2022

2022

Þá var það kannski einhver stærri kraftur, sem var þar með okkur í verki.

Jes. 40:9-11

2. Pét. 1:19-21

Lk. 3:1-9 (10-14) 15-18

 

Biðjum:

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

2022

 

Hvað eru mörg ár síðan Jesús fæddist?

 

Ég hef spurt nokkur börn þessarar spurningar síðustu dagana. Þið þekkið auðvitað svarið, er það ekki?

 

Jú það eru 2022 ár.

 

Við teljum árin okkar frá fæðingu Jesú í þennan heim, það eru s.s. 2022 ár síðan.

 

Hvernig var það áður en Jesú fæddist?

 

Filippus bróðir hans

 

Við sjáum hvernig fyrirkomulagið var áður en Jesú fæddist. Við sjáum það einfaldlega í texta guðspjallsins í dag. Þar segir m.a.: „Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjörðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, ...“

 

Árin voru jú talin frá þeim sem réði, frá valdhafanum. Hvað var Tíberías búinn að vera lengi keisari, jú fimmtán ár. Svo er þarna rakið hverjir ráða yfir hverju, og þarna eru m.a. Heródes og bróðir hans Filippus og einnig Pontíus Pílatus, sem er getið í postullegu trúarjátningunni hjá okkur, sem þátttakanda í aftöku Jesú á páskum.

 

Svo þegar næsti tók við, þá var byrjað að telja upp á nýtt.

 

Valdhafar

 

Við lesum þetta og sjáum til dæmis í Konungabókunum tveimur í Gamla testamentinu. Þar er haldið utan um gang tímans í tengslum við valdaár hvers konungs. Það segir m.a.: „Rehabeam, sonur Salómons, varð konungur í Júda þegar hann var fjörutíu og eins árs að aldri. Hann ríkti sautján ár“. Svo segir stuttu síðar: „Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak, konungur Egypta, í herför gegn Jerúsalem.“ Viðmiðið var valdatíminn, upphaf og stundum aldur konungsins. Svo var einnig tekið fram hvort konungarnir voru réttlátir eða hvort þeir nýttu stöðu sína til að nýðast á öðrum. Mikið er um svona vísanir, eins og í textanum sem ég las, þ.e.a.s. um hernað og átök. Almenningur lifði því gjarnan við átök og erfiðleika, óvissu og ófrið.

 

Vonin

 

Vonin sem lifði hins vegar meðal fólksins var að friður kæmist á. Að framundan væri tími þar sem réttlæti og friður myndi ríkja.

 

Einhver sá konungur átti að fæðast sem myndi koma þessum friði á og vísuðu spámenn Gamla testamentisins til þess. Til dæmis Jesaja í texta dagsins þar sem segir m.a.:

 

„Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu en leiða mæðurnar.“

 

Þetta er falleg mynd sem Jesaja teiknar upp í þessum orðum, mynd af jafnvægi og ástandi friðar og umhyggju, uppbyggingar og framtíðar.

 

Falleg orð, en þjóðin lifði mörg árhundruð við einmitt andstæðu þessa, þ.e. átök og erfiðleika og þess vegna vænti fólk hins sigrandi konungs í aðdraganda fæðingar Jesú.

 

Auðmýkt og mildi

 

Raunin varð hins vegar sú að Jesús var ekki sá sigrandi konungur á hvítum hesti, sem margir væntu. Hann kom ekki í heiminn til að berjast með hnefum og vopnum gegn ofríki og illsku. Hann vísaði mannkyni nýja leið, auðmýktar og mildi.

 

Jóhannes

 

Guðspjall dagsins úr Lúkasarguðspjalli fjallar um Jóhannes skírara, frænda Jesú. Með orðum sínum vísaði hann í Jesaja spádómsbók og sagðist vera: „Rödd hrópanda í eyðimörk...“ eins og Jesaja nefndi. Þ.e.a.s. hann sagðist vera sá sem væri kominn til að undirbúa komu friðarkonungsins.

 

Og það var það sem hann gerði. Hann leiðbeindi mannfjöldanum. Hann leiðbeindi tollheimtumönnunum. Hann leiðbeindi hermönnunum. Réttlæti og friður var boðskapur hans. „Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ Og við tollheimtumennina sagði hann: „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“ Og við hermennina sagði hann: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið ykkur nægja mála ykkar.“

 

Páskar og jól

 

Þessi texti um Jóhannes er frá því að Jesús er orðinn fullorðinn. Við rifjum þennan texta upp í kirkjum heimsins í aðdraganda fæðingar Jesú, því þessir textar vísa okkur á það, hver hann er.

 

Jesús fæddist og ólst upp. Fáar frásögur af uppeldi hans eru varðveittar í Biblíunni. Ein er til sem segir frá Jesú tólf ára á ferð með foreldrum sínum í Jerúsalem á páskum. Þar týndist hann, þ.e.a.s. foreldrarnir fundu hann ekki heila helgi, og fundu hann ekki fyrr en þau leituðu í musterinu. Þar var hann þá að fræða öldungana, einungis tólf ára gamall.

 

Svo eru til textar, sem ekki eru varðveittir í Biblíunni, textar úr öðrum guðspjöllum og ritum. Ein falleg frásaga er til af Jesú er hann gefur leirfuglum líf. Altaristaflan í Ísafjarðarkirkju er grundvölluð á þeirri frásögu.

