Líkami Krists hefur alnæmi

Líkami Krists hefur alnæmi

Þrátt fyrir útbreiðslu alnæmis ríkir þögn um sjúkdóminn, fordómar eru miklir og fólk veigrar sér við að tala um hann. Fáfræði er því útbreidd, bæði um smitleiðir og áhrif smits og það hefur áhrif á allt nærsamfélag, þar á meðal helgihaldið og altarismáltíðina.

Líkami Krists hefur alnæmi var yfirskrift málþings sem fram fór á Heimsþingi Alkirkjuráðsins í Brasilíu í febrúar á þessu ári. Þetta var eitt af mörgum málþingum og fundum sem minntu á að alnæmi leggur heilu byggðarlögin í rúst í Afríku og hefur mikil áhrif á kirkjulegt starf þar. Kirkjan er líkami Krists og þegar einn limur þjáist, þjást hinir limirnir með honum.  Áskorunin fyrir kirkjuna í Afríku er augljós. Þegar allt að helmingur safnðarmeðlima er smitaður af HIV veirunni hefur það áhrif á allt starf, sinna þarf sjúkum, huga að munaðarlausum og hjálpa elstu kynslóðinni að ala yngstu kynslóðina upp.

Þögn og fordómar

Svo eru minna sýnilegir þættir. Þrátt fyrir útbreiðslu alnæmis ríkir þögn um sjúkdóminn, fordómar eru miklir og fólk veigrar sér við að tala um hann. Fáfræði er því útbreidd, bæði um smitleiðir og áhrif smits og það hefur áhrif á allt nærsamfélag, þar á meðal helgihaldið og altarismáltíðina.

Umlazi

Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika er haldin ár hvert og kemur bænaefni frá mismunandi heimshlutum þar sem mismunandi kirkjudeildir vinna saman að því að semja það. Efni bænavikunnar kemur að þessu sinni frá Umlazi í Suður Afríku. Þetta er svæði nálægt Durban sem upphaflega var sett upp sem svæði fyrir svarta íbúa á tímum apartheid. Þessi arfur kynþáttahaturs, atvinnuleysis og fátæktar mótar ennþá samfélagið og þar er há tíðni glæpa og misnotkunar. Talið er að um helmingur íbúa Umlazi séu smitaðir af alnæmisveirunni.

Ótti við stimpil

Fólk sem leiðir ýmis kristin samfélög í Umlazi hittist nýlega til að ræða hvernig það gæti í sameiningu unnið gegn þessum miklu erfiðleikum. Einn vandi sem gerir aðstæður erfiðari ótti fólks við stimpil ef það segir frá erfiðleikum sínum, hvort heldur er vegna Alnæmis, misnotkunar eða nauðgana. Menningin leyfir ekki að málefni er snerta kynlíf séu rædd. Þess vegna forðast margir að leita þeirrar þjónustu sem til dæmis kristin samfélög bjóða, svo sem heimahjúkrun, heilsugæslu, sálgæslu.Saman bjuggu leiðtogarnir til samkirkjulega guðsþjónustu sem hefur að markmiði að rjúfa þögnina. Í henni var ungt fólk í Umlazi hvatt til að tala um það sem ekki má nefna og leita hjálpar því að þögnin getur deytt.

Líkami Krists – er einn

Kirkjur í Umlazi njóta stuðnings hins alþjóðlega kirkjusamfélags í baráttu sinni en kirkjur um allan heim geta líka lært af kirkjunum í Umlazi og þeim kirkjum víðar í Afríku sem taka virkan þátt í að vinna gegn alnæmi og að bæta hag þeirra sem eru smitaðir. Líkami Krists er einn, kirkja Krists er ein, og það reynir á samstöðu og samvinnu ólíkra kirkna þegar svona mikið er í húfi. Í tilefni Alþjóðlega alnæmisdagsins 1. desember, sendir Alkirkjuráðið frá sér sérhefti um HIV forvarnir. Hægt er að nálgast það á slóðinni http://wcc-coe.org/wcc/news/contact.html

Alnæmissamtökin hér á landi verða með opið hús að Hverfisgötu 69 frá 16 – 19 á alnæmisdaginn. Þau standa einnig að blysför sem hefst á Hlemmi kl. 20.00.