Hvernig tölum við saman?

Hvernig tölum við saman?

Umræður og samráð eru nauðsynlegir grundvallarþættir til þess að við getum búið saman í sátt og samlyndi í okkar góða samfélagi. Ekkert okkar er þess umkomið að ráða öllu. Það er enginn réttborinn til valda.
fullname - andlitsmynd Ragna Árnadóttir
07. desember 2010
Flokkar

Komið þið sæl og blessuð!

Ég þakka fyrir að vera boðin hingað í Árbæinn í tilefni aðventunnar og jólanna, hátíðar gleði og friðar. Jólaseríur og jólaljós prýða nú marga glugga og stöku tré og jólalögin í útvarpinu byrjuð að hljóma – þau smeygja sér inn í eyrað og mýkja hjarta og huga. Það er svo gott. Við skulum leyfa okkur að vera mjúk – nú er tími hinna mjúku kvenna og karla.

Mér finnst þetta tilvalinn tími til að opna hugann og leyfa nýjum tilfinningum og hugmyndum að komast að. Verum dugleg að skipta um skoðun, dugleg að endurskoða, dugleg að endurmeta – dugleg að hlusta á hvert annað. Því það sem manni finnst rétt á einum tíma getur reynst rangt á öðrum – það er mannlegt að hafa rangt fyrir sér, þannig er mannskepnan nú einu sinni sköpuð.

Það er enginn veikleiki fólginn í því að skipta um skoðun heldur mikill styrkleiki. Það þarf kjark til að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér. Það þarf kjark til að segja: Ég ætla að hlusta á aðra og kannski skipti ég um skoðun. Ég ætla að vera mjúk og sveigjanleg því að ég er sterk.

Nú er ég auðvitað ekki að segja að við höfum alltaf rangt fyrir okkur, vitaskuld höfum við stundum rétt fyrir okkur. En það, að hlusta á aðra, getur einmitt styrkt okkur í þeirri skoðun. Hvernig eigum við annars að vita, að við erum á réttri leið? Þótt eigin dómgreind geti verið okkar sterkasta leiðarljós er það bara styrkur að fá álit annarra.

Umræður og samráð eru nauðsynlegir grundvallarþættir til þess að við getum búið saman í sátt og samlyndi í okkar góða samfélagi. Ekkert okkar er þess umkomið að ráða öllu. Það er enginn réttborinn til valda.

Þá er hin stóra spurning, hvernig tölum við saman – hvernig ráðum við ráðum okkar? Hvort sem umræðan fer fram á Alþingi, í ríkisstjórn, á þjóðfundum, á Stjórnlagaþingi, í fjölmiðlum, á heimilinu, eða á netinu hlýtur hún að lúta ákveðnum grundvallarlögmálum – ákveðnum grundvallargildum. Það á ekki að vera sjálfsagt að grípa fram í fyrir öðrum í spjallþáttum en banna það svo við matarborðið heima. Á sama hátt er ljótt að baktala fólk, hvort sem það fer fram á kaffistofunni eða á netinu. Verst finnst mér það sem haft er fyrir börnunum – þau þurfa góðar fyrirmyndir.

Í rauninni er þetta svo einfalt. Okkur hafa verið kennd ákveðin gildi, ég nefni sem dæmi umburðarlyndi, heiðarleika, kærleika og virðingu, og þessi gildi verðum við að nota í öllum okkar samskiptum, í hvaða formi sem þau fara fram.

Hugsum um umburðarlyndið. Er ekki bara hið besta mál að vera umburðarlyndur fyrir sjónarmiðum annarra. Við þurfum að finna lausnirnar saman. Það er enginn einn, sem veit þetta allt, hvorki einhver einn einstaklingur eða einn hópur. Það er engin ein skoðun endilega rétt.

Ég tel ábyrg skoðanaskipti vera mikla áskorun í okkar litla samfélagi, það er svo auðvelt að verða undir og hreinlega leggja ekki í að segja sína skoðun af ótta við að verða úthrópaður sem eitthvað sem maður alls ekki er.

Það er líka mjög auðvelt að hafa mjög sterkar skoðanir og neita að ræða um aðrar lausnir en sínar eigin. Svokallaðar umræður verða þá oft að hálfgerðum skylmingum, og sá, sem lætur ekki hanka sig á neinu verður sigri hrósandi. Snúum þessu endilega við.

Hvernig er þetta svo með virðinguna? Er ekki alveg öruggt að við sýnum hverju öðru tilhlýðilega virðingu? Ef við sýnum virðingu, þá fáum við virðingu. Það þarf að hafa hugfast þegar við tölum saman heima í stofu, á kaffistofunni eða á netinu.

