Konur og kirkjan

Konur og kirkjan

Við erum öll eitt í Kristi, jafngild og jafnmikils virði, Íslendingar og útlendingar, ríkir og fátækir, karlar og konur. Við skulum íhuga það vel á þessum degi, um leið og við íhugum og minnumst allra góðra verka kristinna karla og kvenna í gegnum aldirnar og árþúsundin.

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér. En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið. Lk 10.38-42

Þegar gluggað er í bækur, bréf og rit Nýja testamentisins koma margir skemmtilegir karakterar í ljós. Þar er að finna fullorðna og börn, ríka og snauða, Gyðinga, Grikki og Rómverja, sem á einn eða annan hátt tengjast sögu Jesú, lærisveina hans og fyrstu árum kirkjunnar. Lærisveinarnir sjálfir eru reyndar að sjálfsögðu í þessum hóp og þó saga Jesú sé í fyrirrúmi þá fáum við líka að heyra af þeim, þeirra aðstæðum og örlögum. Í þessum frásögum mætum við bæði körlum og konum. Konur voru reyndar ekki mikils metnar í samfélaginu á dögum Jesú, en í hans hópi stóðu þær körlum jafnfætis og höfðu miklu hlutverki að gegna, eins og sögurnar af þeim sýna svo vel.

Eina slíka sögu fengum við að heyra hér í dag, en guðspjall dagsins fjallar einmitt um tvær konur, tvær systur, sem taka á móti Jesú og lærisveinum hans. Þær heita Marta og María og af frásögninni má heyra að þær eru nokkuð ólíkar. Marta er eins og stormsveipur að undirbúa matarboð fyrir Jesú, en María sest við fætur Jesú til að hlusta á hann og læra af honum. Og þetta pirrar Mörtu sem örugglega hefur í nægu að snúast og vill að María hjálpi til. Þær systur koma reyndar oftar við sögu í sögu Jesú. Þær eru nefnilega systur Lasarusar, þess sem Jesú reisti síðar frá dauðum, en það varð aftur ein af ástæðunum sem prestarnir við musterið notuðu til að fá Jesú dæmdan fyrir guðlast.

Marta, María og Lasarus eru sem sagt greinilega vinir Jesú. Af frásögninni hafa menn leitt þá ályktun að þau séu foreldralaus systkinin úr því að þau búa svona saman. Ætli þau séu ekki öll ung, jafnvel unglingar á okkar tíma mælikvarða? Líklega er Marta sú elsta og hefur kannski tekið að sér systkini sín við andlát foreldranna.

Eins og sagan af Mörtu og Maríu sýnir og reyndar aðrar frásagnir Nýja testamentisins líka, þá hafa konur hafa frá fyrstu tíð verið í atkvæðamiklar í samfélaginu kringum Jesú. Jesús lifði á tímum þar sem karlar réðu einu og öllu og það sést líka á guðspjöllunum, að það voru karlar sem skrifuðu þau. Þar er miklu sjaldnar sagt frá konunum sem fylgdu Jesú. En þegar það er gert sést svo sannarlega hversu mikið Jesú mat þær. Hann talaði jafnt til karla og kvenna og leit á þau sem jafngild, sem sköpun Guðs og samverkamenn hans í veröldinni. Að morgni hins fyrsta páskadags, svo frægt dæmi sé tekið, er konunum meira að segja veitt hið stærsta og mesta hlutverk. Það eru konur sem fyrstar verða vitni að upprisu Jesú. María Magdalena er fyrsti boðberi fagnaðarerindisins um upprisuna – fyrsti postulinn, enda oft kölluð postuli postulanna. Þegar kristin trú tók að breiðast út var það ekki síst fyrir verk kristinna kvenna. Þær unnu af hendi margskonar kærleiksverk, önnuðust sjúka og vanheila, sorgmædda aldraða , munaðarlaus börn og einmana. Slíku áttu menn ekki að venjast í samfélaginu á þeim tímum. Þá var harkan í samskiptum manna alsráðandi. Þeir sem urðu undir, neyddust til að sjá um sig sjálfir, bjarga sér sjálfir eftir bestu getu, eða deyja ella , öllum yfirgefnir. Hinar kristnu konur komu aftur á móti með kærleiksverkin sín og lögðu líkn við þraut samkvæmt boði Jesú sem hafði kennt svohljóðandi :”elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig”. Og fólk spurði hvort annað hissa: “Hey - bíddu við, hverjar eru þessar konur sem eru að hjálpa og líkna”? “Jú,” var svarað “þetta eru kristnar konur”. Og þá ákváðu margir þeir sem spurðu að gangast trú kvennanna á hönd. Ekki dróg úr þessu hlutverki kvenna eftir því sem aldir liðu. Ætli kristin trú hafi t.d. ekki breiðst út hér á landi í upphafi meðal annars fyrir verk kvenna, kristinna ambátta sem settar voru til þess að gæta barna drottnara sinna, heiðinna höfðingja og bænda? Þær kenndu börnunum bænir og vers og í brjóst barna hinna heiðnu foreldra var gróðursett orð Guðs og trúin á Jesú Krist. Og þær sögðu söguna af Jesú, Mörtu, Maríu, Lasarusi og öllum hinum löngu áður en allir kunnu að lesa og á meðan enginn skildi hvað prestarnir voru að fara því þeir lásu allt á latínu.

