Orkan virðist ekki ætla að skila sér hingað til okkar átakalaust, kæru Suðurnesjamenn. Baráttumenn fyrir bættum hag svæðisins völdu þennan dag fyrir Keflavíkurgöngu sem er að hefjast nú í þessum töluðu orðum. Fólk vill fá orku hingað á svæðið – orku sem lögð verður um línur hingað út á nesin og nýtt verður til þess að knýja hér áfram blómlegt atvinnulíf. Við metum stöðuna svona: orkuna vantar hingað á þetta fjölmenna svæði þar sem tækifærin virðast bíða hvert af öðru við dyrnar en við náum ekki að breyta þeim í veruleika fyrr en orkan kemur.
Velferðarsjóður á Suðurnesjum
Orkan birtist hins vegar í ólíkum myndum. Velferðarsjóður á Suðurnesjum fagnar ársafmæli og þess minnumst við hér í dag. Eins mjög og við hefðum viljað að ekki væri þörf á slíkum sjóði, vitum við betur. Og við hugleiðum það að sjóðurinn hefur gefið Suðurnesjamönnum og velunnurum tækifæri til þess að vera ekki aðeins þolendur í því óveðri sem geysað hefur undanfarið ár. Nei, með því að leggja fé í sjóðinn erum við gerendur, þátttakendur í því að styðja og efla og þjappa okkur saman til góðra verka. Við skulum ekki gleyma því að orkan á sér margar birtingarmyndir. Eins mikilvægur og krafturinn er sem streymir niður fallvötnin og upp úr borholunum skulum við aldrei gleyma því að orkan sem býr í huga okkar, hjartanu og höndum er jafnvel enn dýrmætari. Þetta er jákvæð orka sem þarna birtist og við þurfum enn meira af henni.
Spámaðurinn
Víst er orkan í spámanninum Amosi mikil þar sem hann flytur reiðilestur sinn yfir spilltri yfirstétt í Ísrael á áttundu öld fyrir Krist. Hann fer hörðum orðum um þá sem fleyttu rjómann í liðnu góðærinu og sólunduðu verðmætum. „Já, ég veit að glæpir yðar eru margir og syndir yðar miklar.“ Svona þrumar hann kraftmikilli raustu og hann talar um mútur og óréttlæti gagnvart þeim sem minna mega sín. Svona gátu þeir talað – spámennirnir, sem voru innblásnir af anda Guðs. Þeir máttu gagnrýna. Þeir voru eins og fjölmiðlarnir og stjórnarandstaðan, já og bloggararnir, í einum manni.
Þegar konungurinn, prestarnir og yfirstéttin misstu sig í græðgi og hroka stóð spámaðurinn, úfinn og illilegur frammi fyrir þeim og hrópaði til þeirra skammir sem ættaðar voru frá Guði. „Já, ég veit að glæpir yðar eru margir!“ segir hann af slíkum krafti að við rifjum þessi orð hans upp tæpum þrjúþúsund árum síðar. Hvað köllum við slíkan boðskap? Er þetta ekki pólitík? Og hvað köllum við boðskap sem lifir í gegnum öll þessi ár og allar þessar kynslóðir? Er hann ekki sígildur? Velferð, hamingja og lífsgildi
Yfirskrift þessa dags í Keflavíkurkirkju er einnig sígild: velferð, hamingja og lífsgildi. Þetta er pólitísk yfirskrift enda megum við alveg vera pólitísk hér í kirkjunni endrum og eins. Við höfum fordæmi frá spámönnum Gamla testamentisins og það fordæmi er ríkara en margur skyldi ætla. Byltingin í Austur-Þýskalandi byrjaði inni í kirkjunum. Kirkjurnar voru einu stofnanirnar sem ekki féllu undir hramm alræðisins svo sterkur var sá spámannlegi grunnur sem þær stóðu á og þar lifðu glæður frelsisins. Þessa minnast menn núna þegar20 ár eru liðin frá falli múrsins. „Ég veit að glæpir yðar eru miklir“ sögðu kirkjunnar menn við valdhafa og þeir efndu til málþinga, tónleika og annarra viðburða þar sem þeir veittu farveg fyrir gremjuna sem fólkið hafði í garð einræðisaflanna.
Pólitík þarf ekki að snúast um hægri eða vinstri. Hún gerði það ekki þar austur frá – þótt svo kunni kannske að virðast. Nei hún snerist einmitt um þetta sama og við erum ræða hér í kirkjunni á eftir: velferð, hamingju og lífsgildi. Kirkjan er kjörinn staður til þess að fjalla um þessi mál. Þegar þessi mál ber á góma sjáum við það að víða má gera betur í því að efla velferðina, auka hamingjuna og standa vörð um lífsgildin. Mörg systkin okkar njóta ekki þeirra gæða.
Einn af þeim mörgu kristnu einstaklingum sem hvetur kirkjur til þess að taka sig á í þessum efnum, er írski söngvarinn Bono. Hann benti á það í viðtali sem ég horfði á nú á dögunum að í Biblíunni eru alls 2003 ritningarstaðir sem fjalla um fátæka. Skilaboðin gætu ekki verið skýrari hvað varðar boðskap kristinnar trúar um velferð einstaklinga, hamingju og lífsgildi í samfélagi. Hjálpin sem við veitum hvert öðru er sannarlega brýn og mikilvæg en réttlætið er það sem á endanum skiptir meginmáli. Réttlætið er langtímamarkmið og þar virðumst við Íslendingar eiga enn langt í land.
