Framtíð hér og nú!

Framtíð hér og nú!

Sjálfsmildi er fjarri, við reynum að slökkva þorstann og hungrið með skyndilausnum, sökkvum okkur í símann, erum alltaf á ferðinni vegna þess að ef við stoppum, sitjum við uppi með okkur sjálf og óttann við endanleikann og tilvist sem er full af tómi og óuppfylltum löngunum og brostnum vonum. Og hungrið verður sífellt meira og við erum með varanlegan munnþurrk af þorsta.

Mér finnst stundum gott að lesa guðspjallstextana út frá tilvistarlegu sjónarhorni. Þó að texti dagsins sé augljóslega framtíðarsýn og lýsing á því sem koma skal í Guðsríkinu, þá er það nú einfaldlega þannig að þó að eitthvað sé hugsað sem framtíðarsýn, þá merkir það ekki að við getum ekki byrjað að skapa nýja og betri framtíð hér og nú. 

Enda er Jesús alltaf að tala inn í lifandi aðstæður, ávarpa fólk af holdi og blóði og hvetja okkur til að rísa upp og grípa til verka, bæði í okkar eigin lífi og annarra. 

Þegar ég horfi á þennan texta sem er einstaklega fallegur en um leið áminnandi, fer ég strax að hugsa um hungur, þorsta, klæði, innilokun og einmanaleika. 

Þegar okkur skortir allt þetta líkamlega finnum við til eðli málsins samkvæmt. Við viljum ekki upplifa hungur eða þorsta þó að það sé hlutskipti allt of margra í dag, síðast um daginn var í fréttum að við mannkyn teljumst nú 8 milljarðar og versnandi ástand jarðarinnar vegna hlýnunar og mengunar, gerir það sífellt erfiðara að fæða og klæða allan þennan fjölda sem nú byggir jörðina okkar. 

Stöðug stríð, ofbeldi og harðstjórn skapa að auki versnandi lífsskilyrði og hafa á ákveðinn hátt áhrif á okkur öll, þó þau sem búa í nær samfélagi við slíkar aðstæður finna eðli málsins samkvæmt meira fyrir þannig ástandi. 

En ef við hugsum þessi hugtök andlega og út frá okkar eigin tilvist í vestrænum heimi. 

Tölum fyrst um hungur og þorsta. Ég hugsa mjög oft um þessa nútíma kröfu að hlutleysa hið opinber svið í samfélaginu. Nú er ég ekki að segja það að skipulögð trúarbrögð hafi alltaf staðið sig vel í að lyfta fólki upp með öllum sínum boðum og bönnum í gegnum tíðina. Frekar andstæðan, að halda fólki niðri og kenna að mennskan sé vond, að það sem við finnum og upplifum sé eitthvað til að skammast sín fyrir. 

Sem betur fer erum við, alla vega hér á íslandi að reyna að umfaðma allt sem er mannlegt og það sem er gott í sköpuninni enda segir Guð sjálfur í sköpunarsögunni að allt sem hann hafi skapað sé harla gott. Einhvern tímann á leiðinni misstum við sjónar á því. 

En aftur að hinu opinbera sviði. Í dag ríkir hlutleysiskrafan alls staðar. 

Það má ekki tala um Guð, það má ekki boða von, það má ekki tala um trú. Við höfum á ákveðinn hátt aftengst kjarnanum og eftir sitjum við uppi með okkur sjálf og hvort að það sé einhver grundvallar tilgangur með veru okkar hér í þessu lífi. 

Þegar tilgangurinn er farinn, þá verður einhvern veginn allt leyfilegt. Við sjáum það öll í vaxandi ofbeldi, innibyrgðum tilfinningum og reiði. Og við vitum ekki hvernig á að bregðast við. 

Tilgangurinn felst í að taka nógu margar myndir af sér á fjöllum, fara á námskeið að læra að elska sig og stunda núvitund sem nútíma apaheili ræður ekki við, því hann er svo upptekinn að muna eftir öllum þeim milljón atriðum sem þarf að klára og áorka áður en lagst er á koddann á kvöldin. 

Sjálfsmildi er fjarri, við reynum að slökkva þorstann og hungrið með skyndilausnum, sökkvum okkur í símann, erum alltaf á ferðinni vegna þess að ef við stoppum, sitjum við uppi með okkur sjálf og óttann við endanleikann og tilvist sem er full af tómi og óuppfylltum löngunum og brostnum vonum. 

Og hungrið verður sífellt meira og við erum með varanlegan munnþurrk af þorsta. 

Ég var að ræða við eldri borgara í vikunni um vonina og nefndi að hún væri eitthvert máttugasta aflið í þessum heimi. Vonlaus heimur er vondur heimur. Vonlaus tilvera er vond tilvera. 

