Efling trúarbragðafræðslu í skólum

Efling trúarbragðafræðslu í skólum

Sú var tíðin að Íslendingar voru allir ljósir á hörund og aðhylltust sömu lífsskoðun. Það er veröld sem var. Fjölbreytni og fjölhyggja eykst með hverju ári. Í auknum mæli flyst hingað fólk frá ólíkum menningarsvæðum með ólík trúarbrögð í farteskinu.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
18. ágúst 2005

Sú var tíðin að Íslendingar voru allir ljósir á hörund og aðhylltust sömu lífsskoðun. Það er veröld sem var. Fjölbreytni og fjölhyggja eykst með hverju ári. Í auknum mæli flyst hingað fólk frá ólíkum menningarsvæðum með ólík trúarbrögð í farteskinu.

Hætta á núningi og árekstrum eykst með ólíkum viðhorfum. Starfsmaður á meðal nýbúa sagði eitt sinn að fordómar gagnvart þeim hafi verið hvað mestir í efri bekkjum grunnskóla. Það er því brýnt að auka fræðslu í grunnskólum – og framhaldsskólum um ólík trúarbrögð og ólíkar kirkjudeildir kristinna manna, til að eyða fordómum og efla umburðarlyndi. Einnig er eðlilegt að nemendur sem aðhyllast önnur trúarbrögð fái fræðslu um þau. Um leið ætti að vera sjálfsagt að þau trúarbrögð sem mest móta samfélag okkar og flestir aðhyllast vegi þar þyngst. Að öðrum kosti verða nemendur vart læsir á samfélag okkar, menningu og sögu.

Morgunblaðið fjallar um trúarbragðafræðslu í leiðara 9. ágúst s.l. Þar segir:

“...er það gífurlega mikilvægt, nú á tímum, sem kenndir hafa verið við átök siðmenninga, að uppfræða ungt fólk um eigin trúarbrögð og önnur, það sem er sameiginlegt og það sem er ólíkt, til að efla gagnkvæman skilning og eyða fordómum.”

Undir þessi orð er tekið hér.

Samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla frá 1999 er fag sem nefnist kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði skyldunámsgrein í 1.- 8. bekk, en fellur undir samfélagsgreinar í viðmiðunarstundarskrá. Það segja þeir sem vel til þekkja að þessari skyldu sé afskaplega misjafnlega sinnt eftir skólum, jafnvel bekkjardeildum. Reyndar virðist lítið vera vitað um stöðu þessarar skyldunámsgreinar í skólum landsins. Þess vegna er nú verið að kanna hvar og hversu mikið hún er kennd.

Ein ástæða þess að kristinfræði fær svo misjafna meðhöndlun í skólum kann að vera óöryggi kennara við að kenna greinina. Heyrst hefur að sumum þyki þeir eiga að boða kristna trú en ekki að fræða um hana og treysti sér því ekki til þessarar kennslu.

Í skýrslu starfshóps Þjóðkirkjunnar um kirkju og skóla sem kom út í fyrra er fjallað um kristindóms- og trúarbragðafræðslu í skólum. Þar segir m.a. að hlutverk skólans sé að fræða um kristna trú og önnur trúarbrögð. Sú fræðsla verði mikilvægari eftir því sem íslenskt þjóðfélag verði fjölbreyttara að trú og lífsskoðun. Á hinn bóginn sé það ekki hlutverk skólans heldur heimila, kirkna eða trúfélaga að tileinka börnum og ungmennum trú eða lífsskoðun.

Hér er hvatt til þess að efla trúarbragðafræðslu í skólum landsins og þá sérstaklega fræðslu um þau trúarbrögð sem mest hafa mótað íslenska menningu. Um leið er hér áréttað að kirkjan lítur á það sem hlutverk skólans að fræða um trúarbrögð en ekki að boða þau.