 

Guðspjallatexti dagsins fjallar s.s. um það er Jóhannes bendir til Jesú og segir mannfjöldanum að þarna sé friðarkonungurinn kominn. Í kjölfarið hefst Jesú handa við að boða Guðsríkið, skíra og kenna.

 

Jólin og páskarnir haldast þannig í hendur, þar sem lífið er kjarnaatriði beggja þessara stórhátíða. Fæðingin og upprisan. Jesús fæddist í þennan heim til að kenna okkur nýja leið til að lifa lífinu, leið auðmýktar og mildi, leið kærleika og friðar. Þar sem hann á páskum lagðist í duftið en reis á ný til lífsins.

 

Undur

 

Enda virðist mikill sannleikur fólgin í þeim lærdómi. Heimurinn virðist ofinn úr slíkum vefnaði að ef maðurinn krýpur í duftið, þá er hann reistur við. Hinir síðustu verða fyrsti og hinir fyrstu síðastir. Stundum virðist boðskapurinn svolítið öfugsnúin miðað við mælikvarða heimsins. En þetta þekkja þau kannski best sem glímt hafa við fíkn hvers konar. Þar eru þessi lögmál hvað sýnilegust, þar sem leiðin að upprisu liggur í gegnum það að játa sig sigraðan.

 

Sannleikur kristninnar er ekki aðeins fólginn í þessum mögnuðu frásögum, heldur sjáum við staðfestingu þeirra sanninda í lífi okkar miðju. Við sjáum til dæmis staðfestingu þeirra sanninda í lífi þeirra sem feta þessa slóð Jesú og eignast með því öll þau undur sem hann veitir. Kannski þekkir þú slíkt á eigin skinni, af eigin raun.

 

Teljum daga okkar

 

Það er því ekki tilviljun að við skulum telja okkar daga frá fæðingu Jesú, því hann getur enn í dag, sem og fyrr og síðar, verið okkur sá friðarkonungur sem við þurfum á að halda. Sá friðarkonungur sem býður okkur samfylgd í lífinu, sem býður okkur að gera líf okkar ríkara en við getum öðlast með öðrum hætti.

 

Samfylgd

 

Og svo er það mælikvarðinn.

 

Hafið þið tekið eftir því að alltaf er vísað til náungans. Hvernig komum við fram við þá sem minna mega sín. Hvernig breytum við þegar við eigum gnægtir? Gefum við með okkur? Leggjum við okkur fram um að setja okkur í annarra spor? Gefum við þurfandi?

 

Það eru verkefnin. Þetta verður svo augljóst um jólin. Jólin laða það fram í okkur að við viljum að allir séu með, enginn sé útundan. Það er einmitt það sem kristnin fjallar m.a. um.

 

Djúpur sannleikur um samfylgd 

 

Og svo er það einnig hinn djúpi sannleikur sem kynslóðirnar hafa miðlað um eðli lífsins, upphaf og endi, endi og upphaf. Því það virðist einhvern veginn vera svo að það sé ávallt nýtt upphaf og ný tækifæri framundan, þó svo ýmislegt geti verið svart þá stundina. Þegar sundin öll virðast lokuð.  

 

Þeir textar sem við byggjum starf kirkjunnar á, eru lærdómar kynslóðanna um mildi, kærleika, góðvild og gæsku, en einnig um það að það er Guð sem vakir yfir, verndar og blessar, og að það sé raunverulega til Guð, sem lætur sig varða, og sérstaklega þegar sorgin kveður dyra, þá vill Guð einmitt vera þar, með okkur. 

 

Eins og Sigurbjörn heitinn Einarsson biskup setti svo myndrænt fram í einum sálmi, sem finna má í hinni nýju sálmabók, sem hljóðar svo: 

 

Mig dreymdi mikinn draum: Ég stóð 

með Drottni háum tindi á 

og horfði yfir lífs míns leið, 

hann lét mig hvert mitt fótspor sjá. 

 

Þau blöstu við. Þá brosti hann. 

Mitt barn, hann mælti, sérðu þar, 

ég gekk með þér og gætti þín, 

í gleði og sorg ég hjá þér var. 

 

Þá sá ég fótspor frelsarans 

svo fast við mín á langri braut. 

Nú gat ég séð hvað var mín vörn 

í voða, freistni, raun og þraut. 

 

En annað sá ég síðan brátt: 

Á sumum stöðum blasti við 

að sporin voru aðeins ein. 

Gekk enginn þá við mína hlið? 

 

Hann las minn hug. Hann leit til mín 

og lét mig horfa í augu sér: 

Þá varstu sjúkur, blessað barn, 

þá bar ég þig á herðum mér. 

 

Stundum er það einmitt þannig að þegar við horfum til baka og sjáum tímabilin, þar sem skóinn hefur kreppt í lífinu, út af sorg eða öðrum áföllum, þá skiljum við kannski ekki endilega hvernig við komumst áfram lífsveginn. Þá er það kannski einhver stærri kraftur, sem var þar með okkur í verki. 

 

Aðventan og jólin fjalla um allt þetta. 

 

Megi aðventan vera þér tími gæfu og eftirvæntingar, undrunar og uppbyggingar. 

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. 

 

Takið postullegri kveðju: 

 

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


Grensáskirkja

þriðji sunnudagur í aðventu, 11. desember 2022