Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt

Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt

Frelsið er að hafa stjórn og ábyrgð á eigin lífi – hafa hugrekki til að vera sá sem maður er. Það er sá sannleikur sem gerir mann frjálsan. Það felst ekki í því að fara stjórnlaust um víðan völl heldur beina lífi sínu í þann farveg að verði bæði mér og öðrum til blessunar. Þótt það kosti fórnir.
fullname - andlitsmynd Sveinn Valgeirsson
11. október 2012
Flokkar

Páll postuli ritar í fyrra Kórinthubréfi: “Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp. Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.”

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Prooimion

“Það er bannað að stíga á strik.” Ég fékk þessi skilaboð nú um daginn frá telpu á fjórða árinu þegar við gengum útí Sunnubúð til að kaupa sleikjó. Ég hváði enda var þetta ný speki fyrir mér. “af hverju segir þú það? “Ef maður stígur á strik þá verður maður ekki prinsessa.”

Það er svo sem ekkert langt ferðalag úr Drápuhlíðinni og fyrir hornið í Sunnubúðina en sú leið er samt undirlögð býsna hættulegum strikum á milli gangstéttarhellnanna og steypuhólfanna. Telpan passaði sig vandlega á því að stíga ekki á strik, á meðan ferðamáti minn var með þeim hætti að mér finnst frekar sennilegt að ég hafi einhvers staðar eyðilagt fyrir mér tækifærið til að verða prinsessa; sem er sannarlega miður, því hver vill ekki verða prinsessa? Það voru náttúrulega fleiri hættur á leiðinni út í búð en þær sem voru tengdar strikum og prinsessudraumum; umferðin er hættuleg, ekki síst ungu barni, og þess vegna mikilvægt að víkja ekki af gangstéttinni, hvorki til hægri né vinstri, og svo má líka spyrja sig að því hvort það sé viturlegt að klappa hverjum þeim ketti sem maður sér verma sig á vélarhlífum bílanna; sumum þeirra er ekkert um börn gefið og eiga það til að klóra.

Korinþumenn og frelsið

Páll postuli á í eilitlum vanda. Hann hafði sagt fólkinu í Korinþu að nú væri allt leyfilegt; Kristur hefði unnið sitt frelsunarverk fyrir þau og þau væru því frjáls undan lögmálinu; þessu voðalega lögmáli sem engin leið var að gera til hæfis; Þessu lögmáli sem stundum er ekkert ólíkt stereótypunni úr draumaverksmiðju-bíómyndunum um hinn ameríska föður sem synirnir eru sífellt að reyna að þóknast en tekst aldrei. En fólkið í Korinþu virðist halda, að frelsið merki hömluleysi; ef ekkert er lögmálið þá megi gera hvað sem er.

Og var það ekki þannig? Skildu þau hann ekki rétt, voru þau ekki bara að bregðast við því sem postulinn hafði sagt þeim, breyta í samræmi við það sem þau höfðu heyrt? Til hvers annars að vera frjáls? Hvers vegna ætti það annars að vera eftirsóknarvert? Það fer væntanlega eftir þeim væntingum sem þú gerir til ávaxta frelsisins. Því er það ekki þannig að hömlulaust frelsi þýðir frelsi fyrir mig til að gera það sem mig langar og beinist því inná við, að einstaklingnum sjálfum en lætur hagsmuni heildarinnar – annað hvort einhverra óskilgreindra annarra eða nærsamfélagssins - sér í léttu rúmi liggja? Þannig að hömluleysið – sem Korinþubúar taka í misgripum fyrir frelsi – sjálfsdekrið og sjálfbirgingurinn miðast aðeins við mann sjálfan og reynist harla brotgjarnt byggingarefni fyrir það samfélag sem Páll kallar líkama Krists stuttu síðar í bréfinu.

Þeim var kannski vorkunn þarna í Korinþu; svolítið eins og kálfar að vori sem losna úr stíuskjögrinu og framundan þeim er vordagurinn með víðáttum sínum og óendanlegum möguleikum. Þannig að það er alveg skiljanlegt að þeir hafi trompast. En svoleiðis gengur náttúrulega ekki og þennan kúrs vill Páll leiðrétta hjá þeim; Þið eruð frjáls, segir hann. Ekki stjórnlaus. Og þótt þið séuð ánægð með nýfengið frelsi ykkar þá merkir það ekki að þið getið gert hvað sem ykkur dettur í hug. Ef markmiðið er að mylja aðeins undir sjálfan sig og að taka ekki tillit til meðbræðra og -systra þá hefur boðskapur meistarans frá Nazaret eitthvað skolast til. Því skulu þeir hugsa fyrst og fremst um hag annarra því slíkur kærleikur byggir upp; þ.e. ef þú gefur af þér og styður aðra, þá færð bæði þú og samfélagið það til baka með vöxtum, þ.e. ef allt er með felldu.

