Guð er bara Guð með öllum sínum dásemdum

Guð er bara Guð með öllum sínum dásemdum

Mörg kvenfélög og konur koma saman í dag 19. júní, á degi sem er helgaður kvenréttindum. Þegar kvenfélögin, konurnar tala saman um Guð skyldum við ekki vera feimnar að nota það tungutak sem stendur okkur nærri. Mér finnst það svo frábært að við slík tækifæri tekur Guð á sig mynd kvenfélagskonu.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
19. júní 2008

Þegar sonur minn var yngi ávarpaði hann Guð alltaf í kvenkyni. Honum fannst að Guð væri falleg kona með vængi. Ég hafði vandað mig sérstaklega að kyngreina aldrei Guð, heldur væri Guð bara Guð með öllum sínum dásemdum. Með tímanum fór hann að sækja sunnudagskólann með mér og ég gleymdi mér æ oftar, ávarpaði Guð í karlkyni. Þá fóru spurningarnar að koma, hvort er Guð karl eða kona? Já hvort er Guð karl eða kona? Guð er að sjálfsögðu hvorugt. Guð er bara Guð með öllum sínum dásemdum.

Konur

Hvernig við manneskjurnar reynum að tjá trú okkar, útskýra tilvist Guðs er undir okkur komið og tjáning okkar er á köflum hálf máttlaus því við náum aldrei að útskýra fyllilega hvað Guð er eða hvernig kærleikur Guðs til okkar birtist. Sjálfri finnst mér það fara eftir dagsforminu og tilefninu hvaða orð ég nota til að tjá trú mína og tilvist Guðs. Einmitt þess vegna er ég svo þakklát fyrir Biblíuna okkar, orð Guðs, hún er svo fjölbreytt. Alla ævi manneskjunnar gætum við dag hvern fundið okkur nýjan konfektmola úr Biblíunni, gimstein sem aldrei glóir eins, litrófið er alla vega.

Við mættum oftar draga fram þær kvenlegu hliðar sem notaðar hafa verið til að lýsa Guði eða kærleika Guðs til okkar. ,,Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður.” (Jes 66.13). Það er traustvekjandi í sorg sinn að vita til þess að Guð muni hugga okkur eins og mamma gat huggað okkur þegar við vorum börn, þegar faðmur hennar gat bægt burt öllum heimsins sorgum og við vorum tilbúin að rísa upp á ný og hlaupa út í sumarið með plástur á hnénu.

,,Jerúsalem, Jerúsalem! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér” Hún er falleg líkingin af Guði sem safnar okkur saman undir vængi sína þar sem við njótum verndar og hlýju, hvílum í skugga vængja Guðs.

Kærleika Guðs til okkar er í Davíðssálmum lýst á þennan veg: ,,Þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.” (Slm 22.10). Svo mjúklega leiðir Guð okkur að það er eins og við hvílum við brjóst móður okkar, þau orð þarf ekki að útlista frekar.

Guð er bara Guð með öllum sínum dásemdum og við reynum með okkar mannlegu tilfinningum, útskýringum að tjá tilveru Guðs, kærleika. Sumt getum við notað spari en einnig eigum við að grípa til orða hins daglega veruleika. Mörg kvenfélög og konur koma saman í dag 19. júní, á degi sem er helgaður kvenréttindum. Þegar kvenfélögin, konurnar tala saman um Guð skyldum við ekki vera feimnar að nota það tungutak sem stendur okkur nærri.

Mér finnst það svo frábært að við slík tækifæri tekur Guð á sig mynd kvenfélagskonu. Þegar ég með Kvenfélaginu mínu uppfarta eða baka finnst mér Guð alltaf vera með okkur, Guð vaskar upp með okkur og ber kökurnar með okkur á borð. Kannski ferð þú í óvissuferð með kvenfélaginu þínum, kaupir þér kjól sem þér verður hrósað fyrir í næstu veislu og þú veist að Guð valdi hann með þér. Þannig er Guð, einmitt eins og þú sérð Guð því Guð er bara Guð með öllum sínum dásemdum.