Bænaleiðslurnar

Bænaleiðslurnar

[Sýnishorn: Þríþættur rafmagnsstrengur] Í dag ætla ég að tala um ljósið. Það er jú svartasta skammdegi hjá okkur, og ljósið er mikilvægt svo við sjáum til að kvöldin og snemma á morgnana. Sem betur fer verður ekki oft rafmagnslaust, því þá höfum við bara kertaljós eða vasaljós. Hérna get ég sýnt ykkur rafmagnskapal. Svona eða svipaða rafmagnslínu getur fólk notað til að lýsa upp heilan sveitabæ. Það er skemmtilegt hvað fólk hefur fundið upp marga frábæra hluti. Í dag ætla ég að láta rafmagnskapalinn tákna bænina, sem getur lýst upp líf okkar. Hérna sést tvílita leiðslan, gul og græn, stundum kölluð jarðstrengur eða jörðin. Á þessari leiðslu er ekki straumur, hún leiðir bara beint í jörðina. Á brúnu leiðslunni kemur straumurinn, rafmagnsstraumurinn, og eftir þessari bláu fer hann til baka, og kallast stundum „núll’leiðslan“, eða eitthvað í þeim dúr. Með þessum tveimur er hægt að hafa straum-hring, og straumurinn verður að komast greiðlega eftir leiðslunni, en ekki fara út úr hringnum. Leiðslan er ýmist búin til úr kopar eða áli. Koparinn hefur betri leiðni og getur flutt meiri straum. Utan um þessar leiðslur er hulsa, sem hlífir öllu og kemur í veg fyrir að leiðslurnar færist þegar kaballinn hreyfist mikið eða fer í skarpa beygju. Þetta getum við allt séð. Mér sýnist að það sé hægt að lýsa bæninni með þessu sem við sjáum. Fólk sem biður til Guðs gerir heiminn bjartari, því að það notar ósýnilegan kraft til að breyta heiminum til góðs. Og munum að allt það mikilvæga í heiminum er ósýnilegt. Það held ég að sé óhætt að segja. Athugum fyrst með jarðlínuna. Hún sýnir að allir á jörðinni mega biðja, þar sem þeir eru í lífinu, líka þótt þeir hafi gert mörg og mikil mistök. Allir. Það er ekkert skilyrði að sá sem vill tenjgast Guði í bæn þurfi að vera svo góður að hann kannski svífi 20 cm yfir gólfinu, eins og einhver sagði. En hvernig á bænin að vera? Það er algengast að bænin okkar sé eins og einhver af leiðslunum sem eru eftir: Í fyrsta lagi er þakkarbænin. Sá sem ekki kann að þakka, hann kann ekki að þiggja, sagði góður maður. Ef okkur vantar þakklætið verðum við blind á ýmislegt. útlendingar sem koma hingað til Íslands til að búa, þeir eru stundum að tala um hvað við höfum margt gott, en erum samt óánægð. Frægur þýskur prestur, Dietrich Bonhoeffer sagði: Vanþakklæti byrjar með gleymskunni, og á eftir gleymskunni kemur kæruleysi, og á eftir kæruleysi kemur óánægjan, og á eftir óánægjunni kemur örvænting, og á eftir örvæntingunni koma formælingar. Spurðu því sjálfan þig hvort hjarta þitt sé kvartandi og möglandi og fullt af vanþakklæti. Gamalt fólk kann að meta það að vakna á morgnana og finna að öll skilningarvit eru starfandi. Það er mikið áfall þegar kannski heyrnin tapast, eða sjónin. Gleymum ekki að þakka fyrir það sem okkur finnst kannski sjálfsagt og eðlilegt, en er það ekki. Þeir sem eiga börn geta tekið litlar hendur í lófann og þakkað fyrir daginn og það sem hann gaf og tók. Þakkarbænin er mikilvægasta bænin, og hún er oft það sama og lofgjörð. Hins vegar er svo óska- eða fyrirbænin, að biðja um eitthvað. Hún kom fyrir í guðspjalli dagsins, þegar lærisveinarnir vöktu Jesú bátnum og báðu hann að bjarga því þeir væru að farast. Hjá sumum, kannski mörgum, er óskabænin aðalbænin, og kannski eina bænategundin sem þeir þekkja. Við eigum að biðja um það sem okkur vantar, en við verðum að kunna að gera það rétt. Ég skal nefna þrjú dæmi, sem eru misheppnaðar bænir. Til dæmis þessi: Kæri Guð, þakka þér fyrir að ég hef svona mikið að borða, en mundu líka að hjálpa þeim sem eru hungraðir. - Þessi bæn stimplar Guð sem einskonar gleymsku-Guð, því það ER nóg handa öllum í heiminum, og það er ekki Guði að kenna að við mennirnir skiptum því svona ójafnt. Annar kannsi biður: Kæri Guð, viltu láta Liverpool (eða eitthvað annað lið) vinna í leiknum á morgun… Við getum ímyndað okkur hverskonar klípu Guð lendir í þegar hann fær svona bæn, því fylgismenn allra liða eru kannski að biðja hann að sitt lið vinni. Þriðja dæmi: Amma er orðin kannski 85 ára og er búin að segja í mörg ár að hún sé tilbúin að deyja, og nú er hún á sjúkrahúsi. Þá er kannski ekki nauðsynlegt fyrir mig að biðja Guð innilega um að gera hana aftur fríska. Við þurfum að kunna okkur hóf og muna ekki bara eftir óskabænum, heldur líka þakkarbænum. En í þakkarbænum þurfum við ekki að takmarka okkur. Kom þakkarbæn fyrir í guðsjpallinu? Já, þegar lærisveinarnir undruðust og lofuðu Guð þá voru þeir að þakka honum. Síðast ætla ég að vekja athygli á hvíta plastinu, sem er utanum línurnar. Hún heldur bara utanum hinar leiðslurnar, og mig langar að líkja henni við það, aðbænin er stundum kyrrðarbæn, hljóðlaus og næstum án orða. Ég skal reyna að útskýra það nánar: Bænin er að tala við Guð, eins og maður talar við vin sinn. Eða eins og maður talar við þann sem maður elskar. Hugsum okkur elskendur sem sitja saman í næði: Hún talar, hann hlustar. Svo talar hann, og hún hlustar. Stundum talar hvorugt, en bæði hlusta. Í lokin hætta þau að tala og hætta að hlusta, og haldast bara í hendur og faðmast og verða eins og eitt. Danski guðfræðingurinn Sören Kierkegaard skrifaði einu sinni: Þegar bæn mín verður innilegri hef ég alltaf minna og minna að segja. Í lokin þagna ég alveg. Þannig getur bænin verið kyrrðarbæn. Bænin er eins og rafmagnsstrengur: Eitthvað fer fram og til baka, heimurinn verður bjartari. Bænin er innra líf, sem breytir oft heiminum meira en hið sýnilega líf. Hún stoppar ekki þótt aðrir dragi niður gardínu fyrir sálina. Og þeir sem hafa prófað að biðja, finna oft að með bæninni breytist maður sjálfur, og það er gott. Það verður bjartara í sálinni.