Frá kynslóð til kynslóðar

Frá kynslóð til kynslóðar

Jólagjöfin stóra sem við getum fært til komandi kynslóða er sú að miðla þessum gildum. Það er ljósið sem við flytjum áfram frá kynslóð til kynslóðar.

Gleðilega hátíð kæru vinir og gleðilegt að kór eldri borgara, Hljómur, skuli syngja með okkur hér í dag. Ég hef notið þess að taka þátt í samverum á aðventunni með þessum fríða flokki. Það að vera eldri borgari er sæmdarheiti. Það ber með sér verðskuldaða viðurkenningu á stöðu fólks sem hefur þjónað samfélagi sínu og náunga heila starfsævi og nú tekur við annað skeið í lífinu. Já, nýtt tímabil sem við getum með réttu kennt við uppskeru. Það er mikils virði fyrir einstaklinga að geta notið þess sem lífið býður upp á en þeim mun dýrmætara fyrir samfélag og í raun prófsteinn á kosti þess og getu, hvernig það býr að eldri borgurum.

Breyttir tímar

Já, tímabilin eru margvísleg. Á hverjum tíma verða til verðmæti og á sama tíma eru önnur í hættu að missa gildi sitt og glatast. Sú er raunin með það skeið sem við lifum nú. Í aðdranganda jólanna höfum við orðið vitni að því hvernig hinni helgu hátíð hefur smám saman verið ýtt út á jaðar menningar og samfélags. Yfirvöld, einkum hér í Reykjavík hafa beinlínis lagst gegn því að nemendur í skólum heimsæki kirkjur, þótt slíkar heimsóknir fari ætíð fram á forsendum skóla. Við eigum fá úrræði til að bregðast við þessari þróun. Okkur er mest um vert að skapa ekki sundrungu á tímum þegar friður og sátt eiga að ríkja. Síst af öllu vilijum við valda þjáningum barna og fjölskyldna þeirra ef sú er virkilega raunin að slíkar heimsóknir valdi verulegum óþægindum.

Þessar heimsóknir fara enn fram þótt í minna mæli sé en var hér fyrir fáeinum árum og ef fram heldur sem horfir leggjast þær af innan tíðar. Sjálfur varð ég vitni að því þegar Melaskólabörn fylltu hér kirkjuna og fluttu helgileik eins og gert hefur verið hér á aðventu í tvo áratugi. Ekki gat ég fundið annað en að þarna nytu börnin einstakrar helgi og friðar. Þau lifðu sig inn í söguna, hlutverkin sín og áhorfendur tóku virkan þátt með söng hinna helgu jólasálma. Ég fann um leið fyrir því, og var sannarlega ekki sá eini, hvílíkur missir það væri ef þessi hefð legðist af.

Og þá komum við aftur að okkar góðu gestum hér í kór eldri borgara sem þekkja ólíka tíma hér í þessu samfélagi okkar. Vandi kynslóðanna er ólíkur frá einu tímabili til annars. Margir þeir sem hér eru muna vafalítið þá tíð þegar skortur einkenndi daglegt líf fólks. Varningur var af skornum skammti og mikið þurfti að hafa fyrir því að eiga í sig. Fleiri vinnustundir lágu þá að baki lífsgæðum okkar en nú er, og á löngum tímabilum var atvinnuleysi svo fólk gat ekki aflað sér lífsbjargar.

Mér eru sérstaklega minnistæðar margar frásagnir sem ég hlýddi á er ég þjónaði vestur á Ísafirði af lífsbaráttu á þeim slóðum. Heimildafólk mitt norðan af Ströndum, í Jökulfjörðum, frá Snæfjalla- og Langadalsströnd og víðar í Djúpinu, hvort heldur það var á nesjum eða inni í fjörðum kunni margar sögur af þeim horfna heimi. Þar bjuggu tugir ef ekki hundurðir manna á litlum landsskikum sem löngu eru komnir í eyði í dag. Hve léttvæg eru ekki okkar vandamál samanborið við þá ströngu lífsbaráttu sem menn máttu heyja á þeim slóðum í þá daga og annars staðar á landinu?

Ljósið í myrkrinu

Frásagnir þessar lýsa margar því hvernig mótlætið kallaði fram styrk í sálum þeirra sem þar stóðu í eldlínunni. Saga kristinnar kirkju rís úr umhverfi erfiðleika og þjáninga. Það er ekki tilviljun að krossinn skyldi fá svo miðlæga stöðu í kristninni, því hann lýsir því einmitt hvernig manneskjan finnur tilgang sinn og markmið í erfiðleikunum. Á öllum tímum hefur kirkjan flutt þann boðskap sem hér var lesinn og kemur úr ranni Jesaja spámanns:

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós. Þú eykur stórum fögnuðinn, gerir gleðina mikla.

