Listamenn hafa í gegnum aldirnar dregið upp ýmsar myndir af djöflinum, fólki til varnaðar. Þessi gamli fjandi, „mannkynsmorðinginn“ eins og hann er kallaður í sálmi Lúthers, getur verið fyrirferðarmikill í textum og myndmáli og fjölbreytnin er nokkur þegar slík verk eru skoðuð.
Varasöm fegurð
Sá vondi er ekki alltaf með horn og hala, rauða ásjónu, tjúguskegg og illkvittið glott á vörum. Nei, margir höfðu nú vit á því hér í gamla daga að birta hann í öðru ljósi. Freistarinn og óvinurinn sjálfur er þá sýndur sem glæsimenni, eins og filmstjörnur nútímans eða vaxtarræktatröll. (1) Þar með auglýsir hann ekki sitt innra eðli. Okkur stafar jú minni hætta af þeim sem bera innrætið utan á sér.
Á hinn bóginn þegar við förum á hraðferð yfir gæðablóðin í Biblíunni og í hinum kristna sið er frekar að þau hafi átt erfitt uppdráttar hvað útlitið varðar. Ófríðar persónur í kristnisögunni eru oftar en ekki fagnaðarboðar og fulltrúar hins góða. Jóhannes skírari var rosalegur ásýndum og líkastur trölli í úlfaldakufli og etandi engisprettur (Mark. 6. kafli). Páll postuli gefur til kynna að hann búi við einhver andlitslýti, eins og hann segir sjálfur: „mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.“ (2Kor. 12. kafil) Í helgiriti frá miðri annarri öld er honum lýst svo að hann hafi verið „lágvaxinn, sköllóttur, hjólbeinóttur, þrekvaxinn, með samvaxnar augabrúnir og fremur neflangur.“ (2) Hvort sem þetta er sönn lýsing á þessum áhrifaríka manni eða ekki, þá fellur hún nokkuð vel að þessu minni um neikvætt samband á milli útlits og köllunar.
Og þótt við höfum litlar heimildir um útlit Jesú sjálfs þá fer ekki á milli mála samkvæmt guðspjöllunum að hann lagði oft krók á leið sína til að mæta þeim sem almennt þóttu lítt geðslegir til samneytis. Hann átti fundi með holdsveiku fólki sem höfðust við fyrir utan mannlega byggð. Þau voru einmitt gerð útlæg vegna þessa sjúkdóms sem aflagaði líkama þeirra og vakti hrylling hjá flestu öðru fólki (sjá t.d. Lúk. 17.11-19).
Hún er sig svo ófríð
Nú þegar þessi dimma jóladagskrá er senn á enda runnin, með
myrkraverkum, draugagangi og heilögum Nikulási kemur það í minn hlut að
bera blak af henni Grýlu – sem er bæði ein elsta fígúran í íslenskri
þjóðtrú og einnig sú ljótasta. Auðvitað verður varnarræðan ekki eingöngu
byggð á útliti hennar, heldur fremur af ávöxtunum og rótgrónum
efasemdum mínum um sannleiksgildi þeirrar speki, að sjaldan ljúgi
almannarómur. Það vekur óðara tortryggni mína, þegar fólk almennt fær
eitthvað eða einhvern á heilann. Múgurinn getur verið skaðræðisskepna og
hefur þar að auki stundum rangt fyrir sér.
Sagan sýnir líka að það er hægur vandi að leika á okkur mannfólkið einmitt með því að höfða til fegurðar og flottheita. Mörg hryggileg dæmi eru um slíkt í sögu og samtíma. Þeir kunnu þetta til dæmis, nazistarnir er þeir efndu til stórfenglegra sýninga með fánum og logandi kyndlum. Þessar listir stunda áróðursmestarar og skrumsölumenn af slíku kappi að við kaupum gegn betri vitund alls kyns pjátur og flotterí, sem er svo að ganga að jörðinni dauðri. Huggulegheitin geta með öðrum orðum verið stórhættuleg.
Það er auðvitað ekki þakklátt verk að andmæla viðteknum skoðunum og ég þykist hafa svolita reynslu af því. „Enginn á von á spænska rannsóknarréttinum,“ sögðu þeir í Monty Python og líklega eiga enn færri von á að nokkur komi honum til varnar, en það geri ég þegar á hann er hallað. Jú, ég hef líka haldið því fram að G-mjólk sé jafngóð venjulegri mjólk þegar útbúið er latte og ég ögra beturvitringum í bjórdrykkju með því að kæla samviskusamlega dökkan bjór og fæ bágt fyrir. Þetta eru svona fáein dæmi, tekin af handahófi. Oft býr fólk til Grýlu úr einhverju og þá er best að vera á varðbergi.
