Óvæntar gjafir

Óvæntar gjafir

Ungi maðurinn er sonur minn í dag, tengdasonur reyndar og faðir litlu dótturdóttur minnar. Hann fékk dvalar- og atvinnuleyfi hér á Íslandi fyrr á þessu ári og er fullur þakklætis og auðmýktar og hefur lært sitthvað um hina kristnu fyrirgefningu sem honum var áður framandi sem lifuð reynsla.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
14. desember 2017

Flutt 14. desember 2017 · Dómkirkjan við setningu Alþingis (útvarpað á Rás eitt)

Matt. 21:1-9

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mig langar til að byrja á því að fara með ykkur aftur til ársins 1994. Það ár fæddist lítill drengur á eldhúsgólfinu í móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur í Þýskalandi. Á þessum árum var mikill ófriður á Balkanskaganum og foreldrarnir héldu af stað út í óvissuna, móðirin ólétt og þau lásu þannig í ástand heimalandsins og landanna í kring að þar væri ekki óhætt að dvelja og því var lagt upp í óvissuför, í mikilli örvinglan í leit að friði og já, í leit að betra lífi fyrir fjölskylduna.

Líf þessa litla drengs varð ekki alslæmt þó hann hafi alist upp á flakki milli hinna ýmsu evrópulanda, þar sem foreldrar hans sóttu um hæli og dvöl. Fjölskyldan passaði ekki inn í neinar mannanna reglur og ramma og því barst þeim synjun á synjun ofan. Drengurinn ólst sem sagt upp í einum fimm löndum, lengi dvöldu þau í Noregi eða í rétt tæp fimm ár. Drengurinn er um 17 ára gamall, búinn með eitt ár í framhaldsskóla í Noregi, þegar fjölskyldan er send til heimalandsins sem þá var orðið öruggt land, stríðinu var lokið en afleiðingar áralangra átaka voru t.d mikið atvinnuleysi og fátækt. Vinir fjölskyldunnar í Noregi mótmæltu og útbjuggu stuðningssíðu á facebook, fjallað var um mál þeirra í fjölmiðlum, en fjölskyldan mótmælti ekki. Þau sögðu að þau ættu engan rétt og þó þetta væri erfitt og sorglegt og alls ekki það sem þau vildu eða veldu, þá væri þessi ákvörðun yfirvalda í raun og veru alveg réttmæt. Heimalandið var öruggt, þar ríkti friður þrátt fyrir mikla fátækt og gríðarlegt atvinnuleysi. Þau sögðu og það væru í raun svo margir aðrir sem þyrftu á þessu frekar að halda en þau. Þau fluttu því frá Noregi aftur til landsins sem þau höfðu flúið þegar drengurinn þeirra var ófæddur, ég geri ráð fyrir að þau hafi hreinlega verið orðin leið á rótleysinu og flakkinu.

En drengurinn var ekki sáttur og lýsir því að erfiðast af öllu hafi alltaf verið að yfirgefa vinina og skólann. Nýjir vinir á nýjum stöðum, í nýju landi gerðu þennan dreng einstaklega vel færan félagslega og tilfinningalega.
Drengurinn strýkur síðan frá því sem foreldrar hans kölluðu heimalandið, hann var þá um tvítugt. Hann ferðast þvert yfir Evrópu og flakkar á milli Svíþjóðar og Noregs. Ég kynnist þessum unga manni á þeirri vegferð hans og líf mitt fléttast inn í lífssögu drengsins sem byrjar með miklum lygum sem smám saman leysast upp þegar traustið rýmir sannleikanum braut og fyrirgefningin lærist og lifist.
Þessi drengur kenndi mér djúpa og sanna auðmýkt fyrir lífinu og þakklæti það sem streymir frá honum hef ég ekki kynnst af þeirri gráðu áður.
Þessi drengur varð mér dýrmæt gjöf, þó ég hafi lengi vel ekki viljað sjá hana og alls ekki beðið um hana.

Auðmýkt er gjöf trúarinnar
Nú á aðventunni undirbúum við fæðingarhátíð frelsarans. Lífssaga Jesú frá Nasaret er frá fæðingu mörkuð flótta og fátækt. Foreldrar Jesú flúðu, kasólétt María ferðast á asna og Jesús er svo lagður í jötu, líklega í fjárhúsi. Þessa sögu þekkið þið.
Aðventutextinn um innreið Jesú í Jesúsalem markar í raun sigurgöngu, en gangan er langt því frá að vera sýnileg eða skiljanleg. Sigurgangan er hafin í svo mikilli auðmýkt leiðtogans að það getur verið erfitt að átta sig á því að þar fer sterkur leiðtogi. Hvernig getur leiðtogi, sem Jesús, riðið inn í Jerúsalem á litlum asna en ekki á stórum og stæðilegum fáki? Jú, lærdómur kristninnar er að styrkleiki fullkomnast í veikleika.(2.Kor.12.9) Sterkir leiðtogar stíga fram í auðmýkt og þakklæti, þeir miðla visku trúar og trausts og sýn sem allur þorri hlýðir á, trúir á og fylgir þó aldrei skyldi það vera gagnrýnilaust.