Ég væri ekki hér án vonar, allar áskoranir sem ég hef tekist á við, allar aðstæður sem ég hef farið í gegnum, hefði ég aldrei farið í gegnum án vonar. Vonin fær mig til að fara á fætur á morgnana og sofna róleg á kvöldin vegna þess að ég veit að það kemur alltaf nýr dagur, nýtt upphaf, ný sköpun. 

Án vonar væri ég ekki sú sem ég er og með voninni verður þorstinn minni og hungrið minna. 

Ég er ekki búin að mastera þetta, stundum er ég á þeim stað og hugsa, góði Guð ekki einu sinni enn. Getum við ekki gert samning um ögn rólegra líf, bara í dag. En samt held ég áfram vegna þess að mér var gefinn þessi neisti sem ungt barn, mér var gefin trú og mér var gefinn tilgangur. Þar sem opinbera rýmið óttaðist ekki Guð og óttaðist ekki að gefa mér tæki til að lifa af. 

Fyrir það verð ég endalaust þakklát enda hefur það verið mín lífsbjörg að geta leita í öruggt skjól þegar lífið er sárt og erfitt. Einn dag í einu get ég böðlast þannig áfram, einn dag í einu í ófullkomnum heimi sem vil frekar brjóta niður en að byggja upp.

Ef ég hugsa um klæðin, þá er það okkur öllum nauðsynlegt að vera í fötum, annað væri að sjálfsögðu talið vandræðalegt og hugsanlega siðlaust að ganga um nakinn og ég er að sjálfsögðu ekki að mæla með því. 

En hvað með hin andlegu klæði, allar grímurnar sem við setjum upp daglega til að fela hver við raunverulega erum af ótta við höfnun. Hjá mörgum okkar eru grímurnar orðnar svo margar að við höfum gleymt hver við raunverulega erum og hvað gefur okkur raunverulega lífsfyllingu í lífinu. 

Við lifum í samfélagi sem elur á ótta við það sem er raunverulegt. Við lifum í ótta við höfnun og þorum ekki lengur að standa í eigin sannleika og með okkur sjálfum. Við þorum ekki að móta okkar eigin leið. Og bak við allar grímurnar er hungur og þorsti eftir að fá að vera til, lifa því lífi sem þú þráir. Líf sem er raunverulegt, varnarlaust, nakið, án klæða. 

Hvað ef þú tækir þá ákvörðun í dag að standa með þér, stíga út úr aðstæðum sem eru vondar, hefðir hugrekki til að passa ekki inn í rammann, vera stundum pínu óþægileg. Og ef þú veist ekki hver þinn sannleikur er eða hver þú ert, hvernig væri að lofa þér að byrja að leita og gefa þér tíma til þess að finna og uppgötva það. 

Ég get lofað að um leið og við grípum til aðgerða í eigin lífi þá falla grímurnar smátt og smátt, því okkur fer að verða sama um eigin nekt og hvað öðrum finnst um okkur. Afhjúpun sálarinnar er ekki vond, að fela hana dýrum klæðum er vont. Það tekur frá þér orkuna þína sem er það dýrmæsta sem þú átt og allir sem þú mætir eiga ekki rétt á henni. Þau sem sjá þig eins og þú ert, en velja samt að staldra við og standa með þér, eiga hana skilið, enginn annar. 

Og þá komum við að því síðasta en það er þetta, ef að við erum aldrei meðvituð um að slökkva eigin hungur, þorsta og koma grímulaust fram, læsumst við inn í eigin huga og eigin líkama. Líkt og að loka sig inn í fangelsi og henda lyklunum. Á þeim stað erum við svo einmana og ein. 

Lykillinn að þessu fangelsi er að byrja að treysta. Treysta á vonina og lífið, treysta þér til að fara í gegnum allt það sem þú þarft að gera til að verða frjáls. Og svo það mikilvægasta, treysta öðrum fyrir þér og treysta því að þér verði ekki hafnað ef þú þorir að láta grímuna falla, vera manneskja, vera varnarlaus, vera viðkvæm, gráta og hlægja, reiðast og gleðjast, og syrgja. 

Þau sem raunverulega elska þig munu aldrei fara, aldrei bregðast þér, aldrei yfirgefa þig. 

Elskan byrjar hjá þér í þinn eigin garð, þegar þú uppgötvar að þú ert þess virði að elska og allt í kringum okkur er fólk tilbúið til að elska þig á móti og hvetja þig áfram og vera með þér í því að byggja upp nýja vonarríka framtíð. 

Og Guð mun aldrei yfirgefa þig, hann hefur gengið þér við hlið alveg frá upphafi, hann veit hver þú ert og þráir ekkert frekar en að þú lifir í friði við sjálfa þig, lifir í þínum sannleika og sért hamingjusöm manneskja.

Framtíðin byrjar hér og nú, í dag!

"Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín."

Amen