Skriftamál í Bankakreppu

Skriftamál í Bankakreppu

Bankahrunið hefur snert mig og rýrt lífskjör mín og minna. Og ég spyr eins og aðrir, hverjir bera ábyrgð? Enn sem komið er hafa fáir gefið sig fram. Ekki bankastjórnendur, ekki fjárfestar, ekki embættismenn, ekki stjórnmálamenn – nema svona pínulítið eins og börnin segja. Ábyrgðin, með öðrum orðum torfundinn ef ekki týnd.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
02. janúar 2009

Bankahrunið hefur snert mig og rýrt lífskjör mín og minna. Og ég spyr eins og aðrir, hverjir bera ábyrgð? Enn sem komið er hafa fáir gefið sig fram. Ekki bankastjórnendur, ekki fjárfestar, ekki embættismenn, ekki stjórnmálamenn – nema svona pínulítið eins og börnin segja. Ábyrgðin, með öðrum orðum torfundinn ef ekki týnd.

Úr því að þetta fólk telur sig ábyrgðarlaust eða lítið þegar spurt var um ábyrgð fór ég að leita að ábyrgðinni í eigin ranni, jafnt af meðfæddri sektarkennd sem vellærðum móralisma. Hver var mín ábyrgð á öllu þessu? Ekki átti ég banka, ekki einu sinni hlutabréf, ekki hafði ég tekið lán og fjárfest í útlöndum nema í nokkrum bókum á Amazon. Og ekki tók ég myntkörfulán til að fjárfesta í svörtum Range Rover og ekki hafði ég fjárfest í graníthellu í nýja eldhúsið, gamla plastið úr Húsasmiðjunni var þarna ennþá...

Samt finnst mér ég bera ábyrgð.

Oft hafði ég spurt sjálfan mig síðustu misserin, hvað varð af þessu gamla Íslandi sem ól mig upp? Þessu Íslandi sem kenndi mér að klára matinn og þakka fyrir hann, sem kenndi mér að leggja af mörkum til meðbræðra minna og systra, sem kenndi mér og öðrum hófsemi og jöfnuð. Já, ofan í kaupið kenndi mér það íslenska tungutak að sögnin að græða væri skyld nafnorðinu græðgi.

Árið 2007 var nefnilega til orðið nýtt Ísland þar sem mér fannst mér ofaukið. Ég hugleiddi meira að segja hvort ég ætti að leita að sjálfum mér erlendis úr því að ég fann mig ekki á Íslandi. Og inn á milli fór ég með æðruleysisbænina: Guð, hjálpaðu mér að sætta mig við það sem ég get ekki breytt...

Já þarna fannst hún kannski ábyrgðin torfundna. Hún fólst í því að þegja. Að halda að engu væri hægt að breyta. Að þora ekki að gera sig að athlægi. Ég reyndi einu sinni að æmta um fátækt mitt í allri auðlegðinni og var kallaður pokaprestur fyrir vikið. Það er voða vont fyrir sjálfsmynd prests sem telur sig hafa lært eitt og annað...

Já, hvar vorum við sem töldum okkur móralista af gömlu íslensku gerðinni? Af hverju geltum við ekki hærra? Akademían, kirkjan, listamennirnir, hinir frjálsu andar? Vorum við kannski komin á mála hjá hinni nýju auðvaldsstétt? Vildum við ekki missa styrkina fyrir góðu verkefnin okkar? Já, þeir voru fáir spámennirnir sem voguðu sér að ganga gegn almenningsáliti góðærisins svonefnda.

Já, hvar var almenningur, allt þetta reiða fólk sem nú safnast saman á laugardögum? Las það kannski í fyrra fréttir af fína og ríka fólkinu í íslenska Se og Hör?

Og hvar var forseti vor? Æðsti prestur íslenska þjóðríkisátrúnaðarins eins og ég leyfði mér stundum að nefna embættið. Hann sem átti að minna þjóðina á það sem hafði gert okkur að Íslendingum í 1100 ár? Var hann genginn í björg og bjó með nýju gildum?

Já, okkur bar af leið. Mörg berum við ábyrgð, mismikla þó. Mörg höfum við einhvers að iðrast, ég fyrir mitt leyti að hafa haldið mér saman. Og hver verður okkar yfirbót? Byrjar hún í eigin ranni? Eða kennum við bara öðrum um?