Athugasemdir við tillögur Mannréttindaráðs

Athugasemdir við tillögur Mannréttindaráðs

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana.
fullname - andlitsmynd Gísli Jónasson
07. desember 2010

1. Inngangur

Skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að framförum á sviði mannréttinda hjá borginni og hefur verulegur árangur náðst í auknu kynjajafnrétti, í réttindum samkynhneigðra og málefnum innflytjenda. Mannréttindastefnan kveður einnig á um að ekki skuli mismuna borgarbúum eftir lífs- og trúarskoðunum þeirra.

Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við þessa málsgrein í inngangi að öðru leyti en því, að þær reglur sem settar eru fram í plagginu virðast einmitt í veigamiklum atriðum ganga gegn því markmiði sem fram er sett í niðurlagssetningunni. Þ.e. að ekki skuli mismuna borgarbúum eftir lífs- og trúarskoðunum þeirra. Hér er auðvitað um mjög alvarlega athugasemd að ræða og verða því leidd fram ýmis rök fyrir henni í þeim athugasemdum sem gerðar eru við einstaka liði hér að neðan.

Árið 2007 kom út skýrsla Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla. Í hópi skýrsluhöfunda voru fulltrúar frá öllum hlutaðeigandi aðilum; skólastofnunum borgarinnar, Biskupsstofu og Alþjóðahúsi. Ein af megin niðurstöðum hópsins var sú að móta þyrfti skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.

Mannréttindaráð Reykjavíkur leggur því til að eftirfarandi reglur gildi um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög:

Í nefndri skýrslu starfshópsins kemur vissulega fram, að mikilvægt sé að móta starfsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa og setur hópurinn fram tillögur að slíkum reglum og viðmiðunum (sjá bls.8-9), sem auðvelt ætti að vera að ná víðtækri sátt um, enda munu þær í flestu vera býsna nálægt þeim venjum sem skapast hafa í þessum samskiptum á liðnum árum. Þar er raunar aðeins að finna eitt atriði, sem ekki virðist fá staðist þær viðmiðanir sem almennt eru viðurkenndar og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur staðfest með dómum sínum, eins og vikið verður að hér á eftir. (Sjá umfjöllun um lið b).

Það vekur þessvegna athygli, að þær tillögu, sem settar eru fram af Mannréttindaráði, eru um margt ólíkar tillögum starfshópsins. Virðist ljóst, að ráðið sækir ekki hugmyndir sínar um slíkar reglur nema að hluta til til þessarar skýrslu og um sumt er beinlínis gengið þvert gegn þeim tillögum sem starfshópurinn lagði fram.

Þá er það álitamál, hvort tillögur Mannréttindaráðs samrýmast gildandi lögum um leik- og grunnskóla og aðrar réttarheimildir sem eiga við málefni það, sem hér er til umfjöllunar. Virðist því full þörf á því að fá úr því skorið með fullnægjandi hætti hvort með þessum reglum, yrðu þær staðfestar, væri ekki um að ræða óeðlileg og óheimil afskipti af kennslu, námsskrá og öðrum innri málum skólans, sem ekki heyra undir valdsvið sveitarfélagsins. 2. Tillögur að reglum

a) Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni. Bænahald og aðrar trúariðkanir með börnum eru hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk borgarstarfsmanna.

Ekki er tilefni til að gera athugasemdir við þessa grein, svo framarlega sem reglurnar séu, eins og hér er sagt, í samræmi við námsefni og gildandi aðalnámskrá. Á því virðist hinsvegar vera misbrestur eins og bent verður á í umfjölluninni hér að neðan.

b) Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi innan veggja frístundaheimila, leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. (Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripum, fjölfölduðum trúar- og lífsskoðunarritum, bókum, auglýsingum, hljóðritum, prentmyndum og kvikmyndum.)

Hér er svo mörgum atriðum og mismunandi hugtökum steypt saman í eina grein, að erfitt að átta sig á tilgangi hennar og framkvæmd.

