Það sem okkur er hulið

Það sem okkur er hulið

Ég legg til nú á föstutímabili kirkjuársins sem er formlega hafið að eitt íhugunarefna okkar verði hvað er það sem Guð er að benda okkur á en við kjósum frekar að hafa hulið fyrir sjónum okkar því sannleikurinn veldur okkur andvöku?
fullname - andlitsmynd Jóhanna Gísladóttir
12. mars 2017
Flokkar

Náð og friður Drottins sé með okkur öllum.

Getið þið giskað á hver er þekktasta saga Biblíunnar í heiminum í dag? Niðurstöður erlendrar rannsóknar sem birtust á dögunum myndu ef til vill koma ykkur á óvart. Áður en ég segi ykkur svarið get ég upplýst að sú þriðja mest þekkta er sköpunarsagan í 1. Mósebók. Og geti nú hver sem vill hverjar hinar eru sem tróna í efstu tveim sætunum. Áður en ég segi ykkur svarið langar mig að ræða aðeins sköpunarsöguna.

Það kemur okkur kristnum svo sem ekki á óvart að sköpunarsaga Biblíunnar er vel þekkt meðal þjóða heims. Hún er þó alls ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta í tímaröðinni sem trúar- og menningarhópar komu sér saman um til að útskýra tilveru manneskjunnar og tilgang. Sköpunarsögur hafa ætíð fylgt samfélögum fólks og gengt því hlutverki að skapa þann veruleika sem þau búa við.

Sköpunarsaga Babýloníumanna til forna er til að mynda töluvert eldri en okkar. Þar er það hinn æðsti guð, Marduk, sem skapar himin og jörð eftir að hafa borið sigur af hólmi í valdabaráttu við aðra guði. Í framhaldinu blandar Marduk blóði óvinarins við leir jarðar og skapar úr blöndunni manneskjuna sem hefur það eina hlutverk hér á jörð að vera þræll guðanna. Þau sem fylgdust með sýningum RÚV á þríleiknum Hringadróttinssögu í febrúarmánuði gætu mögulega séð fyrir sér orkana sem mynda raðir óvinahersins þó sú myndlíking sé mögulega heldur groddaleg. Sköpunarsaga hins forna ríkis Babylón hafði þann augljósa tilgang að áminna í sífellu þjóð sem bjó við þrældóm að tilgangur þeirra væri einmitt sá. Að þræla. Að slíta sér út án nokkurrar umbunar og verða svo að jörðu á ný að æviverki loknu. Það væri vilji Guðs.

Þessi sköpunarsaga frá fornum heimi birtist okkur kristnum kannski fyrst og fremst sem ævintýri en þó er erfitt að neita því að leifar þessa mannskilnings er hægt að nema í gegnum mannkynssöguna og allt til dagsins í dag. Þá meina ég að á meðal allra þjóða, í öllum menningarheimum og á öllum tímum hefur undir einhverjum kringumstæðum þótt leyfilegt að nýta eitt líf til þess að þjónusta annað líf, jafnvel þótt sá hinn sami verði fyrir skaða. Þannig réttlættu til dæmis Evrópubúar þrælaskipin sem sigldu með menn, konur og börn frá Afríku til Evrópu og síðar Ameríku til þess eins að nýta þau sem framleiðsluvélar. Og með sama hætti eigum við í samtíma okkar stundum erfitt með að ræða það upphátt um hvaðan fötin okkar koma, hver það var sem raunverulega bjó til skónna sem við pöntuðum af Aliexpress eða hver týnir kakóbaunirnar sem notuð eru til að búa til páskaeggin okkar. _______________

Guðspjall dagsins í dag segir frá samtali Krists við lærisveina sína er hann reynir að miðla til þeirra hvert framhaldið yrði. Jesús segir þeim sannleikann, sem reynist þeim svo óþægilegur að þeir meðvitað eða ómeðvitað skilja hreinlega ekki um hvað hann er að tala. Og hvers vegna gátu lærisveinar Krists, hans nánustu vinir, ekki móttekið það sem hann var segja þeim? Hafði hann ekki sýnt og sannað að hann var traustsins verður? Hafði hann ekki ætíð sagt þeim sannleikann? Þessir menn voru ekki illa gefnir og þeir efuðust ekki um réttmæti orða hans að ég held, heldur olli þeim óþægindum tilhugsunin um að hann myndi yfirgefa þá. Tilhugsunin að sonur Guðs, þeirra kæri vinur, myndi þjást og líða vegna valdagræðgi manneskjunnar. ____________________

Ég held að það sé ekki margt í þessum heimi sem okkur er raunverulega hulið, en það er margt sem við kjósum, meðvitað og ómeðvitað, að sjá ekki. Því ef við opnuðum augun fyrir öllu óréttlæti heimsins, jafnvel bara því sem er í okkar nánasta umhverfi, þá myndi það valda okkur ónotum.

Ég hef því velt fyrir mér undanfarið hvort mögulegt sé að Donald Trump hafi rétt fyrir sér er hann fullyrðir að Guð hafi ætlað honum forsetaembætti Bandaríkjanna. Ekki vegna þess að Trump sé hæfasti einstaklingurinn í þann stól heldur einmitt vegna þess að mannskilningur hans er svo andstæður kjarna hinnar kristinnar trúar, andstæður kjarna allra trúarbragða heimsins að ég held, að við erum tilneydd til að opna augun og bregðast við þeirri stefnu og þeim gildum sem hann boðar. Misrétti, mismunun og misskipting gæða eru nefnilega ekki lífskoðun heldur mein sem þarf að uppræta. Og ef það þarf einhvern eins og Donald Trump til að neyða okkur til að standa saman um grunn-mannréttindi þá er það kannski óþægindanna virði? Stundum þurfa hlutirnir nefnilega að ganga gjörsamlega fram af okkur til þess að við gerum eitthvað í þvi að breyta þeim.

En hvað segir sköpunarsaga Biblíunnar okkur? Vissulega er hægt að benda á augljós líkindi með sköpunarsögu Babylóníumanna og sköpunarsögu Biblíunnar, en hún boðar þó allt aðra sýn á heiminn og manneskjuna. Sköpunarsagan okkar miðlar með ljóðrænum hætti kærleika Guðs á manneskjunni sem hann skapaði í eigin mynd og fyllti eigin lífsanda. Á blaðsíðum Biblíunnar birtist okkur traust Guðs á sköpun sinni, vonir og væntingar okkur til handa og jafnvel tilhlökkun fyrir framtíð þar sem allt óréttlæti verður leiðrétt og friður Guðs ríkir. Sköpunarsagan okkar er eilíf áminning að í ósanngjörnum og óáreiðanlegum heimi berum við ábyrgð hvert á öðru og saman stöndum við og föllum.

Ég legg til nú á föstutímabili kirkjuársins sem er formlega hafið að eitt íhugunarefna okkar verði hvað er það sem Guð er að benda okkur á en við kjósum frekar að hafa hulið fyrir sjónum okkar því sannleikurinn veldur okkur andvöku?

Þau sem enn eru að hugsa um hver sé í þekktasta frásögn Biblíunnar fá nú svar við því. Önnur þekktasta frásögnin er krossfestingin og sú saga sem flest í heiminum þekkja úr Biblíunni er sagan af fæðingu Krists. Tvær frásagnir er marka upphaf og endi á langri vegferð manns sem hafði það eina markmið að opna augu okkar fyrir sannleikanum.

Guð kærleikans færi okkur visku og vilja til að endurnýja hug okkar og hjarta í krafti heilags anda. Amen.