Leiðtogi lífsins

Leiðtogi lífsins

Kæru fermingarbörn. Í dag staðfestið þið þann vilja ykkar að hafa Jesú að leiðtoga lífsins og fylgja honum. Og við biðjum góðan Guð að vernda ykkur og varðveita á vegum ykkar um lífsins grýttu braut. Þið hafið eflaust frétt að ég hef gaman af því að horfa á knattspyrnu einkum þegar Leeds United leikur í ensku knattspyrnunni. Þá er ég ekki til viðtals heima hjá mér og geng um í hvítum fötum að sið leikmanna og blæs í herlúðra.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
20. apríl 2002
Flokkar

Jóh. 14.1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæru fermingarbörn. Í dag staðfestið þið þann vilja ykkar að hafa Jesú að leiðtoga lífsins og fylgja honum. Og við biðjum góðan Guð að vernda ykkur og varðveita á vegum ykkar um lífsins grýttu braut.

Þið hafið eflaust frétt að ég hef gaman af því að horfa á knattspyrnu einkum þegar Leeds United leikur í ensku knattspyrnunni. Þá er ég ekki til viðtals heima hjá mér og geng um í hvítum fötum að sið leikmanna og blæs í herlúðra.

Öllu gamni fylgir nokkur alvara. Lífið á knattspyrnuvellinum er einstakt bæði fyrir leikmenn og áhorfendur sem sumir lifa sig svo inn í leikinn að dómarinn á stundum fótum fjör að launa. Leikurinn gengur út á það að skora sem flest mörk í samræmi við þær reglur settar hafa verið um leikinn og það lið ber sigur úr býtum sem flest mörkin skorar. Í fyrradag las ég að það stendur til að árangurstengja launagreiðslurnar til danska landsliðsins sem tekur þátt í HM sem hefst í lok maí. Því betri árangur, því hærri launagreiðslur. Kröfur um betri árangur kalla á fleiri mörk.

Ég er að hugsa um þetta á þessum fallega degi í lífi ykkar kæru vinir vegna þess að nú þegar unglingsárin fara að taka við hjá ykkur þá fara kröfurnar til ykkar að aukast og enginn þykir maður með mönnum nema hann fylgi straumnum og taki þátt í því sem boðið er upp á hverju sinni.

Þá þurfið þið að spyrja ykkur að því hvort það sem boðið er upp á sé ykkur til góðs eða ills, líkamlega og andlega. Mér finnst töff þegar unglingar geta sagt nei takk við einhverju sem maðurinn á hliðarlínunni segir að sé í góðu lagi og komi til með að hjálpa þeim að skora fleiri mörk en er stórhættulegt heilsu manna þegar nánar er aðgætt og veldur því að margir missa marks með lífi sínu. Þessi leikaðferð gengur alls ekki upp. Þá lyftir dómarinn fyrr eða síðar upp rauða spjaldinu og refsar leikmanninum og liðinu fyrir leikbrotið og sendir hann á hliðarbekkinn eða í sturtu.

Lífið kennir okkur að það er stundum stutt milli gleðinnar og sorgarinnar. Þess vegna er svo mikilvægt að vera allsgáður sérhverja stund og njóta hennar á heilbrigðan hátt með þeim sem okkur þykir vænt um en þar skiptir kærleikurinn megin máli. Ég hvet ykkur eindregið til þess að reyna að hitta inn í rammann á leikvelli lífsins með þeim góðu hæfileikum sem Guð hefur gefið ykkur og skora þannig mörg mörk fyrir hann og ríki hans. En þessir góðu hæfileikar eru t.d. kærleiki, bindindi, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska og hógværð. Við hrópum ekki út af með dómarann þegar þessara dyggða verður vart í fari leikmanna á leikvelli lífsins. Við mættum nú stundum frekar muna eftir því að þakka honum fyrir þær því að frelsarinn Jesús Kristur er einn albesti þjálfari í mannlegum samskiptum sem til er í þessum heimi og hann er sá eini sem bætt getur sjálfur fyrir syndir leikmanna sinna. Það kalla ég nú þjálfara í lagi.