Orkunotkun
Göngumenn tala um orkuflutning hingað á svæðið og áframhaldandi tækifæri til uppbyggingar hér. Við bíðum eftir orkunni og við vonum að þetta verði ekki glatað tækifæri mitt í þeim ósköpum sem yfir okkur hafa gengið. En í raun snýst íslenski harmleikurinn ekki um skort á orku, heldur orku sem ekki komst á réttan stað. Aflið var gríðarlegt eins og við vitum og birtist í margvíslegri mynd. Litla eyþjóðin barði sér á brjóst. Miðborgir í nágrannalöndum okkar voru að stórum hluta í eigu íslenskra fyrirtækja. Í Lundúnum einum var hópur þeirra sem störfuðu á vegum íslendinga jafnfjölmennur og öll íslenska þjóðin. Já, orkan var mikil, hún virtist hreinlega ótæmandi, en hversu hörmulega nýttum við hana?
Pólitík fjallar um orku. Hún fjallar ekki endilega um orkumagnið, megawöttin og terawöttin sem við beislum úr náttúrunni. Hún fjallar miklu frekar um orkunotkunina, hvernig við nýtum kraftinn sem við höfum á valdi okkar.
Pólitísk hugtök
Velferð, hamingja og lífsgildi – þetta eru orðin sem standa okkur ofarlega í huga núna og við fáum að heyra meira um þau hér á eftir. Velferðin er afurð kærleikans, ekki satt? Ástin snýst um það að efla og bæta velferð þess sem hennar nýtur. Þannig segir Páll postuli: „Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk. Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.“ Þetta er ekki síður pólitískur boðskapur og sígildur rétt eins og annað það sem við lesum og hlýðum á í helgri ritningu.
Og hamingjan tengist jú tekjunum sem við fáum – eða hvað? Hafið þið séð línuritin sem sýna tengsl á milli tekna og þess hversu fólk segist vera hamingjusamt? Því hærri tekjur, því meiri hamingja – í blábyrjun. En svo hættir hamingjulínan að vaxa og jafnast út. Tekjurnar aukast en hamingjan ekki, hún stendur í stað eða jafnvel dalar. Lára Ómarsdóttir kom hingað í síðasta mánuði í boði Velferðarsjóðsins. Lýsti hún hamingjusamri tilveru þar sem svo lítið er til af peningum að fjölskyldan þarf að skipuleggja hverja einustu máltíð ársins, morgunmat, hádegismat, síðdegiskaffi og kvöldmat. En þar er þó gnægð af lífsgleði og sönnu innihaldi enda er Lára trúuð kona og kann að þakka fyrir það sem henni er gefið.
Rannsóknir sýna að umhyggjan sem við sýnum hvert öðru, tengslin sem við myndum og traustið sem við berum til Guðs, hafa miklu meiri áhrif á hamingjuna heldur en staðan á bankanum, stærðin á húsinu eða verðmiðinn á bifreiðinni og öllu því öðru sem ryðgar og hrörnar. Börnum og ungmennum líður, að sögn, betur núna en fyrir tveimur árum. Hvers vegna? Hafa þau meiri tíma með fjölskyldum sínum?
Lífsgildin eru síðust í röðinni í þessari upptalningu okkar. Það er heldur betur gildishlaðið orð, eða hvað? Ef eitthvað er sígilt þá eru það lífsgildin. Þau eru vitaljósin í hafinu. Skipin geta beygt á bakborða og stjórnborða eftir umferð og þau sigla bæði hratt og hægt – en vitarnir lýsa á sínum stað og hvika hvergi. Það á líka við um lífsgildin. Þau breytast ekki þótt við þeytumst um, hringsnúumst um okkur sjálf og aðra, valhoppum í sigurgleði eða læðumst áfram skömmustuleg og sneypt. Þau eru þarna og þau lýsa okkur leiðina. Við ræðum það hér á eftir hver þessi gildi eru.
Sáttargjörð
Pólitík er hluti af lífinu og kirkjan lætur sig lífið varða. Þriðji textinn sem hér hefur verið lesinn eru ráð Krists til þeirra sem eiga sök á hendur náunga sínum. Þvílíkt vegarnesti til okkar sem stöndum frammi fyrir ráðamönnum og viðskiptasnillingum eins og síðskeggjaðir spámenn með steyttan hnefann: „Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér] skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli.“ Já, og láti hann segjast hafið þið endurheimt vináttuna. Full sátt er orðin. Syndajátning, iðrun og fyrirgefning. Samfélagið er orðið heilt að nýju.
Þetta er óður til sáttarinnar. En hún stendur ekki til boða nema að menn viðurkenni hvað þeir hafa gert. Kristur er meðvitaður um það að vitaljós lífsgildanna standa á sínum stað og lýsa í gegnum storminn og öldurótið. Hér er engum hugtökum snúið á haus. Því að í framhaldinu eru það rakið hvernig menn bera sig að ef syndarinn er forhertur og vill ekki við neitt kannast. Og ef honum stendur slétt sama um hag þeirra sem hann hefur brotið og misboðið, þá sé hann okkur sem heiðingi og tollheimtumaður.
Þolandi eða gerandi?
Hlutskipti okkar er ekki auðvelt kæru vinir. Okkur er hætt við því að leika hlutverk fórnarlambsins sem lætur orku sína liggja ónýtta. Við höfum hins vegar alltaf svigrúm til þess að virkja orkuna – já vera virk hvar sem við stöndum og á hverju því sviði sem þjónusta okkar lýtur. Með þeim hætti byggjum við upp, smátt í byrjun en svo koma tímar þar sem meðbyr ríkir og skilyrðin eru hagstæð. Þá sjáum við hversu ótrúleg sú orka er sem býr í hugum okkar, í hjörtum okkar og höndum. Sameinumst um það, kæru vinir að nýta hana samfélaginu okkar til góðs og Guði til dýrðar.