Trúaruppeldi

Trúaruppeldi

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
09. maí 2002
Flokkar

Guðspjall: Mark. 16. 14-20 Lexia: Dan. 7. 13-14 Pistill: Post. 1.1-11

Uppstigningardagurinn hefur í nokkuð mörg ár verið helgaður öldruðum í þjóðkirkjunni hér á landi. Það fer vel á því að það sé gert því að aldraðir hafa ætíð verið aufúsugestir í kirkjum landsins og verið duglegir að sækja guðsþjónustur. Kristinn trúararfur á djúpstæðar rætur hjá öldruðu fólki sem hefur miðlað arfinum dýra til nýrrar kynslóðar og er mér nú sérstaklega hugsað til móður minnar sem kenndi mér bænir við rúmstokkinn forðum og ég henni sérstaklega þakklátur fyrir það.

Við höfum hlýtt á guðspjall dagsins. Þar segir frá því er Jesús Kristur birtist þeim ellefu lærisveinum sem eftir voru þegar þeir sátu til borðs og hann ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upprisinn.

Samkvæmt guðspjöllunum fjórum er upprisa Jesú Krists frá dauðum leyndardómur sem ekki verður skýrður til hlýtar. Hið sama gildir um upprisulíkama hans. Hann er sami líkami og lagður var í gröfina. Lúkas og Jóhannes guðspjallamenn greina frá því að Jesús hafi sýnt lærisveinunum sáramerki sín og báðir taka fram að hinn upprisni Jesú hafi neytt matar með lærisveinum sínum. Um leið er líkaminn annars konar en hann var fyrir dauða hans. Jesús kemur og stendur skyndilega mitt á meðal þeirra og hann hverfur þeim sýnum jafn skyndilega og hann kom.

Hinar látlausu frásögur um upprisuna og uppstigninguna eru vitnisburður til trúar. Þær benda ekki á dularfulla atburði og heldur ekki á sigur andans yfir efninu. Þær fjalla ekki um mannlega getu í þjáningum heldur benda þær á Jesú sem Krist og Drottin og er það staðreynd sem boða á þjóðum eins og Jesús segir í guðspjalli dagsins:

“Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun fyrirdæmdur verða”

Kristin trú byggist á vitnisburði Nýja testamentisins um upprisu Jesú. Án upprisu Jesú frá dauðum væri engin vitneskja til um hann. Það er hún sem kveður á um sérstöðu hans umfram alla menn. Vegna upprisunnar fullyrða kristnir menn um Jesú að hann sé sá sem birti hvað Guð er og líka hvað maðurinn er. Sönnunin fyrir upprisunni er aðeins vitnisburður sjónarvottanna sem er að finna í Nýja testamentinu. Þeir fóru allir út, ekki í von um stundlegan ávinning, auð eða völd, heldur beið þeirra ofsókn og létu allir vottarnir fyrstu lífið fyrir vitnisburð sinn um Jesú Krist.

Hvað stjórnaði þá gerðum þeirra?

Það sem stýrði gerðum þeirra var trúin á hinn upprisna og vonin sem hún gaf þeim.

Upprisa Jesú er með öðrum orðum upphaf hins nýja tíma. Burtför Jesú af þessu jarðneska tilveruskeiði merkir að braut hefur verið rudd fyrir mannkynið til lífs undir valdi Guðs í stað dauða undir valdi óhlýðninnar.Og brautin er Jesús sjálfur sem segir: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig”.

Upprisa Jesú er ekki atburður sem henti hann einan svo að menn geti dáðst að mikilleik hans heldur varð hún fyrir aðra eins og líf hans og dauði höfðu verið. Það sem hann hafði hent bíður annarra, þeirra sem hann lifði og dó fyrir. Og áður en Jesús hvarf sjónum lærisveina sinna þá lofaði hann þeim að hann yrði þeim ætíð nálægur í anda sínum hvenær sem væri og hvar sem þeir væru staddir.

Guðdómur og mennska Jesú Krists eru óaðskiljanleg. Þess vegna getur líf okkar mannanna tengst lífi Jesú í upprisu hans. Jesús likti þessu stundum við vínviðinn þar sem hann sjálfur er stofninn en við greinarnar. Þegar grein er grædd á lifandi stofn verður hún hluti af honum. Fær næringu af sömu rót og ber sams konar ávöxt.

Skírnin myndar þessi tengsl milli Jesú og þeirra sem hann tekur að sér. Skírnin er ekki nafngjöf. Hún er sú gjöf sem tengir okkur við Jesú Krist. Hún byggist á fyrirmælum Jesú Krists en ekki manna. Til þess að skíra þarf hvort tveggja, vatn og orð Krists um skírnina. Vatnsbaðið eitt er engin skírn. Vatnsmagnið skiptir heldur engu máli. Skírnin táknar að Guð faðir sem elskar okkur að fyrra bragði tekur okkur að sér sem sín börn og gerir okkur að systkinum Jesú Krists.

Barn er maður sem Guð vill fá að elska. Jesús segir í skírninni við þig og mig: “Ég vil fá að eiga þig. Komdu til mín. Ég vil fylgja þér alla ævina, bera þig á örmum mér lífs og liðinn. Ég ætla ekki að víkja frá þér, jafnvel þó að þú gleymir mér stundum. Ég vil fá að blessa þig í öllu þínu lífi. Ég vil blessa þig um alla eilífð”. Þetta segir jesús við börnin sem voru skírð hér í messunni í dag. Það er skemmtilegt að þau skyldu fæðast sama daginn 7. mars og vera jafnskyld og raun ber vitni.

