjalli þessa Drottins dags kemur fram að þær hafa misst bróður sinn Lasarus og margir gyðingar koma strax til þeirra og hugga þær. En ekkert bólar í fyrstu á Jesú en hann var heimilisvinur þeirra og góður vinur. Þremur dögum eftir andlát Lasarusar kemur Jesús loksins. Eins og fyrr gat Marta ekki setið á sér að fara á móti Jesú en María situr eftir heima og bíður komu Jesú þangað. Þegar Marta sér Jesú þá sagði hún orð sem komu umbúðalaust beint frá hjarta hennar áður en Jesú gafst tækifæri til að heilsa henni. “Herra, ef þú hefðir verið hér, þá væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um”. Í fyrstu mælir Marta skammarorð sem hún átti erfitt með að halda aftur af sér að segja. Gremju gætir í orðum hennar í fyrstu en síðan mælir hún orð sem sýna að hún bar samt sem áður óbifanlegt traust til Jesú og trúði því einlæglega að Guð gæfi Jesú hvað sem hann bæði hann um.

“Ef, þú hefðir verið hér, þá væri bróðir minn ekki dáinn”. Við getum lesið hug Mörtu í þessum orðum. Marta var í raun og veru að segja: Hvers vegna komstu ekki strax eftir að þú fréttir af andlátinu? Nú er allt um seinan”. En jafnskjótt mælir Marta trúarorð af vörum sem koma beint frá hjarta hennar, svohljóðandi. “En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um”. Í þessum orðum Mörtu felast óbiifanlegt traust og trú á mátt Jesú og vald hans yfir lögmálum lífsins.

Jesús segir við hana: “Bróðir þinn mun upp rísa”. Marta sagði þá umsvifalaust: “Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi”. Þessi orð Mörtu eru eftirtektarverð sérstaklega í ljósi þess að margir af elstu stórmennum og dýrlingum Gamla testamentisins höfðu enga trú á því að það væri nokkurt raunverulegt líf eftir dauðann. Hebrearnir, forfeður gyðinga, trúðu því að sálir allra manna, góðra og illra, færu til Sheol. Nafnið Sheol hefur ranglega verið þýtt sem hel eða helvíti vegna þess að Sheol var ekki staður tortímingar eða pyntingar. Sheol var þess í stað land skugganna. Allir sem dáið höfðu fóru þangað og lifðu óljósu, skuggalegu, þróttlausu, gleðilausu, draugalegu lífi án vonar um að úr því rættist. Höfundur Davíðssálma spyr á einum stað: “Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum? Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?” Þessi lýsing á lífinu eftir dauðann einkennir stóran part Gamla testamentisins. Því er það svo að um aldir lifðu menn göfugu lífi, gerðu skyldur sínar og báru sorgir sínar án vonar um laun fyrir erfiði sitt eftir dauðann.

Stundum kemur þó fram í Gamla testamentinu að fólk taki trúarafstöðu líkt og sálmaskáldið sem ort 16. Davíðssálm sem sagði. “Líkami minn hvílist í friði, því að þú ofurelur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að hinn trúaði sjái gröfina. Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu” Ds. 16. 8-11. “Ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína. Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni og síðan munt þú taka við mér í dýrð”. Ds. 73. 23-24. Hér kemur fram að sálmaskáldið er sannfært um það að ef maðurinn á raunverulegt og innihaldsríkt samfélag við Guð þá muni dauðinn alls ekki gera þetta samfélag að engu. Þetta bendir fyrst og fremst til sannfæringar sem er byggð á trú en ekki öðru.

