Hönd í hönd

Hönd í hönd

Konur hér í bæ og um land allt hafa lagt mikið til samfélagsins og til kirkjunnar. Hér áður fyrri undirbjuggu þær sunnudagaskólann með sóknarprestinum og sáu um gæslu í Hólskirkju á meðan á honum stóð, eins og það er orðað í fundargerð.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. desember 2011

Sr. Agnes M. SigurðardóttirSem ég sit við tölvuna mína í dag leitar hugurinn til starfsemi kvenfélaganna í landinu. Það er vegna þess að í dag eru nákvæmlega 100 ár síðan kvenfélagið Brautin var stofnað hér í Bolungarvík. Við konur í kvenfélaginu höfum verið að undirbúa afmælið og höfum sent öllum konum hér í plássinu, 18 ára og eldri, boðskort á fagnaðinn. Að vísu veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að senda boðskort svo ungum konum, sem varla eru byrjaðar að líta á sig sem konur, en ákváðum að gera það samt vegna þess að samkvæmt lögum eru þær fullorðnar. En aðalástæðan var samt sú að hér áður fyrr voru stúlkur allt niður í 14 ára gamlar sem gengu í kvenfélagið.

Við sömdum stutta leikþætti fyrir hvern áratug í sögu félagsins og lásum fundargerðarbækurnar vel í gegn. Þær eru merkar heimildir um sögu félagsins, tíðarandann og hvað konur hér í bæ hafa lagt til samfélagsins. Þær hafa stutt flestar stofnanir, s.s. leikskólann, grunnskólann, sjúkraskýlið og heilsugæsluna. Þær hafa boðið eldri borgurum til fagnaðar og borið afgangana heim til þeirra sem ekki komust. Þær hafa ræktað blóma- og rababaragarð, selt afskorin blóm fyrir sumardaginn fyrsta og sumarblóm fyrir sjómannadaginn. Þær hafa undirbúið álfadansinn og saumað búningana, undirbúið hátíðarhöld 17. júní og séð um skautbúninginn á fjallkonuna. Þær lögðu á sig að flytja eldavél, og leirtau upp á Skeið til að allir fengju næringu á meðan á hátíðarhöldum stóð.

Já, konur hér í bæ og um land allt hafa lagt mikið til samfélagsins og til kirkjunnar. Hér áður fyrri undirbjuggu þær sunnudagaskólann með sóknarprestinum og sáu um gæslu í Hólskirkju á meðan á honum stóð, eins og það er orðað í fundargerð. Þar fyrir utan hafa þær gefið kirkjunni marga nytsama muni og leirtau í safnaðarheimilið. Og fyrstu áratugina voru alltaf sungnir sálmar í upphafi funda. Svo samdi Guðrún Magnúsdóttir upphafs- og lokasöng sem alltaf eru sungnir á hverjum fundi. Lokasöngurinn er sunginn við lagið „Fanna skautar faldi háum“ og er svona:

Okkar fundur er á enda, allar héðan förum við. Biðjum alheims Guð oss benda beina leið á takmarkið. Þó hver haldi til síns heima hópinn tengi andans bönd. Láti Guð oss aldrei gleyma að ganga saman hönd í hönd. Þroskum eining, vit og vilja, vaxi dyggð og göfgi í sál. Sundrung lát til dauða dyljast Drottinn heyr vort kveðju mál.