Hér gildir einnig gamla hugmyndin um að frelsi undan einhverju gefur enn fremur til kynna frelsi til einhvers annars. Frelsið undan lögmálinu gefur manninum frelsi til að byggjast upp á annan hátt en áður. Þvingandi frelsi? Það var þá. En ætli það sé enn svo? Og hvernig snýr þetta að okkur; erum við frjáls?

Það er kannski löngu komið úr móð að tala um postmodern manninn, kannski er hann sjálfur úreltur, búinn að fá nóg af því botnlausa frelsi sem honum hefur staðið til boða, kannski hrundi hann saman með efnahagshruninu og vill ekki lengur vera neytandi alls þess sem í boði hefur verið eða velja af nægtaborði hugmynda eða neyslu. Svona inn við beinið. Kannski dreymir hann t.d. um það að vera vera laus við gsm símann sinn svo hann fái stundlegan frið en veit ekki hvernig hann á að fara að því. Svo hann kaupir nýja kynslóð farsíma, - merkilegt hvað þær kynslóðir ganga annars hratt fram - sem beina athyglinni minnst að því hvernig hægt er að ná í hann en leggur meira uppúr dægradvöl með nýja tækinu.

Þetta eru auðvitað getgátur, ætli hinn svokallaði postmoderníski maður sé ekki enn við góða heilsu.

Og kannski er ég svolítið ósanngjarn að steypa saman postmódernmanni og neyslumenninu; og hinu má ekki gleyma að postmódernismi er ekki alvondur, langt í frá; umburðarlyndið, Lifið og leyfið öðrum að lifa er ekki slæm lífsspeki svo langt sem hún nær. En tilfellið er að í nútímamanninum fer þetta býsna oft saman. Og hann hefur búið við meira og betra val – allavega meira úrval af tilboðum – í hugmyndafræðilegu, efnahagslegu og félagslegu tillliti en áður hefur þekkst en það má alveg spyrja sig að því hvort það hafi gert hann frjálsari. En á það hefur verið bent að allt hið ætlaða frelsi sem hann nýtur er kannski ekki svo frelsandi; frá hverju frelsar t.d. 60 sjónvarpsrásir mann og til hvers? Frá hverju frelsar mann botnlaust úrval af afþreyingu og dægradvöl? Stundum hefur allt framboðið þau áhrif að valið, það að velja, verði skylda, kvöð, og því að sínu leyti íþyngjandi lögmál. Engemann nokkur hefur bent á í bók sinni, Á mælikvarða mannsins, að í stað þess að manninum gagnist það til uppbyggilegs og innihaldsríks lífs, þá kýli það hann einmitt niður; þessi eilífa kvöð að græja allt sjálfur, vera alltaf hreint að skapa sér framtíð og líf og að það eigi að koma nánast fyrirhafnarlaust. Alltaf kasúal. Og þegar reynt er að vinda ofan af því með því að segja við hann “þú mátt” í staðinn fyrir “þú átt” eins og lögmálið gerir þá feli einmitt það í sér erfiða kvöð sem hann kiknar undan. En þarf maðurinn þá alltaf að vera að velja? Líklega má svara því því til að þú hefur val um það hvort þú vilt velja eða ekki… kannski er valfrelsið þarna farið að bíta í skottið á sér

Ekki skal ég samt gera lítið úr því að það er gott að eiga val. Hins vegar má líka alveg undirstrika að frelsið sem Páll talar um er að minnstu leyti efnahagslegt eða tengt valfrelsi buddunnar. Mér finnst rétt að taka þetta fram því undanfarin ár hefur umræðan verið svo mótuð af efnahagsmálum að það er eins og allt snúist um þau og tilvera mannsins vegin og metin á þeim mælikvarða. Páll talar um mál sem tekur til innstu veru mannsins, tilfinningarinnar um það að ráða örlögum sínum, að maðurinn geti tekið ákvarðanir um líf sitt, raunar að hann hafi hugrekki til að vera sá sem hann er, í samfélaginu við Krist. Og það að geta hvílt öruggur í því. Heimatilbúið lögmál

Ég held að mörgum sé kunnugt um samspilið milli lögmáls og fagnaðarerindisins, hvernig lögmálið myndar ramma utan um lífið og veitir því ákveðið form en getur samt ekki verið inntak lífsins. Á því eru reyndar ýmsar hliðar; ég held að Páll noti hugtakið í þeirri merkingu að til þess að hljóta náð fyrir augum Guðs verði maður að halda allt lögmálið, en jafnframt að sá sem hefur reynt það finnur að honum er áfátt og að hann getur ekki áunnið sér verðleika með þeim hætti. Þannig verður lögmálið ásakandi, dæmir mann ómögulegan og í stað þess að mynda eðlilegan ramma um heilbrigt og eðlilegt líferni þá verður það að byrði. En kannski erum við ekkert skárri gagnvart okkur sjálfum: Erum við ekki alltaf hreint að búa til einhver íþyngjandi skilyrði fyrir okkur, rétt eins og litla telpan sem skoppaði í París út í búð, og það í þeim tilgangi að öðlast eitthvað sem er svo ekkert endilega innan seilingar, jafnvel óhöndlanlegt á stundum; en teljum að við verðum sáttari við okkur sjálf með því mótinu. Til dæmis eins og þegar við afplánum eitthvað sem við teljum vera óumflýjanlega skyldu til þess að eitthvað gott geti fylgt; þegar við reiknum með að lífið byrji þegar við höfum lokið námi, komið okkur þaki yfir höfuðið, klárað að borga visa-rað húskrossinn.

