Skósveinarnir, Grú og Jesús

Skósveinarnir, Grú og Jesús

Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
08. júlí 2015

Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim. Þeir eru gulir og sætir og næstum hnöttóttir, sumir með eitt auga, aðrir með tvö og þeir bralla og babla hver í kapp við annan.

Þegar við kynnumst þeim í fyrstu kvikmyndinni eru skósveinarnir þjónar Grú og þeir aðstoða hann fyrst við glæpi og spellvirki og síðar við gæskuverk af ýmsum toga. Í kvikmynd dagsins fáum við að kynnast forsögunni. Við sjáum hvernig þeir hafa verið hluti af sögu lífs á jörðu frá upphafi og hafa alla tíð þjónað sterkasta leiðtoganum. Jafnan þeim sem er verstur allra. Kannski er það líka háttur heimsins að upphefja þann sem valdið hefur.

* * *

Morgunlestur þessa miðvikudags (Róm 13.8-10) fjallar einnig um samband fylgjenda og leiðtoga. Við lesum:

„Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“

Jesús kallar okkur til fylgis við sig. En ekki þó til að vera gagnrýnislausir skósveinar heldur til að beita huga og hjarta í þágu hins góða. Til uppbyggingar. Til að elska náungann. Það er hið sanna og eina lögmál sem okkur ber öllum að fylgja. Guð gefi okkur styrk sinn til þess og Guð gefi okkur einnig gleði skósveinanna hans Grú í þeirri þjónustu.