Úti er ævintýri

Úti er ævintýri

Guðspjall: Matt: 22. 15-21 Lexia: 1. Mós. 18. 20-21 (22b-33) Pistill: Fil. 3. 17-21

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Dag nokkurn þegar bóndi var í ökuferð eftir sveitavegi tók hann eftir skilti við flugvöllinn sem á stóð „UPPLIFIÐ ÆVINTÝRALEGT FLUG.“ Bóndinn hugsaði með sér, Á morgun er afmælisdagur frúarinnar. Það væri gaman ef hún fengi að upplifa ævintýralegt flug í tilefni dagsins. Best að gefa henni flugferð í afmælisgjöf.

Bóndinn fór inn á flugvöllinn og fann þar flugmann sem var til í að fljúga með hann og konu hans yfir býlið þeirra. Flugmaðurinn átti litla opna vél sem konan væri örugglega til í að prófa, en verðið var of hátt. Bóndinn gerði allt sem hann gat til að fá verðið lækkað. Að lokum samþykkti flugmaðurinn lægra verð, með einu skilyrði: bóndinn og kona hans yrðu að lofa að segja ekki stakt orð alla flugferðina. Eitt orð, hversu lítið sem það væri, mundi hækka verðið í upphaflegt verð flugmannsins. Aðeins eitt var mikilvægara en flugferð handa frúnni en það var að fá ferðina fyrir slikk, svo maðurinn féllst á skilmálana.

Morguninn eftir lögðu hjónin og flugmaðurinn svo af stað í flugferðina. Flugmaðurinn taldi víst að ef hann tæki nokkrar brattar dýfur og skarpar beygjur myndu hjónin í aftursætinu hrópa upp fyrir sig og hann fengi uppsett verð. Með það í huga tók hann dýfur og beygjur, klifraði og tók bakfallslykkjur. Ekkert heyrðist þó frá hjónunum. Ekkert öskur, ekkert hljóð.

Flugmaðurinn átti ekki orð yfir staðfestu farþeganna og kallaði til þeirra í lendingu, „Ég trúi því varla að þið hafið ekki sagt neitt þarna uppi! Ég tók dýfur, beygjur og lykkjur sem aldrei fyrr en samt heyrðist ekkert frá ykkur. Ég verð víst að játa mig sigraðan!“

Gamli bóndinn kallaði til baka, „Það munaði þó litlu að þú ynnir,félagi. Það munaði sko litlu. Ég var næstum því búinn að öskra þegar konan mín datt úr vélinni.“

Gamli bóndinn var staðráðinn í að fá það sem hann vildi með sínum skilmálum. Hann fékk það sem hann vildi en afleiðingarnar urðu alvarlegri en hann hafði reiknað með. Við erum mörg eins og bóndinn. Við erum stundum harðákveðin í að fá okkar fram. Þar með nær stolt og þrjóska að skyggja á rök annarra og við hunsum það sem við jafnvel vitum að er rétt.

Trúarlegir leiðtogar í Jerúsalem á dögum Jesú voru þrjóskir. Þeir vildu ná sínu fram með sínum skilmálum. Þeir voru mjög valdamiklir og höfðu almenning í vasanum eins og sagt er um þá sem geta ráðgast með fólk að eigin vilja. Þeir fylgdust með Jesú og hlustuðu á kennslu hans. Fylgismönnum Jesú tók að fjölga. Brátt kom að því að trúarlegu leiðtogunum fannst nóg komið því að þeim fannst sér stafa ógn af Jesú. Þeir ákváðu að leggja nokkrar erfiðar spurningar fyrir Jesú. Þrjár þeirra er að finna í 22. kafla Matteusarguðspjalls.

Við íhugum þá fyrstu hér í gospelmessunni í kvöld þar sem Farísearnir og Heródesarsinnarnir spyrja Jesú hvort rétt sé að gjalda keisaranum skatt eða ekki?

