Eins og stór fjölskylda

Eins og stór fjölskylda

Kristur er líka nýbúinn að þvo fæturna á lærisveinunum sínum, sem er annað tilefni undrunar! Allt er þetta yfirlýsing um það í hvaða anda kirkjan á að starfa.

Biðjum með orðum séra Hallgríms:

Þurfamaður ert þú, mín sál, þiggur af drottni sérhvert mál, fæðu þína og fóstrið allt. Fyrir það honum þakka skalt

Á skírdegi minnumst við merkilegra atburða. Fyrir öldum og árþúsundum settust vinir við borð og snæddu saman. Þessarar máltíðar minnumst við nú og raunar margsinnis á hverju ári þegar kristnir menn ganga til altaris í kirkjum. Þetta hlýtur að hafa verið merkileg máltíð.

Máltíðir út um allt

Já, hvað er svona merkilegt við hana? Um allan heim á öllum tímum sest fólk í kringum borð og gæðir sér á mat, ekki satt? Þekkjum við dæmi um aðrar máltíðir sem hafa vakið slíka athygli? En jafnvel þó þær komist ekki á síður sögubókanna eru þær allar sérstakar. Máltíðin er merkileg athöfn. Fjölskyldur setjast við borð á ýmsum tímum dagsins. Vinir ákveða að hittast og þá er oft boðið í mat. Hér í Keflavíkurkirkju hafa Alfanámskeið verið starfrækt í vetur þar sem fólk fræðist og ræðir um kristna trú og þau hefjast einmitt á kvöldmáltíð. Á sumum heimilum er farið með bæn í upphafi, jafnvel þá sem Hallgrímur Pétursson samdi og var farið með hér áðan.

Margir hjálpa til

Þegar maturinn er komið á borðið hefur talsvert mikil vinna verið innt af hendi og þar sem allt er með felldu, hafa margir lagt þar sitt af mörkum. Einhver fór í búðina og keypti í matinn. Annar matreiddi hráefnið. Kannske kom einhver færandi hendi með drykkjarföng meðferðis. Svo þarf að leggja á borð, rétta krásirnar fram og aftur milli svangra gesta og loks eru allir mettir og þá er staðið upp og gengið frá.

Að því loknu sest gjarnan fólk niður og slakar á. Svo ef máltíðin hefur verið merkileg er hún kannske rifjuð upp löngu síðar: „Svakalega var þetta vel eldaður fiskur hjá þér!“ „Hvað notaðirðu í sósuna?“ „Er hægt að fá uppskriftina að kökunni?“ Já, máltíðin geta verið sögulegar. Þegar okkur líkar vel við fólk bjóðum við því í mat. Þá opnum við dyrnar fyrir því og afthöfnin hefst. Máltíðir eru merkilegar athafnir. En þessi máltíð? Af öllum þeim ótal skiptum þar sem menn hafa sest niður í gegnum tíðina og borðað saman – verður þessi tiltekna veisla mönnum hugstæðari en aðrar.

Síðasta máltíðin

Já, veislan er merkileg athöfn og með þessari veislu er komið að niðurlaginu í lífi og störfum Jesú Krists. Eins og menn hafa þegar áttað sig á var Kristur ekki einn þeirra sem hugsaði eitt, sagði annað og aðhafðist svo eitthvað enn annað.

Nei, boðun Krists var samofin verkum hans og tilgangi. Á þessu lokaskeiði rennur þetta allt saman í eitt. Máltíðin er eins og hér hefur verið lýst – ein dýrmætasta tenging okkar hvert við annað. Þar mætum við líkamlegum þörfum okkar og hinum félagslegu. Máltíðin er samfélag þar sem allir eru boðnir velkomnir sem jafningjar að borðinu og deila með sér því sem þar er borið fram. Þegar hinir gömlu gyðingar sáu fyrir sér himnaríki. Þegar þeir veltu því fyrir sér hvernig það umhverfi væri sem biði þeirra er ganga inn í konungsríkið. Og það besta sem kom upp í hugann var máltíðin. Þar eru allir saman, umhyggja og kærleikur svífa yfir vötnunum og hungrið – sá fylgifiskur mannkyns á öllum tímum, er víðsfjarri.

Að mynda samfélag

Þessi lokaþáttur í starfi Krists lýsir því vel hver boðskapur hans var og erindi til okkar sem honum fylgjum. Kristur flutti okkur boðskapinn um að rækta tengslin hvert við annað og tengslin við Guð. Þetta orðaði hann í mörgum af sínum þekktustu textum: Elska skaltu Drottin Guð þinn og elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig.

Enn merkilegri vísbending um það hvernig Kristur talar máli samfélagins, er það hversu hann veitti þeim athygli sína sem af einhverjum ástæðum fengu ekki að vera með í hópnum. Tollheimtumenn, skækjur, útlendingar, holdsveikir þetta var fólk sem fjöldinn leit hornauga og taldi sig hafa til þess ríkar ástæður. En Kristur bauð þessu fólki sérstaklega til þátttöku í söfnuði sínum og það gerir hann enn. Þegar máltíðin er snædd í lok þjónustu hans eru það lærisveinarnir sem sitja til borðs – en þeir eru einnig breyskir menn og mistækir eins og átti eftir að koma berlega í ljós.

Þjónandi meistari

Athöfnin sem skídagur, dregur heiti sitt af er svo hápunktur þjónustunnar sem Kristur innir af hendi fyrir samfélagið. Kristur sýnir okkur hvað það er að vera sannur leiðtogi fyrir það samfélag sem grundvallast á ríki Guðs. Sannur leiðtogi er sá sem innir þjónustuna af hendi:

Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.(Jh 14. 12-14)

Nú er skírdagskvöld og Kristur var rétt í þessu kalla fram furðusvip á fylginautum sínum. Fyrst borðuðu þeir saman – rétt eins og fjölskyldur og vinir gera á góðum stundum. Þá braut hann brauðið gaf þeim það og sagði: þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefin. Borðið þetta í mína minningu. Svo tók hann vínið og sagði: Þetta er blóð mitt sem fyrir yður er gefið. Drekkið þetta í mína minningu. Svo lýsti hann því yfir að einn þeirra myndi svíkja hann og við sjáum fyrir okkur frægasta málverk allra tíma, Síðustu kvöldmáltíðina eftir Leonardo Da Vinci þar sem allt ætlar um koll að keyra eftir þessa yfirlýsingu.

Kristur er líka nýbúinn að þvo fæturna á lærisveinunum sínum, sem er annað tilefni undrunar! Allt er þetta yfirlýsing um það í hvaða anda kirkjan á að starfa. Hér söfnumst við saman og hugleiðum það sem við eigum sameiginlegt. Eins og ein stór fjölskylda sem safnast að borðinu og hver og einn finnur fyrir því hversu ríkur hann að eiga þá að sem í kringum hann standa. Þetta er eitt hið dýrmætasta sem við getum átt og getum gefið hvert öðru. Það er hugleiðing á helgum skírdegi. Amen.

Jóh 13.1-15

átíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk. Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.