Í dæmisögunni um sáðmanninn, líkti Jesú orði Guðs við fræ sem sáð er í mismunandi jarðveg, þó er uppskeran ekki alltaf sú sama en það sem fellur í góðan jarðveg margfaldast og ber ávöxt. Máslhátturinn svo uppsker hver sem sáir ber sama boðskap. Kannski er vorið ekki endilega tíminn þar sem uppskeran er skoðuð og þó. Síðastliðna helgi upplifði ég hvernig uppskera og sáning að vori kallast á. Á laugardeginum mættu glaðbeittir kórkrakkar í Safnaðarheimilið á Hellu þar sem uppskeruhátíð barnastarfsins fór fram. Börnin í kórnum höfðu í vetur mætt reglulega á sínar kóræfingar, sungið við guðsþjónustur og glatt okkur öll með söng sínum og störfum. Síðustu æfingarnar höfðu þau æft lítið kær-leikrit sem þau fluttu ásamt því að syngja þennan laugaragsmorgun. Við öll sem störfum með þeim og fjölskyldur þeirra vorum óskaplega stolt af þeim. Við þessa sömu athöfn þakkaði organisti Oddaprestakalls og kórstjóri Barnakórsins, Nína María Morávek fyrir farsæla samfylgd með börnum í prestakallinu en hún hefur um árabil stjórnað barna- og stúlknakór í prestakallinu. Við vorum öll á þessari stundu klökk af þakklæti fyrir hennar góðu störf. Það má með sanni segja að hún hafi á þessum tíma uppskorið eins og til var sáð, í prestakallinu sem þó er ekki stórt er orðin rótgróin hefð fyrir barnakórastarfi meðal sóknanna. Það starf er óendanleg dýrmætt og í þeim störfum er svo sannarlega sáð til fræjum sem treyst er á að beri í framtíðinni ríkulegan ávöxt í lífi og starfi á kirkjulegum vettvangi. Kórstjórinn sem kvaddur er má sem miklu stolti líta til baka og vita að aldrei verður fullþakkað. Þó má segja að óskir alls staðar frá um að áfram verði starfandi barnakór sé ríkuleg ávöxtun sem þarf að hlúa að og búa áfram góðan jarðveg. Á sunnudag lögðum við fjölskyldan af stað með nesti í tösku, útsæði, tré og áburð. Nú var kominn tím til að setja niður kartölur, sá gulrótum og rófum og setja niður eitthvað af trjám. Með okkur var tengdapabbi sem nánast alla sín ævi hefur sett niður kartöflur, gróðursett tré eða sáð fræjum. Nú voru gefnar ráðleggingar og barnanna að taka við þeim, sjálfur hafði hann smitað sín börn af áhuga sínum á ræktun jarðarinnar og áfram vildi hann miðla til barnabarnanna. Í huganum fórum við yfir hvað það yrði gott í haust að sjóða okkur nýjar kartöflur eða borða ljúffengar gulræturnar og enn lengra hugsuðum við til framtíðar að leika okkur og týnast í skóginum sem þarna yrði þegar börnin kæmu sem sín börn eða barnabörn á sama stað. Það var ekki efi í huga hjá neinu okkar að vænta ekki ríkulegrar uppskeru. Á hverjum degi sáum við fræjum með orðum og athöfnum og auðvitað þráum við uppskeru. Á hátíðis- og tyllidögum heyrum við talað um mikilvægi ræktun lands og lýðs og eru þau orð góðra gjalda verð. Til að sú ræktun megi verða ríkuleg er mikilvægt að við hefjum vinnu í okkar eigin garði. Þar má sjálfsagt finna einhver illgresi sem þarf koma í burtu því öll eigum við í hjarta okkar fræ sem bíða þess að blómstra í góðum og næringarríkum jarðvegi. Í garðinum biðjum við Guð að vinna með okkur og það gerir hann með gleði því hans verður um leið ánægjan við uppskeru sinna góðu gjafa.
Sáning og uppskera
Flokkar