Í annarri spurningunni spyrja Saddúkear, flokkur gyðinga sem ekki trúðu á upprisuna, Jesú, hvort kona nokkur sem giftist sjö bræðrum, hver á fætur öðrum, verði kona þeirra allra í upprisunni á efsta degi?

Saddúkear og Farisear koma sér síðan saman um að spyrja Jesú hvert sé æðsta boðorðið í lögmálinu? Þeir leituðu færis að leggja gildru fyrir Jesú með þessum spurningum.

,,Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?” Það var ákveðin gildra fólgin í þessari spurningu á þessum tíma. Ísrael var þá hersetið af Rómverjum og sumir gyðingar unnu fyrir þá með því að innheimta skatt og voru kallaðir úrhrök samfélagsins fyrir vikið. Þá voru andspyrnuhreyfingar innan lands,t.d. Selótar sem neituðu að borga skattinn til Rómaborgar vegna þess að þeir álitu það vera svik við Guð sem var í þeirra huga hinn eini sanni konungur. Ísrael var í huga þeirra guðveldi og skyldur þeirra voru því gagnvart Guði en ekki keisaranum í Róm. Einn af lærisveinum Jesú á þessum tíma var Símon sem nefndur var vandlætari. Hann tilheyrði hópi Selóta. Hann var því þjóðernissinni og í hópi þeirra sem neituðu að borga skattinn til Rómverja.

Ef Jesús hefði sagt að það væri rétt að gjalda keisaranum skatt þá hefði hann komið óorði á sjálfan sig hjá mörgum gyðingum. Ef Jesú hefði sagt að það væri ekki rétt að borga keisaranum skatt þá hefði það getað valdið uppþotum og gefið yfirvöldum færi á því að kæra hann.

Hvernig sem Jesús myndi svara þá myndi hann móðga annan flokkinn og vekja reiði hins. Farisearnir álitu keisarann vera guðlastara því að í þeirra augum var Guð eini keisarinn svo að segja. Heródesarsinnarnir voru Heródesi konungi í Galileu hliðhollir sem átti allt sitt undir keisaranum í Róm en hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að myrða frelsarann.

Til að svara spurningunni þá tók Jesús rómverskan pening í hönd sér og spurði: ,,Hvers mynd og nafn er á peningnum?” ,, Keisarans”, sögðu þeir. Þá sagði Jesús við þá: ,,Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er”. Farisearnir og heródesarsinnarnir undruðust svar Jesú og gengu á brott.

Eftir stendur svar Jesú í hugum okkar hér í kvöld. Með því erum við minnt á að við kristið fólk erum borgarar í tveimur ríkjum. Við erum ríkisborgarar í ríki Guðs sem börn Guðs og við erum ríkisborgarar í því ríki sem við lifum í. Við höfum því skyldur gagnvart Guði og kjörnum stjórnvöldum á sama tíma.

Ég hef heyrt því fleygt að sumt kristið fólk erlendis hafi neitað að kjósa í þingkosningum vegna þess að það álíti að ríkisborgararéttur þess sé fyrst og síðast á himnum og því eigi það alls ekki að taka þátt í pólitísku starfi. Aðrir hafa neitað að gegna herþjónustu af sömu ástæðu erlendis.

Svar Jesú bendir hins vegar eindregið til þess að kristið fólk eigi að láta að sér kveða í þjóðfélaginu. Skyldur okkar við Guð eru fyrst og fremst þær að leitast við að hlúa að öllu lífi á jörðinni, ástunda það sem er gott, fagurt og fullkomið í trú, von og kærleika. Og veita stjórnvöldum tilhlýðilegt aðhald með því að áminna, uppörva og hvetja, ekki síst nú á erfiðum tímum í lífi þjóðarinnar. Við þurfum síðan öll að axla ábyrgð á gjörðum okkar gagnvart hvert öðru og Guði en honum þurfum við að standa reikningsskil.

