Lexía: 5Mós 10.17-21
Því að Drottinn, Guð
ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og
ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur
réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur
honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið
voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og
sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur
unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin
augum.
Pistill: Róm 12.16-21
Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.
Guðspjall: Matt 8.1-13
Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill
mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“
Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af
líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt
þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem
Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans
hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami,
mjög þungt haldinn.“
Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“
Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég
er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og
mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi
og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan:
Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti
við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég
ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri
og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn
ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú,
verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
I.
Náð
sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Guðspjall dagsins er frásögn af því þegar Jesús læknaði tvo menn,
líkþráan mann og svo svein rómverska hundraðshöfðingjans. Báðir þessir veiku einstakl-ingar áttu það
sameiginlegt að vera hornreka og útskúfaðir úr gyðinglegu samfélagi á tímum
Jesú. Holdsveiki var þeim tíma ólæknandi
húðsjúkdómur, sem afmyndaði þann veika.
Og af því að þetta var smitandi sjúkdómur þá var vörn samfélagsins sú að
útskúfa þeim holdsveiku. Þeir skyldu
ekki vera innan um heilbrigt fólk og ekki koma nærri venjulegu fólki eða híbýlum
þess. Þess vegna kom líkþrái maðurinn
hikandi til Jesú, kraup fjarri honum og sagði:
Ef þú vilt þá … Og ímyndið ykkur undrun mannsins þegar Jesús gekk til hans og
snerti hann; eitthvað, sem enginn nærstaddur hefði þorað að gera. Og svo sagði Jesús: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð maðurinn hreinn af líkþránni. Þetta var lækning.
Þetta kraftaverk sýnir að Jesús fer ekki í manngreinarálit,
kærleiki hans nær til allra manna, hver svo sem staða þeirra er í
samfélaginu. Þetta er takt við orðin úr
lexíu dagsins þar sem minnt er á að Guð fer ekki í manngreinarálit því hann er
Guð allra manna. Og þess vegna eigum við
heldur ekki að gera okkur mannamun og koma verr fram við þau, sem eru utangarðsfólk
í okkar samfélagi.
Ísrael var hersetið land á tímum Jesú. Rómverjar höfðu hertekið landið og gert það
að rómversku skattlandi. Rómverskir
hermenn voru illa þokkaðir hjá Gyðingaþjóðinni og af því þeir voru heiðingjar,
sem trúðu á marga guði og anda, þá vildi margir trúaðir Gyðingar ekki umgangast
Rómverjana, ekki fara inn á heimili þeirra og sem minnst við þá tala. Gyðingarnir vildu halda þeim í hæfilegri
fjarlægð frá sér, - svona ekkert ósvipað og þeim holdsveiku.
Rómverski herforinginn fór til Jesú af því að sveinninn, sem
hann unni, lá fárveikur heima og hefðbundin lækningaráð höfðu ekki dugað. En herforinginn vissi ekki hvernig Jesú mundi
taka í bón hans. Fúsleiki Jesú virtist
koma herforingjanum úr jafnvægi því Jesús sagðist umsvifalaust mundu koma heim
til hans og lækna sveininn. Og þá mælir
herforinginn í mikilli auðmýkt: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú
gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill
verða.“
Líkþráa manninn læknaði Jesús með snertingu en svein hundarðshöfðingjans
læknaði hann með því að staðfesta bón húsbónda hans. Við skulum hugleiða þessar tvær frásagnir.
II.
Jesús sýndi
líkþráa manninum ást og umhyggju. Hann
hjálpaði honum með því að vera hjá honum á staðnum. En sveininum unga hjálpaði hann þótt hann
væri langt í burtu frá honum; svona eins og þegar við biðjum fyrir einhverjum
og viðkomandi hlýtur lækningu.
Þessar sögur
flytja okkur mikilvægan boðskap. Jafnvel
þótt við finnum okkur ein í lífinu og afskipt þá er hugur Guðs hjá okkur. Ást Guðs og umhyggja hans í okkar garð er
ekki á þrotum þótt við upplifum okkur veik, niðurbrotin eða einmana. Guð er hjá þér og
þegar þú biður til hans þá hlustar hann á þig.