Í umræðunni um tillögur Mannréttindaráðs hafa ákveðnir aðilar, m.a. innan ráðsins, tjáð sig varðandi efni fyrstu setningar þessarar greinar með þeim hætti, að ætla mætti að hér sé um stórfellt vandamál að ræða og að sú breyting hafi orðið á síðustu árum, að prestar, eða aðrir fulltrúar trúar- eða lífsskoðunarfélaga séu stöðugt inni á gafli í skólunum og stundi þar margvíslega starfsemi. Samkvæmt könnun starfshópsins frá 2007 er það hins vegar alls ekki raunin í grunnskólunum þar sem lítið er um heimsóknir, en eitthvað mun hinsvegar samkvæmt könnuninni vera um heimsóknir í leikskóla. En slíkar heimsóknir falla þá raunar yfirleitt undir það sem nánar er skilgreint undir lið c) í tillögum Mannréttindaráðs. Og skal því á það bent, að samkvæmt ítarlegu lögfræðiáliti Dóru Guðmundsdóttur, Cand.jur,LL.M, sem unnið er fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið og birt á heimasíðu ráðuneytisins, brjóta slíkar heimsóknir hvorki í bága við grunnskólalög, aðalnámsskrá leikskóla né ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) (Sjá t.d. bls. 33). Er rétt að halda þessu atriði til haga, þar sem öðru hefur ítrekað verið haldið fram í umræðunni um þessar tillögur. Með orðalagi þessarar greinar virðist svo einnig vera vikið að því, að í sumum skólum hafa fulltrúar kirkjunnar fengið að koma til að kynna starfið eins og t.d. að auglýsa, að nú hafi barnakórinn hafið starf sitt eða sunnudagaskólinn, 6 til 9 ára starfið, Tíu til tólf ára starfið eða æskulýðsfélagið. Í því sambandi skal þá á það bent, að slíkt er ekki trúarleg boðun og því síður trúarleg iðkun, heldur einfaldlega kynning á félagslegu starfi. Og verði slíkt bannað innan skólans þá hlýtur það að leiða til þess, að jafnframt verði að banna innan skólans alla kynningu aðra á félagslegu starfi, hvaða tegundar sem það svo er. Annað væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ýmsum mannréttindaákvæðum. Ef kynning á hvers konar æskulýðsstarfi eins og t.d. íþróttafélögum eða skátum er heimil, þá eru m.ö.o. engin rök fyrir því að banna kynningu á kirkjulegu starfi. Eða hafa börn og foreldrar ekki annars rétt á að vita hvað í boði er fyrir börnin? Og hafa börnin og foreldrar ekki rétt til að velja sjálf úr þeim tilboðum sem til boða eru á vettvangi æskulýðsstarfs í borginni? Eigi með þessari grein, að koma á slíku banni innan skólans, sem aðeins nái til kynningar á kirkjulegu og trúarlegu félagsstarfi, þá er um að ræða ofríki undir merkjum misskilins "trúfrelsis". Því trúfrelsi er m.a. fólgið í því að fá að velja. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á að tryggja rétt barna til að velja, félagslega og trúarlega. Ef stöðva á dreifingu upplýsinga frá trúfélögum (kirkjunni) ber því að stöðva slíkt frá öllum aðilum öðrum. Og hver er bættari með því? Og því skyldi þá ekki gleymt, að slíkt bann hlyti þá raunar líka að ná til félagsstarfs ÍTR. Annað er hreinlega ekki í boði skuli jafnræðis, jafnréttis og mannréttinda gætt. Með slíku banni væri þá líka verið að taka völdin af nærsamfélaginu og gera skólastjórnendur og foreldra ómynduga, en góð hefð hefur skapast í flestum hverfum borgarinnar fyrir samvinnu þeirra aðila, sem koma að félagsmálum barna og ungmenna og þar með talið kirkju og skóla. Í þessu sambandi skal það áréttað, að sú skoðun, sem sett hefur verið fram í umræðunni, m.a. af nokkrum talsmönnum Mannréttindaráðs, og sem virðist endurspeglast í þessari grein, að um "grundvallarmun á starfi lífsskoðunarfélags og tómstundastarfi sé að ræða", fær ekki staðist. Þetta kemur skýrt fram í mannréttindasáttmálum og hefur verið staðfest í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. (Sjá t.d. 26 gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, 14. og 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og greinargerð með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 7442/29. júní 2007)

