Kristniboðsdagurinn

Kristniboðsdagurinn

Dagurinn í dag er tileinkaður kristniboði. Íslendingar hafa í gegnum árin sent um 40 kristniboða til starfa í hinum ýmsu löndum. Kristniboðssambandið eru landssamtök félaga innan þjóðkirkjunnar og senda kristniboða til að sinna boðunar- og líknarstarfi meðal framandi þjóða. Þannig hafa kristniboðar tekið þátt í ýmsum verkefnum á sviði heilbrigðisþjónustu, menntunar og þróunaraðstoðar.
fullname - andlitsmynd Leifur Sigurðsson
09. nóvember 2014
Flokkar

Dagurinn í dag er tileinkaður kristniboði. Íslendingar hafa í gegnum árin sent um 40 kristniboða til starfa í hinum ýmsu löndum. Kristniboðssambandið eru landssamtök félaga innan þjóðkirkjunnar og senda kristniboða til að sinna boðunar- og líknarstarfi meðal framandi þjóða. Þannig hafa kristniboðar tekið þátt í ýmsum verkefnum á sviði heilbrigðisþjónustu, menntunar og þróunaraðstoðar. Kristniboðssambandið hefur ávallt lagt ríka áherslu á að sýna kærleika Guðs í verki og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi.

Undanfarin ár hefur Íslenskt þjóðfélag gengið í gegnum miklar breytingar. Þessar breytingar endurspeglast meðal annars í viðhorfum þjóðarinnar til trúarbragða og stofnana sem þeim tengjast. Aukin gagnrýni og andstaða við Kristin gildi og aðrar birtingarmyndir kristinnar trúar hefur aukið á tortryggni fólks gagnvart kristniboði. Hvað réttlætir það að boða öðrum kristna trú? Hvers vegna eru Íslendingar að senda kristniboða út í heim?

Einfaldasta svarið við þessum spurningum er - vegna þess að Jesús sagði okkur að gera það. En í Guðspjalli dagsins, sem oft er kallað kristniboðsskipunin sagði Jesús lærisveinunum að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum, vegna þess að nú hefði honum verið gefið allt vald á himni og jörð. Þetta voru síðustu orð Jesú til lærisveinanna áður en hann steig upp til himna. Síðan þá hefur Kristin trú breiðst út um allan heim.

Eitt af slagorðum þjóðkirkjunnar er boðandi kirkja. Yfirlýst markmið kirkjunnar er að veita öllum tækifæri á að gerast lærisveinar Krists. Kjarni boðunarstarfs kirkjunnar er prédikun fagnaðarerindisins - að kalla fólk til trúar á Jesú Krist. Þess vegna er boðun fagnaðarerindisins ekki valkostur kirkjunnar. Boðun fagnaðarerindisins er grundvöllur tilveru kirkjunnar.

Árið 2010 ákvað Kristniboðssambandið að byrja starf í Japan. Hvers vegna Japan? Ekki þarf Japan á þróunaraðstoð að halda? Nei, sem þriðja stærsta hagkerfi heims þá þurfa þeir enga þróunaraðstoð. En Japanir er önnur stærsta þjóðin sem hefur hvað fæsta fylgjendur kristinnar trúar í heiminum. Í landinu búa um 128 miljónir. Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá landsins, en fáir þekkja Jesú. Flestir eru búddatrúar eða sjintótrúar.

Fyrir nokkrum árum kynntist ég manni að nafni Kuwabara san. Hann býr í Kobe og hafði sem ungur maður fengið nýja testamenti að gjöf. Hann reyndi að lesa í því, en missti fljótt áhuga og lagði það frá sér. Honum fannst boðskapurinn undarlegur og fannst hann ekkert erindi eiga við sig. Seinna á lífsleiðinni fann hann fyrir miklum innri ófriði. Spurningar um dauðann og hver tilgangur lífsins væri urðu sífellt ágengari. Hann reyndi að fylgja tilteknum kenningum og reglum Búddismans í leit sinni að friði. Þessar tilteknu reglur gera miklar kröfur um sjálfsaga. Að lokum varð honum þó ljóst að það væri honum algjörlega um megn að uppfylla öll þau skilyrði sem Búddisminn krefst. En þá mundi hann eftir nýja testamentinu og fór að lesa í því aftur. Í þetta sinn talaði orð Guðs til hans. Hann fór að sækja samfélag í Lútherskum söfnuði, en þar kynntist ég honum. Þá var hann í skírnarfræðslu. Hann hafði þá nýlega greinst með krabbamein, en þrátt fyrir þau tíðindi þá sagði hann mér að hann hefði eignast það sem hann hefði svo lengi leitað eftir - frið í hjarta. Orð Guðs hafði opnað augu hans fyrir því að það er ekkert sem maðurinn getur sjálfur gert til þess að eignast frið og von sem nær út fyrir dauðann.

Fyrirgefning syndanna, friður Guðs og von um eilíft líf er gjöf Guðs fyrir krossdauða Jesú - Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. (Jóh 3:16 Jesús uppfyllti allar kröfur skilmálanna - sem við ekki gátum uppfyllt. Það undarlega við gjöf er að það er ekki hægt að kaupa hana. Það er ekki hægt að ávinna sér hana. Það eina sem við getum gert er að taka við henni. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. (Jóh. 1:12) Til þess að eignast þennan rétt og þessa gjöf verðum við að taka á móti henni.

En undir hverju er allt komið að lokum? Hver ákveður hvort maður eignast frið Krists í þessum fallvalta heimi? Allt veltur það á því hvernig við tökum við fagnaðarerindinu. Vissulega eru margir sem hafna því, en það eru líka margir sem velja að trúa á Jesú. Það getur oft kostað mikið að játa trú á Jesú í Japan. Stundum afneita fjölskyldur þeim sem játast Kristi. En í Japan er fólk flest undir miklum þrýstingi frá fjölskyldum sínum og samfélagi að fylgja ríkjandi gildum og hefðum, sem oft tengjast tilbeiðslu á látnum forfeðrum. Jesús dregur enga dul á, að það kosti talsvert bæði að verða Kristinn og að vera Kristinn.

Margt ungt fólk í Japan veltir fyrir sér tilgangi lífsins, en um 85% unglinga finnst lífið ekki hafa neinn tilgang og einn af hverum tíu óska þess að þeir hefðu aldrei fæðst. En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? (Róm. 10:14-15a) Í dag eru mjög fáir sem gerast kristniboðar. En það er bæn mín að fleiri mættu gefast Guði til að bera þennan boðskap vonar til sem flestra þjóða. Fagnaðarerindið um Jesú er eini boðskapurinn sem veitir fólki af ólíkum menningarheimum von og tilgang.