Já, myrkrið er aldrei einrátt í lífi þess sem á trúna í brjósti sér. Þar skín alltaf ljós hvernig svo sem heimurinn leikur manninn. Þessi von birtist í svo margvíslegri mynd: sem hugrekki, þolinmæði, æðruleysi – og ekki síður hógværð og auðmýkt gagnvart hlutskipti okkar. Ljósið er ljós trúarinnar, vonarinnar og ljós kærleikans. Það er sá fjársjóður sem við miðlum frá einni kynslóð til annarrar og sagan sýnir að þrautir, skortur, vandi og vá fær ekki hindrað hina trúuðu að miðla því ljósi áfram.

Jólin minna okkur svo vel á það hvernig ljósin geta skinið í myrkrinu. Og ljósið nýtur sín raunar best við þær aðstæður. Og jólin eru tími hefða. Þau eru tími minninga. Þetta er tíminn þegar fortíðin heilsar upp á okkur með margvíslegu móti. Endurtekningin talar inn í þetta umhverfi. Því við erum einu sinni þannig úr garði gerð að góð vísa verður ekki of oft kveðin en það er mikið á sig leggjandi til að viðhalda því sem gott er og veitir næringu og styrk í öllum aðstæðum.

Frá kynslóð til kynslóðar

Þessu þurfum við sérstaklega að miðla til barnanna. Þar þurfum við að halda stöðugt vöku okkar og slaka ekki á í neinum efnum því kærleiksboðskapur Krists og sú menning sem tengist hátíð og frið er nokkuð sem samfélag okkar má ekki missa. Þegar yfirvöld sofa á verði sínum eða jafnvel leggja stein í götu okkar sem viljum hlúa að þessum arfi þarf annað að koma til.

Þessi hópur sem hér kemur saman gegnir þar grundvallarhlutverki. Heyrt hef ég líffræðinga tala um það sem eina af forsendum þeirrar framþróunar sem maðurinn hefur náð í árþúsundanna rás hvernig samfélagsgerðin bauð upp á það að börnin fengu stórbætta kennslu umfram það sem tíðkaðist annars staðar í ríki náttúrunnar. Hvaðan kom það nám? Ekki frá foreldrunum sem voru í óðaönn að heyja lífsbaráttuna. Þau þurftu að koma nýjum einstaklingum í heiminn og afla fæðu. Nei, samkvæmt þessum fræðimönnum voru það afinn og amman sem gengdu þar mikilvægu hlutverki.

Þau fluttu áfram lærdóm kynslóðanna, verklagið, kunnáttuna, sögurnar og söngvana sem samfélagið átti. Og ekki síður hitt hvaða mælikvarðar voru á hið góða og eftirsóknarverða, siðalærdóminn sem átti eftir að þróast og ná hámarki í kenningum Jesú Krists.

Jólagjöfin stóra sem við getum fært til komandi kynslóða er sú að miðla þessum gildum. Það er ljósið sem við flytjum áfram frá kynslóð til kynslóðar. Við megum svo sannarlega flytja áfram þann boðskap sem borinn var uppi í fátæklegum umbúðum og í öllu því látleysi sem við þekkjum. ,,Í lágan stall var lagður hann, þó lausnari heimsins væri." Guðssonurinn var lagður í jötu lágt og gefur okkur fordæmi fyrir því hvernig hið nýja líf getur í auðmýkt og umkomuleysi vakið svo mikinn kærleika og umhyggju. Umbúðirnar og umgjörðin eins hógvær og hugsast getur en innihaldið svo ríkulegt. Sjálfsagt öfugt við reynslu okkar af mörgu sem við þekkjum úr samtímanum.

Hlutverk okkar er mikið og verkefnin eru ærin. Við þurfum að miðla þeim boðskap og halda honum lifandi sem Kristur færði fram í orðum sínum og verkum. Að sýna náunganum kærleika og leggja sig fram um að bæta kjör hans. Að sjá hið góða í hjarta hvers manns og bæta þar með afstöðu hans og líðan. Að styðja þann sem á um sárt að binda og vera með þeim sem er einmana og óstuddur í erfiðum heimi.

Látum ljósið okkar loga og berum það áfram svo komandi kynslóðir fái notið þess. Höldum vöku okkar og athygli hvað sem á dynur. Saga kirkjunnar geymir svo marga sigra sem hafi unnist einmitt þegar mótbyr var. Þá stóðu kristnir menn vaktina og varðveittu þá fjársjóði sem þeim var falið að sinna.