Vörn er ekki í boði!

Vörn er ekki í boði!

Það er gaman á gleðidögum eftir sumarpáska. Gras er orðið svo grænt, tré laufgast svo sér mun dag frá degi, fuglasöngur ómar, kvöldin eru löng. Upprisan verður áþreifanleg. Við á mölinni förum þó illu heilli á mis við sauðburðinn.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
15. maí 2011

Sumargult

Það er gaman á gleðidögum eftir sumarpáska. Gras er orðið svo grænt, tré laufgast svo sér mun dag frá degi, fuglasöngur ómar, kvöldin eru löng. Upprisan verður áþreifanleg. Við á mölinni förum þó illu heilli á mis við sauðburðinn.

Fagnaðarerindið blæs til sóknar

Milli upprisu og uppstigningar birtist Kristur lærisveinum sínum og staðfesti þannig undrið sem orðið var. Í lok Markúsarguðspjalls kveður hann þá svofelldum orðum samkvæmt gömlu biblíuþýðingunni: „Farið út um allan heiminn og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu...“. — Nýja þýðingin er vissulega ekki jafndramatísk! Síðan fylgir stórbrotið fyrirheiti: „En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir."

Við lítum vissulega flest svo á að þessi stórmerki eigi ekki við okkur. Allt um það flytur kirkja samtímans sama gleðiboðskap um sigur lífs yfir dauða, réttlætis yfir ranglæti. Slík boð verða ekki flutt á trúverðugan hátt í vörn. Gleðiboðskapur sækir alltaf á. Að öðrum kosti skortir gleðina. Gleðidagarnir verða þá framhald föstunnar. Hugsanlega hefur íslenska þjóðkirkjan festst þar. Að undanförnu hefur hún spilað varnarleik.

Iðrun en ekki vörn

Vissulega hefur þjóðkirkjunni orðið á í ýmsum efnum undanfarin ár. Það á ugglaust við um leiðtoga hennar, starfsmenn, stofnunina sjálfa og einstaka söfnuði. Á vettvangi kirkjunnar hafa jafnvel verið framin brot. Við slíkar aðstæður er vörn síst í boði. Þegar svo stendur á ber kirkjunni að játa syndir sínar, iðrast, sýna yfirbót í verki og leita fyrirgefningar.

Í iðrun felst ekki vörn heldur hlífðarlaus sjálfsskoðun, gagnrýnið endurmat og vilji til að byrja upp á nýtt. Iðrun er heiðarleg bæn um fyrirgefningu og tilraun til að endurheimta trúverðugleika. Vörn felur aðeins í sér krampakennda tilraun til að halda áfram á sömu braut. Slíkt er ekki samræmanlegt fagnaðarerindinu og sæmir ekki evangelískri kirkju sem kennir sig við það.