Orðið synd getur merkt að missa marks með lífi sínu. Orðið “synd” er rótskylt orðinu “sundur”. Það merkir að það sem átti að vera heilt er rofið í sundur. Merking orðsins synd er það sem skilur mann frá Guði. Synd er því að fjarlægjast Guð. Það gerist þegar líf okkar einkennist af sjálfselsku og kæruleysi, þegar við elskum hvorki Guð né náungann. Samfélagið við Guð sundrast sem og samfélag okkar og samskipti við annað fólk.

Fyrirgefning syndanna fjarlægir það sem skilur okkur frá Guði, það sem sundrar og rýfur tengslin við Guð. Við getum ekki gert það sjálf. En Guð elskar okkur og vill eiga samfélag við okkur. Þess vegna gaf hann okkur Jesú Krist. Sá sem missir marks með lífi sínu getur því snúið við blaðinu og byrjað upp á nýtt á miðlínunni því að Jesús hefur bætt fyrir brotið hans með þjáningu sinni og dauða á krossinum. Fyrir hann er þessi fyrirgefning og björgun möguleg.

Þið megið vita það að Guð heldur verndarhendi sinni yfir ykkur við ólíklegustu kringumstæður. Ég hvet ykkur til þess að grípa fast um hana þegar á reynir og ég minni ykkur jafnframt á það að það er mikilvægt að þið þiggið þann stuðning sem fyrir hendi er hverju sinni hjá ykkar samferðafólki því að annars getur illa farið eins og eftirfarandi saga gefur til kynna.

Eitt sinn fyrir óralöngu urðu mikil vatnsflóð í þorpi nokkru. Menn urðu að flýja hús sín til þess að komast hjá því að drukkna. Eins og gengur þá komust ekki allir frá húsum sínum og voru því björgunarsveitir kallaðar út fólkinu til hjálpar. Maður nokkur sem var mjög trúaður sagði björgunarmönnunum að þeir þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af sér því að Guð myndi bjarga honum. Nokkrum tímum seinna var vatnselgurinn orðinn svo mikill að maðurinn varð að flýja upp á þak. Þá sigldu nokkrir menn á bát framhjá húsinu. Þeir buðu manninum aðstoð sína en hann afþakkaði þar sem hann trúði því staðfastlega að Guð myndi bjarga sér. Ekki löngu seinna var vatnið orðið svo mikð að engin von virtist til þess að maðurinn myndi bjargast. Allt í einu birtist þyrla fyrir ofan manninn og reipi var látið síga niður til hans svo að hægt væri að ná honum upp. Maðurinn tók ekki við reipinu heldur talaði enn um traust sitt á Guði. Fór svo að maðurinn drukknaði.

Þegar maðurinn kom til himnaríkis var hann heldur óhress með það að hafa treyst í blindni á Guð almáttugan. Hann hefði nú vel getað bjargað honum. “en Guð hefur eitthvað annað að gera en að hugsa um mig”, tautaði hannn. “Þú getur nú sjálfum þér um kenn”, sagði Lykla Pétur, “fyrst sendum við heila björgunarsveit til að bjarga þér, síðan sendum við menn á bát og síðast sendum við þyrlu til þín en þú afþakkaðir alla hjálp”.

Þannig vill það oft líka vera með okkur að við komum ekki alltaf auga á það þegar Guð kemur til móts við okkur í lífinu og vill hjálpa okkur í gegnum mannfólkið. Við verðum að læra að treysta Guði.

