Englar og draugar

Englar og draugar

Óunnin fortíð hefur nefnilega tilhneigingu til að breytast í draugagang, það er eitt af því sem við getum lært af þessari sögu, draugar eru einfaldlega bara til í sálardjúpum okkar, þeir finnast hvorki í torfbæjum eða kirkjugörðum hvað þá húsasundum
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
26. desember 2009
Flokkar

Gleðileg jól kæri söfnuður. Það var mikil upplifun fyrir mig fullorðna manneskjuna að fara með sjö ára syni mínum í bíó á aðventunni og sjá jólaævintýri Dickens lifna við með þrívíddartækni á flennistóru tjaldi og til að auka enn áhrifin voru hljómgæðin slík að ég hefði hugsanlega geta setið heima á Laugarásvegi en samt heyrt í draugum Dickens. Að lokinni sýningu reikaði hugurinn aftur til bernskuáranna (hann þurfti að vísu ekki að reika mjög lengi) þegar mitt eigið tilfinningalíf kallaði fram þrívíðar myndir af persónum Dickens í gegnum lestur á heldur fábrotnum hlut eins og bók sem ég hafði fengið frá aldraðri frænku minni í jólagjöf. Hróðug tilkynnti ég syni mínum eftir sýninguna að ég ætti nú sjálfa bókina sem myndin byggðist á og nú gæti hann hafið lesturinn þegar heim væri komið enda ekki það sama að sjá eða skynja í gegnum eigin huga, þar gerðust oft magnaðari ævintýri en Disney gæti nokkru sinni framleitt fyrir alla sína milljarða. Sonur minn sem er mikil tilfinningavera og dramatískur eins og móðurfólkið hóf strax lesturinn en eitthvað átti hann nú samt erfitt með að trúa í fyrstu þegar ég tók fram skælda bókina að þarna væri sama fjársjóð að finna og í draumasmiðju Disney. Jóladraumur Dickens heitir ævintýrið sígilda um Ebeneser Scrooge sem þolir vægast sagt illa, gleði og frelsisboðskap jólanna enda fangi eigin ótta sem endurspeglast í því að hann hafnar öllum samskiptum og mannlegum tengslum, hann er í raun fyrst og fremst tilfinninganirfill enda fylgja aðrir lestir í kjölfarið. Fyrir gamla manninum er jólaboðskapurinn eins og olía á eld óttans, kyndir upp í öllu því sem hann hefur fyrir löngu hafnað enda álítur hann líf sitt vera fullkomlega undir hans eigin stjórn og engum öðrum mætti háð. En þá kemur þessi dómadags draumur, á sjálfri jólanótt, þar sem draugar sálarinnar ásækja hann og draga hann með sér aftur í fortíðina sem hann hefur löngu afgreitt og inn í framtíðina sem hann kærir sig kollóttan um, þar gefur að líta þá þjáningu sem skeytingarleysi mannanna kann að valda, misskiptingu auðs og tækifæra, já tækifæra til lífs, hvorki meira né minna. Dýptin í þessu ævintýri Dickens liggur í eðli draumfaranna Draugarnir í draumunum eiga upptök sín í sálarlífi manneskjunnar, inntak draumanna getur raunar búið í undirmeðvitund okkar alla daga en um nætur, þegar líkaminn lætur undan svefnhöfganum og við missum tökin á eigin hömlum synda tilfinningar okkar upp úr undirdjúpunum og taka okkur með sér í ferðalag um sálarlífið sem er gjarnan mjög framandi staður. Við eigum að taka mark á draumum, þó ekki sem dulrænum veruleika eða fyriboðum heldur sem vísbendingu um eigin tilfinningar og líðan. En það eru ekki bara draugar sem vitja okkar í draumum þar eru sem betur fer líka englar, sendiboðar Guðs, vegna þess að staðreyndin er sú að Guð býr innra með þeim sem vilja taka við honum. Guðspjallamaðurinn Matteus greinir frá slíku bæði þegar vitringarnir fengu bendingu í draumi um að snúa ekki aftur til Heródesar og eins þegar engill Drottins vitraðist Jósef í draumi og hvatti hann til að flýja til Egyptalands því Heródes væri að leita barnsins til að drepa það. Bæði vitringarnir og Jósef áttu einlæga trú, höfðu tekið Guð inn í hjarta sitt, þess vegna þekktu þeir