Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 3. grein

Þjóðkirkjan – framtíðarsýn óskast! 3. grein

Í þessari grein sem er framhald af fyrri greinum undir sama hatti er er sjónum beint að skipulagi þjóðkirkjunnar á Íslandi og settar fram hugrenningar um nauðsynlegar breytingar.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
05. desember 2018

Í þessari grein sem er framhald af fyrri greinum undir sama hatti er er sjónum beint að skipulagi þjóðkirkjunnar á Íslandi og settar fram hugrenningar um nauðsynlegar breytingar.

Hvers konar skipulag?

Ef það liggur ljóst fyrir hvert við eigum að stefna og hvað að gera þá vaknar næst spurningin; hvers konar skipulag? Ef kristnin er fyrst og fremst þjónusta við náungann í trú og verki hvaða fyrirkomulag þeirrar þjónustu skilar mestum árangri?

Sr. Þorvaldur Karl Helgason f.v. biskupsritari hefur oft orðað verkefnið á þessa leið; ef við værum að byrja frá grunni með kirkjustarf hvernig mundum við þá skipuleggja starfið?
Skoðum aðeins módel af Þjóðkirkjunni en það er byggt á hugmynd um stöðu Ensku biskupakirkjunnar „Church of England (C.E.) sem er á margan hátt í svipaðri stöðu og okkar kirkja. Í góðri greiningu á þeirri rótgrónu stofnun sem birtist í Guardian fyrir nokkrum misserum var því haldið fram að það væru þrír pólar eða brennipunktar í starfi hennar:

Í fyrsta lagi væri hún stofnun hefðanna og siðarins og hefðarkirkjan væri mjög áberandi á landsbyggðinni í Englandi og nyti þar enn sterkar stöðu meðan í borgum væri hún veik.

Í annan stað væri að finna í C.E. kirkju hinnar félagslegu ábyrgðar og róttæku samfélagssýnar. Þessa kirkju væri að finna í stærri borgum frekar en í sveitum, hún hefði félagsleg réttlætismál á stefnuskrá sinni, að vinna með og fyrir þau sem órétti væru beitt, þau sem væru á jaðrinum, okkar minnstu bræður og systur.

Þriðji póllinn innan C.E. væri svo kirkjan sem legði upp úr trúar- og andlegu lífi, jafnvel mystík og kyrrðarstarfi. Þegar hún hneigðist að því að boða persónulega trú (evangelical) væri hún oft íhaldssöm þjóðfélagslega enda oft sprottin upp úr heittrúarhreyfingum sem hafa tilhneigingu til að vera pólitískt íhaldssamar. Á hinn bóginn væri líka til ákveðin þjóðfélagsleg róttækni í þessum armi kannski ekki síst þegar menn hneigðust til hinnar mystísku hefðar.

Ef hinn venjulegi athafnaprestur er tákngervingur hefðarkirkjunnar, þá er spámaðurinn eða hinn róttæki samfélagsrýnir tákngervingur hinnar félagslegu kirkju (t.d. Martin Luther King) en dulhyggjumaðurinn tákn fyrir hina „andlegu“ kirkju (heilagur Frans frá Assisi yfir í Billy Graham).
Það má setja þetta upp á mynd sbr. hér að neðan:

Þjóðkirkjan hefur að mínu mati verið mjög nærri efsta pólnum sem við kennum við siði og hefðir. Sú kirkja er mjög áberandi í kirkjulífi hinna dreifðu byggða á Íslandi og er upptekin við að verja siðinn fyrir breytingum. Þetta er „embættismannakirkjan“ þar sem presturinn situr jafnvel og bíður eftir að fólk leiti til hans til að fá þjónustu sem tengist þá helst ævihátíðum (rites of passage). Þetta er líka kirkjan sem vill vera í einni sæng með ríkjandi öflum – ríki og kirkja. Þetta er líka kirkjan sem yngra fólk í borgarsamfélögum er í nöp við og finnst oft afturhaldssöm.

