Guði sé lof fyrir Vísindasjóð Prestafélagsins! Eðlislæg fyrirhyggja hans gerði okkur hjónum kleift að ferðast til Kaliforníuhéraðs í janúar ásamt dætrum okkar tveim, þar sem við heimsóttum kæra ástvini, er drekka í sig sól og hugvísindi, og sátum þar að auki ráðstefnu um stöðu þrenningarlærdómsins í nútímanum þ.e. í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Með þeim lærdómi öllum var hún skoðuð sjarmerandi eyðurmerkurnáttúran þarna á vesturströndinni, ásamt sólarlaginu í mildu loftslagi á miðjum vetri, auðvelt var að finna varning með heldur fábrotnari álagningu en hér heima, og þá skulum við ekki gleyma litríkum mannlífsrannsóknunum, en vísindin þau gáfu þrenningarlærdómnum ekkert eftir.
Þarna mætti maður bæði fulla karlinum á Hollywoodbreiðgötunni með brostna drauma, glaða fólkinu í Jesúgöngu á sömu götu, og alvarlega biskupnum í West Angeles Church, sem í prédikunarlok var farinn að hoppa, svitna og hrópa hallelúja með krossinn í syngjandi sveiflu um hálsinn og fram í sal hreyfðist andlit gömlu Motownstjörnunnar Steve Wonder í takt við æsta rödd prédikarans.
Við misstum reyndar af flóttamanninum, sem lögreglan var að elta um hábjartan dag á Colorado Street, hún stöðvaði bifreið sína snarlega á götuhorni og kallaði út til okkar svona til að bregðast við sauðasvip saklausra íslendinga: „Looking for a Runaway!“ Við reyndum að rifja upp í hvaða bíómynd við vorum stödd.
En aftur að þrenningunni. Hún fékk að hljóma í Fullerháskólanum í Pasadena LA, sem hýsti þessa fyrrnefndu ráðstefnu. Háskólinn sá er virtur mjög í hinum akademíska heimi, tala nú ekki um sálfræðideildina þar. Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru fimm talsins, fjórir karlmenn og ein kona frá ýmsum háskólum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Háskólaprófessor bandarískur var þarna þátttakandi með lærisveinahópinn sinn í eftirdragi og í þeim hópi voru stúlkur er spurðu með undrunarsvip um allar konurnar, hvar þær héldu sig nú. Það var þá reyndin að þessi ráðstefna sýndi ekki vel breiddina í tilteknum fræðum, heldur var mjög bundin við sérhæfða og einstefnulega nálgun hvítra miðaldra karlmanna án þess að ég sé haldin miklum fordómum í garð þeirra, enda sjálfur að sigla inn í þá greiningu.
Þarna voru kenningar ræddar út frá mönnum á borð við 18. aldar guðfræðinginn Jonathan Edwards, sem kom úr sterkum hreintrúarjarðvegi. Hann fjallaði um Guð sem uppruna allra hluta og um fegurðina í hinu trúarlega samhengi og Guð föður sem hinn hreina huga. Edwards þessi er kenningarlegt „autoritet“ í Bandaríkjunum og virðist vera sterkt haldreipi í teológískum þrenningarfræðum þar.
Kirkjufeður báru vissulega á góma og Karl nokkur Barth, en helsti rokkarinn í hópi þeirra er nýttir voru til grundvallar í fyrirlestrum var Miroslav Volf, en eina konan í hópi aðalfyrirlesara dr. Karen Kilby fjallaði um hann er hún tók á þrenningunni og stjórnmálum og hnykkti á hinu félagslega kerfi þrenningarinnar þ.e.a.s. um kærleikstengsl persónanna þriggja, Guðs, sonar og andans heilaga, sem eiga að endurspegla tengslin í félagslegum kerfum heimsins.
Volf þessi er króatískur guðfræðingur og fyrrum kennari við Fullerháskólann. Hann hefur t.a.m. fjallað um líf og kærleika Guðs í þrenningunni og rætt inn í litríka flóru kirkjudeilda, inn í mismunandi trúar-og siðferðishópa. Þannig hefur hann t.d. tekið fyrir valdastrúktúr kirkjunnar og varpað því fram að stigveldi sé þar óhugsandi með tilliti til þriggja guðdómlegra og jafnra persóna þrenningarinnar. Það ætti að vera ögrandi, ekki hvað síst fyrir hinn kaþólska heim.
Segja má að þessi fyrirlestur dr. Kilby hafi ýtt mest við, en að öllu sögðu þá er það svo merkilegt og magnað hvað fólk getur „spekúlerað“ mikið í skilgreiningum á Guði, það liggur fyrir að slíkt hljóti að vega þungt, gerði það víst á hinum fornu kirkjuþingum og virðist gera enn í dag, það að geta rætt viðfangsefnið og skilið, friðar vonandi fremur en hitt eða það ætti alltént að vera markmiðið. Sú staðreynd ásamt því að kynnast svolítið kennimönnum og kenningasmiðum í gegnum fyrirlestra ráðstefnunnar í Pasadena fannst mér gagnlegur lærdómur, þrátt fyrir að fyrirlestrarnir sjálfir hafi verið nokkrir heldur þvælingslegir á köflum að mínu mati.
Þá var það dýrmætt að sjá ástvini sína blómstra í Kaliforníu, námsleyfi gera mönnum greinilega gott og efla og hvetja, þess vegna hef ég ákveðið að gefa„LÆK“ á fyrrnefndan Vísindasjóð.