Hve glöð er vor æska

Hve glöð er vor æska

Við þurfum við að átta okkur á að í okkar heimi allsnægtanna, innan um tilbúin tæki og tól, á sú veröld sín takmörk. Það er ekki unnt að afgreiða og skilja allt í heiminum út frá hagtölum og hrjúfu yfirborði tækninnar. Það væri hollt fyrir okkur foreldra að halda til Afríku um stund og upplifa hvaða gildi það eru sem öllu máli skipta.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
13. mars 2006

Fjögur gildi

Mig langar að staldra við fjögur hugtök sem mér finnst eiga vel við umræðu okkar um stöðu barna í íslensku samfélagi, og varpa ljósi á þau út frá reynslu minni frekar en fræðilegri nálgun. Þessi gildi eru:

Frelsi, ásamt virðingu og uppörvun, Ábyrgð, ásamt jafnrétti og skyldum, Traust, ásamt trú, tryggð, og samstöðu Umhyggja, ásamt stuðning og hlýju. Sjá Fjölskyldustefnu þjóðkirkjunnar, 1994

Dæmi um þessi gildi í uppeldi

Ég var á ferð í Afríku s.l. haust til að kynna mér hjálparstarf kirkjunnar meðal fjölskyldna alnæmissmitaðra. Ég gleymi seint gömlu konunni sem við heimsóttum langt upp í fjöllum í Úganda. Hún bjó í kringlóttum strá- og moldarkofa með ekkert rennandi vatn, eða önnur lífsþægindi sem okkur finnst sjálfsögð. Á landinu hennar sem var ekki stærra en íbúðarhúsalóð hjá okkur voru fáein bananatré og nokkra maísplöntur. Ein hæna skokkaði í kringum okkur.

Gamla konan átti erfitt með gang og sat á skraufþurri jörðinni meðan við spjölluðuð við hana. Hún hafði misst dóttur sína úr alnæmi og tengdasonurinn hafði ekki sést í nokkur ár, sennilega dáinn úr sömu veiki. Gamla konan tók að sér barnabörnin sjö og þarna voru þau öll, elskuleg en ákaflega döpur og sorgmædd. Ég spurði hana hvað hún segði við barnabörnin sín af hverju foreldrar þeirra hefðu dáið. Hún sagðist eiga erfitt með að ræða um það við börnin, um leið og hún þurrkaði tárin með slitna léreftskjólnum sínum. Þá spurði ég hvernig hún færi að því að halda svona áfram og af hverju hún bara gæfist ekki upp! Hún svaraði mér ekki beint en sagði í tvígang: “Ég mun aldrei yfirgefa börnin”. “Ég mun aldrei fara frá börnunum”.

Vandi þessara barna í miðri Afríku nútímans virðist ærinn og okkur nokkuð ljós, skortur á brýnustu lífsnauðsynjum, fá úrræði í augsýn, stöðug barátta frá degi til dags, innibyrgð sorg og mikil ábyrgð. Börnin njóta afar lítils stuðnings samfélagsins og hver dagur hvílir alfarið á umhyggju ömmu þeirra, fórnfýsi og tryggð.

Ég hvarf af brautu og við hin sem þarna vorum, inn í okkar heim þar sem þéttriðið net samfélagsins umlykur sérhvert heimili til stuðnings við uppeldi og þroska barna okkar.

Staða barna í okkar samfélagi s.l. hundrað ár

Ég er alinn upp við að hafa ömmu og afa í sama húsi, báða foreldra, í hópi sex systkina. Við lærðum snemma að lifa í stórum hópi og studdum hvert annað eftir bestu getu. Pabbi minn opnaði mér heim tónlistarinnar, afi minn kenndi mér að lesa og amma mín leiddi mig inn í heim Passíusálmanna. Mamma mín vann ekki utan heimilisins og var hinn fastur punktur tilverunnar. Leikvöllurinn hjá okkur krökkunum var ómalbikuð gatan og tún þar sem við spiluðum fótbolta og heillandi Elliðaárnar í næsta nágrenni þar sem við læddumst stundum með bambusstöng til að veiða.

