Að miðla virðingu og reisn – baráttan gegn mansali

Að miðla virðingu og reisn – baráttan gegn mansali

Mér finnst ég sjá tvennt sem er allra mikilvægast og á færi okkar allra að hafa áhrif á. Það er að berjast gegn annars vegar fátækt og hins vegar fáfræði. Misbeiting og vanvirðing manneskjunnar sprettur oftar en ekki af þessu tvennu.

Biðjum með orðum Hallgríms Péturssonar:

Vertu Guð faðir, faðir minn Í frelsarans Jesú nafni Hönd þín leiði mig út og inn Svo allri synd ég hafni.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Skírdagsmorgun. Skírdagur, skíri dagur, hreini dagur. Dagurinn dregur nafn sitt af því að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna við máltíðina í loftsalnum (sjá Lúk 22.7-12). Jóh 13.3-15:

Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.
Með þessari látlausu og raunar hversdagslegu athöfn – því að það var venja að þjónar þvæðu ferðalúna fætur gestkomandi fyrir máltíðir – gefur Jesús okkur eftirdæmi. Það er eftirdæmi þjónustunnar. Við erum kölluð til þess að þjóna hvert öðru, hlú að lífinu, sýna ræktarsemi og sinna kærleiksverkum. Eftirdæmi Jesú kennir okkur annars vegar að ekkert okkar er of merkilegt til að þjóna öðrum. Og með því að þvo fætur lærisveinanna kennir Jesús okkur líka að ekkert verk er of ómerkilegt til að við sinnum því af alúð.

Þjónustan í hinu daglega, að þvo litla putta leikskólabarnsins, strjúka klút um sveitt enni sjúklingsins, gefa fólki að borða, allt eru þetta mikilvæg kærleiksverk séu þau unnin af fúsleika. Í hinu smáa erum við kölluð til að miðla virðingu og reisn til fólks – og í hinu stóra samhengi að stuðla að því sama með baráttu fyrir réttlæti og mannsæmandi lífi, öllum til handa.

Upplýst bæn, bæn í verki Hugsjón Alþjóðlegs bænadags kvenna - sem við erum hér saman komin um - er þríþætt: Í fyrsta lagi að við fáum upplýsingar um aðstæður kvenna, barna og karla í fjarlægum löndum. Í öðru lagi að við biðjum fyrir og með því sama fólki í þeirra aðstæðum. Og síðast en ekki síst að við sýnum skilning okkar og bænarhug í verki. Þetta kemur allt fram í einkunnarorðum bænadagshreyfingarinnar: Upplýst bæn, bæn í verki (informed prayer, prayerful action). Til þess að geta beðið markviss fyrir aðstæðum systra okkar og bræðra þurfum við að hafa innsýn í líf þeirra og skort. Og þó bænin sé máttug ein og sér og stundum okkar eina leið til að hafa áhrif til góðs á líf annarra viljum við líka finna farveg fyrir trú sem starfar í kærleika (Gal 5.6, 1981).

Þessi alþjóðlega bænahreyfing á sér rætur til kristniboðskvenna í Norður Ameríku á 19. öld sem fundu sameiningarmáttinn í bæninni þó langar vegalengdir skildu þær að. Fyrir 90 árum fór hreyfingin að taka á sig alþjóðlega mynd og smám saman hafa konur í fleiri og fleiri löndum slegist í hóp þeirra sem koma saman fyrsta föstudag í föstu, síðar fyrsta föstudag í mars, til að biðja fyrir og með konum í ákveðnu landi. Bænadagur kvenna var fyrst haldinn á Íslandi fyrir 75 árum, þann 8. mars 1935, en með reglubundnum hætti frá 1957 að frumkvæði kvennanna í Hjálpræðishernum. Nú eru samkomur haldnar í um 180 löndum og hér koma saman smáir og stórir hópar kvenna á 10-12 stöðum á landinu.

Allt sem andardrátt hefur lofi Drottin Ákveðin yfirskrift er valin fyrir hvert ár og núna, árið 2010, sendu kristnar konur í Kamerún frá sér efni byggt á Sálmi 150, sem við höfum þegar heyrt: Allt sem andardrátt hefur lofi Drottin. Þær leggja áherslu á lofgjörð til Guðs sem gefur lífið, þrátt fyrir ýmiskonar erfiðleika sem mæta þeim í daglegu lífi, erfiðleika sem sumpartinn eru okkur svo órafjarri hér á Íslandi en að nokkru leyti líka sameiginlegir konum um allan heim.

Strit ungu stúlknanna frá morgni til kvölds til að fjölskylda þeirra geti dregið fram lífið, strit sem kemur oftar en ekki niður á skólagöngu þeirra, er okkur sem betur fer fjarlægur veruleiki. Mismunun af öðru tagi getur verið kunnuglegri og það sýnir sig að hversu framarlega sem þjóðfélög telja sig í jafnrétti og velmegun á ofbeldi gagnvart konum og börnum sér stað alls staðar í heiminum.