Það er því m.ö.o. ljóst að það væri bæði mannréttindabrot og brot á jafnræðisreglu, að ætla að útiloka aðkomu kirkjunnar að skólanum að þessu leyti, nema þá að aðkoma og kynning allra annarra aðila verði þá jafnframt bönnuð. Þar erum við þá eins og áður sagði t.d. að tala um íþróttafélög, Rauðakrossinn, Amnesty, skátanna og jafnvel ÍTR. Er það slík dauðhreinsun á sambandi skóla og samfélags sem Mannréttindaráð óskar eftir? Slíkt er ekki mannréttindi heldur þöggun. Og þöggun er einmitt versta tegund innrætingar og í henni gætu vissulega verið fólgin mannréttindabrot. Mannréttindi felast hinsvegar í því, í þessu samhengi, að bjóða uppá verðuga valkosti og tryggja þannig rétt barna til að velja, félagslega og trúarlega. Undan þeirri ábyrgð og þeirri skyldu fær hið opinbera ekki vikið sér. (Sjá t.d. 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, MSE) Þá virðist orðalagi þessarar greinar einnig vera beint gegn afhendingu Gídeonfélagsins á Nýja testamentinu (NT) til skólabarna, þótt NT sé að vísu ekki getið sérstaklega, eins og var í fyrri tillögu ráðsins. Gideon félagið hefur dreift NT í grunnskóla í 60 ár, fyrst til 12 ára barna, en úthlutun til 10 ára barna er til komin á sínum tíma, vegna óska frá námstjóra í kristnum fræðum og trúarbragðafræðum, svo hægt væri að nota það til kennslu eins og ráð er fyrir gert í námskrá. Fulltrúar Gídeonsfélagsins eru við þessa afhendingu í kennslustofunni sem gestir skólans og er sem slíkir því ekki í trúboði. Hefur þessa atriðis einmitt verið sérstaklega gætt á síðustu árum. Uppfyllir heimsókn þeirra því öll skilyrði c) liðar í tillögum Mannréttindaráðs og er í fullu samræmi við aðalnámsskrá.

Það virðist hinsvegar stundum gleymast í umræðunni, að þótt NT sé vissulega trúarrit, þá er það um leið einnig ein af meginstoðum og sterkustu áhrifavöldum Evrópskrar menningar, þar með talið bókmenntir, myndlist, tónlist, heimspeki o.s.frv. Menningin, hvort sem er íslensk eða vestræn, verður því ekki skilin án þess. Og svo virðist það einnig hafa gleymst í umræðunni og undirbúningnum að þessum tillögum Mannréttindaráðs, að NT er einnig skv. námsskrá kennslugagn í kristinfræðikennslunni, eins og líka kemur skýrt fram í áðurnefndu lögfræðiáliti Dóru Guðmundsdóttur (sjá bls. t.d. bls. 23). Það er því ljóst, að ef Gídeonfélagið fær ekki áfram að leggja börnunum til NT, þá verður Reykjavíkurborg að sjá börnunum fyrir þessu námsefni. Annað væri brot á ákvæðum námskrár.

Í þessu sambandi má einnig benda á það, að í ritinu Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, sem gefið var út af Office for Democratic institutions and Human Rights og Organization for security and Co-operation in Europe er meðal annars hvatt til samstarfs menntastofnana og trúar- og lífsskoðanafélaga við gerð námskrár, námsefnis, kynningu á trúarbrögðum og notkunar á kynningarritum frá viðkomandi aðilum, að því gefnu að þau standist fræðilegt mál. Sömuleiðis er lögð áhersla á að trúfélög séu kynnt á forsendum þeirra sjálfra, þ.e. að sú mynd sem dregin er upp af því fyrir hverju þau standa svari til sjálfsskilnings viðkomandi trúfélags. Þá er lögð mikil áhersla á umburðarlyndi milli ólíkra trúar- og lífsskoðanahópa og að mismunur sé sýnilegur, svo hægt sé að temja nemendum virðingu fyrir einstaklingum sem hafa aðra lífsskoðun en þeir sjálfir. Og í því sambandi skal á það bent, að umburðarlyndi lærist ekki í tómarúmi eða með þöggun, eins og gæti orðið afleiðingin af tillögum mannréttindaráðs, yrði þeim hrint í framkvæmd.

Loks skal svo á það bent, að auðvitað er öllum foreldrum frjálst að hafna því að börn þeirra séu viðstödd afhendingu NT, að taka ekki við því eða þá að skila því aftur óski þeir ekki eftir því, við nánari athugun, að börn sín eigi slík rit. Þetta eru mannréttindi þeirra í þessu samhengi, en hins vegar ekki hitt, að þau geti með andstöðu sinni vegna eigin barna hindrað öll önnur börn í því að þiggja það að gjöf. Þessi grundvallarafstaða til mannréttinda kemur svo skýrt fram í þeim mannréttindasáttmálum sem við íslendingar höfum undirgengist og í túlkunum Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim, að það hlýtur að valda undrun að öðru skuli haldið fram í umræðunni hér.