Þessi mynd á víst ekki við um stöðu barna í nútíma íslensku samfélagi sem er okkar viðfangsefni hér. Hún er nánast horfin og annar veruleiki blasir við.

Sjálfur er ég kvæntur, á fjögur börn, og jafnmörg barnabörn. Börnin mín slitu barnskónum og gengu í grunnskóla í tveimur þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að þessari ráðstefnu, í Njarðvík og á Seltjarnarnesi. Á báðum stöðum var gott að vera með börn og unglinga, að því leyti að í tiltölulega fámennu samfélagi eins og Njarðvík var, vissum við nánast allt um alla og þekktum hvern krók og kima. Það skapar mikið öryggi og við vissum hvar hætturnar lágu og hvar skóinn kreppti. Börn sem alast upp við slíkar aðstæður skynja fljótt að þau hafa talsvert frelsi til athafna og finna sínar eigin leiðir til leiks innan um flóru mannlífs og umhverfis. Einhvern veginn fannst mér ríkja samhljómur og traust milli heimila, félaga og stofnana samfélagsins um hvernig best væri að standa að þessu mikilvæga hlutverki, að koma börnunum til manns.

Ég velti því fyrir mér hvort þessi mynd sé líka að mestu liðin tíð.

Köld efnishyggja í margbrotnum heimi

Ég las einhvern tímann bók eftir heimspeking sem var m.a. að velta því fyrir sér hvernig stæði á því að margir fremstu hugmyndasmiðir í tölvutækninni í Bandaríkjunum kæmu frá sama fylkinu, nefnilega Utah. Hann leiddi hugann að uppeldi barna þar og skólagöngu og komst að því að tvennt ætti svona stóran þátt í þessu. Annars vegar ríkti samstaða innan fylkisins um að fjölskyldulífið og uppeldi barnanna nyti forgangs. Hins vegar væri mikil og rík hefð fyrir tónlistarkennslu í skólum fylkisins, þar sem m.a. er stefnt að því að allir læri á eitthvert hljóðfæri. Mikilvægi fjölskyldunnar og samvera hennar sýnir hvað gott uppeldi skipti miklu fyrir öryggi og festu í lífi barnanna. Heimur tónlistarinnar ýtir undir sköpunargáfu, þar sem tónar og túlkun þeirra opnar fyrir börnum annars konar viðfangsefni að kynnast og glíma við en þau er birtast í tölum og tæknihlutum sem þau eru mötuð af alla daga.

Ég ætla að halda mér við þessa tilgátu fræðimannsins og spyrja hvort það gæti verið að við höfum gleymt hvað það er sem er börnunum okkar fyrir bestu, og gefum þeim oft steina fyrir brauð.

Við þurfum við að átta okkur á að í okkar heimi allsnægtanna, innan um tilbúin tæki og tól, á sú veröld sín takmörk. Það er ekki unnt að afgreiða og skilja allt í heiminum út frá hagtölum og hrjúfu yfirborði tækninnar.

Það væri hollt fyrir okkur foreldra að halda til Afríku um stund og upplifa hvaða gildi það eru sem öllu máli skipta. Hún birtast vel hjá þeim sem búa við allsleysi og hafa engan ytri stuðning, þar sem þessi litla eining verður að standa þétt saman til að lifa af raunir og baráttu hinna líðandi stundar. Þar vegur þyngst hjartalag hinna nánustu er leggja mikið á sig án mikils ytri stuðnings, og börnin eiga allt sitt undir því. Ung börnin verða oft að axla ábyrgð foreldris og sú ábyrgð er þeim ofviða miðað við þroska.

Í fyrstu setningu Brekkukotsannáls eftir Halldór Kiljan Laxnes, segir svo: "Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara ungum börnum en að missa föður sinn". Mér finnst þessi speki hrollköld, þótt ég viti að í erfiðleikum og mótbyr opnast oft dyr að lífsins kviku.

Sumt græðir og nærir og sefar sár hugans, annað síður. Þar er sem nútíma menning okkar hafi vart pláss til að mæta gleðinni og sorginni á tímum hraða og skyndilausna. Karl Sigurbjörnsson biskup sagði í nýlegri predikun: “Hin opnu, ópersónulegu, háhraða skynditengsl neyslunnar veita ekkert hlífðarskjól sálu manns og hjarta”. Gagnvart dýpstu rökum tilverunnar, angist, þjáningu og dauða en líka yndisleika lífsins, standa hin hörðu gildi nútímans þögul og færast undan að svara og sefa og svala ekki hjarta barnanna okkar.