Mansal Mein sem við hér á Íslandi vissum þar til fyrir skemmstu lítið um annað en af fréttum úr fjarlægum löndum, mansal, er því miður komið hingað heim í húsagarðinn til okkar. Ekki þó þannig að við þurfum að horfa upp á okkar eigin börn og unga fólk týnast inn í það sem kallað hefur verið þrælahald 21. aldarinnar, heldur hefur það sýnt sig að einnig hér á okkar litla landi virðist vera markaður fyrir slíkt þrælahald. Áætlað hefur verið að nærri 60 fórnarlömb mansals hafi komið fram á Íslandi á liðnum árum (Fréttablaðið 24. október 2009). Við getum þvegið hendur okkar og sagt að þau sem stuðla að þessum hrossakaupum með manneskjur séu útlendingar en hverjir eru þá kaupendur hinnar svokölluðu ,þjónustu´?

Við heyrðum áðan lesið úr Postulasögunni (Post 16.16-34) um ambáttina sem aflaði húsbændum sínum mikils gróða með iðju sinni – sem í því tilviki var spásagnarandi. Með þessari frásögu vilja konurnar í Kamerún minna okkur á þann veruleika sem mætir konum og börnum sem seld eru undir vald annarra, veruleika sem þær margar þekkja úr sínu eigin umhverfi.

Stjórn Alþjóðlegs bænadags kvenna hefur beðið um að frá þessu ári til og með árins 2013 sýni landsnefndir hreyfingarinnar í hverju landi fyrir sig bæn sína í verki með því að berjast gegn þessu samtímaböli sem mansalið er. Á þessu ári beinum við sjónum okkar til Afríku, enda er Kamerún landið sem sendir frá sér efnið. Á næsta ári, 2011, er það Chile sem gefur út dagskrána og þá verður Suður Ameríka í brennidepli hvað varðar umfjöllun um mansal. Árið 2012 lítum við til Asíu með konurnar í Malasíu sem höfunda efnisins og loks er það Evrópa árið 2013, en þá senda frönsku konurnar frá sér efnið.

Með augun opin Ég sótti ráðstefnu á Englandi sl. haust þar sem meðal annars var fjallað um á hvern hátt við getum lagt okkar að mörkum sem konur í kirkju Krists um víða veröld, konur með augun opin fyrir umheiminum, hjartað fullt af kærleika og hendur viljugar til verka.

Á ráðstefnunni kom fram að reiknað hefur verið út að um 800 þúsund kvenna og barna séu fórnarlömb mansals á ári hverju. Það eru um 24 milljónir þræla á 30 árum. Þrælahald eldri tíma var mun umfangsminna, en talið er að í um 150 ára sögu þess hafi fórnarlömbin verið um 20 milljónir. Fórnarlömb mansals eru ein hlið málsins – mest konur og börn en líka ungir menn. Þau sem hagnast á þrælahaldinu eru önnur hlið og í þessum ,markaði´ ef svo má að orði komast liggja gríðarlegir fjármunir.

Þriðja hliðin eru kaupendurnir. Kannanir sýna að 7%-13% karlmanna kaupi vændi reglulega. Það eru 1 af hverjum 10 körlum, flestir á aldrinum 25-50 ára. Ef kaupendur væru ekki fyrir hendi væri mansal ekki til. Nú hafa íslensk stjórnvöld í mikilli einingu flestra alþingismanna gengið fram fyrir skjöldu og bannað nektardans (23. mars 2010). Er það mikið fagnaðarefni og gríðarlega mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir mögulegan markað mansals á Íslandi, enda sýna rannsóknir að misneyting, mansal og aðrir glæpir tengjast oft nektardansstöðum (www.mbl.is 17. mars 2010).

Mansal birtist þó í fleiri myndum en vændi. Börn, bæði drengir og stúlkur, eru til að mynda seld ríku fólki af foreldrum sínum eða ættingjum, stundum í von um betri framtíð þeim til handa, stundum upp í skuld en ávallt vegna fátæktar og fáfræði. Kaupendur finnast bæði í heimalöndum barnanna en líka í t.a.m. Ameríku, Englandi og víðar í Evrópu. Þessi mynd mansals er ekki þekkt hér á Íslandi en því miður vitum við að það sem er til í Ameríku og Evrópu fyrirfinnst oftar en ekki hér á okkar friðsæla landi einnig þó í minna mæli sé. Okkur finnst líklega óhugsandi að börn gangi kaupum og sölum annað hvort með ólöglegri ættleiðingu eða til að þræla inni á heimilum við barnagæslu, matreiðslu og þrif, svo nokkuð sé nefnt, en þannig er nú veruleikinn samt víða um heim. Þá eru börn þvinguð til að belta, vinna í verksmiðjum og þjálfuð sem barnahermenn.