Því er m.ö.o. hafnað í allri umfjöllun um mannréttindi, að það geti talist brot á mannréttindum að börn séu tekin út úr hópnum þegar meirihlutinn tekur þátt í einhverju á vegum skólans, sem ekki samræmist lífsskoðun þeirra. Það eru hinsvegar skýr mannréttindi þessara barna, að þau séu ekki neydd til þátttöku heldur séð fyrir verðugum valkosti. Þessi grundvallarafstaða varðandi þetta atriði kemur t.d. mjög skýrt fram í dómi Mannréttindadómstólsins í máli nr. 7442/29. júní 2007, þar sem norska ríkið var dæmt fyrir það að ætla að setja mjög þröngar skorður við því að börn gætu verið undanþegin fræðslu í trúarbragðafræðum og fyrir það að gæta ekki nógu vel að því að bjóða þeim verðuga valkosti sem óskuðu slíkrar undanþágu. Þeim málsrökum kærenda, að það væri mannréttindabrot að börn þeirra væru þannig aðgreind frá hópnum og þar með ”skilin útundan” eða ”mismunað”, var hinsvegar vísað frá. Enda er það grundvallaratriði allra mannréttinda, eins og áður er getið, að valfrelsi sé tryggt. Það teljast hinsvegar ekki mannréttindi mín, eins og sumir virðast álíta, að engin annar megi njóta þess, sem ég vil ekki njóta. Slík krafa flokkast hinsvegar fremur undir ofríki.

c) Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.
Um þetta er skýrt kveðið í námskrá og eru því ekki gerðar athugasemdir við þessa grein.
d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma skulu fyrst hefjast á grunnskólastigi og eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir og samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni. Fræðsla leikskólabarna um kristilegt siðferði og aðrar lífsskoðanir skal fara fram innan veggja leikskólans og vera á hendi leikskólakennara.
Um slíkar heimsóknir er fjallað í námskrá og námsefni grunnskólans og þar gert ráð fyrir slíkum vettvangsferðum í kynningarskyni til aukins skilnings og þekkingar. Er þetta í fullu samræmi við mannréttindasáttmála eins og skýrt kemur fram í áðurnefndu lögfræðiáliti Dóru Guðmundsdóttur, en þar segir m.a. á bls. 32: ”Þá er ekkert sem bannar að nemendur fari í heimsókn á staði þar sem trúariðkun fer fram, ef um er að ræða þátt í trúarbragðafræðslu eða öðru skólastarfi samkvæmt námskrá. Það verður því talið að það brjóti ekki gegn ákvæði 2. gr. 1. samningsviðauka MSE að kirkjuheimsóknir séu skipulagðar, t.d. síðasta dag fyrir jól fyrir þá sem það vilja.” ....... ” Þá er mikilvægt að slíkar fyrirætlanir komi fram í skólanámskrá og dagatali og rétt væri að skóli tilkynnti sérstaklega um fyrirhugaðar heimsóknir, með það fyrir augum að gefa þeim sem ekki kjósa að taka þátt í heimsókninni færi á undanþágu, án skýringa. Þá er mikilvægt að starfsfólk skóla sé tiltækt og námsefni eða annað skipulag tiltækt fyrir þá sem ekki kjósa að fara í kirkju.” Miðað við orðalagið í þessari grein er væntanlega enginn ágreiningur um slíkar heimsóknir hvað grunnskólann varðar. Það vekur hinsvegar nokkra furðu, að hér virðast, skv. tillögunni eiga að gilda aðrar og mun þrengri reglur um leikskólann og er erfitt að sjá rökin fyrir því. Virðist t.d. samkvæmt þessari grein eiga að taka fyrir kirkjuheimsóknir leikskólabarna fyrir jólin, sem hafa verið almennar og mjög vinsælar. Og sömuleiðis virðist eiga að taka fyrir allar heimsóknir á leikskólana. Fær þetta varla staðist þá mannréttindasáttmála sem við höfum undirgengist né heldur íslensk lög og reglur. Í þessu sambandi skal m.a. á það bent, að áður tilvitnuð ummæli Dóru Guðmundsdóttur eiga við um bæði skólastigin. Að auki kemst hún svo að því í lögfræðiáliti sínu, að svigrúm til útfærslu skólastarfsins í leikskólanum sé jafnvel meira en í grunnskólanum, bæði vegna ákvæða í aðalnámskrá hans og vegna þess að ekki er um skólaskyldu að ræða. En um þetta atriði segir hún m.a. á bls. 33: ” Að því er varðar reglulegar heimsóknir presta í leikskóla verður ráðið af aðalnámskrá leikskóla að þar sé ekki eins nákvæmlega markað hvernig námi og starfi skuli háttað. Leiðir það til meira svigrúms við útfærslu starfsins, en þó verður alltaf að gæta þess að gera foreldrum ljóst, í samræmi við ofangreind sjónarmið, að heimsókn trúfélaga standi fyrir dyrum, svo að foreldrar geti tekið afstöðu til þess hvort barn þeirra tekur þátt í slíkri samverustund. Þá verður að bjóða upp á annars konar fræðslu, og gæta þess að börn séu ekki ein, eða að skipta hópum upp, þannig að taka megi mið af óskum foreldra leikskólabarna, án þess að leiði til sérstakrar útilokunar eða aðgreiningar sem getur leitt af sér vanlíðan, sérstaklega hjá ungum börnum.” Í ljósi þessa hlýt ég því að mótmæla þeim hluta þessarar greinar sem varðar leikskólann. Það fortakslausa bann við samskiptum kirkju og leikskóla, sem hér er boðað, fær ekki staðist, þar sem með því væri, skv. dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins, brotið gegn rétti foreldranna skv. 2. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmálans, þar sem m.a. er lögð sú skylda á herðar hinu opinbera, í öllum ráðstöfunum er miða að menntun, að “virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun ....... sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.” Þetta ákvæði varðar nefnilega ekki bara mannréttindi minnihlutans, heldur líka, og ekkert síður, réttindi meirihlutans. Þetta atriði virðist gleymast í tillögu Mannréttindaráðs.
e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.
Um slíkar heimsóknir hefur þegar verið fjallað í grein d) og eins og þar kom fram er fjallað um þær í námskrá og námsefni grunnskólans, en þar er gert ráð fyrir slíkum vettvangsferðum í kynningarskyni til aukins skilnings og þekkingar. Er þetta enda í fullu samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála eins og skýrt kemur fram í lögfræðiáliti Dóru Guðmundsdóttur, sem þegar hefur verið bent á, en þar segir m.a. á bls. 32: ”Þá er ekkert sem bannar að nemendur fari í heimsókn á staði þar sem trúariðkun fer fram, ef um er að ræða þátt í trúarbragðafræðslu eða öðru skólastarfi samkvæmt námskrá. Það verður því talið að það brjóti ekki gegn ákvæði 2. gr. 1. samningsviðauka MSE að kirkjuheimsóknir séu skipulagðar, t.d. síðasta dag fyrir jól fyrir þá sem það vilja.”