Við borðum brauð með osti áður en við megum fá okkur vínarbrauð. Lífið verður þá ekkert ólíkt því sem var hjá honum Adam Sandler í bíómyndinni Click, en hann átti frekar töff fjarstýringu og gat hraðspólað yfir allt þetta leiðinlega í lífinu, skylduna, en áður en hann vissi af var lífið búið. Það var eins og fyrir honum fælist lífið í því að komast á eftirlaun. Og hversu mörg okkar höfum ekki fært fórnir fyrir börnin okkar og ætlast til botnlauss þakklætis en áttum okkur svo á að fórnir okkar voru eitthvað sem enginn bað um og enginn kærði sig um. Og svo verður maður bara sár. Vissulega er það þannig að við verðum að vinna fyrir mörgu og ég er svo langt í frá að hvetja til þess að sitja bara með hendur í skauti og bíða eftir að lottóvinningurinn falli í kjöltu manns; þannig er lífið ekki. En maður verður líka að mega leggja líf sitt í hendur Guðs. Treysta. Taka eftir liljum vallarins. Slaka á. Leyfa morgundeginum að hafa sína þjáningu því það er alveg nóg af henni í dag.

Frelsið

Samfylgdin með Kristi gefur manninum þá sýn að hann getur slappað af í því að vera sífellt að réttlæta sjálfan sig og reyna að skora í topp á öllum huganslegum kvörðum. Að fá frekar að vera réttlættur.

Og hvað er þá frelsið? Ég ætla mér ekki þá dul að geta svarað því til hlítar. En líklegast felst það meðal annars í því að fá að fullorðnast, svona hvað þroskann varðar, gera sér grein fyrir því að maður þurfi ekki að gera allt þó svo það sé ekki bannað, ekkert frekar en maður þurfi að drekka áfengi þó svo maður hafi aldur til þess eða vera alltaf á rúntinum þótt maður sé með bílpróf.

Frelsið er að hafa stjórn og ábyrgð á eigin lífi – hafa hugrekki til að vera sá sem maður er. Það er sá sannleikur sem gerir mann frjálsan. Það felst ekki í því að fara stjórnlaust um víðan völl heldur beina lífi sínu í þann farveg að verði bæði mér og öðrum til blessunar. Þótt það kosti fórnir. Ég hitti daginn bandarískan mann, baptistaprest á eftirlaunum, sem hafði á sínum tíma tekið þátt í göngunni miklu til Washington í réttindabaráttu svarta. Þessi prestar er hvítur á hörund og heitir Forrest Johnson; er hann nafni suðurríkjamanns nokkurs sem var vel þekktur andstæðingur réttinda svarta í Bandaríkjunum. Eins og kunnugt er, urðu nokkur læti við þessar aðgerðir sem enduðu með því að Forrest okkar var handtekinn og fangelsaður og þegar fangavörðurinn tók á móti honum og las upp nafnið hans þá leit hann upp og sagði: “Þú ert nafni þínu og litarhætti til skammar!”

Hann tók því eins og það var, var settur inn og eyddi talsverðum tíma, smáður af fulltrúum valdsins, í fangelsisklefa með séra Martin Luther King.

Og ég upplifði í samtali mínu við Forrest að hann hefði einhvern veginn aldrei verið frjálsari en einmitt þessi dægur í fangelsinu. Þar vissi hann hver hann var og hvað hann stóð fyrir. Frelsið er ekki hömluleysi heldur er einmitt það frelsi sem einhver veigur er í, frelsi með ábyrgð, gagnvart náunganum og samfélaginu sem kennt er við líkama Krists.

Finis

Ég held því að það hafi verið til bóta fyrir telpuna sem ég sagði ykkur frá hér í upphafi, að hafa leiðsögn á ferðalaginu útí Sunnubúð. Einhvern sem kunni umferðarreglurnar sæmilega, einhvern sem gat sigtað út vondu kettina fyrir hana en var líka tilbúin að láta sér það í léttu rúmi liggja hvort maður steig á strik eða ekki ef þörf var á skjótum viðbrögðum til að forða henni frá einhverri hættu.

En þrátt fyrir allar hætturnar var ferðin út í búð ljómandi skemmtileg. Tilfellið er að það er dýrmætt að eiga kost á því að ganga á fallegum haustdegi út í búð til að kaupa sleikjó.

Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.