Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér. En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.Lk. 10.38-42Það eru þær systur Marta og María sem mæta okkur í guðspjalli dagsins. Önnur þeirra sinnir hinu veraldlega af kostgæfni, á meðan hin kýs að leita hins andlega með því að setjast við fótskör Drottins og nema visku og speki af vörum hans.
Og guðspjallamaðurinn lætur okkur ekki velkjast í vafa um það, hvor þeirra það sé, sem hafi valið skynsamlegri kostinn, því okkur er það sagt berum orðum. María, sem settist við fætur Drottins valdi góða hlutskiptið á meðan Marta mæddist í mörgu og lét annríkið ganga fyrir öllu og ná tökum á sér, og hún lét ekki einungis þar við sitja því hún vildi einnig að annríkið næði til Maríu systur sinnar, og því reyndi hún að ná henni frá fótskör Drottins og reyndi jafvel að beita honum fyrir sig í því skyni.
Ólíkir eðlisþættir
Því hefur verið haldið fram um þær systur Mörtu og Maríu, að í þeim kristallist í raun tveir ólíkir eðlisþættir mannsins; hinn veraldlegi og hinn andlegi, sem þær standa þá sem tákngervingar fyrir. Í þessu sambandi er vert að rifja upp, að þegar maðurinn í árdaga var skapaður samkvæmt okkar kristna mannskilningi, þá var hann myndaður af tvennskonar efniviði: Leiri jarðar og anda Guðs. Það má því eiginlega segja um þær Maríu og Mörtu að í þeim birtist þær andstæður sem búa með manninum; andstæður eins og andi og hold, himinn og jörð.
Guðspjallið í dag felur því í raun í sér varnaðarorð um það hvernig hið holdlega og jarðneska kallar okkur stöðugt til sín og leitast ávallt við að afvegaleiða okkur og draga frá hinu háleita, andlega og guðlega, já draga okkur frá Kristi, sem þó er vaxtartakmark okkar og okkar rétta og sanna eðli. Við megum hins vegar ekki gleyma því, að Marta, sem tákngervingur heimsins og holdsins, er í góðri trú og telur sig vera að þjóna Drottni með sinni veraldlegu þjónustu, og þannig er það ávallt þegar heimurinn kallar okkur til sín og vill fá okkur til að lúta sér, það heitir alltaf að það sé í okkar þágu og okkur fyrir bestu, eða er ekki sífellt verið að hvetja okkur til að baka stærri þjóðarköku, eins og það er kallað nú á dögum, svo allir geti fengið í sinn hlut stærri sneið, og þarf ekki daglega að gefa sig að hinu veraldlega amstri og striti svo hægt sé að eignast meira og fallegra dót?
Ef þessi eru viðhorf okkar til lífsins og tilverunnar þá er hins vegar ekki skrítið þótt gildismat okkar taki í æ ríkari mæli að snúast um að koma sér sem best fyrir í heiminum, en þá má ekki gleyma því, að eftir því sem við komum okkur betur fyrir í heiminum þá kemur heimurinn sér betur fyrir í okkur. Og áhrif heimsins eru þau að smám saman teljum við okkur ekki þurfa á Kristi að halda, því þá tökum við til við að þykjast allt megna í eigin mætti.
Eitt er nauðsynlegt
Um þetta þarf raunverulega ekki að fara mörgum orðum. Við þekkjum það mætavel sjálf hvernig kröfur um veraldleg efni aukast dag frá degi, ár frá ári, og við vitum það líka hvernig margir hafa orðið til að kikna undan þessum auknu kröfum og öllum þeim veraldlegu áhyggjum sem þeim fylgja, en eins og við vitum má rekja margan mannlegan harmleikinn til slíks.
Áminning guðspjallsins til okkar um að einungis “eitt sé nauðsynlegt” er því meira en lítið tímabær og talar í rauninni beint inn í aðstæður okkar, en þetta eina sem hverjum manni er nauðsynlegt, er að beina sjónum sínum til Krists, hlýða á hann og leita ríkis hans og réttlætis. Allt annað er þegar allt kemur til alls aukaatriði.