Saga gyðingdóms sem varð til löngu eftir daga hebreanna er saga hörmunga, áþjánar, þrældóms og ósigra. Þrátt fyrir það áttu gyðingar þá óbifanlegu sannfæringu að þeir væru Guðs útvalin þjóð. Þeir gerðu sér jafnframt grein fyrir því að forsendan fyrir því að áætlun Guðs um frið á jörðu, réttlæti og kærleika næði fram að ganga væri nýr heimur og nýtt líf. Þess vegna ólu þeir með sér vonir um að nýr Messías, hinn smurði konungur myndi setja á stofn þetta nýja ríki í þessum heimi og kæmi á friði á meðal manna, réttlæti og kærleika. Fyrir gyðinga var ekki eins erfitt að skilja ráðgátur lífsins þegar þeir áttu sér þá hugsun að þeirra mannlegi harmleikur markaði ekki endalok alls. Því ólu þeir með sér vonir um að það væri annað líf til að loknu þessu.

Á dögum Jesú þá neituðu Saddúkear sem voru einn flokkur gyðinga, að það væri líf eftir dauðann. En Farísearnir og meirihluti gyðinga trúði því. Þeir héldu því fram að þegar dauðinn kæmi þá mættust tími veraldarinnar og eilífiðin eitt andartak. Þeir sögðu að þeir sem dæju sæju Guð og þeir neituðu að kalla þá hina dánu og kölluðu þá hina lifandi í staðinn.

Þegar Marta svarar Jesús þá bar hún því vitni um trú þjóðar sinnar.

Með svari sínu gefur Jesús þessari trú gyðinga nýja merkingu og hann opnar nýjar víddir sem vissulega kalla á fleiri spurningar sem svo kalla á fleiri svör. “Ég er upprisan og lífið, sagði hann. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja”. Hvað átti Jesús við með þessum orðum sem berast okkur á þessar stundu á vegferð okkar í gegnum lífið? Kunnugleg eru þessi orð Krists en þau hafa margræða merkingu.

Jesús er ekki að tala um líkamlegan dauða hér því að reynsla kristinna manna er sú að þeir deyja líkamlegum dauða líkt og aðrir. Okkur ber því að íhuga orð Krists í víðari merkingu.

Í fyrsta lagi talar Jesús hér um dauða syndarinnar. Hann var að segja. Jafnvel þótt manneskjan hafi glatað öllu sem gerir lífið þess virði að það sé lifað þá get ég gefið honum lífið aftur. Þetta er svo sannarlega satt. Þess eru dæmi úr sögunni að manneskjur hafi svo sannarlega fundið fótum sínum forráð á nýjan leik eftir að hafa eignast lifandi trú á frelsarann Jesú Krist.

Til er saga af japönskum manni sem hafði framið hræðilega grimmileg afbrot, myrt og limlest fjölda fólks og mörg börn. Hann ruddi úr vegi öllum sem á vegi hans urðu. Nú var hann í fangelsi og beið dauða síns. Þá koma til hans tvær kanadískar konur sem reyndu að tala við hann í gegnum rimlana en hann hagaði sér eins og snarvitlaust villidýr. Að lokum hurfu þær frá þessu og gáfu honum Biblíu í þeirri von að orðin þar myndu ná til hjarta hans. Hann byrjaði að lesa og hann gat ekki hætt að lesa. Hann hélt áfram að lesa þar til hann kom að sögunni um krossfestingu Krists. Þar blöstu við honum orð Krists á krossinum: “Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra”. Þessi orð Krists hittu japanann í beint í hjartastað. Hann sagði síðar að sér hefði fundist eins og þumlungsþykkur nagli hefði verið rekinn í hjarta sitt. “Átti ég”, sagði hann, “að kalla þetta kærleika Krists? Átti ég að kalla þetta samúð hans í minn garð? Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta. Ég vissi aðeins að ég var farinn að trúa á Krist og harðneskjan var horfin úr hjarta mínu”. Þegar morðinginn gekk dauðagöngu sína þá var hann orðinn endurfæddur maður. Kristur hafði sem sagt vakið hann til lífsins. Hann kom réttu og góðu lagi á líf hans. Fyrirgaf honum syndir hans því að hann vissi ekki hvað hann hafði gert.

