Heimafengin hamingja

Heimafengin hamingja

Flestir Íslendingar eiga eitthvert skyldmenni, sem gengur að altarinu og fermist á þessu vori. Hvað skyldi þetta unga fólk þrá mest? Hluti, umbúðir eða eitthvað annað? Eitt af verkefnum fermingarbarna í Neskirkju var að vitja innri manns og skrifa niður langanir og máttu skrifa niður allt að fimm atriði. Sitthvað kúnstugt kom fram.

Flestir Íslendingar eiga eitthvert skyldmenni, sem gengur að altarinu og fermist á þessu vori. Hvað skyldi þetta unga fólk þrá mest? Hluti, umbúðir eða eitthvað annað? Eitt af verkefnum fermingarbarna í Neskirkju var að vitja innri manns og skrifa niður langanir og máttu skrifa niður allt að fimm atriði. Sitthvað kúnstugt kom fram. Nokkur vildu leggja fyrir sig áhættuleik og hasaríþróttir, þrjú vonuðust til að verða mjó og sæt. Hestar og hundar voru ofarlega á óskalista nokkurra. Nokkur stundu upp þeirri ósk, að þau mættu njóta meiri ástar síns eigin fjölskyldufólks. Slíkt stingur í hjartað. Eiga ekki fermingarbörn rétt eins og allir menn rétt á elsku síns fólks?

Hefðbundin draumastörf kynjanna eru á undanhaldi og menntunareinbeitnin skýr. Engar flugfreyjur framtíðar eru í hópnum og engir alþingismenn heldur, alla vega ekki í svörunum. En atvinnumenn og afreksmenn í íþróttum verða 39 í þessu draumaliði Nessóknar. Sautján stefna á frama í kvikmynda-, leikhús- og sjónvarps-geiranum. Sjö verða læknar ef allt gengur eftir og fimmtán listamenn í ýmsum greinum, en engir prestar! Sjö vilja verða góðar manneskjur og er það ekki dásamleg stefna fyrir lífið? Nokkur vilja búa erlendis um tíma og önnur kvíða námi.

Af liðlega hundrað fermingarbörnum vildu þrjátíu og tvö verða rík. En samfara fjársókninni kemur líka fram hjá þeim sterk umhyggja gagnvart öðrum börnum þessarar jarðar. Sami fjöldi og sækir í ríkidæmi vill, að allir jarðarbúar hafi nóg og fái fullnægt grunnþörfum sínum og friður verði tryggður. Siðferðis-vitund er því greinileg.

En hvað skyldi vera oftast nefnt? Það er hið góða líf: Góð fjölskylda, góður maki og hamingjan. Um 60% tjá þá löngun að fjölskyldan verði hamingjusöm, öllum líði vel og að í framtíðinni eignist þau góðan maka og gjöfula fjölskyldu: “Mig dreymir um góða fjölskyldu.” “Mig dreymir um að vera hamingjusöm í framtíðinni.” “Ég vil verða hamingjusamur.” “Mig dreymir um, að vera hamingjusöm til æviloka.” “Mig dreymir að eignast góðan mann.”

Fermingarbörn 2006 eru fjölskyldu- og hamingju-fólk. Draumar þeirra varða raunveruleikann. Unglingarnir okkar þrá fremur góða fjölskyldu, góða menntun, góða framtíð, hamingju en dót. Þau skrifa það sjálf. Við ættum því ekki að kaupa gleðina heldur iðka hana. Það er besta fjárfestingin. Hjal í næði við eldhúsborðið verndar bernskuna. Hamingjan er heimafengin.

Þessi pistill i birtist í ferminarblaði Morgunblaðsins 2006.