Sagan er full af dæmum þessum líkum. Það voru konur sem hlúðu að indjánum í Suður-Ameríku þegar hvíti maðurinn kom þangað fyrst með eldi og brennisteini, eyðandi og drepandi frumbyggja. Enn í dag eru það konur í Suður-Ameríku sem stýra litlum kristnum samfélögum í fátækrahverfum stórborganna. Þar er fyrst og fresmt unnið að því að hjálpa hinum fátæku og útskúfuðu í samfélaginu, aftur samkvæmt kærleiksboði Jesú. Ein frægasta kristna kona í þessu hlutverki á okkar tímum er Móðir María Teresa sem starfaði í fátækrahverfunum í Calcútta á Indlandi, en hún lést fyrir fáeinum árum. Hún stofnaði reglu kvenna sem í dag hjúkra og fæða og klæða þúsundir öreiga í landi þar sem öreigar eru lítils sigldir. Sjálf þekkjum við óteljandi dæmi um slík störf kristinna kvenna hér á landi í gegnum aldirnar. Og alltaf eru þær bæði í hlutverki Mörtu og Maríu, fullar á orku að framkvæma eins og Marta og um leið hlustandi, leitandi, og biðjandi eins og María.

En kirkjan sem stofnun varð til í karlasamfélagi eins og fyrr segir. Konur voru þá ekki áleitnar nokkurs virði í hinu opinbera lífi. Sú skoðun lifði reyndar lengi eins og við vitum og það var ekki fyrr en á síðustu öld eftir mikla baráttu að konur loksins fengu kosningarétt hér á Vesturlöndum og urðu jafngildar körlum fyrir lögunum. Víðast hvar um heiminn njóta konur reyndar enn ekki þessara réttinda sem við teljum sjálfsögð. Karlasamfélagið sá líka til þess að konur gátu ekki fengið forystuhlutverk innan kirkjunnar. Konur máttu ekki gerast prestar eða safnaðarleiðtogar. Þær máttu þjóna en þær máttu ekki leiða og stýra. Þannig voru það karlarnir sem réðu þó það hafi verið konurnar sem stóðu vörð um grundvöllinn. Konur sem brutust til forystu voru oftar en ekki taldar nornir eða eitthvað þaðan af verra og margar þeirra enduðu líf sitt með píslarvættisdauða, dæmdar ranglega af rannsóknarrétti kirkjunnar. Enn í dag standa stærstu kirkjudeildirnar í heiminum á móti því að konur gerist prestar og taki að sér safnaðarforysty. Það er auðvitað þvert á orð og kenningu Jesú. Hér á landi var fyrsta konan vígð prestur árið 1976 og síðan hefur þeim farið fjölgandi. Nú stefnir í að eftir einhver ár verði konur komnar í meirihluta presta í íslensku þjóðkirkjunni. Hver veit nema við eigum eftir að sjá konu í stóli biskups á einhverjum næstu árum Við höfum náð langt hvað jafnrétti varðar í kirkjunni okkar hér á landi og í íslensku samfélagi. En betur má ef duga skal og víða er enn pottur brotinn – líka innan þjóðkirkjunnar okkar. Og aldrei megum við gleyma þeim konum um víða veröld sem búa við daglega kúgun, niðurlægingu og áþján vegna þess eins að þær eru konur.

Já, þetta er merkileg og mikil saga sem vert er að rifja upp. Hitt er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að íhuga, að sá Guð sem kallaði okkur hingað til kirkjunnar í dag, sá Guð sem leiðir samfélag kristinna karla og kvenna og gefur því líf og þrótt, hann birtist okkur í orðum Jesú með bæði karllega og kvennlega eiginleika. Jesú segir okkur að nefna hann Faðir í bæninni sem hann kenndi okkur. Um leið kallar Jesús Guð móður og segir að hann sé eins og móðir sem vilji umvefja okkur og vernda. Og sjálfur Páll postuli, sem var nú á margan hátt óttaleg karlremba, meira að segja hann skrifaði orðin sem ég las hér fyrr úr Galatabréfinu:

Þið eruð öll Guðs börn fyrir trúna á Jesú Krist. Hér er enginn gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í kristi Jesú. Gal. 3:27-28

Við erum öll eitt í kristi, jafngild og jafnmikils virði, Íslendingar og útlendingar, ríkir og fátækir, karlar og konur. Við skulum íhuga það vel á þessum degi, um leið og við íhugum og minnumst allra góðra verka kristinna karla og kvenna í gegnum aldirnar og árþúsundin.

En hvernig lýkur sögunni af Mörtu, Maríu og Jesú? Jú, henni líkur þannig að Jesú hvetur Mörtu til að leifa nú Maríu að sleppa við húsverkin þennan daginn, María hafi valið góða hlutinn, að sitja við fætur Jesú og hlusta á hann. Þar með er Jesús á engan hátt að gera lítið úr Mörtu. En kannski er hann að minna okkur öll í kirkjunni á, karla og konur, að þó öll okkar framkvæmdasemi sé af hinu góða, þá megi aldrei gleyma grundvellinum, samfélaginu við Jesú, að sitja við fætur hans og hlusta á hann.