Utan flokka fólk

Utan flokka fólk

Þessi einstaklingshyggja er ekki aðeins í pólitíkinni, hennar gætir nefnilega líka á sviði trúmálanna. Þar er utan flokka fólki einnig að fjölga. Í trúmálageiranum er þetta sá hópur, sem vex hraðast á síðustu misserum.
fullname - andlitsmynd Magnús Erlingsson
05. nóvember 2014

Hér í gamla daga voru tveir þekktir kosningasmalar á Ísafirði og báðir höfðu þeir viðurnefni. Þetta voru þeir Hannes háleggur og Stebbi skór. Sagan segir að þeir hafi vitað svo ekki skeikaði nema örfáum atkvæðum hvað þeirra flokkur myndi fá í kosningum. Þeir voru nefnilega með lista yfir bæjarbúa og merktu við hvað hver og einn myndi kjósa. Í þá daga lá það nokkuð ljóst fyrir hvort menn voru kratar eða íhald. En þessir tímar eru liðnir. Í dag veit enginn hvað nágranninn ætlar að kjósa í næstu kosningnum og nágranninn veit það reyndar ekki einu sinni sjálfur. Fólk vill ekki lengur vera bundið á einhverjum flokksbásnum. Það er eins og pólitísk sannfæring hvort sem er til vinstri eða hægri hafi dofnað með árunum. Líklega kjósa flestir eftir buddunni sinni; það er að þeir kjósa þann flokk, sem mun hugsanlega hjálpa þeim til að halda fleiri krónum í buddunni eftir hver mánaðarmót.

En þessi einstaklingshyggja er ekki aðeins í pólitíkinni, hennar gætir nefnilega líka á sviði trúmálanna. Þar er utan flokka fólki einnig að fjölga. Í trúmálageiranum er þetta sá hópur, sem vex hraðast á síðustu misserum. Samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá Íslands þá eru 17.218 manns utan trúfélaga. Til samaburðar má nefna að í katólsku kirkjunni á Íslandi eru 11.454 manns og í ásatrúarfélaginu eru 2.382.

Undanfarna áratugi hefur verið hlutfallsleg fækkun í lútersku þjóðkirkjunni. Að vísu fjölgaði meðlimum ár frá ári vegna náttúrulegrar fjölgunar íslensku þjóðarinnar. En þetta breyttist árið 2005. Þá var mikil umræða í íslensku samfélagi um stöðu samkynhneigðra og rétt þeirra til að stofna til hjúskapar og þótti ýmsum þjóðkirkjan draga lappirnir í málinu, - ef ekki hreinlega vera svolítið þversum. Árið 2005 gerðist það í fyrsta skipti að fjöldi þjóðkirkjufólks stóð í stað, sem merkir það að úrsagnirnir voru jafnmargar og nam hinni náttúrulegu fjölgun. Síðan fjölgaði þjóðkirkjufólki næstu fjögur árin og 2009 voru flestir skráðir í þjóðkirkjuna eða 253.069 manns. 2011 var erfitt ár hjá þjóðkirkjunni, þá skilaði sérstök rannsóknarnefnd af sér skýrslu um hvernig yfirstjórn þjóðkirkjunnar hefði tekið á ásökunum um kynferðislegt ofbeldi og kom í ljós að eitt og annað hefði mátt betur fara. Það ár fækkaði þjóðkirkjufólki um heil fjögur þúsund manns.

Árið eftir var kjörinn nýr biskup hjá þjóðkirkjunni og var það sr. Agnes M. Sigurðardóttur, sóknarprestur í Bolungarvík. Mikil ánægja var með kjör Agnesar enda var kominn tími á að kona settist á biskupsstól. Líklega átti Agnes biskup drjúgan þátt í því að í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnalagaráðs gerðist það að einni af tillögum ráðsins var hafnað en það var einmitt tillagan um að leggja af 62. grein stjórnarskrárinnar þar segir að Hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Héldu nú sumir kirkjunnar menn að tekist hefði að setja undir lekann. En Adam var ekki lengi í paradís því að tölur síðustu ára sýna að það heldur áfram að fækka í þjóðkirkjunni. Nú er svo komið að í ár eru 244.440 manns í lútersku þjóðkirkjunni. Sem dæmi um útskráningar má nefna að á tímabilinu frá 1. júlí siðastliðnum til 30. september skráðu sig 636 úr þjóðkirkjunni. Að vísu skráðu 94 sig í kirkjuna á sama tíma. Og nú er ekki hægt að benda á neinar sérstakar uppákomur innan kirkjunnar, sem útskýri þessar úrsagnir nema ef vera skyldi fjölmiðlaumræðan kringum hátíðina Kristsdaginn.

Sé rýnt nánar í tölurnar þá er öll fækkunin í yngri aldurshópunum. Til dæmis fjölgaði fólki, sem er 18 ára og eldri í þjóðkirkjunni um 222 sálir milli áranna 2013 og 2014 en aftur á móti fækkaði um 966 í aldurshópnum 17 ára og yngri. Af þessum tölum er greinilegt að það er einkunn yngra fólkið, þar með talið börn og unglingar, sem kjósa að standa utan þjóðkirkjunnar. Hvað veldur þessu? Sjálfsagt eru ýmsar skýringar á því eins og minna trúaruppeldi en kannanir hafa bent til þess að þeim foreldrum fækki, sem biðja kvöldbænir með börnunum sínum. Neikvæð umræða og viðhorf kunna einnig að ráða þarna nokkru um. En sá möguleiki er farinn að hvarfla að pistlahöfundi að ein meginorsökin sé hreinlega aukin einstaklingshyggja í nútímanum. Fólk vill ekkert endilega tilheyra einhverjum söfnuði og játa eða samsama sig tilteknum trúarkenningum, sem sumir myndu einfaldlega kalla kreddur. Vera kann að áhersla þjóðkirkjunnar á rétttrúnað og íhaldssama guðfræði fæli einfaldlega yngra fólkið frá. Lútersku fríkirkjunnar á Íslandi hafa verið í sókn að undanförnu og það einkennir þær að þar er helgihaldið með frjálslegra sniði og guðfræðin mun frjálslyndari en í þjóðkirkjunni.

Þá má heldur ekki gleyma því að í nútímanum er afar auðvelt að lesa á netinu hárbeitta pistla og skoðanir, sem eru miklu meira lifandi og krassandi en þær stólræður, sem hljóma í kirkjum landsins. Og allir eiga í tónhlöðum eða diskasafni sínu miklu fjölbreyttari tónlist heldur en nokkur organisti og kirkjukór getur flutt. Í nútímanum eru ýmsar leiðir til að dýpka eigin lífsskoðanir og lífsspeki og sækja sér afþreyingu og samfélag við aðra. Gamla spakmælið um að hver sé sinnar gæfu smiður er kannski að verða að trúarjátningu hjá æ fleirum í samtímanum!