Spámönnum mótmælt

Spámönnum mótmælt

Já, það er vandi að spá, sérstaklega um framtíðina. Og eitt rigningarsumar fyrir þrjátíuogþremur árum fengu Reykvíkingar útrás fyrir regnvota og veðurbarða frústrasjón sína á tröppum veðurstofu Íslands!

Þann 21. júlí 1983 hélt harðskeyttur hópur fólks í heimsókn á Veðurstofu Íslands. Þau mættu með kröfuspjöld og tilgangurinn var að mótmæla því hvernig viðraði á landsmenn. Sumarið hafði verið hreint út sagt ömurlegt. Ekki skiptust á skin og skúrir heldur kom hver lægðin á fætur annarri yfir strendur landsins með skúrum og meiri skúrum. Sama myndin blasti við á veðurkortinu í sjónvarpinu, nýtt lágþrýstisvæði undan Nýfundalandi og svo lá leiðin upp eftir Norður Atlandshafi að suðvestur strönd Íslands.

Spámönnum mótmælt Reykjavík var gegnsósa í rigningu og hvassir sunnanvindar þeyttu henni í lágréttum taumum í vit borgarbúa sem höfðu þráð það svo heitt að fá ærlegt sumar. Það hefði ekki þýtt að slá upp EM tjaldi utandyra það sumarið og lítið var við að vera í dauflegri borginni. Já, og í mótmælaskyni við þetta tíðarfar arkaði þessi flokkur upp á Veðurstofu. Agnar nokkur Guðnason, formaður bændasamtakanna afhenti furðu lostnum veðurfræðingi Íslandskort þar sem límdir höfðu verið fagurgulir hringir meðfram gjörvallri ströndinni. Þau mótmæltu sumsé spámönnunum sem höfðu þó samviskusamlega teiknað inn á veðurkortin það sem loftvogin og gervinhattamyndirnar sýndu.

Þessi gjörningur var vissulega meira í gríni gerður en að baki bjó dauflegur undirtónn vonsvikins fólks sem reyndi að finna gremju sinni einhvern farveg. Og því leituðu þau til þeirra sem spáðu í veðrið!

Hlutskipti spámanna er ekki alltaf öfundsvert. Oft eru þeim mislagðar hendur. Hagfræðingar hafa fyrir löngu játað sig sigraða til að ráða í hæðir og lægðir viðskiptalífsins. Fræg eru ummæli Alan Greenspan, fyrir áratug eða svo. Þegar hagkerfið hrundi með ósköpum – játaði hann sig sigraðan: ,,I never saw it coming,” sagði hann og fræðimenn úr hans geira viðurkenndu að þeim færi betur að spá fyrir um fortíðina en ókomnar stundir.

Falsspámenn

Spámenn eru menn dagsins í kirkjunni. Þeim eru ekki vandaðar kveðjurnar og það er ekki fyrir þá sök að spá og lýsa vondu veðri né heldur spá tómri vitleysu eins og nýleg dæmi sýna. Kristur setur reyndar sjálfan sig í spámannlegar stellingar og horfir fram til ókominna tíma. Já, hann varar við aðsteðjandi ógn. Hann talar um það sem átti eftir að verða trúuðu fólki að þungum heilabrotum og vantrúuðum að efnivið í hárbeitta gagnrýni á kristindóminn. Það eru þessir spámenn sem ganga fram með Drottins orð á vörunum en slóð þeirra er útötuð í blóði og tilgangslausu ofbeldi.

Óhætt er að segja að sú forspá hafi að sönnu átt eftir að rætast, ekki einu sinni heldur í sífellu í langri sögu kristindómsins og annarra trúarbragða. Í umræðunni heyrist gjarnan talað um styrjaldir og ofsóknir sem eiga að einkenna kristna trú. Já, enginn vafi er á því að þau eru nokkur. Eitthvað um tíundi hluti ófriðar í sögu mannsins má rekja til trúarbragða og af því eiga kristnir trúarhópar hluta af sökinni. Margir hafa skreytt sig fölskum fjöðrum trúarinnar, talið sig ganga veg Krists en slóð þeirra er blóði drifin og óréttlætið skein út úr verkum þeirra.

Er þarna ekki kristnu fólki rétt lýst, spyrja gagnrýnendur og það er eins og mönnum fallist hendur því fólki verður svarafátt. Og jafnvel hinir frómustu menn eru ekki hafnir yfir það að drýgja ódæði hvort heldur það er í nafni trúarinnar eða á öðrum vettvangi. Þar birtist okkur hið breyska eðli manns sem opnar okkur stundum myrka mynd af mannsálinni. Óttinn getur heltekið fólk svo að það fær sig til að réttlæta hvers kyns óhæfuverk. Þetta er veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að horfast í augu við.