Hver sem eyra hefur, hann heyri!
En hvað er það að setjast við fótskör Krists og hlýða á hann?
Er það kannski það að lesa orð hans og andsvör í Biblíunni?
Er það kannski það að ganga inn í hina kirkjulega hefð, því er ekki kirkjan líkami Krists á jörðu? Að hlýða á Krist felur vissulega þetta hvort tveggja í sér, en ekki bara það, því það felur einnig í sér það, að leitast við að kyrra hugann reglulega í bæn og íhugun, og láta hvorki skarkala heimsins né áhyggjur hans ná tökum á sér – m.ö.o. þá er það iðkun trúarinnar sem þarf að verða þungamiðjan í lífi okkar.
Ef við hins vegar mæðumst í mörgu og erum áhyggjufull um líf okkar, hvað við eigum að eta og drekka, og hverju við eigum að klæðast, svo vísað sé til þekktra orða Jesú úr Fjallræðunni, þá má eiginlega segja, að það sé Marta sem hafi yfirhöndina í lífi okkar, og þá kemst Kristur í rauninni aldrei að.
Kristur er nefnilega innsti veruleiki okkar allra. Hann er það frumspekilega afl sem með okkur öllum býr.
Hann er sú guðlega mynd sem býr í brjósti okkar en sem við vegna óhlýðni okkar við lögmál Drottins höfum sundrað, og höfum fyrir vikið glatað, en markmið okkar er að framkalla og endurheimta þessa mynd, og það gerum við með því að fylgja fordæmi Maríu, sem lét hinar andlegu þarfir ganga fyrir hinum veraldlegu.
Þolinmæði og von
Þær Marta og María takast hins vegar á í okkur öllum, og oft hygg ég að það kunni að gæta vonleysis á meðal okkar vegna þess að hið veraldlega er alltaf til staðar og svo áþreifanlegt, en hið andlega er svo óefniskennt og fyrir vikið fjarlægt og langsótt.
Við skulum hins vegar vera minnug orða Páls postula, þar sem hann í Rómverjabréfinu talar um dýrðarfrelsi Guðs barna og vonina, og segir eitthvað á þá leið, að þeir sem voni einungis það sem sjáanlegt sé og áþreifanlegt, eigi í raun enga von.
“Von er sést er engin von,” segir hann, “því hver vonar það sem hann sér.” (Rm. 8.24)
Nei, vonir hljóta alltaf að lúta að því, sem ekki er þegar orðið og ekki er áþreifanlegt.
Páll segir svo að í voninni séum við hólpin orðin, því ef við vonum það sem við ekki sjáum, þá bíðum við þess með þolinmæði.
Og þannig er því einmitt farið með trúna á Krist og myndina af Kristi, sem vonir okkar standa til að við endurheimtum og framkallist í brjósti okkar. Sú mynd er ekki áþreifanleg því hún er ekki þegar orðin, en við eigum með okkur hugmyndina um hana og við eigum með okkur trúna á hana, og því er það sem við bíðum hennar með þolinmæði.
Á meðan við hins vegar bíðum megum við ekki láta hið veraldlega heltaka okkur eða vera áhyggjufull um líf okkar, því einmitt það er til þess fallið að draga okkur frá fótskör Krists og frá því að hlýða á hann.
Verum heldur minnug þess, að einungis eitt er nauðsynlegt, en það er það, að Orð Krists verði lifandi í hjarta okkar. Við þurfum því að vera staðföst í því að leita ríkis hans og réttlætis, og þá mun allt annað veitast okkur að auki. Látum ekki hugarfar Mörtu ræna okkur voninni og gleðinni en leitumst við í lífinu að fylgja fordæmi Maríu, sem valdi góða hlutskiptið.