Ekki síst þegar við tölum saman á netinu. Orðfærið þar er ekki minna mikilvægt en það sem er notað í persónulegri samskiptum. Það getur virkilega sviðið undan ljótum orðum á netinu, og sérstaklega því það er öllum opið – það getur hver og einn valsað um ljótu orðin á netinu og kannski enginn til varnar. Ég man sérstaklega eftir foreldrum sem komu til mín í viðtal, þegar ég var ráðherra. Sonur þeirra hafði orðið fyrir svæsnu aðkasti á netinu og sýndu þau mér útprentanir af því. Þau voru algerlega varnarlaus og vissu ekki hvað þau áttu til bragðs að taka.

Enda var mannorð sonar þeirra í húfi. Mannorðið er svo dýrmætt og það er erfitt að endurheimta það, hafi það farið forgörðum.

Því er það mín bjargfasta skoðun að við þurfum að temja okkur virðingu fyrir náunganum og passa upp á það sem við látum frá okkur á netinu – og ekki síst þarf að brýna það fyrir blessuðu ungviðinu, sem kannski veit ekki betur.

Annars er netið og þau miklu upplýsingaskipti, sem þar eiga sér stað, alveg mögnuð og hægt að nota þau til góðra verka. Liðinn er sá tími þegar upplýsingarnar komu til manns í gegnum nokkur dagblöð, eina útvarpsstöð og eina sjónvarpsstöð. Vissulega var þá aðeins einfaldara að lifa, og þó.

Á æskuheimili mínu í Kópavogi voru keypt tvö blöð, Morgunblaðið og Þjóðviljinn. Móðuramma mín Ragna, sem bjó á hæðinni fyrir neðan, keypti Alþýðublaðið, og móðursystir mín Ingibjörg keypti Tímann. Blöðin sirkúleruðu svo í húsinu, sem var þriggja hæða fjölskylduhús með ýmsum fjölskyldumynstrum innanborðs. Oftar en ekki var skeggrætt yfir kvöldverðinum um hvað væri nú satt og rétt – einkum voru frásagnir í Mogganum og Þjóðviljanum í þversögn við hvor aðra. Sitt sýndist hverjum.

Nú eru möguleikar til upplýsingaöflunar auðvitað allt öðruvísi og við höfum betri tæki til að sannreyna hið rétta í stöðunni. Samt er þetta þó ennþá ótrúlega frumstætt, völdin eru ennþá hjá þeim sem heldur í pennann í það skiptið. Og það eru ekki svo lítil völd!

En nóg um upplýsingar og upplýsingaflæði. Nú nálgast jólin óðfluga og allt umstangið sem þeim fylgir. Sumir halda í hefðirnar og gera alltaf það sama fyrir hver jól – það einfaldlega tilheyrir. Hjá mér er það svona happa glappa. Ein jólin baka ég til dæmis tvær eða þrjár sortir, önnur jólin læt ég nægja að búa til konfekt. Allt reddast þetta á endanum og þýðir ekkert að örvinglast þótt prógrammið riðlist eitthvað. Ég man til dæmis eftir fyrstu jólunum eftir að eldri dóttir okkar Magga fæddist. Hún var með ægilega magakveisu, þessi elska, og orgaði af lífs og sálar kröftum í nokkra mánuði samfleytt. Þorláksmessa og aðfangadagur var þar engin undantekning og svo fór að við, hinir nýbökuðu foreldrar, náðum ekki að skreyta jólatréð fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld. Ég hélt hreinlega að himnarnir væru að hrynja yfir mig. Hvers konar frammistaða var þetta eiginlega! Var hægt að láta jólin ganga í garð með óskreytt tré? Svo heppilega vildi til að við vorum boðin í mat til tengdaforeldra minna þetta kvöld og skreyttum því jólatréð í næði á jóladag. Það var bara mjög skemmtilegt, ekki man ég eftir að þau jól hafi verið neitt verri en önnur – þótt þetta hafi nú ekki verið endurtekið síðan.

Og fyrst ég er byrjuð að rifja upp þá má ég til með að segja ykkur frá því þegar ég sem unglingur steikti mér nokkur egg síðla kvölds í byrjun desember, þetta var svona smá biti fyrir háttinn. Þetta var um 1980. Mamma tjúllaðist – hundskammaði mig fyrir að eyða eggjunum í þessa vitleysu. Ég átti þetta fyllilega skilið. Ég hefði átt að muna eftir því, að mamma hafði safnað eggjum til að eiga í nokkrar sortir – í þá daga var iðulega eggjaskortur fyrir hátíðarnar og þá þurfti að fara sparlega með þau egg sem fengust.

Mamma bakaði reyndar alltaf svakalega fínar smákökur fyrir jólin, setti þær í dunka og límdi aftur með rammgerðu málningarlímbandi og setti upp á háaloft. Enginn komst í kökurnar fyrir jól nema jólasveinninn stöku sinnum, þegar hann laumaði nokkrum mömmukökum eða hálfmánum í skóinn. Kæru vinir, nú er til nóg af eggjum. Enda má vel vera að ég steiki mér ommelettu þegar ég kem heim í kvöld. Þá mun ég hugsa með hlýju til háaloftsins með kökudúnkunum og góðu lyktinni, sem þeim fylgdi.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, og árs og friðar.