Ég hvet ykkur kæru fermingarbörn til þess að ástunda það sem er elskuvert og gott afspurnar í lífinu. Minnist þess að sérhver einstaklingur sem verður á vegi okkar er einstaklega dýrmætur í augum Drottins og hann vill að við horfum á fólkið í kringum okkur eins og hann horfir á það, í kærleika. Þetta finnst mér ekki síst mikilvægt fyrir okkur íslendinga að hugleiða nú þegar Ísland er að breytast í fjölmenningarlegt samfélag þar sem fólk af ólíku þjóðerni flyst í meiri mæli til landsins og tekur með sér sína trú og siði sem eru í ýmsu frábrugðnir því sem við höfum alist upp við.

Jesús sagði eitt sinn: Ég er ljós heimsins. En hann sagði líka um okkur: Þér eruð ljós heimsins. Þegar hann kallar mennina ljós heimsins þá á hann ekki við að við séum eins og tilbúin kerti sem hann einn fái kveikt á. Nei, við líkjumst frekar kveiknum sem fær ljós sitt frá Kristi og fær líka næringuna frá honum eins og kveikurinn nærist á olíunni. Það logar aðeins stutta stund á kveik sem hefur verið dýft í olíu. Síðan slokknar á honum af því að hann þornar. Kristinn maður sem sækir öðru hverju næringu og kraft í Biblíuna, bænina og kvöldmáltíðina getur líka lýst svolítið. En brátt er hann rjúkandi kveikur, þurr og þróttlaus.

Kveikurinn verður að vera sífellt í olíunni ef hann á að lýsa stöðugt og vel. Kristinn maður sem lætur mótast af orðum ritningarinnar þornar aldrei heldur mun andi og kraftur Biblíunnar og vilji Guðs og ráð einkenna og helga dagfar hans. Jesús vill að orð sitt verði áþreifanlegt í lífi okkar. En hann segir því til áréttingar: “Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum” Ég bið ykkur kæru fermingarbörn að virða guðs orð og tileinka ykkur fyrst og fremst kærleiksboðskap Krists. Þannig getið þig borið ljós Krists til þeirra þurfa á því að halda.

Eftir því sem við gefum okkur meira að lestri guðs orðs og leitum eftir samfélagi við Jesú með því að nota bænina þá vex trúin og kirkjugangan verður að eðlilegum lífsmáta þar sem vð sækjum styrk og kraft til þess að geta komist af í þessum víðsjárverða heimi. Ég hvet ykkur kæru fermingarbörn að hætta ekki að sækja guðsþjónustu safnaðarins eftir ferminguna. Mér þykir alltaf vænt um það að sjá unglinga sem ég hef fermt koma í messurnar hér í kirkjunni sér til andlegrar uppbyggingar. Það er einlæg ósk mín að þið lítið ekki svo á að með fermingu ykkar séuð þið útskrifuð úr kirkjunni eins og eftirfarandi klassískur brandari gefur til kynna.

Einu sinni voru þrír prestar sem áttu við það vandamál að glíma að kirkjur þeirra fylltust af leðurblökum.

Þeir hittust og sögðu frá reynslu sinni. Sá fyrsti hafði reynt að skjóta á leðurblökurnar, en ekkert haft upp úr krafsinu, annað en skemmdir á kirkjunni. Annar prestur sagðist hafa farið með vatnsslöngu út í kirkju og sprautað á leðurblökurnar, og allt fór á sömu leið og hjá þeim fyrri, leðurblökurnar komu alltaf aftur. Sá þriðji sagðist hafa lent í sama vandamáli, en hann hefði losnað við allar leðurblökurnar úr kirkjunni. Hinir prestarnir urðu mjög undrandi og spurðu hvað hann hefði gert. Ég tók allar leðurblökurnar og skírði þær og fermdi og hef ekki séð þær síðan.

Verið ávallt, kæru fermingarbörn, glöð í Drottni. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum því að Drottinn Jesús Kristur er í nánd. Verið öll góðum Guði falin í bráð og lengd. Amen.

Sighvatur Karlsson (sighvatur.karlsson@kirkjan.is) er sóknarprestur á Húsavík. Þessi fermingarprédikun var flutt vorið 2002.