,,Varist falsspámenn segir Kristur. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gáðugir vargar.” Þessi varnaðarorð verða að óvægnum spegli hverjum þeim sem játar kristna trú. Því ekki verður hverjum þeim sem ákallar nafn Drottins gert að ganga inn í himnaríki, segir Kristur. Þar þurfa aðrir þættir að koma til. Og í framhaldi lýsir Kristur því hvað það er sem sker úr um hina sönnu trú. Það er ekki málskrúðið og þekkingin, heldur eru það ávexti trúarinnar. Já, þótt Biblían hefji okkur mennina ekki endilega upp til skýjanna og sé raunsæ á það hversu mikla ógöngur við getum ratað í fer ekki á milli mála að þar er byggt á þeirri afstöðu að gott tré ber góðan ávöxt. Og af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá segir frelsarinn. Það er jú svo misjafnt sem frá okkur kemur.

Er það umhyggjan fyrir náunganum, viljinn til að vinna gott starf, sú skýlausa regla að valda ekki skaða og löngunin til að starfa í anda réttlætis og efla bræðalag? Eða skiptir ekkert annað en stundlegir hagsmunir þess sem boðskapinn flytur. Er hann í sauðaklæðum en hið innra gráðugur og sjálfhverfur.

Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu – þarna kristallast sú afstaða sem gegnur eins og rauður þráður í gegnum siðaboðskap Biblíunnar að við horfum í raun ekki á verkin sem slík heldur lítum svo á að þau séu afleiðing góðs hugarfars og góðs vilja. Og um leið verður þeim mælikvarða komið fyrir í mannlegu samfélagi að enginn sé undanskilinn þeim viðmiðunum.

Í ljósi þessa hefur sú hefð verið rík í sögu kristinnar kirkju að þar hafa stigið fram spámenn sem hafa sagt fólki til syndanna. Hlutskipti þeirra hefur ekki verið auðvelt. Þeir hafa mátt sæta ofsóknum og þeir hafa þurft að gjalda hátt verð fyrir sannfæringu sína og afstöðu. Sá úr þeim hópi sem mest er hampað um þessar mundir, Jóhannes skírari var dæmigerður fyrir spámenn. Hann stóð fyrir utan samfélagið, hafðist við út í óbyggðum og ýtti til hliðar öllum viðmiðum um klæðaburð og framkomu! Á Jónsmessu minnumst við hans, þegar sól er hæst á lofti.

Íslensku skáldin Á Íslandi höfum við sannarlega haft slíka einstaklinga. Þeir hafa haft sérstöðu og hafa flutt boðskap sinn umbúðalaust einmitt um þá ávöxtu sem af starfi okkar hefur hlotist. Sú stétt manna hérlendis sem sinnt hefur þessu hlutverki eru án efa skáldin. Óður Laxness til hins hrakta og fátæka Ólafs Ljósvíkings í Heimsljósi er sagan um hinn íslenska spámann sem færi ljós himinsins inn í rökkurhúmið í kotinu, í óblíðri náttúru og enn harðari heim manna. Hann sýndi á skrokki sínum hversu margt var bogið við það samfélag sem þar var og gekk að lokum inn í birtu jökulsins, varð eitt með ljósinu eins og ljósvíkingurinn sem Jónsmessa er kennd við. Varist falsspámenn segir Kristur. En bendir okkur um leið á hugrekki þeirra og djörfum sem tala máli sannleikans.

Hlutskipti spámannsins Já, það er vandi að spá, sérstaklega um framtíðina. Og eitt rigningarsumar fyrir þrjátíuogþremur árum fengu Reykvíkingar útrás fyrir regnvota og veðurbarða frústrasjón sína á tröppum veðurstofu Íslands! Þetta er auðvitað ákaflega fyndið og sá var jú tilgangurinn með þessu öllu saman. En um leið birtir þetta okkur þá sýn sem spámaðurinn Jeremía ræðir í orðum sínum til Ísraelsmanna. Hann varar við þeim spámönnum sem segja fólkinu bara það sem það vill heyra en minnir á að rödd Guðs talar sannleikann og sannleikurinn er ekki alltaf auðveldur. Kristur talar um það í guðspjalli dagsins að spámenn trúarinnar leita sannleikans í hvívetna og láta þar ekki eigin hagsmuni stjórna för. Því slíkir spámenn þurfa að vera tilbúnir að mæta mótlæti af ýmsum toga frá úrtölufólki sem vill miklu fremur búa í heimi falskra hugmynda en heyra orð sannleikans flutt umbúðalaust.