Orðsending til afa og ömmu

Orðsending til afa og ömmu

Þessi hópur sem hér kemur saman gegnir þar grundvallarhlutverki. Heyrt hef ég fræðimenn á sviði þróunar tala um það sem eina af forsendum þeirrar framþróunar sem maðurinn hefur náð í árþúsundanna rás hvernig samfélagsgerðin bauð upp á það að börnin fengu stórbætta kennslu umfram það sem tíðkaðist annars staðar í ríki náttúrunnar. Hvaðan kom það nám?
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
03. desember 2006
Flokkar

Hafið þakkir fyrir að bjóða mér hingað í Stapann þar sem þessi góði hópur er saman kominn við upphaf aðventu og um leið nýársdaginn í því tímatali sem við kennum við kirkjuna. Þetta er upphaf þess tímabil sem er svo þrungið tilfinningum, eftirvæntingu og merkingu. Þetta er tíminn þegar margir vilja ná athygli okkar í eigingjörnum og óeigingjörnum tilgangi. Og mitt í áreitinu fá prestar stundum að segja nokkur orð við fólk og nýta þá gjarnan tækifærið til þess að bjóða upp á svolítið mótvægi við annan áróður sem á okkur dynur.

Tímamót

Við tímamót, stór eða smá, er viðeigandi að velta fyrir sér breytingum sem hafa orðið á menningu og tíðaranda. Mig langar að verja þessum fáu mínútum til þess að deila með ykkur svolítilli hugsun sem brýst um í kolli mínum þessa aðventuna. Vandi kynslóðanna er ólíkur frá einu tímabili til annars. Margir þeir sem hér eru muna vafalítið þá tíð þegar skorturinn einkenndi daglegt líf fólks. Varningur var af skornum skammti og mikið þurfti að hafa fyrir því að eiga í sig. Fleiri vinnustundir lágu þá að baki lífsgæðum okkar en nú er og á löngum tímabilum í Íslandssögunni var atvinnuleysi landlægt og því erfitt að komast til vinnu.

Mér eru minnistæðar margar frásagnir góðra vina minna í hópi eldri borgara vestur á Ísafirði af lífsbaráttunni norður á Ströndum, í Jökulfjörðum, á Snæfjalla- og Langadalsströnd og víðar í Djúpinu, hvort heldur það var á nesjum eða inni í fjörðum. Þar bjuggu tugir ef ekki hundurðir manna á litlum landsskikum sem löngu eru komnir í eyði í dag. Hve léttvæg eru ekki okkar vandamál samanborið við þá ströngu lífsbaráttu sem menn máttu heyja á þeim slóðum í þá daga og annars staðar á landinu.

Vandamálin léttvæg í dag

Vandamálin okkar virðast harla léttvæg í því sambandi og þó sýna tölur og rannsóknir sem gerðar hafa verið að hamingjustuðullinn svo kallaði hefur færst harla lítið upp á við í takt við aukin lífsgæði. Raunar sýna slíkar rannsóknir víðsvegar um heiminn hið sama. Eftir að ákveðnum lífsgæðum er náð virðist litlu breyta þótt auðurinn vaxi og margfaldist – aðspurt neita flestir því að þeir séu hótinu hamingjusamari.

Og nú þegar við hefjum jólaundirbúninginn formlega felst vinna okkar ekki í því að afla nauðþurfta fyrir hátíðina stóru eins var hér forðum. Aðventan, jólafastan, er heldur ekki sá tími andstæðu við jólin eins og áður var. Nei, aðventan er frekar upphitunartími þessa dagana. Upphitun í veisluhöldum og velgjörðum við okkur og aðra. Hverjar eru þá áhyggjur okkar á þessari aðventu?

Vandamálin ólík í dag

Jú, nú hefst vandasamt tímabil þar sem við þurfum að finna gjafir handa þeim sem allt eiga. Þetta er ekki lítill vandi. Lífsgæðaskorturinn er svo fjarlægur okkur að næsta ómögulegt er að finna nokkurn hlut sem nokkurn mann skortir nú til dags. Hafið þið komið inn í herbergi íslenskra barna? Þar skortir fyrst og fremst gólfplássið svo ríkulega eru þau búin öllum leiktækjum sem nöfnum tjáir að nefna. Og sjálf erum við svo kyrfilega hlaðin varningi að þar er erfitt að bæta nokkru við.

