Foreldrar réðu fermingaraldrinum

Foreldrar réðu fermingaraldrinum

Foreldrar réðu fermingaraldrinum
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
16. mars 2017

Fermingin hafði meiri áhrif á menntun þjóðarinnar en flest annað í aldanna rás og var lengi próf í læsi og kunnáttu barnanna sem afmarkaði fermingaraldurinn.

Lúterska siðbreytingin á 16. öld var menningarbylting sem boðaði náið samfélag Guðs og manns. Kirkjan var svipt valdinu yfir Guði og náðargæðum hans. Við tók frelsi einstaklingsins að nálgast Guð og þiggja náð hans og blessun. Guð mætti manninum í lifandi trú. En þá þurfti fræðslu orðsins í þekkingarleit mannsins um lífið og trúna. Altarisgangan og skírnin eru sakramenti kirkjunnar og fólkið varð að hafa vitund um hvað í þeim athöfnum felst, enda er skírnin grunnur fermingarinnar.

Þjóðin var ólæs og því var alþýðufræðsla sett á oddinn með siðbreytingunni og í forgangi að fólkið lærði að lesa og sérstaklega börnin. Enginn greinarmunur var gerður á stúlkum og drengjum eins og tíðkaðist gjarnan í karlvæddri veröld aldanna. Þá voru engir barnaskólar og varð því hlutverk kirkjunnar að bera ábyrgð á fræðslunni, foreldrar sáu um að börnin lærðu, en prestarnir höfðu tilsjón á hendi og hjálpuðu til m.a. með reglulegum húsvitjunum. Fermingin fékk því fljótlega þann sess að verða nokkurs konar próf á stöðu barnsins á fræðsluvegi sínum. Svo þróast þetta síðar með almannarómi að vera tekinn í fullorðinna manna tölu í fermingunni sem heyrist sjaldnar núna en fyrir nokkrum áratugum.

Fermingaraldurinn fór því strax að miðast við læsi barnsins og hvenær það hefði náð þroska til þess að öðlast nægan skilning á grundvallaratriðum trúarinnar. Það kom þó fyrir, að börn voru fermd ólæs, og þrátt fyrir að prestar fengju bágt fyrir hjá yfirvöldum. Gamlar tilskipanir kváðu á um 14-15 ára fermingaraldur og segja má að hafi verið í gildi til ársins 1954, þrátt fyrir að 13-14 ára aldurinn hafi löngu áður verið orðinn almennur siður. Fyrrum kom fyrir að börn voru fermd allt niður í 8 ára aldur, en til þess var mælst að þau hafi a.m.k. náð 12 ára aldri til að hafa nægan þroska til að skilja.

Foreldrar réðu í raun mestu um fermingaraldurinn og létu vita þegar börnin voru tilbúin til fermingar. Þegar nær er skoðað um þróun fermingaraldurs í gegnum tíðina, þá hefur hið nána samráð foreldra og presta verið traust og hefðin svo byggst á því. Einnig hefur almennur vilji fólksins óskað eftir að jafnaldrar fermist saman, enda samfélagshátíð í byggðarlaginu á fermingardegi. Góð sátt hefur ríkt um fermingaraldurinn. Þó heyrast raddir um að hækka aldurinn, ekki á meðal barnanna eða foreldra þeirra, heldur frekar á meðal þeirra sem vilja hafa vit fyrir foreldrum um uppeldi barnanna og telja börnin ekki nægilega þroskuð til að taka ákvörðun um trú sína. En börnin hlakka til að fermast og eru vel undirbúin á fjórtánda ári til að gera það.

Fermingin er stór tímamót fyrir barnið og fjölskyldu þess og marka margvísleg þáttaskil í vitund og sið íslenskrar menningar. Þar er trú, von og kærleikur í fyrirrúmi um leið og við erum í fótsporum genginna kynslóða og ræktum sið sem reynst hefur lífinu vel. Þessi pisill fyrst í Austurglugganum 16. mars 2017