Hvers vegna Japan?

Hvers vegna Japan?

Hinir kristnu eru því jaðarhópur í japönsku samfélagi, sem þrátt fyrir trúfrelsi hefur átt undir högg að sækja. Þeir eru oft undir miklum þrýstingi frá fjölskyldum sínum og samfélagi að fylgja ríkjandi gildum og hefðum, sem oft tengjast tilbeiðslu á látnum forfeðrum. Í opinberum stofnunum, svo sem skólum og háskólum, eru trúarleg samtöl og kynningar oft þröngur stakkur sniðinn eða með öllu bannaðar.
fullname - andlitsmynd Leifur Sigurðsson
06. nóvember 2014

Árið 2010 ákvað Kristniboðssambandið að hefja kristniboð í Japan. Eflaust hefur sú ákvörðun vakið upp spurningar hjá einhverjum. Hvers vegna kristniboð í Japan? Og ekki þarf Japan á þróunaraðstoð að halda? Nei, sem þriðja stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum og Kína þá er ekki þörf á þróunaraðstoð, enda er japanska þjóðin þekkt fyrir óbilandi dugnað og eljusemi. En Japanir er önnur stærsta þjóðin sem hefur hvað fæsta fylgjendur kristinnar trúar í heiminum (1,2 % kristnir, þar af 0,3 % mótmælendur). Í landinu búa rúmlega 128 miljónir manna. Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá landsins, en mjög fáir þekkja Jesú. Flestir Japanar eru búddatrúar eða sjintótrúar, sem er forfeðradýrkun.

Hinir kristnu eru því jaðarhópur í japönsku samfélagi, sem þrátt fyrir trúfrelsi hefur átt undir högg að sækja. Þeir eru oft undir miklum þrýstingi frá fjölskyldum sínum og samfélagi að fylgja ríkjandi gildum og hefðum, sem oft tengjast tilbeiðslu á látnum forfeðrum. Í opinberum stofnunum, svo sem skólum og háskólum, eru trúarleg samtöl og kynningar oft þröngur stakkur sniðinn eða með öllu bannaðar. Margir háskólar hafa gripið til þess ráðs að banna allt trúarlegt starf á háskólasvæðum sínum vegna slæmrar reynslu af sértrúarsöfnuðum. Eftir seinni heimstyrjöldina varð mikil fjölgun á nýjum sértrúarsöfnuðum í Japan sem í flestum tilfellum eiga rætur sínar að rekja til búdda- og sjintótrúar. Í seinni tíð hefur þessum hópum vaxið fiskur um hrygg og sumir orðið vinsælir, má þar sem dæmi nefna Soka gakkai búddasöfnuðinn, sem teygir anga sína um allan heim. Nú eru yfir 200 þúsund slíkir sértrúarsöfnuði starfandi í Japan. Sumir muna ef til vill eftir eiturgasárás Aum shinrikyo sértrúarsafnaðarins (Hinn æðsti sannleikur) í Tókýó í mars 1995, en þá létust 12 manns og meira en 5.000 veiktust. Þetta eykur tortryggni gagnvart öllum trúarbrögðum.

Fæðingartíðni í Japan er með því lægsta sem gerist í heiminum. En ungt fólk giftist seinna en áður og frestar barneignum til þess að geta einbeitt sér að menntun og starfsframa. Reiknað er með að á næstu 100 árum muni japönsku þjóðinni fækka um tvo þriðju. Stjórnvöld hafa vaxandi áhyggjur af þessari þróun. Mörg hefðbundin gildi og viðmið eru í uppnámi. Afleiðingarnar eru að japanskt samfélag gengur í gegnum miklar breytingar. Margt ungt fólk veltir fyrir sér tilgangi lífsins – um 85% unglinga finnst lífið ekki hafa neinn tilgang og um 11% óska þess að þeir hefðu aldrei fæðst (Gallup könnun frá 2006). Í þessu ljósi er athyglisvert að velta fyrir sér sjálfsmorðum í Japan. En Japan býr við eina hæstu sjálfsmorðstíðni í heiminum, en þar svifta um 30 þúsund manns sig lífi árlega. Sjálfsvíg eru helsta dánarorsök karla á aldrinum 20-44 ára (OECD 2009).

Það síðasta sem Jesús sagði við lærisveina sína áður en hann fór upp til himna var að gera allar þjóðir að lærisveinum. Við Íslendingar höfum sent kristniboða til Kína, Eþíópíu, Kenía og nú til Japans vegna þess að Jesús sagði okkur að gera það. Fagnaðarerindið um Jesú er eini boðskapurinn sem veitir fólki af ólíkum menningarheimum von og tilgang. Þess vegna sendir Kristniboðssambandið kristniboða til Japans.