Grillveisla við Tíberíasvatn

Grillveisla við Tíberíasvatn

Strönd, sundsprettur í vatninu, veiði og grill. Það er vor og gleði í guðspjalli dagsins, þægileg stemning. En það er margslungið í einfaldleika sínum. Eftir þetta birtist Jesús þeim aftur og þá við Tíberíasvatn.

Strönd, sundsprettur í vatninu, veiði og grill. Það er vor og gleði í guðspjalli dagsins, þægileg stemning. En það er margslungið í einfaldleika sínum. Eftir þetta birtist Jesús þeim aftur og þá við Tíberíasvatn. Þannig hefst frásögnin, eins og ekkert sé sjálfsagðara en að hann birtist þeim AFTUR. Hann var krossfestur, dáinn. Við erum sett inn í sögusviðið, þeir voru þarna félagarnir, Simon Pétur, Tómas, Natanaek frá Kana, Sebedussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Mér finnst freistandi að leika mér að hugmyndinni að þeir hafi verið þær, þar sem Jesú átti sannarlega góðar vinkonur ekki síður en vini. Hvað sem því líður virðist frásögnin vera skýr, einföld og skiljanleg. Það eru ekki allir textar Biblíunnar þannig. Langt í frá! Biblían er auðvitað ekki eitthvað eitt, hún er margar bækur, heilt bókasafn. Sögur kynslóðanna eru raktar, við fáum að kynnast brotabroti úr sögum tuga kynslóða. Margbrotnir persónuleikar eru kynntir, karlar, konur, valdafólk og vegalaust, ást og hatur. Fallegar frásagnir og óhugnalegar. Frásagnir af lífinu, engu sópað undir teppið. Það er margt óþægilegt, jafnvel andstyggilegt. Allt er breytingum undirorpið – allt fram streymir, eru gild sannindi sem höfð eru eftir Herakleitosi heimspekingi u.þ.b. 500 árum f. Kr. En um leið og allt breytist er svo magnað að lesa í þessum ævagömlu textum Biblíunnar hvernig mennskan virðist alltaf söm við sig. Í fjölmiðlum dagsins lesum við um sambærilega hegðun, jákvæða og neikvæða, kærleiksrík samskipti og andstyggileg. Mannlífsflóran fjölskrúðug þá og nú.

Skoðum guðspjall dagsins betur. Símon Pétur er lifandi og skemmtilegur persónuleiki, hvatvísi er orð sem líklega lýsir honum vel. Framganga hans og tilsvör kalla oft fram bros. Þekkt er frásögnin af því er hann gekk með Jesú og tveimur öðrum lærisveinum upp á fjall og þeir urðu vitni að nánast yfirskilvitlegu atviki. Jesús ummyndaðist fyrir augum þeirra og „ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós“, segir í textanum. Hugsið ykkur, þarna birtust Móses og Elía, spámenn sem voru löngu látnir og tóku Jesú tali. Hvernig myndir þú bregðast við? Verða sem bergnumin, setja hljóða/n? Það er erfitt að setja sig í þessi spor, við erum mörg og mismunandi, sum þyrðu varla að draga andann svo sýnin hyrfi ekki. Það átti sannarlega ekki við um vin okkar hinn hvatvísa Pétur sem var maður framkvæmda. Hann stakk upp á því að þeir reistu þegar í stað þrjár tjaldbúðir, eina fyrir Jesú, aðra fyrir Móse og þá þriðju fyrir Elía. Hann var enn að tala þegar rödd barst frá himnum sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“

Það er eitthvað svo hátíðlegt og stórbrotið við þennan atburð en Pétri tekst að gera hann svo mannlegan og um leið pínulítið broslegan. Undur og stórmerki eiga sér stað og hann er strax farinn að huga að því hvernig hægt sé að tryggja að þetta ástand vari. Þekkjum við ekki manngerðina? Á vinnustaðnum, í vinahópnum eða í fjölskyldunni, einhver sem tekur af skarið, vill alltaf vera að gera eitthvað og skapar stemningu og fjör! Þessi sem nennir ekki að vera endalaust að tala um hlutina en vill drífa í framkvæmdir? Þegar glöggt er skoðað, er ekki svolítill Símon Pétur í okkur öllum, hvatvísi sem við ýmist gefum rými eða reynum að dempa?

Í guðspjalli dagsins er það auðvitað Símon Pétur sem tekur af skarið og segir: „Ég fer að fiska“, og vinir hans fylgja. Það hefur líklega verið heldur vonsvikinn hópur sem réri að landi úr fyrirdrætti, netin voru tóm, ekki einn einasti fiskur. Á ströndinni er náungi sem kallar til þeirra; Krakkar! hafið þið nokkurn fisk?, svarðið er neitandi. Hann stingur upp á að netinu sé kastað hægra megin við bátinn. Það er eins og við manninn mælt; netin fyllast af fiski, svo mikill var aflinn að þeir gátu ekki dregið netið. Þá loksins bera þeir kennsl á manninn á ströndinni, „Þetta er Drottinn“, segir Jóhannes við Símon Pétur. Viðbrögð hans eru dásamleg! Hann er í bátnum fáklæddur og er það ekki venjan þegar við stingum okkur til sunds eða vöðum yfir á eða læk að við fækkum heldur fötum en að klæða okkur í? En, nei, ekki hann Pétur! Í æðubunuganginum þar sem hann stendur fáklæddur í bátnum bregður hann yfir sig flík, stekkur í vatnið og öslar af stað. Hinir lærisveinarnir virðast hafa haldið ró sinni og héldu áfram á bátnum í land.