Því liggur beinast við að ræða Grýlu-grýluna sjálfa, þennan ógnvald barna á öllum öldum. Fáir hafa verið jafn úthrópaðir, fordæmdir, bannsettir og réttdræpir á Íslandi og þessi ófegurðardrottning íslenskrar alþýðutrúar. Í 17. aldar Grýlukvæði síra Stefáns Ólafssonar í Vallanesi, segir:
Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð,
hún er sig svo ófríð
og illileg með.
Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú. (3)
Það er ekki bara að hún sé hræðileg ásýndum, í henni býr ein sú ógn sem oft fylgir óvættum – það er að segja hún rýfur mörk mennsku og ómennsku – hún er að hluta til mannvera og að hluta til er hún dýr. Þarna er hún bæði þríhöfða skrýmsli og hvert höfuð eins og á kú. Hér er vísað til þess þegar skilrúm manns og náttúru rofnar og fólk fyllist ugg og ótta við það sem tilheyrir hvoru tveggju eða hvorugu. Ýmis önnur fælni er af sömu rót runnin. Óttinn við samkynhneigða til að mynda eða við fólk af öðrum uppruna, sem ögra hugmyndum um hið viðurkennda ástand. Skilgreiningar geta verið varasamar og skilrúmin að sama skapi. Eins og þau holdsveiku í landinu helga, þá býr hún afskekkt í hrjóstrugum helli og vekur skelfingu hvar sem hún stígur niður hófum sínum.
Engum hefur barnæska landsins óskað dauða, jafn oft og af jafnmiklum sannfæringarkrafti og henni Grýlu: „Nú er hún gamla Grýla dauð“ syngja börnin á hverju ári með efa blandinni óskhyggju um að óvætturinn hafi verið kveðinn niður. Hún, sem nærðist á óþekkum börnum, dó sultardauða þegar börnin kepptust við að vera góð og stillt. Já, hvað segja þessar formælingar um okkur – sem erum hreinræktaðar mannverur og höfum fullan aðgang að samfélagi fólks?
Uppruni Grýlu
Uppruni Grýlu er ævaforn. Hennar mun getið í heimildum í Sverris sögu konungs – frá 13. öld og fyrsta bók þess rits ber einmitt heiti hennar. Orðið kemur þó fyrir í mörgum öðrum fornritum og má þar nefna Sturlungasögu. Þjóðfræðingurinn Terry Gunnell rýnir í bakgrunn þeirra frásagna. Þar ber ekki á öðru en að Grýla hafi þá þegar verið alþekkt og er engin tilraun gerð til að skýra eðli hennar eða tilurð. Gunnell telur að Grýluheitið kunni að hafa bent til þess að landlægur ótti hafi ríkt við ófrið og róstur á svæðinu. Nafnið hafi því vísað til einhvers sem hræddi fólk.(4) Aðrir, eins og Þorleifur Hauksson, ætla á hinn bóginn að orðið hafi vísað í styrk konungs – Grýlan sé því orð yfir það sem er öflugt.(5)
Gunnell staldrar þó einkum við þann sið sem hann telur hafa verið við lýði hér á Íslandi sem víðar, að klæða sig í gervi og sem kennd voru við Grýlu og annarra vætta. Þetta hafi fólk gert á tímamótum til dæmis í kringum vetrarsólstöður. Í því sambandi nefnir hann orðið „skinngrýla“. Í nágrannalöndum hafi varðveist heimildir um að fólk hafi dansað trylltan dans í einhverju gervi og síðar hafi orðið til sagnir um að slíkt framferði hafi endað með einhverjum hörmungum. (6) Dansinn í Hruna er auðvitað nærtækt dæmi.
Færeyski rithöfundurinn William Heinesen segir í smásögu frá Grýlunni í Svíney, frá ægilegri kvenveru með langan hala og það skrölti í henni eins og járnskrani. Hún var með kústskaft, klæddist dýraham og hafði með sér poka fyrir verðmæti eyjaskeggja. Hann hafði heimildir fyrir þessu og þetta var því hin færeyska Grýla. Henni fylgdi mikið fjör.(7) Svo er það auðvitað skrýmslafræðingurinn Þorvarður Friðriksson sem telur að Grýlan hafi ýmist verið keltnesk vetrargyðja eins og Kerlingin sem mörg fjöll draga heiti sitt af. Hann bendir líka á að Grýluminnið kunni að hafa runnið saman við þjóðflokk á Írlandi sem terroriseraði aðra þjóðflokka og krafist þess að þau létu börn sín að hendi.(8)
Þarna sjáum við hvernig gamla Grýla birtist með ýmsum hætti á ólíkum stað og tíma. Óhjákvæmilega færumst við yfir á feminískar brautir og veitum því athygli hvernig sjálfstæð gyðjan breytist smám saman í norn og illvætti. Hún, sem drottnar yfir leppalúða og er matrónan í fjölskyldu með jólaveinum og jólaketti er fyrirsjáanlega skotspónn menningar sem tortryggir sterkar og sjálfstæðar konur. Einnig er alþýðuskemmtun gerð vafasöm og háskalega, til að hafa betri stjórn á almúganum væntanlega.