röddina, tilfinninguna, öryggið, þú getur líka þekkt þessa rödd, þegar friður umlykur hjarta þitt og þú fyllist bjartsýni, hugrekki og sjálfstrausti , þá er það þessi rödd sem er að tala til þín, já Orðið sjálft sem var hold og bjó með okkur mönnunum. Hugsaðu þér, Jósef, hinn nýbakaði faðir reif sig og fjölskylduna upp um hánótt, hvítvoðunginn með nýklipptan naflastreng og fálmandi hendur og sængurkonuna sem eflaust var með stingandi mjólkurstálma, og flúði með þau alla leið til Egyptalands, í næturkuldanum, um óbyggðir í návígi rándýra og jafnvel ræningja, en hugrekki föðurins unga kom fyrir trú, hann treysti þessari rödd og tilfinningunni sem henni fylgdi. Já og hugsaðu þér vitringana sem völdu að hunsa tilmæli valdsmannsins Heródesar og fylgja rödd sannleikans, rödd ljóssins, þeir sneru tilbaka án þess að koma við í höllinni, þeir gátu ekki endilega treyst því að halda lífi með þessari ákvörðun sinni en þeir höfðu horft í augu Guðs og þeir höfðu meðtekið hinn guðdómlega frið sannleikans og séð stjörnuna sem lýsti upp veröldina þessa afdrifaríku nótt, draumar þessara manna voru grundvallaðir á trausti til lífsins. Já næturdraumar eru merkilegt fyrirbrigði, stundum lifum við margar draumlausar nætur en svo koma tímabil þar sem hver nóttin á fætur annarri dregur okkur inn að hjartanu og við vöknum hugsi, undrandi, uppgefin, jafnvel áhyggjufull nú eða glöð og uppörvuð, það er eins og draumarnir afhjúpi tilveru okkar þegar við höfum misst allar varnir vökunnar. Mannskilningur Dickens er mjög sannur og kristin, niðurstaða sögunnar er að Ebeneser Scrooge er ekki fæddur illmenni heldur er hann brotinn maður sem hefur aldrei gert upp fortíð sína, hann hefur læst sérhver vonbrigði og sorgir niður í tilfinningaskrín sitt. Óunnin fortíð hefur nefnilega tilhneigingu til að breytast í draugagang það er eitt af því sem við getum lært af þessari sögu, draugar eru einfaldlega bara til í sálardjúpum okkar, þeir finnast hvorki í torfbæjum eða kirkjugörðum hvað þá húsasundum þeir eru allt annað en yfirnáttúrulegir þeir eru einmitt alveg dæmalaust náttúrulegir, uppruna þeirra er jafnan að finna í óuppgerðum tilfinningum. Og ástæðan fyrir því að skrínið hans Scrooge opnast á sjálfri jólanótt er sú að andi jólanna smýgur gegnum alla mannlega varnarmúra, andi jólanna skapar í manninum sömu skilyrði og svefninn, hann losar um ákveðnar hömlur, opnar sálarlífið og hleypir út tilfinningum sem við vissulega berum en erum kannski heldur spör á. Þess vegna verðum við allt í senn barnslega eftirvæntingarfull, örlítið óttaslegin og viðkvæm þegar jólahátíðin gengur í garð með alla sína helgi og fegurð, kyrrð og frið hvítvoðungsins, við erum berskjölduð. Það er ekkert yfirnáttúrulegt eða dulrænt við þessi viðbrögð okkar ekki frekar en viðrögð Scrooge við eigin hjartalagi eins og það mætti honum í draumnum, hans kalda höfuð hafði jú ætíð haft fulla stjórn á tilfinningunum, allt þar til þessa nótt, jólanótt, þegar birtan frá jötunni lýsir upp hjarta skelfdrar sálar. “Í draumi sérhvers manns er fall hans falið” orti stórskáldið Steinn Steinarr, þar tel ég víst að hann eigi ekki við drauma næturinnar sem opna lokuð skrín, heldur meðvitaðar fyrirætlanir hins veruleikafirrta manns sem ferðast gegnum dimman kynjaskóg, skáldið gæti nefnilega hæglega verið að vísa til þess blekkinga draums sem síðar færði íslensku þjóðinni kaldan veruleika liðins árs. Já við skulum fara í gegnum þetta tímalausa ljóð, Í draumi sérhvers manns er fall hans falið. Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg af blekkingum sem brjóst þitt hefur alið á bak við veruleikans köldu ró