Undanfarin fimm ár eða svo hefur þjóðfélagið tekið þátt í ævintýralegu flugi í opinni flugvél sem tók dýfur, beygjur og lykkjur sem vakti óskipta athygli alþjóðasamfélagsins þar sem það ýmist hvatti farþegana eða varaði þá við. Flugmaðurinn var sannkallaður ,,græðgispúk”i sem var snillingur í að þagga niður í gagnrýnisröddum meðal farþeganna. Hann beitti einstökum vélráðum og sá til þess að hyggjuvit farþeganna flaug út í veður og vind. Neysluflugið var fjármagnað með lánum innan lands sem utan. Þátttakendur voru bankar, fjölmiðlar, stjórnmálamennirnir og fjárglæfarmenn í hópi almennings, og þeir fjölmörgu sem fjármögnuðu neystlu sína með lánum. Þegar lánsfjárþurrðar gætti þá brotlenti flugvélin og ævintýrið var úti.

Eftir standa skuldir þjóðarbúsins við lánveitendur um víða veröld og til stendur að skuldsetja þjóðina til margra ára. Allur almenningur er reiður og sár í dag vegna sparifés sins sem situr fastur í peningasjóðum bankanna og hefur að öllum líkindum rýrst til muna. Hvar liggur ábyrgðin, er spurt?

Stjórnvöld axla ábyrgð sína í næstu kosningum. Útrásarvíkingarnir axla e.t.v. ábyrgð sína með því að koma með gjaldeyri inn í landið á komandi tímum. Heimilin í landinu þurfa að blæða fyrir þetta ævintýri sem fékk svona hörmulegan endi, fyrirsjáanlegan segja sumir en því miður var ekki hlustað á gagnrýnisraddir.

Hallgrímur Pétursson kemst vel að orði um ágrindina er hann orti.

Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir, sem freklega elska féð, auði með okri safna, andlegri blessun hafna en setja sál í veð.

,,Græðgispúkinn” sló farþega sína siðblindu. Hann var snillingur í að flækja farþegana í orðum svo að þeir stein þögðu á ferðalaginu. Þeir vissu hvað Guð vildi en þeir vildu eitthvað annað. Við viljum láta þá sem kunna að hafa brotið af sér axla ábyrgð. Það er mjög eðlileg krafa finnst mér. Þegar við brjótum af okkur í þjóðfélaginu og erum fundin sek þá erum við dæmd til sektar eða fangelsis allt eftir umfangi brotsins og tökum út okkar dóm og getum hafið nýtt líf að því loknu í nokkuð góðri sátt við samferðamennina. Þannig nær réttlætið fram að ganga á meðal mannanna barna. Ég tel að þjóðin viti hvað til síns friðar heyrir og vill standa vörð um siðgæðið í landinu, a.m.k. í viðskiptalegu tilliti. Iðrun og fyrirgefning eru máttug verkfæri friðar í samskiptum manna, einnig í samskiptum manna og Guðs. Að þessu leyti verðum við flest að líta í eigin barm og axla ábyrgð.

Réttlæti Guðs tekur fram réttlæti mannanna að því leyti að Guð, sem dæma ætti mennina, tekur sjálfur út dóminn sem mennirnir ættu í raun og veru að fá og taka út. Guð tekur til sín skuldabréf sérhvers manns, eyðir því að minnist þess ekki framar. En þetta gat Guð ekki gert nema gefa okkur son sinn Jesú sem dó fyrir syndir mannanna á krossinum. Þetta gerir Guð af kærleika í garð syndugs mannkyns, af náð einni saman.

Við þurfum að biðja Guð fyrirgefningar og hverfa aftur til gömlu góðu dyggðanna en reynsla kynslóðanna sýnir að það er hyggilegt að halda sig við þær. Hófsemi er mikilvæg dyggð. Hún er silkiþráðurinn sem perlur dyggðanna eru festar á en höfuðdyggðin er kærleikurinn. Í þessu árferði þurfum við að leggja mesta áherslu á kærleikann og fyrirgefninguna og markvissan stuðning við þá sem eiga um sárt að binda, nú þegar ævintýrið er úti og reikningsskilin taka við.

Guð gefi okkur öllum náð til þess. Amen.