Hin róttæka kirkja hinnar samfélagslegu ábyrgðar hefur ekki verið áberandi á Íslandi. Það er helst að við sjáum henni bregða fyrir í starfi Hjálparstarfs kirkjunnar s.s. í mjög góðu starfi með fátækum. Þá vakti það athygli þegar flóttamönnum voru veitt kirkjugrið í Laugarneskirkju (sem fór mjög í taugarnar á sumum í „hefðakirkjunni“) og einstaka prestar eru stundum róttækir í málflutningi sínum, einkum um mál þeirra sem verst standa.

Hin „andlega“ kirkja, sú sem leggur upp úr persónulegri trú, eða íhugun og kyrrð á sér nokkra málsvara á Íslandi. Þar má nefna að margir prestar og starfsmenn kirkjunnar koma úr heittrúarsamhengi, t.d. KFUM á Íslandi. Það hefur oft þau áhrif að lögð er áhersla á trú og trúarupplifun. Þessi hreyfing hefur oft þótt nokkuð íhaldssöm en það tengist þó meira áhrifum frá fríkirkjum þar sem lagt er upp úr bókstafstrú (ekki síst ef tengsl hafa verið við amerískan íhaldssaman kristindóm eins og Franklin Graham er tákngervingur fyrir).

Hin andlega kirkja á sér þó allt annað birtingaform sem kemur fram í kyrrðarstarfi, pílagrímagöngum og í kyrrðarbæninni (Centering Prayer). Þar er áherslan á íhugun, hugleiðslu og bæn (via contemplativa). Þó svo að þessi hreyfing horfi inn á við þá eru í henni fræ samfélagslegrar vikni (via activa) t.d. að vinna í þágu fátækra og kúgaðra samferðamanna á veginum. Kannski tengist þessi áhersla einkum kyrrðarstarfi og pílagrímagöngum sem tengdar hafa verið við Skálholt hér á landi.
Og hvað svo?

Og hvað svo með þessa greiningu? Eins og ég nefndi hér að framan hefur þjóðkirkjan verið of föst í hefðagírnum að mínu mati. Að verja siðinn hefur þótt mikilvægara en að iðka trúna eða hina samfélagslegu ábyrgð. Kirkjan hefur brugðist við eftir á og tekið undir samfélagsleg málefni, stundum tilneydd, stundum þegar aðrir voru búnir að ryðja veginn.

Yngri kynslóðir eru ekki mjög uppteknar af hefðum. Með samfélagsmiðlum er orðin til ný menning sem fæst lítið við hefðir. Fólk almennt, sérstaklega það yngra hefur lítinn áhuga á „embættismannakirkju“ sem kostuð er af ríkinu og lítið virðist fara fyrir hinum róttæku grunngildi kristninnar í svona fyrirkomulagi. Hin kristna lífsskoðun á erfitt uppdráttar þar sem flest snýst um vald og peninga. Hlutverk hins kristna samfélags sem við köllum kirkju stendur e.t.v.nær hinni „róttæku“ kirkju (n.b. ekki í pólitískum skilningi heldur í lífskoðun) sem er aðgerðarsinnuð (via activa) og hinni „andlegu“ kirkju (via contemplativa) enda virðast þær standa nær hinum kristnu grunngildum sem reifuð voru hér að ofan. Þungamiðja starfs og skipulags þarf því að mínu viti að færast frá hefðakirkjunni og til hinnar andlega sinnuðu aðgerðarkirkju.