Skortur

Er skorturinn þá að baki og allt til alls? Nei, svo er ekki. Og þar sem hér kemur saman þessi góði hópur langar mig að nota tækifærið og ræða við ykkur um mikilvægi þess að miðla góðum gildum til samfélagsins. Þetta er að mínu mati eitt mikilvægasta hlutverk kirkjunnar og þá um leið okkar allra sem fyllum þann fríða flokk. Kirkjan er jú fólkið allt sem henni tilheyrir, ekki bara húsið og starfsfólkið. Við öll sem erum skírð til kristinnar trúar berum ríkar skyldur í þessum efnum. Sú vinna hefur ekki síst gildi nú þegar aðventan gengur í garð.

Er skorturinn þá að baki og allt til alls? Nei, við þekkju neyðina í samfélagi okkar. Því þótt margir hafi of mikið eru þeir líka til sem ekki eiga neitt og þurfa aðstoð okkar. Og systur okkar og bræður á erlendri grundu reiða sig á stuðning okkar.

Hrynjandi kirkjuársins

Þetta er upphaf kirkjuársins sem stendur að vissu leyti til hliðar við sjálft almanaksárið. Þessi dagur kallar fram ákveðnar hugrenningar hjá okkur í kirkjunni. Á þessum degi lesum við frásögn helgrar ritningar af því þegar Kristur reið inn í borgina helgu, hógvær á asna og hugleiðum á sama tíma með hvaða hætti hann kemur inn í líf okkar. Við upphaf hvers kirkjuárs hugleiðum við þessa frásögn og leitumst við að framkalla það hugarfar sem hæfir best undirbúningnum fyrir helga jólahátíð.

Já, þetta gerum við á hverju ári og kirkjuárið hefur einmitt yfir sér þá hrynjandi sem kallar á endurtekningu. Þetta síast og út í samfélagið. Þetta er tími hefða. Þetta er tími minninga. Þetta er tíminn þegar fortíðin heilsar upp á okkur með margvíslegu móti. Og endurtekningin talar inn í þetta umhverfi. Því við erum einu sinni þannig úr garði gerð að góð vísa verður ekki of oft kveðin og þegar við tölum um að miðla góðu gildismati til barnanna í þessu samfélagi þá þarf að halda stöðugt vöku sinni og slaka ekki á í neinum efnum.

Afi og amma mikilvæg

Þessi hópur sem hér kemur saman gegnir þar grundvallarhlutverki. Heyrt hef ég fræðimenn á sviði þróunar tala um það sem eina af forsendum þeirrar framþróunar sem maðurinn hefur náð í árþúsundanna rás hvernig samfélagsgerðin bauð upp á það að börnin fengu stórbætta kennslu umfram það sem tíðkaðist annars staðar í ríki náttúrunnar. Hvaðan kom það nám? Ekki frá foreldrunum sem voru í óðaönn að heyja lífsbaráttuna. Móðirin að koma nýjum einstaklingum í heiminn og faðirnn að afla fæðu. Nei, samkvæmt þessum ágætu fræðimönnum voru það afinn og amman sem gengdu þar mikilvægu hlutverki.

Hvað var það sem þau miðluðu? Jú, þau fluttu áfram lærdóm kynslóðanna, verklagið, kunnáttuna, sögurnar og söngvana sem samfélagið átti. Og ekki síður hitt hvaða mælikvarðar voru á hið góða og eftirsóknarverða. Siðalærdóminn sem átti eftir að þróast og ná hámarki í kenningum Jesú Krists.

Jólagjöfin stóra

Jólagjöfin stóra sem við getum fært til komandi kynslóða er sú að miðla þessum gildum. Við megum svo sannarlega flytja áfram þann boðskap sem borinn var uppi í fátæklegum umbúðum og í öllu því látleysi sem við þekkjum. Frelsarinn kom á asna inn í borgina helgu. Hann var lagður í jötu lágt. Umbúðirnar og umgjörðin eins hógvær og hugsast getur en innihaldið svo ríkulegt. Sjálfsagt öfugt við reynslu okkar í samtímanum.

Hlutverk okkar er mikið og verkefnin eru ærin. Við þurfum að miðla þeim boðskap og halda honum lifandi sem Kristur færði fram í orðum sínum og verkum. Að sýna náunganum kærleika og leggja sig fram um að bæta kjör hans. Að sjá hið góða í hjarta hvers manns og bæta þar með afstöðu hans og líðan. Að styðja þann sem á um sárt að binda og vera með þeim sem er einmana og óstuddur í erfiðum heimi.

Sjá konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og lítillátur – segir í ritningartexta dagsins. Og við vitum öll hvernig konunugurinn birtist okkur á öllum tíma – eða hvernig lýsti hann því sjálfur? Allt það sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það gjörið þér mér.