En jafnvel í sinni verstu mynd, með alla sína lesti og kvikindisskap, nýtist Grýla þó til að kenna börnum að vera hlýðin og spök yfir hátíðarnar. Já, hinir fullorðnu hafa ítrekað gerst samsekir mannætunni og hafa nýtt sér til hins ýtrasta eðli hennar eins og það var orðið. Verri var hún nú ekki, blessunin, en svo að mennskir stukku á vagninn og gerðu sér mat úr matarsmekk hennar.
Flökkufólk og betlarar
Ég er þó ekki einn um það framtak að verja Grýlu. Nýverið sendi bókmenntafræðingurinn Kristján B. Jónasson frá sér pistil á samfélagsmiðlum þar sem hann rýndi í áður ívitnaðan kveðskap síra Stefáns í Vallanesi. Hann greindi textann með hliðsjón af því hversu mjög óðalsbændur óttuðust förumenn og flakkara sem fóru á milli bæja í leit að mat. Þar væru komnar matarvenjur Grýlu – ekki það að hún snæði fólk heldur óttuðust menn að hún éti þá út á gaddinn. Og þótt Grýla hafi gefist upp á rólunum og verði dauð, þá fylgir í kjölfar hennar óþjóðalýður sem heldur uppteknum hætti:
fimm hundruð flagðbörnin
flakka þar í hjá,
ekkert lægra en álnanna sjö,
upp þó að hún á,
mikið er að metta
meinhyskið pretta,
hún sýður hvern dag
hrossakjöt til rétta.
Þarna fara því fram að mati Kristjáns, stéttaátök þar sem varað er við fátækum förumönnum 17. aldar sem engu eiri á ferðum sínum um sveitir landsins. Við því þurfi að stemma stigu og gæta þess að hleypa þeim ekki inn á bæi eða gefa þeim ölmusu að éta.(9)
Yndi undir ófögru skinni
Já, það þarf ekki mikla þekkingu á mannlegu eðli til að taka því með fyrirvara þegar sterk utangarðskona er vænd um hið versta innræti og háttarlag. Annað í fari hennar elur á ótta gagnvart flóttafólki og fátækum auk þess sem hún með sjálfstæði sínu og yfirburðum, ögrar ótætis feðraveldinu.
Má ekki skoða formælingarsöngva um Grýlu sem eina grein af þeim meiði sem klausturdónar viðhöfðu hér um daginn? Þeir víluðu það ekki fyrir sér að uppnefna öflugar konur og gera þær tortryggilegar á allan hátt, bæði útlit og háttu. Nei, illskan kemur sjaldnast til dyranna eins og hún er klædd. Það vissu listamenn sem drógu upp mynd af myndarlegum djöfli. Hið vonda þrífst í heiminum vegna þess að það er ekki augljóst og sýnilegt í ljótleika sínum. Þegar við leitum það uppi, ættum fremur að skoða það sem laðar að og tælir. Illskuna finnum við síður í hinu ófrýnilega, því sem ýlfrar og hvæsir. Þvert á móti, þá má vera að þar leynist yndi undir ófögru skinni.
(1) sjá t.d. verk ítalska endurreisnarmálarans Tintorettos
(1518-1594) af freistingu Krists:
https://www.wga.hu/html_m/t/tintoret/3b/2upper/2/32tempt.html
(2) https://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/religion/maps/primary/thecla.html
(3) https://www.ismus.is/i/poem/uid-a499a1ac-fef6-4c67-ab21-7f8b65d76d07
(4) Gunnell, Terry, „Grýla, Grýlur, „Grøleks“ and skeklers : medieval
disguise traditions in the north Atlantic“, Arv (2001), bls. 33-54.
(5) Þorleifur Hauksson, „Beyond Grýla“ Frederic Amory in memoriam: Old
Norse-Icelandic studies, Lindow og Clarke ritstýrðu, North Pinehurst
Press( Berkeley og LA 2015), bls. 250-268.
(6) Sjá amgr. (4).
(7) https://snar.fo/fostulavint/grylan-william-heinesen/
(8) http://www.ruv.is/frett/keltneska-vetrargydjan-er-gryla
(9) https://www.facebook.com/kristjan.b.jonasson/posts/10215680697483217