Því er mjög brýnt að byrja að ræða um skipulag þjóðkirkju sem er á hraðri leið að hætta að vera þjóð-kirkja. Grundvallaratriði er að taka frumkvæði að umræðum við ríkið um endanlegan aðskilnað ríks og kirkju. Víst er það ekki auðvelt mál að fram fari endanlegt uppgjör eigna en engu að síður bráð nauðsynlegt. Kristni er róttækt afl sem getur ekki verið drepið í dróma fjárhagslegra hagsmuna ríkisvalds, eins og kúguð eiginkona sem fær skammtað fé til framfæris af eiginmanni sínum. Um leið auðveldar aðskilnaður lausn á erfiðum starfsmannamálum og getur greitt leiðina að einfaldari stjórnun og starfsháttum sem eru orðnir svo flóknir að kerfið virkar sem skyldi. En umfram annað auðveldar það okkur sem kirkju að vera kirkja.

Það samfélag um kristnina sem ég sé fyrir mér tekur Jesú á orðinu í sælu- og kærleiksboðinu. Það er samfélag sem gengur inn á við í trú og andlegri rækt og síðan út að við í virkri þjónustu við náungann. Og kannski er betra að nota orðið trúarsamfélag (faith community) heldur en kirkja vegna þess óbragðs sem sumt fólk er búið að fá af því orði.

Sennilega fækkar enn í kirkjunni með slíkar áherslur, hún verður fátækari og á erfiðara að halda úti ýmsu sem hún hefur gert (t.a.m. yfir 200 kirkjubyggingum sem eru á minjaskrá, tónlistar- og menningararfi) – en hún verður samfélag sem leitast við að vera trúverðugt í eftirfylgd við meistarann. Til langs tíma held ég að það styrki starfsemina að vera trú sínum grunni og geri hana trúverðuga gagnvart því fólki sem trú og andlegt líf höfðar til.

Í Bandaríkjunum hefur orðið til róttæk hreyfing (sem er líka trúarlega þenkjandi) sem heitir „Reclaiming Jesus“ – að „endurheimta Jesú“. Hún kemur fram sem andsvar gegn íhaldssömum kirkjum sem eru orðnar þernur hins rangláta Trump. Í stefnu þessara samtaka segir m.a.:

Við trúum því að sérhver manneskja sé sköpuð í ímynd Guðs. Þess vegna höfnum við hvítri þjóðernishyggju og rasisma…
Við trúum því að við séum séum einn líkami. Þess vegna höfnum við kvenhatri og ofbeldi gegn konum…
Við trúum því að það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra og systra séum við að gera Kristi. Þess vegna höfnum við málflutningi sem yfirgefur þau veiku og ræðst gegn innflytjendum og flóttamönnum…
Við trúum því að vegur Krists sé þjónandi forysta – ekki valdabrölt sem bitnar á lýðræði og réttarríkinu…
Hvernig sem við förum að þá er tvennt ljóst; við þurfum að horfast í augu við veruleikann – og gera eitthvað í málinu. Og það fyrsta sem við þurfum að gera er að tala saman á hreinskilin og einlægan hátt um það hvernig við getum lagað starf okkar þannig að það þjóni fólki með fagnaðarerindi Jesú Krists.

Að vera trúr sjálfum sér

Fyrir hartnær 20 árum kom hingað til lands lúterskur prestur frá Bandaríkjunum Mary Fortune að nafni. Það var í kjölfarið á málum er tengdust Ólafi Skúlasyni biskupi. Hún hafði sérhæft sig í að hjálpa kirkjum og trúarsamfélögum þar sem upp höfðu komið mál um kynferðislegt ofbeldi. Þegar hún var spurð hvernig kirkjum/trúarsamfélögum, kristnum sem ekki kristnum hefði reitt af eftir að upp komu mál sem skóku trúverðugleika þeirra svaraði hún:
Þeim kirkjum/trúarsamfélögum reiddi illa af sem leituðust við að slá skjaldborg um gerandann og hagsmuni stofnunarinnar um leið og þær afneituðu gagnrýni. En þeim kirkjum/trúarsamfélögum sem gengjust við yfirsjónum og rangindum og leituðust svo við að bæta úr – trúar sínum grunngildum, - þeim farnaðist yfirleitt vel og næðu að vaxa á ný.

Hvorum megin ætlum við að vera?