Hvaðan sprettur svo þessi auðmýkt sem Jesús sýndi og kenndi með orðum og verkum? Jú, auðmýktin getur sprottið frá lifaðri reynslu, jafnvel þroska áranna eða því sem ég hef mesta trú á og það er sú trú manneskjunar að hún sé ekki æðst, fremst, mest og best. Heldur sé manneskjunni eitthvað æðra. Í auðmýktinni finnst trúin á tilgang sem á sér æðra markmið og nær lengra en það verkefni sem staðið er frammi fyrir þar og þá – hér og nú. Ég vil að sjálfsögðu líta til almáttugs Guðs sem er hinn sanni kærleikur, sem sér og skilur að hvert okkar skref, sérhver lifuð reynsla, slæm og góð hafi annað og æðra markmið til kennslu eða nýs skilnings. Skilnings sem gerir dyrnar breiðari og hliðið hærra.
Kristin leiðtogafræði er því alveg einstök. Þeir leiðtogar sem feta í fótspor frelsarans og finna í einlægni hjartans til auðmýktar gagnvart Guði sem sínu æðra valdi, misnota síður vald. Valdníðsla víkur alltaf fyrir samstarfi og opnu samtali margra sem treysta og trúa á samtakamátt og valddreifingu.

Gjöf breytinga
“Me too” byltingin er eitt dæmi um þetta. Á siðbótarári, nú þegar 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther negldi upp mótmælin 95 á dyr Hallkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi, þá rísa upp konur úr öllum stéttum og mótmæla valdníðslu í hverskonar mynd. Feðraveldið er að leysast upp um allan heim og eitthvað nýtt bíður okkar, vitum kannski ekki alveg hvað en við finnum að við erum að lifa breytingar. Yfirleitt eru breytingar gjöf sem getur verið erfitt að taka við, sum kannski vilja hana ekki, finnst hún óþörf og jafnvel sársaukafull eða sjá ekki þörfina. En gjöfin er gefin, sannleikurinn streymir fram, sögurnar, reynslan og sorgin bíður eftir því að það sé hlustað og að hlustunin færi til breytinga á orðum og atferli.

Við getum ekki annað en tekið við þessari gjöf þó við vitum ekki nákvæmlega hvert hún leiðir okkur. Við getum a.m.k lært það að það er ekki lífi og samfélagi til framdráttar að loka inni í skáp nokkuð af því sem tilheyrir reynsluheimi manneskjunnar. Þar vil ég sérstaklega nefnda eina af grundvallarþörfum manneskjunnar og það er trúarþörfin. Trúin og trúarreynslan verður að fá að vera hluti af hinu opinbera rými. Þó trúin sé lifuð á hinu einstaklingsbunda og persónulega sviði þá er hún einnig lifuð í samfélagi manna á milli og miðlar siðferði og gildismati.

Gjöf fyrirgefningar er traust
Kæru kjörnu leiðtogar! Þið hafið verið valin til mikilvægrar þjónustu. Störf ykkar eru ekki auðveld, fyrir ykkur liggur mikið verk. Það vitið þið. Ég bið ykkur um að leiða hugann að því ósýnilega verki sem þó er svo margumrætt og það er að vinna traust. Traust er tilfinning, nátengd trú, auðmýkt og þakklæti. Traustið er einnig alltaf umfaðmað og endurnýjað af þeirri mikilvægu gjöf sem heitir fyrirgefning. Fyrirgefningin er eitt af aðalsmerkjum kristinnar trúar og að þeim trúararfi og þeim gildum tel ég að við þurfum að hlúa. Fyrirgefningar verður aldrei krafist heldur er hún gefin af fúsum og frjálsum vilja. Fyrirgefningin fær yfirleitt að flæða þar sem á undan hefur farið samtal í auðmýkt og iðrun hjartans. Ég vona að gjöf fyrirgefningar, trausts og samstarfs verði ykkur gefin á þessu kjörtímabili, kannski er nú þegar farið að glitta í þessa gjöf.

Hér í kirkjunni í dag biðjum við ykkur blessunar í störfum ykkar fyrlr land og þjóð . Það er reyndar gert árið um kring, í hverri viku í kirkjum landsins. Ég við einnig biðja ykkur og fjölskyldum ykkar blessunar og kærleiksríkrar jólahátíðar. Ég leyfi mér að minni ykkur á að taka frá tíma til hvíldar, líka þegar álagið og vinnutörnin er hvað mest. Þar er leiðtoginn Jesús einnig mikilvæg fyrirmynd, hann tók sig frá til hvíldar og bænar ásamt sínum nánustu vinum. Munið einnig eftir því að þið sækið kraft og næringu til ykkar nánustu, til þeirra sem elska ykkur.

Jólagjöfin
Það er aðeins vegna trúarinnar á frelsarann Jesú Krist sem mér tókst að taka við þeirri gjöf sem drengurinn sem fæddist á eldhúsgólfinu í móttökumiðstöð flóttamanna í Þýskalandi varð mér. Ungi maðurinn er sonur minn í dag, tengdasonur reyndar og faðir litlu dótturdóttur minnar. Hann fékk dvalar- og atvinnuleyfi hér á Íslandi fyrr á þessu ári og er fullur þakklætis og auðmýktar og hefur lært sitthvað um hina kristnu fyrirgefningu sem honum var áður framandi sem lifuð reynsla.
Nú getum við haldið heilög friðarjól, fjölskyldan sameinuð. Það er dýrmætasta jólagjöfin í ár.

Lífssaga þín og mín heldur áfram. Dýrmætar gjafir hlotnast okkur öllum þó tilgangur þeirra geti verið hulin eins og trúarleyndardómurinn um frelsarann Jesú Krists sem ekki verður að fullu útskýrður með orðum heldur aðeins lifaður.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postulegri blessun: Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.