Hvað er til ráða? Og hvað er þá til ráða? Í máli talsmanns samtaka kristinna kirkna í Evrópu gegn mansali á fyrrnefndri ráðstefnu kom fram að þrennt væri í stöðunni:

1. Fyrirbyggjandi aðgerðir, að komast að rótum vandans með því að fræða fólk, stuðla að réttlátum reglum og góðu innflytjendaeftirliti. 2. Aðstoð við fórnarlömb og að vakað sé yfir mannréttindum. 3. Skilvirkar rannsóknaraðferðir, nákvæm löggjöf og alþjóðleg samvinna. Sjá www.chaste.org.uk
Þetta er allt eitthvað sem snýr að sérfræðingum stjórnvalda, finnst okkur kannski, og þar hefur vissulega verið unnin tímamótavinna hérlendis á undanförnum misserum. En á hvern hátt getum við beitt okkur sem kristnir söfnuðir og einstaklingar? Alþjóðanefnd bænadagshreyfingar kvenna leggur til að við
1. Sækjum okkur fræðslu um mansal, rætur þess og hvernig megi berjast gegn því. • Það er einmitt það sem við erum að gera í dag. Með því að leita á netinu má finna mikið magn af upplýsingum, líka á íslensku. 2. Kynnum okkur hvaða starf er unnið í okkar heimalandi og styðjum við það. • Hjálpræðisherinn hefur verið í forystu kristinna safnaða í þessu máli eins og mörgum öðrum sem varða alhliða umhyggju fyrir fólki. 3. Vekjum kirkjurnar okkar til umhugsunar um fordóma gagnvart fórnarlömbum mansals og skilnings á stöðu kvenna í þessu sambandi. • Við þurfum að gæta þess að dæma ekki fórnarlömbin en styðja stjórnvöld í því að efla löggjöf og dómskerfi svo að hinir raunverulegu sakamenn séu stöðvaðir. 4. Minnum á að hvenær sem einn limur á líkama Krists þjáist þá þjáist allur líkaminn (1Kor 12.26).
Að vinna gegn fátækt og fáfræði Mér finnst ég sjá tvennt sem er allra mikilvægast og á færi okkar allra að hafa áhrif á. Það er að berjast gegn annars vegar fátækt og hins vegar fáfræði. Misbeiting og vanvirðing manneskjunnar sprettur oftar en ekki af þessu tvennu. Með því að gefa af fjármunum okkar, sama hversu lág upphæðin er, getum við breytt lífi barna og kvenna til hins betra, t.d. í gegn um Hjálparstarf kirkjunnar, ABC barnahjálp, Caritas eða sambærileg samtök. Við getum t.d. líka keypt vörur sem framleiddar eru undir merkjum sanngjarna viðskipta eða Fairtrade og stuðlað á þann hátt að betri afkomu smábænda og lítilla framleiðanda í fátækum löndum.

Baráttan gegn fáfræði snýr að mínu mati að öllum þremur aðilunum sem nefndir voru hér áðan, þolendum mansals – þar með töldum foreldrum og ættingjum barnanna og unga fólksins sem um ræðir – gerendunum, það er þeim sem hagnast á mansalinu, og kaupendunum. Þá á ég ekki síst við þá fáfræði að meta ekki hvert einasta mannslíf verðugt reisnar og kærleika.

Þetta kann að virðast öllu snúnara en að vinna gegn fátækt en það sem við getum gert er að halda á lofti virðingunni fyrir manneskjunni í öllu samhengi. Við hljótum ekki síst að vilja tala fyrir jafnrétti og virðingu við þá sem halda að það sé réttlætanlegt að kaupa sér aðgang að annarri manneskju með einhverjum hætti. Þarna er vandinn kannski nær en okkur grunar og því þurfum við að boða reisn og virðingu manneskjunnar hvar sem við komum.

Eftirdæmi Jesú Krists Jesús Kristur þvoði fætur lærisveina sinna. Símon Pétur vildi varna honum þess og fannst líklega frekar að hann ætti að þvo fætur Jesú en öfugt. En Jesús vildi kenna honum inntak þjónustunnar. Ekkert okkar er yfir hana hafið. Okkur ber öllum að þjóna – og við þurfum líka að kunna að þiggja þjónustu. Þjónustan þarf að vera af fúsum og frjálsum vilja, án nauðungar, án ágóða, þjónusta við lífið.

Það er reisn yfir þjónustu Jesú. Hann sem ,svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur´ (Fil 2.7) kenndi okkur hvað það er að vera manneskja. Jesús lægði sjálfan sig til að veita manneskjunni reisn, hann gaf sjálfan sig algjörlega til að við öll gætum átt frelsi í trú á hann, hvar sem við erum fædd í heiminum, óháð aðstæðum okkar og bakgrunni. Hann tæmdi sig öllum verðleika, hann sem er Guð, hann sem er Lífið sjálft kraup við fætur fiskimannsins og gaf honum hreinleika sinn. Okkur vill Jesús Kristur einnig þjóna, það kenna þessir dagar sem nú standa yfir, skírdagur og föstudagurinn langi og bjarma tekur af upprisusól. Þjónusta hans er köllun okkar, að við einnig þjónum systrum okkar og bræðrum, þeim til lífs og virðingar. Þiggjum af honum lífið svo að við getum borið það áfram, öðrum til lífs.