Skírnin skuldbindur kristna menn til að fara til fólks sem ekki hefur kynnst Jesú til að skíra fólkið svo að það tengist honum og að kenna fólki það sem hann segir og gerir og um merkingu þess að lifa með Jesú.

Foreldrar skírnarbarna axla þá ábyrgð að ala börnin upp í ljósi fyrirheitis skírnarinnar, kenna þeim að elska Guð og tilbiðja hann. Í ljós hefur komið að hlutur móður í trúaruppeldi barns er sérstaklega mikill þegar um miðlun trúararfsins er að ræða.

Hjalmar Sunden, sænskur trúarlífssálfræðingur segir að það sem mestu máli skipti við trúaruppeldi séu kynnin af bænalífi foreldranna, að barnið sé viðstatt og taki þátt í bæn til guðs og sé þátttakandi í helgistundum. Þannig sé það leitt á vit trúarinnar löngu áður en það skilur eða gerir sér vitræna grein fyrir inntaki trúarhugmynda og kenninga. Áhrif frá móður eru afdrifaríkur þáttur í því að móta trúarafstöðu og virkt trúarlíf seinna á ævinni. Það eru meira en helmingi meiri líkur á því að þeir sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum frá móður sinni biðji sjálfir bænir með börnum sínum en hinir sem segjast hafa orðið fyrir mestum áhrifum utan fjölskyldunnar. Sá sem læriir bænir af móður sinni í bernsku biður oftar með sínum eigin börnum. Þannig flyst trúin milli kynslóða.

Trúarlífskönnun sem gerð var hér landi fyrir mörgum árum styður álit trúarlífssálfræðingsins. í þeirri könnun kom í ljós að aldur svarenda hefur mikla þýðingu fyrir það hvernig þeir meta hlut móður í þeim trúaráhrifum sem þeir hafa orðið fyrir. Áhrif móðurinnar eru ekki áberandi miklu meiri á yngsta hópinn en annarra úr fjölskyldunni. En því eldri sem svarendur eru því oftar nefna þeir hana sem áhrifamesta aðilann.Af þeim elstu sem hér um ræðir, hópnum frá 60-76 ára nefna 78% móður sína en aðeins 40% af þeim yngstu, frá 18-24 ára. Þetta kemur að vissu leyti á óvart. Væri vel hægt að ímynda sér að fyrir þeim yngstu ættu áhrif móður að vera greinilegri og nærtækari og þeir því að eiga auðveldara með að gera grein fyrir þeim en eldra fólk. Í elsta hópnum hafa flestir misst móður sína og í lífi þeirra ættu ótal fleiri möguleikar að koma til greina hvað áhrif varðar til andlegrar mótunar.

Beinast liggur við að túlka þessa könnun þannig að móðir hafi ekki lengur jafn sterk áhrif á trúarlíf barna sinna og áður. Í þessu sambandi má benda á breytta fjölskylduhætti. Konur hafa í síauknum mæli farið út á vinnumarkaðinn á seinustu áratugum og skóli og dagvistarstofnanir að sama skapi tekið að sér meira af uppeldishlutverkinu. Þá hefur einnig borið á því viðhorfi að uppalendum beri að hafa sem minnst áhrif á skoðanamyndun barnanna. Hefur töluvert lengi borið á þessu viðhorfi í opinberri umræðu um uppeldi og lífsviðhorf en það má rekja til aðgreiningar kirkju og samfélags og þess sem kallað hefur verið afhelgun.Í staðinn eigi börnin sjálf að fá að móta skoðanir sínar þegar þau hafi aldur og vit til. Þetta gæti hafa haft það í för með sér á seinni áratugum að mæður hafi síður viljað hafa bein áhrif á trúar-og lífsskoðanir barna sinna en áður var.

Að mínum dómi þá leitast aldraðir við að nálgast aftur hið kirkjulega trúarmynstur sem þeir ólust upp við. Þá eru hin vitrænu rök ekki lengur eins mikilvæg og einstaklingurinn lítur á líf sitt og hlutverk í nýju ljósi þar sem hann leitast við að endurfinna það trúnaðartraust sem kviknaði og nærðist í sambandinu við móður eða staðgengil hennar. Hér er um að ræða tilfinningu fyrir heilagri nærveru og viðurkenningu á sérleika sjálfsins. Hinn aldraði endurlifir vonina sem er birtingarform trúnaðartraustsins sem verður til í barnæsku ef vel hefur tekist til. Vonin er barnsleg vissa um blessun og náð frá alvitrum örlagavaldi sem tengir fortíð, nútíð og framtíð. Fyrir mátt bænarinnar fær þessi von staðfestingu aftur og aftur og hinn aldraði getur óhræddur horfst í augu við dauðann. Þessi samþætting er í reynd öðrum þræði undirbúningur undir dauðann. Hinn trúaði maður stendur ekki frammi fyrir dauðanum sem líffræðilegum veruleika heldur er hann staddur frammi fyrir augliti Guðs. Upplifun þessa trúnaðartrausts þýðir að áhrif frá foreldrum, sérstaklega móður, magnast í vitundinni. Að vera guðs barn er mikilvægast fyrir hinn aldna, trúaða einstakling sem er t.d. einmana. Hann sameinast aftur upphafi sínu. Dauðinn er ekki endir heldur kallar Guð hann aftur heim. Þetta er grundvöllur að jafnvægi í sálarlífi og persónuleika hins aldraða einstaklings.