„Meðlagsgreiðsla“ orða

„Meðlagsgreiðsla“ orða

Um daginn var það mér “ný” sannindi að Guð er allstaðar. Eða kannski er réttara að segja að þau sannindi hafi gengið í gegnum endurnýjaða uppgvötun í mínum huga. Það er nefnilega stundum gott að vera gleyminn. Því sannindinn ganga reglulega í endurnýjaða lífdaga. Þeir dagar þegar það gerist eru gleðidagar fylltir af sól svo gæta verður að brenna ekki á eigin skinni.

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá, sem við mig segir: Herra, herra, ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. Mt. 7. 15-23

Nýtt og notað

Það eru ekki ný “sannindi” að Guð er allstaðar. Það er kannski þess vegna sem svo virðist vera í dag í samfélagi okkar að mörgum leiðist að það er ekkert nýtt að sjá og skynja í veröld þessari. Það er ekkert sem hvetur ungan huga eða gamlan til að leita þess nýja vegna þess að einhver annarra eða manns eigin spor eru þar þegar komin. Gæti verið þess vegna að svo margir fara langa vegu til þess að sjá eitthvað nýtt bara til að komast að þvi að það er ekkert nýtt að sjá? Á sama tíma og ekkert nýtt er að sjá er alltaf eitthvað nýtt að gerast, en við komum ekki auga á það vegna þess að við erum svo upptekinn af því að sjá og skynja á eigin “skinni” eitthvað nýtt. Það er sama hvert farið er og maður þarf heldur ekkert að fara eitthvað - þá er alltaf eitthvað nýtt að sjá aðeins að við höfum augu til að skynja að það er allt um kringum okkur. Hvernig væri að vakna til nýs dags og horfast í augu við það sem blasir við á hverjum morgni – makann, börnin, vinnufélaga og ekki aðeins horfa á yfirborið það ytra heldur að fara undir “skinnið” og sjá allt það sem er hulið og komast þannig að því að það er satt að Guð er allstaðar í auðmýkt sinni og við þurfum ekki að leita langt til þess að komast að raun um það. Það er eitt að þurfa ekki og annað að gera það samt.

Guð er

Um daginn var það mér “ný” sannindi að Guð er allstaðar. Eða kannski er réttara að segja að þau sannindi hafi gengið í gegnum endurnýjaða uppgvötun í mínum huga. Það er nefnilega stundum gott að vera gleyminn. Því sannindinn ganga reglulega í endurnýjaða lífdaga. Þeir dagar þegar það gerist eru gleðidagar fylltir af sól svo gæta verður að brenna ekki á eigin skinni. Það er eins gott og það er slæmt að geta ekki gleymt.

Þegar þessi dagur eða dagar opna augun er eins og allt sem sést “berstrípað” heilögum sannleika sem ekki er hægt að ná höndum yfir. Það er eins og eitthvað innra með manni rembist við að ná andanum og losna undan eða frá takmörkunum alls. Þar sem ég var á gangi um Elliðárdalinn á góðviðrisdegi var sem að Guð hafi líka ákveðið þann daginn að ganga stífluhringinn. Það hittist bara þannig á að ég var þar líka. En ég sá hann ekki fyrr en hann hvíslaði að mér að hann væri í stráunum svo smár og veikburða sem kinkuðu kanvíslega kolli þegar ég gekk framhjá með “Bubba” í eyrunum. “Bubbi var í sex skrefa fjarlægð” og ég – ég var í “Paradís” Hann hvíslaði að vitund minni þvi hann komst ekki að eyrunum því eins og áður segir var Bubbi “plöggaður” í bæði eyru að hann var í blómunum sem björt horfðu á mig og mig langaði að taka undir með Bubba í laginu “Vonin, vonin blíð vertu mér hjá…” hefja upp raust mína en ég þorði því ekki því einhver annar gat verið mér hjá og heyrt eitthvað allt annað en vonina blíðu sem við geymum öll í hjarta og Guð hvíslaði með hægum hlýjum andvara að það gerði ekki til því hann væri þar í hjarta mínu.

Hann var ekki einn - hann Guð og ég og náttúran öll. Englar Guðs skoppuðu um allt brosandi léku sér og skríktu af kæti. Hann sagði mér líka að hann væri þarna alltaf ekki bara á góðum björtum sumardegi heldur alltaf – en ég vildi bara halda honum þarna á þessu augnabliki.

Sex skrefa fjarlægð

Enn var Bubbi í “sex skrefa fjarlægð” en samt svo nærri og enn nærri var Guð að reyna ná athygli minni í hverju skrefi sem ég tók. Því hann hættir því aldrei-að reyna ná athygli minni og eða þinni. Hvar sem við kynnum að finna okkur að vera. Ganga stífluhringinn í Elliðarárdalnum umsvermuð sumarsins glaðlyndu dögum eða þegar fýkur í þá og úrillir hreyta í okkur hryssingslegum ónotum – og tilveran þarf að hafa sig alla við að halda sínu skrefi sem ekki endilega bera með sér eitthvað nýtt og við finnum til einhvers leiða sem leiðir af sér ekkert annað en “svarta hunda” eins og Bubbi var tekin til við að syngja í eyru mín. Hann hafði sannarlega snert hann með söng sínum og gítarslætti-hann Guð.