Virðist það mikið vantraust á störfum kennara, að þeim sé ekki treyst til að sinna starfi sínu í samræmi við þau lög og námskrár sem gilda um grunnskólann, eins og þessi grein bendir til. Og sömuleiðis virðist hér gæta mikils misskilnings á eðli slíkra vettvangsferða. Þar eru jú aðeins þau börn þátttakendur, sem hafa fengið leyfi foreldra til ferðarinnar. Það er miður ef Mannréttindaráð getur hvorki treyst kennurum né foreldrum til að bera ábyrgð á börnunum. Og sé með því orðalagi, sem hér er notað, að þess sé gætt að börnin séu ekki ”þátttakendur í athöfnum” átt við það, svo dæmi sé tekið, að þau megi ekki taka þátt í söng, þá er ráðið farið að teygja sig út fyrir valdsvið sitt og tekið að ritskoða námskrána.

f) Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar við starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga eigi sér ekki stað á skólatíma.

Með þessari grein virðist, sé hún rétt skilin, sem brotið sé á foreldraréttinum. En hér er orðalag ekki skýrt og því óljóst hvað við er átt með hugtakinu „á skólatíma“. Réttur foreldra til að börn þeirra séu alin upp í samræmi við eigin lífsskoðanir er ótvíræður og tryggður í mannréttindasáttmálum. Og sá réttur gildir um öll börn og alla foreldra. Með því að banna það, eins og hér virðist gert, að börn á frístundaheimilum borgarinnar megi með leyfi foreldra sinna taka þátt í kirkjulegu starfi á skólatíma, þ.e. á starfstíma heimilana, er brotið á þessum rétti.

