Fáar frásögur ritningarinnar valda mönnum jafn miklum erfiðleikum og sagan af fórn Abrahams. Í henni er sagt frá því þegar Guð krefst þess af Abraham að hann fórni syni sínum sem tákni um hlýðni við sig! Þetta finnst okkur ekki einungis fáránlegt, heldur enn eitt dæmi um hve litla samleið Guð Gamla testamentisins á með Guði Nýja testamentisins eða Guði föður sem Jesús opinberaði. Þetta er mat okkar við fyrsta lestur, en þegar betur er að gáð, kemur í ljós að til fárra frásagna Gamla testamentisins er jafn oft vitnað í Nýja testamentinu. Hún er ein af þeim þráðum sem tengir testamentin saman. Þessu veldur að í henni er fjallað um tvo þætti sem við þekkjum vel til, jafnt af síðum Nýja testamentisins sem úr eigin lífi. Sá fyrri er trúarbaráttan eða sá vandi trúarinnar að halda í fyrirheit Guðs og fyrirgefningu á degi neyðarinnar. Hinn er að hér er lýst þeim þjáningum sem Guð létti af mönnum, en tók sjálfur á sig í syninum þegar hann fórnaði sér og dó á krossi svo við mættum lifa. Við menn höldum okkar, en Guð gaf allt. Í útleggingunni hér á eftir skulum við hafa þessa báða þætti í huga.
Þegar frásagan – sem er meistaralega samin – er lesin verður ljóst að hún fjallar um prófun trúarinnar en ekki fórnina. Við vitum að Abraham á ekki að fórna syni sínum og mun ekki heldur gera það. Lesandinn er svo að segja áheyrandi þegar Abraham segir frá því hvernig Guð freistaði hans til að styrkja trúna. Margir vitna með Abraham um að slík barátta var erfið meðan á henni stóð, en að þeir hefðu ekki viljað vera án hennar. Þar getur þó bara hver og einn talað fyrir sig en ekki við aðra. Þess vegna biðjum við „eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ Við getum því vel sett okkur í spor Abrahams, enda er þjáningin og angistin þess eðlis að hún gerir lífið, veruleikan og vonina að engu óháð því hver á í hlut.
* * *
Abraham er sú persóna ritningarinnar sem Guð ræðir mest við. Þegar Guð ávarpar hann „Abraham!“ felur hann sig ekki, heldur stígur fram og svarar. Guð er honum hjálpræði og uppspretta allrar blessunar. Guð hefur frelsað hann úr neyð og í elli þeirra hjóna gefið þeim afkomanda – soninn Ísak. Og Guð hefur batt fyrirheiti sitt við soninn er hann sagði við Abraham:
„Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær. [...] Svo margir skulu niðjar þínir verða. Og Abraham trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.“ (1 M 15.5–6).
Af afkvæmi Abrahams myndu allar þjóðir blessun hljóta. Þannig tengir Guð hjálpræði heimsins við hann. Abraham hefur því fulla ástæðu til að bregðast vel við ávarpi Guðs og svarar „Hér er ég.“ Og nú kemur fjarstæðan: Abraham á að fórna einkasyni sínum. Staður fórnarinnar er meira að segja tiltekinn. Um er að ræða stað þar sem Jerúsalem var seinna reist og musterið sem varð staður fórnarþjónustu Ísraelsmanna. Það er því engin tilviljun að við tengjum frásöguna við Golgata og fórnardauða Jesú. Það er eins og orðin „Tak þú einkason þinn, sem þú elskar“ (v.2), kallist á við orðin úr Jóhannesarguðspjalli „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jh 3.16). Það er ekki fjarri lagi að Jóhannes sé að tengja þessar frásagnir saman til að ljúka upp merkingu þeirra.
* * *
Fyrir Abraham hefur Guð með skipun sinni svipt hann fyrirheitinu sem er ljóslifandi í Ísak. Abraham hafði meira að segja að ósk Guðs rist í hold sitt merki þessa sáttmála:
„Guð sagði við Abraham: Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera “ (1M17.9–10).
