5. Mós. 18:15,18-19; 2. Pét. 1:16-21; Matt. 17:1-9.
Við skulum biðja:
Drottinn Jesús Kristur, send ljóma dýrðar þinnar í hjörtu okkar svo að við getum borið vitni um ljós þitt í miðju myrkri þessa heims. Því að þú lifir og ríkir með föður og anda og hefur á öllu vald til eilífðar. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda, sem jafnframt er nefndur bænadagur að vetri. Hér áður fyrr þegar menn fóru á vetrarvertíðina, sem hófst 3. febrúar þótti sjálfsagt að biða fyrir ferðinni og vertíðinni allri. Þá voru skipin illa búin til að takast á við krafta hafsins og óttinn um að skaði yrði blundaði í fólki. En því miður er það ekki liðin tíð að skipsskaðar verði eins og við heyrðum í síðustu viku. Enn eru ógnarkraftar náttúrunnar að verki og menn og mannanna verk mega sín lítils þegar þeir fara af stað. Það er því enn þörf á því að legga lífið í Guðs hendur og halda áfram veginn í trausti þess að hann muni vel fyrir sjá.
Reynsla manna er stundum þannig að erfitt er að trúa henni. Lífið á sér margar hliðar og margt getur gerst sem okkur dytti aldrei í hug fyrirfram að yrði. Sennilega hefur einhver efast um sannleiksgildi sögunnar þegar Pétur postuli sagði frá reynslu sinni og tveggja lærisveina annarra þegar þeir fóru með Jesú upp á fjall. Því hann segir, eins og við heyrðum lesið áðan, í öðru bréfi sínu að hann hafi ekki notað uppspunnar skröksögur þegar hann kunngjörði fólki mátt Drottins, því hann hafi sjálfur verið sjónarvottur að hátign hans eins og hann orðar það.
Og að hverju varð Pétur sjónarvottur? Samkvæmt því sem við heyrðum einnig lesið áðan úr Matteusarguðspjalli þá tók Jesús þrjá lærisveina sína með sér upp á fjall. Sennilega hefur hann viljað komast í kyrrð til að ræða við þá eða kannski vissi hann að kraftaverk var í nánd. Og þegar þeir voru komnir upp á fjallið ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra og allt varð mjög bjart. Og þar birtust líka spámennirnir Móse og Elía, en Móse talaði í fyrri ritningarlestri dagsins. Þá báða hafði Guð notað löngu áður til að koma boðum sínum til mannanna. Þarna birtust þeir, en Guð hafði líka vitjað þeirra og talað til þeirra. Guð hafði afhent Móse boðorðin 10, sem enn þann dag í dag eru umferðarreglur lífs okkar.
Og þó þeir hafi farið afsíðis, í kyrrðina og þögnina þá gat Pétur ekki þagað þegar hann varð vitni að ummyndun Jesú og birtingu spámannanna, sem löngu voru farnir héðan úr heimi. Og meðan hann var enn að tala kom bjart ský og sömu orðin og heyrðust við skírn Jeús hljómuðu: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þarna heyrðist hátt og skýrt að Jesús var ekki bara dauðlegur maður, sem fæddist, lifði og dó eins og annað fólk. Hann er sonur Guðs, hann er sá sem mærin unga fæddi í þennan heim og við höfum minnst á jólunum. Hann er sá er við sungum um á aðfangadag og jóladag hér í kirkjunni „Fjármenn hrepptu fögnuð þann, þeir fundu bæði Guð og mann“ . Já, Jesús er bæði Guð og maður. Við eigum að hlýða á hann, sagði röddin úr skýinu. Við eigum að hlusta á það sem hann hefur að segja og gerum það m.a. þegar við lesum í guðspjöllunum eða heyrum lesið úr þeim eins og í guðsþjónustum.
Þegar Pétur, Jakob og Jóhannes heyðu röddina og sá Jeús ummyndast urðu þeir hræddir og féllu fram en Jeús gekk þá til þeirra, snerti þá og sagði þeim að óttast ekki og rísa upp.
Það er oft talað um það í Biblíunni að við eigum ekki að óttast. Samt er það svo oft sem við óttumst. Við lærum snemma að margt er óttalegt í tilverunni. Við lærum að forðast það sem við óttumst og það er oftast af hinu góða að við önum ekki út í eitthvað sem við ráðum ekki við eða við getum skaðað okkur á. Óttinn er því góður að vissu marki. En þegar óttinn bugar okkur eða keyrir okkur niður á einhvern hátt þá er illt í efni. Við eigum að stjórna óttanum en ekki hann okkur. Við eigum að ganga fram án ótta en samt meðvituð um mannleg mörk.
En Jesús sagði lærisveinunum ekki aðeins að óttast ekki. Hann sagði þeim líka að rísa upp. Þegar óttinn eða erfiðleikar keyra okkur niður, andlega sem líkamlega eigum við að rísa upp. Það gerum við ekki í mætti okkar sjálfra heldur með hjálp Guðs. Stundum þurfa aðrir að hvetja okkur til að við sjáum möguleikann að rísa upp, breyta til, takast á við verkefnin eða hvað annað sem við þurfum eða viljum.
Við megum alltaf treysta því að við erum ekki ein. Eins og annað fólk hjálpar okkur þannig hjálpar Guð okkur einnig. Máttur Jesú Krists er hinn sami og hann var þegar hann var með lærisveinunum forðum.
Jesús ummyndaðist á fjallinu að lærisveinum sínum ásjáandi. Þeir umbreyttust. Og það sama á við nú um 2000 árum síðar þegar við leyfum Jesú að tala til okkar, reisa okkur upp, sannfæra okkur um að við þurfum ekki að láta óttann stjórna okkur. Þá umbreytumst við. Fáum kjark og kraft. Fáum nýja sýn á lífið og sjáum möguleikana til að leysa úr flækjum og njóta hversdagsins.
Jesús og lærisveinarnir héldu ekki til á fjallinu endalaust. Þeir fóru ofan fjallið eins og segir í guðspjallstextanum.
Þeir fóru til fólksins. Þeir fóru þangað sem þeir gátu notað kraftinn sem þeir fengu á fjallinu. Þeir fóru þangað sem þörf var á liðsinni þeirra. Þangað sem þeir gátu látið gott af sé leiða. Þangað sem þeir gátu miðlað trúarreynslu sinni. Trúin er nefnilega ekki þannig að við geymum hana með okkur eingöngu. Við miðlum trúnni með verkum okkar og framkomu og erum fús til að leyfa öðrum að taka þátt í umbreytingu þeirri er verður þegar við hlýðum á hinn elskaða son Guðs sem röddin úr skýinu sagði okkur að hlýða á.
Við þjónum Jesú best þegar við þjónum náunganum, enda sagði Jesús sjálfur: „ Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“.
Það er gott og nauðsynlegt á stundum að lifa kyrrðar og rósemdar stundir. Að fara afsíðis eins og lærisveinarnir fóru með Jesú upp á fjallið. Það gefur kraft til áframhaldandi starfa. Slíkar stundir gefast meðal annars hér í kirkjunni á Hóli. Það er gott að geta horfið frá amstri hversdagsins um stund, laus við áreiti og fylla á sinn andlega tank.