Hugur fylgi máli

Hugur fylgi máli

Velkomin á fætur eftir menningarnótt. Það var húsfyllir margsinnis hér í gærkvöld og fólk á ferð í kvöldhúminu og fram í myrkur. Mér finnst stundum eins og meðaljón og meðalgunna í Reykjavík yfirgefi borgina sautjánda júní, eftirláti hana útlendingum og sérvitringum en komi svo aftur á menningarnótt og endurheimti hana.

Velkomin á fætur eftir menningarnótt. Það var húsfyllir margsinnis hér í gærkvöld og fólk á ferð í kvöldhúminu og fram í myrkur. Mér finnst stundum eins og meðaljón og meðalgunna í Reykjavík yfirgefi borgina sautjánda júní, eftirláti hana útlendingum og sérvitringum en komi svo aftur á menningarnótt og endurheimti hana.

Erfitt að máta sig við texta dagsins núna. Þeir fjalla um kærleikann, að elska aðra menn, jafnvel óvini sína og deila með þeim ómissandi gæðum, fé, rými og tíma. Getum við eitthvað verið að hugsa um þetta svona snemma dags og eftir svona nótt? Jæja, hvort sem er þá er það samt verkefni okkar.

Við getum greint ferns konar ást. Það er ást sem tengist girnd, væntumþykja fjölsykdumeðlima, elska sem beinist til manna almennt og svo kærleikur sem felur í sér ásetning og krefst fórnar manna án væntinga um endurgjald.

Við fáum aldrei nóg af ást og girndin verður seint södd. Hins vegar höfum við flest mikla næringu af væntumþykjunni sem streymir fram og aftur í fjölskyldunum og okkur er jafnan ljúft að gegna skyldum okkar þar, fáum enda iðullega ríkulegt endurgjald. Kærleikur kemur þar reyndar ósjaldan við sögu. Það er ekki öll væntumþykja endurgoldin. Það eru ekki sífellt þeir tímar sem endurgjald er mögulegt og stundum lifum við af því einu að einhver sýnir okkur kærleika sem við eigum ekki skilið en þörfnumst þó svo mjög. Væntymþykja til fólks sem við þekkjum ekkert sprettur stundum upp af fréttaflutningi eða frásögum af því.

Frægasta og skýrasta dæmið sem Jesús setur fyrir okkur í þessu efni er dæmisagan af miskunnsama Samverjanum. Beinum í því tilviki fyrst sjónum að prestinum og levítanum. Þeim bar að sýna umhyggju. Þar lá bróðir þeirra, maður af þeirra þjóð. Þeir létu það undir höfuð leggjast. Útlendur maður hataðrar þjóðar vann miskunnarverkið. Hann lagði sig í hættu sem hinir voru ekki tilbúnir að mæta. Hann gerði sér ómak sem hinir máttu ekki við og kann bar kostnað ofan á allt.

Það eru til ótal sögur af fólki sem fórnar sér fyrir aðra og það eru þær sem bregða ljóma á mannlífið. Fréttamenn voru ólatir að færa okkur slíkar sögur eftir árásina á tvíburaturnana og flóðin skelfilegu um jólin. Bókmenntir okkar og sagnir geyma mörg slík dæmi. Mér kemur í hug hún Ragnheiður ljósmóðir þeirra Grunnvíkinga í byrjun seinustu aldar.

Hún gerðist með árunum feitlagin eins og henda vill og var orðin býsna þung seinni árin. Hún átti því erfitt um gang. Ekki lét hún það þó aftra sér þegar kallað var eftir þjónustu hennar. Hún lét róa sér á báti sem lengst varð komist en svo kjagaði hún yfir heiðarnar og stundum þurfti að draga hana á sleða þar sem það var fært. Hest var ekki óhætt að láta undir hana svo hún fór þetta blessunin másandi og sveitt, hrakin og köld og vann sitt verk og hjálpaði lífinu og konunum sem það báru.

Hún var ekki ein í sinni stétt og stundum var það heldur ekki útlátalaust fyrir þær blessuðu konur að vera fjarri heimilum sínum dögum saman og sjálfar kannski með lítil börn. Þær lögðu líf sitt við íslensku ljósmæðurnar og eiga þökk kynslóðanna sem mega þakka tilveru sína handarverkum þeirra.

Mér koma einnig í hug björgunarmenn samtímans. Þeirra hefur oft verið þörf á undanförnum árum. Snjóflóð, skipstapar, slys og villur hafa leitt þá upp úr hlýjum bólum sínum og úr öryggi heimilanna út í illviðrin, út fyrir byggðir, upp á örævi og út á haf til þess að freista þess að bjarga fólki. Sumt af því hefur komið sér í vandræðin með aðgæsluleysi og fyrirhyggjuskorti.

En minnumst líka samborgara sem taka á sig byrðar annara vegna. Ef kærleikann vantar í ummönnunarstörfin þá verður hlutskipti þeirra sem upp á þau eru komin þungbærara en tárum taki. Gamall maður sem ekki á fólk í kringum sig, skapstirður vegna vonbrigða og þjáninga þarf umburðarlyndi, þolgæði og hlýju. Fatlað barn sem ekki getur verið heima hjá sér þarf elsku sem ekki verður tekin út steinrunnu hjarta launamanns.

Hvar og hvenær er krafist kærleika af mér og þér? Koma ekki iðullega upp þær aðstæður þar sem hans er þörf? Sjáum við vandræðin eða lítum við undan? Erum við etv búin með kvótann í hjálpseminni? - Já, hvenær erum við það annars? Höfum við einhverntíman sumarfrí frá kærleikanum eða förum við á eftirlaun frá honum?

Lexían segir um guðræknina: Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, -7- það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þetta síðasta stingur mig svolítið: firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. Þetta minnir mig á ættingja og samlanda. Hef ég sniðið of þröngan hring um það safn manna sem eru "verðir" kærleika míns, sem ég ber einhverjar skyldur gagnvart, og gleymt miskunnsama Samverjanum. Ja, ef ég hef áhyggjur af því þá blikka öll ljós í kringum hugsun Jesú er hann segir í guðspjallinu: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, -45- svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.

Svo óma fyrir eyrum orð Páls postula, þau sem halda nafni hans hvað lengst á lofti: Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Ég er lens. Mér duga ekki sýndarverk. Hugur verður að fylgja máli. Ég ónýti alla viðleitni mína ef elskan er þvinguð fram og gengur fyrir skyldurækni eða þrælsótta. Hjartað verður að vera með í verkinu. Ég verð að láta mig langa til þess að gera það sem hugur minn veit að er skylda mín og þörfin kallar á.

Og eins og ég þyrfti uppörvun segir Drottinn: Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Takk, það var ekki annað. Bara eins og Guð? Ekki málið, fer í það strax!!!!