Með kröfu sinni ræðst Guð gegn fyriheitinu og hjálpræði heimsins. Ætlaði Guð að gefa veröldina aftur vonleysinu á vald? Hafði Abraham misreiknað sig svo herfilega? Var traust hans á Guði markleysa? Var líf hans byggt á blekkingu – var Guð hulinn og þverstæðufullur? Og ef ekki er hægt að treysta Guði, verður þá ekki allt myrkrinu að bráð? Abraham hlýtur að hafa hugsað: „Þetta getur ekki verið boð Guðs, heldur blekking Satans?“ (Lúther Walch 1,1483). Hvað á Abraham að hugsa þegar Guð kröfunnar rís upp gegn Guði fyrirheitsins? Hvað getur hann gert í þessari stöðu annað en að hlýða, en samt haldið í fyrirheitið í þeirri von að það muni yfirvinna skipunina.
* * *
Guð þekkir vel hugrenningar Abrahams. Í frásögunni er þeim lýst svo:
„Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar“ (v.3–4).
Í frásögunni er hægt á atburðarrásinni svo við getum betur skynjað angist Abrahams. Hvert orð er valið af kostgæfni:
„Þá sagði Abraham við sveina sína: Bíðið hér hjá asnanum, en við sveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur. Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman “ (v.5–6).
Abraham talar hér um að þeir muni báðir koma aftur. Er hér um von að ræða eða lygi? Ísak ber brennifórnina og óneitanlega leitar hugurinn til orðanna í Jóhannesarguðspjalli: „Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata“ (v.19.17).
Feðgarnir ganga saman og Ísak segir: „Faðir minn.“ Þessi orð hafa smogið í gegnum merg og bein. Og nú svarar Abraham syni sínum eins og Guði áður: „Hér er ég“. Þessi orð opinbera sálarástand hans og sýna hvar hann er staddur. Frásagan verður nú enn hægari sem gerir veruleika angistinnar áþreifanlegan. Örvænting og sársauki hjartans gerir hér hvert augnablik eilíft. Greinilegt er að Ísak veit hvað hann á í vændum.
Hvernig eigum við að túlka þetta? Er hér verið að lýsa því sem boðorðið krefst: „að elska Guð af öllu hjarta, sálu og mætti“ (Mt 22.37)? Er það lagt að jöfnu við orð Jesú „Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður“ (Mt 10.37)?
Verðum við að týna lífi okkar til að öðlast það?
Þetta er eitthvað sem við þekkjum en þá í yfirfærðri merkingu. Við þekkjum það vel að erfiðleikar, veikindi og áföll gera okkur oft næmari fyrir því sem skiptir máli í lífinu. Við lærum þá oft að meta það sem við höfum, hversdagslífið og þá náð að fá að lifa því. En hér er meira á ferðinni en það sem málshátturinn segir: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Í frásögunni er tekist á um lífsgrundvöllinn sjálfan, sem er Guð en ekki einhver af gæðum þessa heims hvort sem það er auður, velferð, fjölskylda, maki eða barn. Allar þessar hugsanir hljóta að hafa sótt á Abraham.
Í þessari kvöl spyr Ísak hann: „Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar? Og Abraham sagði: Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn. Og svo gengu þeir báðir saman“ (v.7–8). Úr djúpi hryggðar heldur Abraham í fyrirheitið.
Lúther segir í útleggingu á þessari frásögu að í trú Abrahams komi hér fram vonin um upprisuna. Því eins og Guð gat vakið líf í móðurlífi Söru háaldraðri, þá getur hann úr ösku fórnarinnar kallað Ísak aftur til lífsins. Þetta álítur líka höfundur Hebreabréfsins: „Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. Við hann hafði Guð mælt: Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir. Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju“ (Heb 11.17–19).
Von sína umvefur Abraham trúnni sem er bundin Guði.
* * *
Þegar Abraham nú býst við að fórna syni sínum „[þ]á kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: Abraham! Abraham! Hann svaraði: Hér er ég. Hann sagði: Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn“ (v.11–12).
Abraham stóðst prófunina sem allir vissu nema hann. Traust hans til Guðs sem grundvallar lífsins haggaðist ekki.
En af hverju er þessi frásaga?
Ég held að hún sé ekki bara til að varpa ljósi á trúarglímuna heldur er sagan okkur sögð svo við skiljum betur fórn Guðs á krossi Krists. Guð tók þar á sig allt okkar – og þar með dauðann sem endanlega útskúfun – til þess að við þyrftum aldrei að upplifa hana. Í stað útskúfunar og tilgangsleysis erum við nú og ætíð umvafin náð Guðs, sama hvernig sem heimurinn lætur.
Í lokin er rétt að geta einar merkilegustu útleggingarinnar á þessari frásögu. Hún er eftir Pál postula sem hljóðar svo:
„Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum? [...] ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“ (Róm 8,31 – 39).