Með slíkum tillögum er jafnræðisreglan einnig brotin, nema þá að það sé ætlunin að banna á sama tíma allt samstarf við utanaðkomandi aðila eins og skáta, íþróttafélög, tónlistar- og/eða dansskóla o.s.frv. Því eins og þegar hefur verið bent á, (Sjá umfjöllun um grein b), þá fær sú skoðun ekki staðist, sem sett hefur verið fram í umræðunni um þessar tillögur og sem virðist endurspeglast í þessari grein, "að um grundvallarmun á starfi lífsskoðunarfélags og tómstundastarfi sé að ræða". Það fær ekki staðist að reyna þannig að ”prívatísera” trúarlegt félagsstarf og leitast við að ýta því út af hinu opinbera sviði. Má í þessu sambandi benda á að Evrópuráðið hefur einmitt að undanförnu ítrekað fjallað um þetta atriði og bent á mikilvægi þess, að hið trúarlega hafi eðlilega aðkomu að hinu „opinbera rými“ þjóðfélagsins. Og eins og þegar hefur verið bent á, kemur þetta atriði einnig skýrt fram í mannréttindasáttmálum og hefur verið staðfest í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. (Sjá t.d. 26 gr. Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðuþjóðanna, 2. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, 14. og 29. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og greinargerð með dómi mannréttindadómstóls Evrópu nr. 7442/29. júní 2007) Það er því m.ö.o. ljóst að það væri bæði mannréttindabrot og brot á jafnræðisreglu, að ætla að útiloka aðkomu kirkjunnar að frístundaheimilunum á starfstíma þeirra, nema þá að aðkoma og kynning allra annarra aðila verði þá jafnframt bönnuð.

Og hið sama gildir, ef þessari grein er ætlað að koma í veg fyrir samstarfsverkefni eins og t.d. barnakóra, sem nokkuð er um að sé samstarfsverkefni kirkju og skóla, en slíkt samstarf hefur yfirleitt verið vinsælt, þar sem það hefur verið reynt, og vakið mikla ánægju. Börnin taka að sjálfsögðu aðeins þátt í slíku samstarfi með leyfi foreldra og væri það því mikil forræðishyggja, og raunar hreint ofríki og brot á foreldraréttinum, og þar með einnig mannréttindabrot, ef banna ætti að slíkt starf megi fara fram í húsnæði skólans.

g) Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma né leiði til mismununar nemenda utan tiltekinna trúar- og lífsskoðunafélaga.

Í umræðum um tillögu Mannréttindaráðs hefur verið fullyrt, að skólastarf í öllum grunnskólum borgarinnar fari úr skorðum a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna fermingarfræðslu kirkjunnar. Sú fullyrðing fær þó illa staðist. Mismunandi er hvernig fermingarfræðslu er háttað í hverri sókn fyrir sig. Margar kirkjur fara í sólarhrings ferð með fermingarbörnin, en mismunandi er hvort um er að ræða einn, tvo eða jafnvel hálfan skóladag. Einnig eru víða dagsferðir og þá bæði á virkum dögum og um helgar. Af þessu sést að það er mjög misjafnt hversu löng frí börnin taka frá skólastarfinu. Það er hinsvegar alveg ljóst að þessar ferðir eru mjög vinsælar og þátttaka því mikil, enda ekki óalgengt að 85-90% barna í hverjum árgangi fermist. Það er hinsvegar hvorki á valdi Mannréttindaráðs né skólayfirvalda að banna börnunum þátttöku í slíkum fermingarbarnamótum, enda hlýtur það að vera réttur foreldra að fá frí frá skóla fyrir börn sín innan eðlilegra marka vegna þátttöku í ýmiskonar hópferðum. Og gildir þá einu, skv. jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, hvort ástæðan er þátttaka í íþróttakeppnum, tónlistarstarfi, fermingarfræðslu eða öðru tómstunda eða félagsstarfi. Það er hinsvegar skýlaus krafa til skólans að hann haldi uppi eðlilegu skólastarfi fyrir þau börn sem ekki taka þátt í slíkum ferðum. Um þetta segir Dóra Guðmundsdóttir m.a. í lögfræðiáliti sínu á bls. 31: ”Af því leiðir að það er ekki í samræmi við lögin ef kennsla fellur niður vegna fjarveru mikils hluta nemenda og verður að hafa það í huga, t.a.m. ef undanþágur eru veittar frá skólasókn vegna fermingarfræðslu. Hins vegar verður að telja að skólastjóri hafi heimild til þess, á grundvelli 15. gr. laga nr. 91/2008 að veita nemendum tímabundna undanþágu frá námi, ef eftir því er óskað, skv. 4. mgr. 15. gr. og gildar ástæður eru taldar til þess. Því verður ekki talið að ákvæði grunnskólalaga, annarra laga, þ.m.t. laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, stjórnarskrár eða þjóðréttarskuldbindinga leiði til þess að óheimilt sé að veita tímabundið leyfi frá skólasókn til að sækja fermingarfræðslu. Þó verður að gera þá kröfu, í samræmi við 2. gr. 1. samningsviðauka MSE og 14. gr. MSE, sbr. lög nr. 64/1992, að gætt sé að því að sambærilegar undanþágur séu veittar öðrum, í því tilviki að um annars konar trúarlega fræðslu, eða sambærilega fræðslu (t.a.m. vegna borgaralegrar fermingar) sé að ræða og farið sé fram á það.”