Það er hollt fyrir börn okkar að skynja að dýpstu leyndardóma lífsins er ekki unnt að afgreiða með nýju tæki og að okkur foreldrum vefst þar tunga um tönn. Þá er gott að geta gripið til annars veruleika, til líkinga og ljóða sem vissulega hjálpa. Trúin er uppfull af líkingum og djúpstæðri visku. Hinn andlegi og trúarlegi heimur er náskyldur heimi ljóðsins og tónlistarinnar og þar sem best tekst til myndast samhljómur stórfenglegustu listaverka okkar í myndlist, bókmenntum og tónlist.

Það er dapurlegt til þess að hugsa að sniðganga eigi hina djúpu lífsvisku andlegs og trúarlegs uppeldis að kröfu fárra sem hátt láta og eru andsnúnir kristinni trúfræðslu í skólum landsins. Hefja þarf til vegs og virðingar á ný í skólum undraheim tónlistarinnar og allra góðra lista. Börnin okkar verða fátækari en ella ef heimur trúar og listar er hafður útundan, eiga erfiðara með að höndla mótlætið í lífinu og skynja fegurð og dýpt þessa mikla listaverks sem mannlífið endurspeglar í öllu sínu litrófi.

Stuðningur hinna eldri og umhverfisins

Miðlun mikilvægra lífsgilda fer ekki hvað síst fram í einlægum samskiptum kynslóðanna, þar sem lífsviska og reynsla hinna eldri ná eyrum hinna yngri og öfugt, og þar sem hin eldri kynslóð leiðir þá yngri áfram um lífsins stigu.

Sigurbjörn Einarsson, biskup, ávarpaði eitt sinn hóp manna og sagði eitthvað á þessa leið: “Ég þakka Guði fyrir að ég átti ömmu, en ekkert sjónvarp”.

Hópur götubarna á Hawai var spurður að því hvað það væri sem hefði hjálpað þeim best við þeirra erfiðu aðstæður og hefði gefið þeim einhverja von. Flest þeirra nefndu að einhver fullorðinn hefði gefið sig að þeim, talað við þau, sýnt þeim áhuga og jafnvel leyft þeim að vera með í vinnu og leik.

Hvorki sjónvarp né önnur góð tækni koma í stað samvista barns við góða manneskju. Skólar eða aðrar góðar stofnanir koma aldrei í stað foreldris eða aðstandenda þótt frábært fólk sé þar í starfi. Alltaf er munur á milli tengsla barns við foreldri og samskipta barns við starfsmanninn, að ekki sé minnst á hin líffræðilegu tengsl.

Mikilvægi uppeldisstofnana vegur þó æ þyngra í umönnum barna okkar og við treystum störfum þeirra. Miklu skiptir því hverjir það eru sem þar leiða hina ungu kynslóð, hvaða viðhorf ríkja og hvað er á boðstólum í daglegum samskiptum, ekki síður en á heimilunum. Allt skiptir þar máli, umhverfið, húsnæðið, starfsfólkið, dagskráin, maturinn, að ekki sé nú talað um líðan barnanna sjálfra þegar þau koma. En ekki síður jákvætt viðhorf hins nánasta umhverfis, félaga og stofnana nærsamfélagsins og gott samstarf þeirra í milli.

Á undanförnum áratugum hafa menn einmitt gefið umhverfinu og nærsamfélaginu æ meiri athygli þegar kemur að því að leggja mat á hvaða áhrifaþættir það eru sem skipta máli fyrir vellíðan þegnanna, þroskandi og mannbætandi þætti, eins og gagnkvæmur stuðningur, jákvæð afskipti og áhugi, samneyti fólks eins og það gerist best, augliti til auglitis. Það hefur og sýnt sig að þar sem slík gagnkvæm góð samskipti eiga sér stað milli stofnana samfélagsins, þar sem allir góðir kraftar samfélagsins leggjast á eitt, fækkar glæpum, heilsan batnar, menntun styrkist, og atvinna blómstrar, svo ég vitni nú beint í þau fræði. (sbr. “social capital”).