Það var Jesús sjálfur sem stóð á ströndinni og steikti brauð og fisk. Hann kallar á lærisveinana og biður þá að bæta við af fiskinum sem þeir voru að veiða og bauð þeim svo að matast.

Það er eitthvað magnað við þetta. Hann, sem þau höfðu fylgt og upplifað svo margt með, hafði verið krossfesstur. Sagan endaði ekki þar. Hann sigraði dauðann, birtist þeim aftur....og aftur. Samt efuðust þau. Það eru ein af mörgum skilaboðunum til okkar í dag. Það er í lagi að efast. Jesús heldur áfram að koma aftur og aftur. Hann refsar okkur ekki með því að segja að ef við trúum ekki þá vilji hann ekkert með okkur hafa. Honum þykir vænt um okkur. Við erum börn hans. Hann býður okkur daglega til veislu. Sjáið þið ekki fyrir ykkur þetta huggulega strandpartý við Tíberíasvatnið? Grill og gott samfélag. Ótrúlega notaleg stemning, lykt í loftinu, gott bragð, væntumþykja.

Við nálgumst upplýsingar á augabragði, nánast með því að ýta á takka, almenn þekking á hlutum sem fyrir svo ekki löngu var einungis á fárra höndum hefur vissulega breytt heimsmyndinni. En, þrátt fyrir alla þekkinguna, upplýsingarnar og aðgengi að google og wikipetia er svo ótal mörgum spurningum ósvarað. Sem betur fer. -Tilvist Guðs hefur verið dregin í efa og víst er að hún verður líklega seint sönnuð eða afsönnuð. Það verður ekki framhjá því horft að boðskapur kirkjunnar hefur reynst ýmsum fjarstæðukenndur, mörgum stendur á sama og einhver hafa séð ástæðu til þess að leggjast gegn honum. Samhliða þessu á sér stað mikil andleg leit og ýmislegt er í boði til andlegrar næringar. Þar hefur Guð ekki endilega verið að valda miklum heilabrotum. Það virðist tiltölulega auðvelt að sammælast um að til sé eitthvað okkur manneskjum æðra, æðri máttur, eitthvað gott, ofar okkar skilningi sem við gjarnan getum kallað Guð. En þegar við förum að blanda Jesú í málið fer það gjarnan að vandast. Það er athyglisverð pæling að velta fyrir sér hvort Jesús sé vegurinn eða hvort hann standi í veginum? Þetta er ögrandi spurning, ekki síst rétt eftir páskahátíðina, upprisuhátíðina sjálfa.

Hvernig boðum við trú á Jesú árið 2013? Í pistil dagsins heyrum við hvernig Páll postuli prédikaði fyrir margt löngu. Hann var ekki að hika, sagði trú okkar og prédikun ónýta ef Kristur væri ekki upprisinn! Skiljanlega var Páli mikið í mun að boða trúnna sem hafði umbylt lífi hans. En aðferð hans er ekki endilega vænlegt til árangurs. Við erum ekki með trúartakka sem hægt er að þrýsta á og við trúum. Mér hugnast betrur aðferð Jesú sjálfs sem sagði: leitið og þér munið finna. Hann gefur rými fyrir leitina, efann, þorstann. Eða sagan af týnda syninum sem var fagnað svo innilega þegar hann kom heim. Mér finnst gott til þess að vita að þótt myndin af Jesú kunni að mást eða jafnvel hverfa okkur um stund þá er myndin af þér og myndin af mér kristaltær í hans augum og okkur er fagnað þegar við komum til baka. Nærfærni, umhyggja og kærleikur. Við þurfum á þeim boðskapi að halda.

Eftir erfiðan dag þar sem ekkert virtist ganga upp, er svo gott að geta rifjað upp að fyrir 2000 árum voru vinir og vinkonur Jesú einmitt í þessum aðstæðum. Netum var kastað, en þú kemur tómhent/ur heim. Þú lagðir þig fram en það gekk ekkert upp. Þá er gott að eiga trú sem segir að þú eigir ekki að gefast upp, þú skulir kasta netunum aftur og aftur. Það er líka gott að eiga trú sem segir að þú sért aldrei ein/n hvort sem aflinn er mikill eða lítill. Það eru ekki flóknar uppskriftir sem fylgja guðspjalli dagsins. En stemningin virðist svo fín. Jesú stóð á ströndinni og steikti brauð og fisk og kallaði svo á lærisveinana að leggja fisk í púkkið og svo fengu allir sér að borða. Þetta hversdagslega er svo dýrmætt. Munum að taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Njótum. Stundum er það einfalda best. Treystum. Verum gestrisin og örlát. Við þurfum líka að kunna að taka á móti og þakka.

Þökkum Guði fyrir að hann sendi okkur Jesú. Þökkum fyrir hvert annað. Fyrir söfnuðinn okkar, fyrir kirkjuna sem starfar í heiminum. Þökkum fyrir líf og heilsu, fjölskyldu og vini.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 21.1-14