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir að mynda sjálfstætt líf sem ógnar þér. Hann vex á milli þín og þess sem lifir, Og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú, í dimmri þögn, með dularfullum hætti rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá þú fellur fyrir draumi þínum í fullkominni uppgjöf sigraðs manns. Hann lykur um þig löngum armi sínum, og loksins ert þú sjálfur draumur hans ( Steinn Steinarr)

Þær eru gríðarlega sterkar eftirfarandi þrjár setningar í ljóðinu, “Gegn þinni líkamsorku og andans mætti og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú, rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.” Það er einmitt þetta þegar sköpunarverk okkar mannanna eða háleitar fyrirætlanir verða að slíkum skrímslum að þau gleypa skapara sína. Það var andi jólanna sem bjargaði Scrooge úr gini úlfsins,já andi jólanna, atburðurinn á Betlehemsvöllum, ungbarnið í jötunni sem dregur að sér fátæka fjárhirða, velstæða vitringa og ögrar illskunni í líki Heródesar. Andi jólanna er andi þeirra gilda sem sameina manneskjur um gjörvalla veröld gegn bákni græðginnar og skeytingarleysisins, vegna þess að andi jólanna grundvallast á þeim undursamlega boðskap sem Kristur bar inn í heiminn og gerði eilífan með dauða sínum og upprisu, þess vegna er svo stutt á milli jötunnar og krossins. Já hugsaðu þér að alltaf þegar erfiðleika steðja að, kallar manneskjan eftir þeim gildum sem ungbarnið í jötunni bar inn í þennan heim, það eru einu gildin sem geta bjargað spilltum heimi og mótað farsælt þjóðfélag og farsælar manneskjur, það er staðreynd gott fólk. Við fengum staðfestingu á því nú síðast á þjóðfundinum stóra í haust. Þjóðin kallaði þar öðru fremur eftir heiðarleika, virðingu, réttlæti og jafnrétti, já kristnum gildum. Andi jólanna er andi þessara gilda sem hin íslenska þjóð kallar eftir á komandi tímum. Já “Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því” segir í guðspjalli þessa helga dags sem við lifum nú. Vitringarnir sáu þetta á næturhimninum, þeir sáu stjörnu sem skein skærar en nokkurt annað ljós himinhvolfsins, fjárhirðarnir sáu það í næturkyrrðinni, ljós sem vék burt nístandi myrkrinu á meðan þeir fengu fregnirnar af fæðingu frelsarans. Þetta ljós sem “upplýsir hvern mann” brýtur niður blekkingamúra, kemur okkur í tengsl við tilfinningar okkar, gefur okkur augu til að greina hismið frá kjarnanum, vekur með okkur samhygð, eflir þrá okkar eftir sanngirni, réttlæti og heiðarleika, já þetta ljós sem allar heimsins styrjaldir, farsóttir, kreppur, kynbundið ofbeldi, einelti og spilling getur aldrei slökkt. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.

.