Væri því í ljósi þessa e.t.v. eðlilegra að orðalag þessarar greinar fjallaði um þessar skyldur skólans. Í niðurlagi athugasemda minna við grein b) hef ég þegar fjallað um síðasta hluta þessarar greinar, þar sem enn og aftur koma fram þau rök, að ekki megi koma til ”mismununar nemenda utan tiltekinna trúar- og lífsskoðana”. Það skal því ítrekað, sem ég hef þegar dregið fram, að það eru ekki gild rök, sem stundum hefur verið haldið fram, að það sé "mannréttindamál", að ekki megi vera "aðgreining" í skólastarfi, með því að boðið sé uppá eitthvað það starf, sem öll börn geti ekki tekið þátt í. Eða eins og hér, veitt leyfi fyrir þátttöku í starfi sem öll börnin taka ekki þátt í. Slíkur málflutningur fær einfaldlega ekki staðist hefðbundnar túlkanir á mannréttinda-hugtakinu eins og staðfest hefur verið í dómum Mannréttindadómstólsins. Það er hinsvegar ótvíræð skylda opinberra aðila, að sjá þeim börnum, sem ekki geta af einhverjum ástæðum tekið þátt í einhverjum þáttum skólastarfsins, fyrir verðugum valkostum. Slíkt er ekki "mismunun" eða brot á mannréttindum sbr. áður tilvitnaðan dóm. Mannréttindin felast þvert á móti einmitt í því að boðið sé uppá valkosti, eins og ég hef þegar bent á.

h) Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að fagaðilar óbundnir trúar- og lífskoðunarfélögum komi að sálrænum áföllum. Ef sérstakar aðstæður kalla á aðkomu fagaðila frá trúar- eða lífskoðunarfélagi skal það gert að höfðu samráði skólayfirvalda við foreldra þeirra nemenda sem áfallahjálparinnar njóta og á ábyrgð viðkomandi. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu fara fram utan skólatíma.
Sem betur fer er borgin rík af mannauði, sem býr yfir mikilli sérfræðimenntun og reynslu varðandi aðkomu að sálrænum áföllum. En í þessari grein tillagnanna virðist samt algjörlega horft framhjá þeirri staðreynd, að prestar og djáknar kirkjunnar hafa sérfræðimenntun og reynslu á sviði sálgæslu, sem í sumum tilfellum er jafnvel langt umfram flesta aðra, sem starfa á þessu sviði. Enda gegnir Þjóðkirkjan og starfsmenn hennar mikilvægu hlutverki í því skipulagi áfallahjálpar sem samþykkt var á landsvísu 14. október sl. En undir samning um það skipulag rituðu m.a. fulltrúar íslenskra sveitarfélaga og þá væntanlega líka fyrir hönd Reykjavíkurborgar. (Viðbragsáætlun Almannavarna: Skipulag áfallahjálpar á Íslandi. Október 2010 . Sjá t.d. bls. 16, 20 og 22)