Það kann að vera að við, foreldrar hér á landi, höfum á undanförnum áratugum sett traust okkar um of á skólakerfið og aðrar stofnanir samfélagsins við uppeldi barna okkar. Þær stofnanir finni til of mikillar ábyrgðar sem þær treysta sér ekki til að standa undir og eiga ekki að gera. Við setjum á þær frumskyldur foreldris sem er ekki í þeirra verkahring að sinna.

Hér kann að vera þróun sem óhjákvæmileg er í samfélagi nútímans en ég held að mikilvægt væri að ná samkomulagi um sem skýrust hlutverk hvers og eins, hvað þetta varðar. Gagnkvæm samskipti og samtal um hlutverk, skyldur og ábyrgð, heimilis og skóla þarf stöðugt að vera á dagskránni.

Mikilvægasta gildið - góður samferðamaður

Það er langt á milli barnanna í Úganda, Hawai, Utah og á Íslandi. Og nær hundrað ár skilja að lífsreynslu hinna elstu hér á landi og þeirra barna er nú sækja leikskólana. Sömu gildin eru þar alls staðar á ferð, sömu markmiðin, sama forskriftin að góðu uppeldi þegar dýpst er skoðað. Við vitum um þau en þurfum að vera minnt á þessi einföldu og staðgóðu uppeldisgildi eins og gert er svo vel í átaksverkefninu “Verndum bernskuna”.

Hvað varðar þessi mikilvægu gildi, eins og ábyrgð, frelsi, traust og umhyggju, þá sýnist mér að hér hjá okkur hafi verið mjög ýtt undir frelsi einstaklingsins til allra hluta, hjá hinni framagjörnu ungu kynslóð, þar sem mikilvægast virðist að leita „útrásar“. Þá reynir á samstöðuna, festuna og reglurnar hvort þær haldi við þessa miklu framrás frelsisins.

Þessu er þveröfugt farið hjá Afríkubörnunum, og götubörnunum. Þau eru nánast neydd til útrásar, til að halda út í heiminn og reyna að bjarga sér ein og óstudd, án nokkurs öryggis og því miður er “dauðans óvissi tími” oft nærri. Þau búa við stöðuga óvissu um framtíð sína og á miklu veltur stuðningur þeirra nánustu, og það ekki bara foreldranna.

Ég hef þá trú að allir foreldrar vilji börnum sínum það besta og öll börn finni að ekkert kemur í stað þess að finni sterka hönd sinna nánustu er í senn styður og huggar. Það á alltaf við hvar sem við erum í heiminum og hvernig sem samtími okkar þróast og breytist. Mikilvægast við allt gott uppeldi er það sama og í öllu góðu samfélagi fólks og uppbyggilegu umhverfi,

  • ég finni mig velkominn í þennan undarlega, stórbrotna heim,
  • gefist tækifæri til að þroskast og dafna með hjálp minna nánustu og annarra góðra samferðamanna,
  • að einhver leiði mig sér við hönd þegar ég er ungur eða ráðvilltur,
  • gefi sig á tal við mig, og vilji hlusta á mína sögu,
  • meti mig að verðleikum eins og ég er og þar sem ég er staddur í lífinu,
  • ég fái visst frelsi til orðs og æðis, og aðrir sýni mér virðingu, umhyggju, traust og samstöðu, ég sýni ábyrgð og sinni skyldum mínum við aðra (gagnkvæmt)
  • aðrir leggi þann mælikvarða á mig að ég er samferðamaður á sömu lífsgöngu, frá vöggu til grafar.

Dýrmætast fyrir sérhvert okkar er að hafa einhvern sér nákominn við hlið sem heldur í hönd hans og leiðir hann um grænar grundir væntumþykju og lífssanninda, þar sem ábyrgð, frelsi, umhyggja og traust eru leiðarljósin. Minnumst þess að börn eru börn og þarfnast okkar hinna eldri, eins og við þörfnumst hvert annars, allt til þeirrar stundar er við stöndum frammi fyrir skapara okkar, þessi dýrmætu börn hans.