Hógvær og lítillát kyrrðin draup af hverju strái, hverju blómi og áin rann svo endalaus til sjávar komin langan veg og átti langt eftir að fara til að sameinast hringrás eilífðar. Um stund var ég hluti af henni-eilífðinni, svo smár og umkomulaus frammi fyrir því sem ég gat ekki fært í orð. Þótt ég gjarnan vildi en vissi sem svo að þau hefðu ekkert að segja í augnablikið sem sveif hjá eins og frjókorn að finna sér hentugan lendingarstað. Ég-ég var orðlaus þar sem ég stóð um stund og fylgdist með þessu sjónarspili. Meðlagsgreiðsla orða

Þeir eru til sem eiga sér alltaf orð um allt og alla. Dreifa þeim um allar jarðir þar sem þau leita jarðvegs til næringar. Sá jarðvegur er líka úti um allt sem tilbúin er að fóstra þessi orð og spyrja einskis heldur taka fagnandi á móti þeim. Síðan eru þeir tilbúnir að taka þau upp og færa hverjum sem vill nema þau þótt þeir viti að það er engin innistæða fyrir þeim. Það eru orð ábyrgðarleysis, það eru orð græðgi og stundar hagsmuna, það eru orð sem eru hol að innan og bergmálar sinn eigin hjáróma “mátt..” Því mátturinn verður aldrei annað en hjáróma hjal. En við skulum hlusta og meðtaka þau því þau kunna vera færð í svo fallegan búning að annað er ekki hægt. Við vitum að það er alltaf hægt að horfa á að gera eitthvað annað en það sem við okkur blasir eða að eyrum okkar berst. Við gerum það ekki alltaf þótt við vitum betur heldur meðtökum boðskapinn sem er yfirborðið eitt og ekkert annað – þrátt fyrir að rætur þess erum fúnar og skila ekki af sér næringu fullvissunar um að ávöxtur þess sé safaríkur og mettandi. Við gerum það vegna þess að við höfum talið okkur trú um að þannig getum við lifað daginn af – vikuna, mánuðina, árin og því fylgir engin ábyrgð.

Sögðum orðum fylgir ábyrgð og ábyrgðin liggur ekki þarna úti heldur er hún innra með okkur því þar á hún sér lögheimili. Frá þeirri ábyrgð hlaupum við ekki. Hversu mjög við viljum ekki kannast við hana - vill hún kannast við okkur. Hún leitar okkur uppi og ef vill ekki betur krefst hún “meðlagsgreiðslna” af okkur því ábyrgðin er skilgetið afkvæmi okkar.

Uppgvötun alls

Afkvæmi hugsana okkar og verka og orða er ekki eitthvað sem fellur af himni ofan. Það vitum við – við vitum að það fellur eitthvað allt annað en það eins og rigning. Falleg orð geta aldrei komið í stað góðra verka. Það eru engin ný sannindi falin í þeirri fullyrðingu og það sem meira er að við þurfum ekki að leiðast það.

Sannleikurinn er sá að ég uppgvötaði um daginn á göngu minni á nýjan leik að ég veit ekki neitt. Ég uppgvötaði það á endurnýjan hátt á göngu minni um Elliðarárdalinn. Allt sem ég segi, allt sem ég hugsa, allt sem ég læt frá mér fara í orði og riti er aðeins veik viðleytni mín til þess að uppgvöta veröldina sem ég er hluti af. Spegla mig í henni til þess mögulega að sjá og skynja eitthvað nýtt.

Ég er agnasmár hluti og það er gott-ekki aðeins veraldarinnar vegna - heldur og það að ég get í því skjóli veitt mér þann munað að þurfa ekki að standa upp og benda ógnandi fingri á það sem aflaga kann að fara í samfélaginu því ég er sjálfur hluti samfélagsins. Það segir samt ekki að ég megi ekki bæta við veikum orðum og hugsunum í það samfélag sem ég lifi í. Reyna ekki af eigin mætti að skilja hana um leið vita það að ég mun aldrei gera það til fulls. Því til hvers væri lifað ef skilningurinn væri allur? Til hvers væri lifað ef ekkert væri nýtt að sjá og uppgvöta, jafnvel þótt uppgvötunin væri ekki ný – aðeins það að sækja hana heim eftir mislanga dvöl frá henni. Hvað með það þótt maður sjái sín eigin spor á staðnum og uppgvöta að maður hafi verið þar áður? ég spyr eins og sauður. Því ég veit ekki svarið. Það er þarna einhverstaðar fjær eða nær. Mér segist svo hugur að það er nær en maður ætlar það eru heldur ekki ný sannindi.