Síðasta eineltisbarnið

Síðasta eineltisbarnið

Það er kristin trú að einhvern veginn hafi Jesús Guðs sonur dáið með syndum okkar. Að einhvern veginn hafi gjafari lífsins gerst lausnari þess. Að einhvern veginn hafi menn ástæðu til þess að standa uppréttir í þessum heimi þrátt fyrir syndina, sundrunguna, ranglætið sem hvarvetna er augljóst.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
22. júní 2008

Teitur Atlason skrifar pistil í Fréttablaðið (15.6.) undir yfirskriftinni Trúlausi guðfræðingurinn. Grein hans er heiðarleg tjáning manns sem hefur lesið sér til í Biblíufræðum og séð að þar stangast margt á og er nógu skynsamur til að átta sig á því að það er ekki hægt að trúa bókstafnum. Þessari uppgötvun sinni snýr hann svo að kristindóminum sjálfum til þess að hafna honum. Við það langar mig að gera athugasemdir.

Útgangspunktur Teits er sá að trú hljóti að vera bókstafleg og sé hún það ekki sé hún bara táknræn. Hann vill að annað hvort standi kristið fólk við bókstaflega trú á sagnfræðilegt gildi allra þeirra frásagna sem Biblían geymir eða líti á allar sögur hennar sem táknrænar frásagnir sem í sjálfu sér geti ekki sagt manni neitt. Þessi krafa þykir mér ósanngjörn, þó ekki væri nema vegna þess að Biblían sem slík er sífellt að túlka sjálfa sig. Jesús túlkar Gamla testamentið og postulabréfin túlka hvort tveggja. Svo tekur hann kjarnafrásögn Nýjatestamentisins, fórnardauða Jesú, og segir: „Syndir mannanna fóru einhvernveginn inn í hann og svo dó hann með syndum okkar! Þetta er ekki flóknara."

Það er rétt hjá Teiti, þetta er ekki flóknara. Það er kristin trú að einhvern veginn hafi Jesús Guðs sonur dáið með syndum okkar. Að einhvern veginn hafi gjafari lífsins gerst lausnari þess. Að einhvern veginn hafi menn ástæðu til þess að standa uppréttir í þessum heimi þrátt fyrir syndina, sundrunguna, ranglætið sem hvarvetna er augljóst í veröldinni vegna þess að Guð hafi gefið heiminum sjálfan sig í Jesú.

Teitur fer þá leið að hæðast að syndafallsfrásögninni í 3. kafla fyrstu Mósebókar en ég leyfi mér að fullyrða að um leið missi hann af inntaki hennar. Syndafallsfrásögnin útskýrir hvernig okkur hættir til að taka ávöxtinn af skilningstrénu í eigin hendur og telja okkur þess umkomin að vita skyn góðs og ills, vita m.ö.o. allt sem vita þarf og þurfa ekki framar að undrast neitt. Þá hverfur trúin og leikurinn og listin en lífið verður einhvern veginn nakið og kalt svo menn þurfa að hylja sig og fela sig og taka að réttlæta sjálfa sig eins og Adam og Eva í garðinum. Hin biblíulega viska er sú að syndin sé arfur sem búi í vilja mannsins. Sagan af syndafallinu lýsir þeirri vitneskju að það sé viljinn sem sé brotinn og viljinn liggi í kjarna veru okkar.

Teitur hæðist að hugmyndinni um erfðasynd. Þó virðist mér þetta guðfræðilega hugtak fela í sér þá stórsnjöllu vinnutilgátu í glímunni við ranglæti heimsins að gagnlegast muni vera að horfa í eigin barm í stað þess að stimpla veröldina og samferðamenn sína vonda. Þegar við játum sjálf okkur syndug eins og Jesús gerði í skírnarfrásögninni en förum ekki þá leið að ásaka vini okkar eins og Adam og Eva gerðu í syndafallsfrásögunni, þá erum við komin á þroskabraut.

Mér þykir gott að skilja fórnardauða Jesú með þeirri hugsun að hann hafi breytt fórnaraltarinu í eldhúsborð. Kristindómur er í mínum huga samfélag um eldhúsborðið þar sem fjölskyldan deilir kjörum. Í stað þess að hringa sig um fórnaraltarið sem á öllum öldum stendur í mannfélaginu miðju, þar sem við erum í sífellu að færa fórnir hvort sem þær birtast í kynþáttahatri, kynjamisrétti, barnaþrælkun, mansali, samkynhneigðarhatri, andúð á náttúrunni eða hverri annarri mynd þvingunarvaldsins, - í stað þessarar sífelldu fórnariðkunar sem ætíð hefur fylgt mannkyni virðast mér nýir lífsmöguleikar blasa við í Jesú Kristi. „Takið og etið" segir hann þar sem við sameinumst við elhúsborðið, altarið. „Látið mig vera síðasta eineltisbarnið. Borðið mig! Látið mig vera síðasta þrælinn, síðasta nauðgunartilfellið, síðasta hommann sem er svívirtur vegna kynhneigðar sinnar, síðustu konuna eða útlendinginn sem ekki fær notið mannréttinda vegna kynferðis eða kynþáttar. Borðið mig! Auðmýkið ykkur með því að neyta mín og játið þannig að þið hafið brotinn vilja sem vill neyta lífsins í stað þess að þjóna því."

Þannig skil ég m.a. altarisgöngu kristinnar kirkju að þar tjáum við vitund okkar um eigin siðferðisábyrgð á sama tíma og við túlkum með því að ganga til altaris með ókunnugum að við erum samábyrg sem manneskjur í samfélagi. Þessi trúariðkun er að mínu viti merkingarbær í lífi milljóna manna um allan heim.