Dæmin þurfa ekki að vera svona dramatísk. Maður getur verið svo sjálfselskur að hann er sem dauður gagnvart þörfum annarra til líkama og sálar. Annar getur verið svo skynlaus á tilfinningar annarra að hann virkar sem dauður væri. Aðrir einstaklingar geta orðið svo óheiðarlegir og ólöghlýðnir að þeir virðast vart eiga sér viðreisnar von. Og enn aðrir verða svo vonlausir að þeir missa alla lífslöngun. Jesús Kristur hefur snert við hjörtum milljóna einstaklinga sem þannig hefur verið komið fyrir allt fram á þennan dag. Snerting hans er enn máttug sem fyrr á tíð og hann hefur reist marga á fætur og gefið þeim nýjan lífsgrundvöll til þess að byggja lif sitt á.

Í öðru lagi er Jesús að tala um hið komandi líf. Hann sýndi með verkum sínum að dauðinn markar ekki endalokin. Fyrir Jesú Krist þá vitum við kristnir menn að við erum á ferðalagi með honum í austurátt þangað sem sólarupprásarinnar gætir en ekki í átt til sólarlagsins þar sem sólin hnígur til viðar. Þið sem eruð hér í kirkjunni horfið mót austrinu. Þar er altarið sem táknar nærveru Guðs og altaristaflan tjáir á máttugan hátt upprisu Lasarusar og Kristur bendir upp til himins. Úr austrinu heyrum við orð Krists. “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi”. Við erum á vegferð með Kristi í átt til lífsins. Veganestið eru orðin hans dýrmætu sem við meðtökum og stefnum eftir í tímans straumi, Orð sem okkur ber að trúa og treysta. Þessi orð eiga að nægja okkur á dauðastundinni og inn í ríki upprisunnar og lífsins. Samfylgdin með Kristi í þessu lífi er forsmekkurinn að því sem koma skal í ríki upprisunnar og lífsins.

Nú er náðarstund. Ögurstund á sér stað í lífi sérhvers manns sem þiggur gjöf trúarinnar á Jesú Krist. Að trúa á hann merkir að samþykkja allt sem hann segir sem satt og rétt og treysta honum upp frá því. Þegar við gerum það þá komum við lagi á samband okkar við Guð. Þegar við förum að trúa að Guð sé eins og Jesús sagði að hann væri þá verðum við fullviss um kærleika hans. Við verðum þá fullviss um að hann er Guð sem frelsar. Þá hverfur óttinn um dauðann því að dauðinn merkir þá að sálin fer til þess sem ber ríkulega umhyggju fyrir sálum manna.

Þegar við samþykkjum veg Jesú, þegar við samþykkjum boðorð hans sem okkar boðorð og þegar við gerum okkur grein fyrir því að hann er hér með okkur til þess að hjálpa okkur að lifa eins og hann boðaði þá verður líf okkar fyllra og innihaldsríkara þar sem meiri kærleika og styrks gætir. Og þegar við samþykkjum veg Krists sem okkar veg þá verður lífið þannig að við sjáum ekki fyrir okkur að það geti endað í vegleysu.

Þegar við trúum á Jesú, þegar við samþykkjum það sem hann segir um Guð og um lífið þá erum við frelsuð undan þeim ótta sem einkennir marga þá sem trúa að Guð sé ekki til, í það minnsta þegar kemur að dauðastundinni. Þá erum við frelsuð undan því vonleysi sem einkennir líf sem er þjakað af syndinni.

Þegar við berum óskorað traust til Jesú þá þurfum við ekki að spyrja: “Hvar ertu?”, þegar ástvinur okkar deyr. Þegar við höfum heyrt orð Krists: “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi”. Þá þurfum við ekki að fara til miðla til þess að spyrja þessarar spurningar. Því að svörin sem við fáum þá eru sem hismi miðað við auðlegðina sem orð Krists eru okkur á vegferð okkar í gegnum lífið. Gefum þeim því ríkulegri gaum en ella og treystum þeim. Látum þau nægja. Þegar við opnum hjartadyr okkar fyrir Kristi þá getum við verið viss um það að hann gengur ekki á skítugum skóm inn í líf okkar því að hann er syndlaus samkvæmt orðum ritningarinnar. Amen