Í þeim skilningi ertu aldrei einn, aldrei alveg ein.
Þetta er
mikilvægt að muna, sérstaklega þegar við eldumst. Á efri árum þá erum ekki eins virkir
þátttakendur í samfélaginu og áður. Við
hættum að vinna, það eru ekki lengur börn á heimilinu okkar, við erum minna á
ferð og flugi, minna úti við. Og kannski
erum við oftar en við kærum okkur um svolítið einmana. En þá er mikilvægt að minna sig á gömlu góðu
dagana, rifja upp skemmtileg atvik liðinnar ævi. Og svo má alltaf taka upp símann og hringja í
einhvern. Það er svo heilandi og
upplífgandi að heyra rödd ættingja eða ástvinar í símanum.
Og þegar maður liggur
aleinn í rúminu á kvöldin þá er alltaf hægt að spenna greipar og biðja til Guðs. Hann hlustar á bænir þínar.
III.
Í pistli dagsins voru athyglisverð orð: Sigra þú illt með góðu.
Um daginn var ég staddur í Skeifunni í Reykjavík. Ég var að koma út úr verslun Hagkaupa og sá þá standa fyrir utan mjög ræfilslegan mann í þvældum fötum. Hann sagði við mig: Afsakaðu, en gætir þú gefið mér fimm hundruð kall! Ég sagði við karlinn: Ég skal fara með þér inn í verslunina og kaupa eitthvað handa þér ef þú ert svangur! Manngreyið gretti sig og sagði svo: Það kæmi sér betur að fá fimm hunduð kall. Og þá skildi ég af hverju hann var að betla og ég spurði hann hreint út hvort hann væri að snapa sér fyrir bjór. Og maðurinn horfði framan í mig og sagði já. Það, sem hann sagði næst, kom mér í opna skjöldu. Karlinn sagði: Þú ert góður maður! Af hverju heldur þú það, sagði ég. Af því að þú talar við mig eins og maður við mann. Yfirleitt virðir fólk mig ekki viðlits.
Ég sé eftir því að hafa ekki gefið karlinum 500 kall. Daginn eftir fór ég í strætó og borgaði 700 krónur fyrir ferðina. Þá rann upp fyrir mér hversu lága upphæð karlinn hafði beðið mig um.
Líkþrái maðurinn á tímum Jesú var utangarðsmaður. Fyllibyttur og dópistar, heimilislaust fólk, þetta eru utangarðsmenn nútímans. Okkur ber að rétta þeim hjálparhönd. Og þótt hér séu engir rómverskir hermenn þá er sannarlega nóg af útlendingum hérna á landinu. Við ættum að ávarpa þetta fólk, horfa í augu þeirra og bjóða þeim góðan dag. Það kostar ekkert að tala við aðra manneskju. En orðin okkar þau geta verið eins og smá kærleikstónn í þöglri tilveru þeirra, sem finna sig utangarðs eða utanveltu í samfélaginu. Eða líkt og Einar Ben orti í Einræðum Starkaðar:
Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúizt við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Einar Ben þekkti sjálfur líf einfarans og drykkju-mannsins. Einræðurnar hefjast á þessu ljóði:
Mig dreymir um eina alveldissál,
um anda, sem gjörir steina að brauði.
Minn hlátur er sorg. Við skrum og við skál
í skotsilfri bruðla ég hjarta míns auði.
Mungátin sjálf, hún ber moldarkeim.
Var mælt hér eitt orð, sem ei fyrr var kunnað?
— Ég leita mig dauðan um lifenda heim
að ljósi þess hvarms, sem ég get unnað
Íslenskt samfélag hefur náð því að útrýma ýmsum líkamlegum sjúkdómum enda eigum við öflugt heilibrigðiskerfi. En andleg áföll, ósigrar, niðurbrot og einmanaleiki, persónuleg ógæfa, andlegt skipbrot, þetta er allt til staðar í mannlegu samfélagi. Og þess vegna held ég að það sé full þörf á kristinni trú, sem boðar fyrirgefningu og náungakærleika. Með kærleika og umhyggju, þannig vinnum við bug á illskunni hér í heimi. Þú skalt sigra illt með góðu.
Dýrð sé
Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo
sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.
Amen.