Tillaga Mannréttindaráðs gengur þannig þvert á það skipulag, sem í ljósi reynslunnar hefur þjónað landsmönnum vel þegar áföll verða og þar sem þverfaglegt samstarf hefur verið lagt til grundvallar. Ef útiloka á eina starfstétt úr því samstarfi innan borgarinnar, sem viðurkennt er að sé ómissandi á landsvísu, þá fara vissulega að vakna raunverulegar spurningar um mismunun og fordóma. Með þessu er gert lítið úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna hvað varðar sálgæslu og samfylgd við syrgjendur, og sem reynslan sýnir að flestir Íslendingar óska eftir þegar áföll verða. Annað hvort virðist því með þeirri tillögu sem hér er sett fram, vera um að ræða hreina vanþekkingu á hlutverki presta og djákna, þegar kemur að sálgæslu og áfallahálp, eða þá illa dulbúna atlögu að faglegum heiðri þeirra og útilokun þeirra frá því að sinna starfi sínu. Væri því e.t.v. rétt, að fulltrúar Mannréttindaráðs snéru sér til Rauða krossins, sem samkvæmt starfsreglum sínum ber að vera algjörlega trúarlega hlutlaus, með þá spurningu, hvernig Rauði krossinn geti starfað með prestum á þessu sviði og sækist raunar í ljósi reynslunnar beinlínis eftir því samstarfi? Þá hlýt ég einnig í þessu sambandi að benda á, að í þessari grein er fólgin forræðishyggja og vantraust á þeim skólastjórnendum sem þó eiga að bera ábyrgðina á skólastarfinu og þar með þá einnig viðbrögðum í erfiðum aðstæðum, þar sem oft þarf að bregðast skjótt við útfrá þekkingu þeirra á nærumhverfinu. Í því samhengi getur það þannig t.d. verið hreint skeytingarleysi og jafnvel mannréttindabrot, að meina fjölda aðstandenda og börnum þeirra að fá að taka þátt í helgistund á skólatíma, sé þess óskað.

i) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sínum sess í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla.
Það skal þakkað að Mannréttindaráð gerir sér grein fyrir því, að margvísleg listsköpun getur með engu móti flokkast með trúariðkun eða trúaruppeldi jafnvel þótt hún tengist trúarlegum hátíðum eða táknum. Hér er um kennslufræðilegt atriði að ræða, þ.e. að listsköpun er til að auka þekkingu og skilning á átrúnaði sem verið er að uppfræða um, og gildir þá einu hvort um t.d. kristni, búddisma, hindúisma eða íslam er að ræða. Öll trúarbrögð eru auðug af myndrænni tjáningu og táknum og sjálfsagt að nota þau til listsköpunar, um leið og börnunum er kennt að þekkja þau og lesa úr þeim. Þetta er almennt viðurkennt af þeim kennslufræðing-um, sem um þessi mál fjalla. Og um þessi mál er raunar fjallað í námskrám, þannig að þessi grein er í raun að mestu óþörf. 3. Niðurlag
Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji Mannréttindaráðs að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við.

Ekki skal góður vilji Mannréttindaráðs í þessa veru dreginn í efa, en í ljósi þeirra athugasemda, sem hér hafa verið settar fram hlýt ég þó að benda á að í mörgum greinum hefur ráðinu ekki tekist þetta ætlunarverk sitt sem skyldi, með þessum tillögum sínum, og á stundum jafnvel lagt til hluti sem beinlínis vinna gegn þessu markmiði. Hlýt ég því að hvetja ráðið til að skoða þessar tillögur betur og taka tillit til þeirra athugasemda sem komið hafa fram þannig að friður megi takast um slíkar reglur. Því verði þær samþykktar óbreyttar þá þykir mér einsýnt að einhverjir foreldrar muni leita réttar síns fyrir dómstólum og er mér í því sambandi tjáð, af þeim sem best til þekkja, að verulegar líkur séu á að dómstólar myndu í ljósi jafnræðisreglu og mannréttindaákvæða hnekkja ýmsu því sem hér er lagt til.

Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa.

Um þetta er jú skýrt kveðið í námskrá og grunnskólalögum. Eru því ekki gerðar aðrar athugasemdir við þessa málsgrein en þær, að hér mætti bæta því við, að skv. 2. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu er lögð sú skylda á herðar hinu opinbera, í öllum ráðstöfunum er miða að menntun, að “virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun ..... sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.” Og að þetta ákvæði varðar ekki bara mannréttindi minnihlutans, eins og sumir virðast halda, heldur líka, og ekkert síður réttindi meirihlutans. Því eins og ég hef þegar bent á virðist Mannréttindaráði a.m.k. á stundum sjást yfir þetta atriði í tillögugerð sinni.

Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

Hér er ekki öðru við að bæta, en að ég óska þess, að starfsmönnum Reykjavíkur megi takast þetta sem allra best, enda munu þessar tillögur þá væntanlega taka þeim breytingum, sem hér hefur verið bent á, í samræmi við þá mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.